Aðalfundir Æðarræktarfélags Íslands 2020 og 2021

Ágæti félagsmaður.

Aðalfundir Æðarræktarfélags Íslands fyrir árin 2020 og 2021 verða haldnir laugardaginn 26. mars 2022 í húsnæði Landbúnaðarháskóla Ísands í Keldnaholti, Árleyni 22, Reykjavík. Fundahald hefst kl. 10.00 og lýkur kl. 13.

Aðalfundirnir verða með óhefðbundnu sniði þar sem aðalfundir 2020 og 2021 fara fram samhliða. Meginverkefni fundanna er skýrsla stjórnar, afgreiðsla ársreikninga og kosningar til stjórnar. Jafnframt verður lögð fyrir aðafund tillaga að ákvæði til bráðabirgða við lög félagsins til að heimila rafræna kosningu um það hvort Æðarræktafélagið sameinist Bændasamtökum Íslands. Ef tillaga þessi verður  samþykkt munu rafrænar kosningar um sameiningu fara fram í kjölfar fundarins (þ.e. ekki á sjálfum aðalfundinum).  Jafnframt er lagt til að aðalfundur álykti um að veita stjórn ÆÍ umboð til að gera nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Ef sameining við BÍ verður fyrir valinu verður næsti aðalfundur nýrrar búgreinadeildar (búgreinaþing) árið 2023. Ef sameiningu er hafnað þá verður aðalfundur ÆÍ  2022 haldinn í lok ágúst á þessu ári með hefðbundnu sniði.

Þar sem um þýðingarmikla ákvörðun er að ræða um það hvort ÆÍ sameinist Bændasamtöku sem Búgreinadeild æðarræktar eða haldi áfram sem sjálfstætt félag telur stjórn nauðsynlegt að sem flestir félagar fái tækifæri til að greiða atkvæði, einnig þeir sem ekki komast á aðalfundinn sjálfan. Í kjölfar kynningarfundar með BÍ þann 27. janúar s.l. gekkst stjórn ÆÍ fyrir skoðanakönnun meðal félagsmanna um hug þeirra til sameiningar. Í könnuninni tóku þátt 122 og voru 52 samþykkir sameiningu við Bændasamtökin en 70 mótfallnir. Ítarlegri grein verður gerð fyrir þessari tillögu í sjálfu aðalfundarboðinu og tillögu að ályktun aðalfundar um að fela stjórn ÆÍ að undirbúa nauðsynlegar breytingar á samþykktum í samræmi við niðurstöðu kosninganna.

Greiðslubeiðni vegna árgjalda hefur verið send í heimabanka félagsmanna.

Ekki verður tekið við greiðslu félagsgjalda á fundinum.

Fyrirspurnir og athugasemdir berist á netfangið info@icelandeider.is

Félagsmenn eru hvattir til að senda inn ný eða breytt heimilisföng, netföng og símanúmer á netfangið info@icelandeider.is

Félagsmenn eru vinsamlega beðnir um að skrá þátttöku í síðasta lagi 23. mars á info@icelandeider.is eða í síma 867 0765 (Guðrún)

Hægt verður að fylgjast með aðalfundinum á TEAMS en ekki kjósa.

Fundarboð, ásamt dagskrá og tillögum, verður sent fljótlega!

7. mars 2022.

Fyrir hönd stjórnar ÆÍ,

Guðrún Gauksdóttir, formaður

 

 

 

 

 

Kynningarfundur Bændasamtaka Íslands með félögum úr Æðarræktarfélagi Íslands vegna fyrirhugaðra kosninga um sameiningu.

Kynningarfundur Bændasamtaka Íslands með félögum í Æðarræktarfélags Íslands var haldinn rafrænt fimmtudaginn 27. janúar s.l. Fundurinn var haldinn vegna fyrirhugaðrar kosningar um hvort ÆÍ sameinist BÍ eða verði sjálfstætt félag án aðildar BÍ.

 

Frá BÍ mættu á fundinn Gunnar Þorgeirsson, formaður, Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri og Unnsteinn Snorri Snorrason, sérfræðingur á fagsviði búgreina og staðgengill framkvæmdastjóra. Hátt í fjörutíu félagar ÆÍ mættu á fundinn. Unnsteinn Snorri Snorrason fór yfir starfsemi BÍ og kynnti hvað felist í sameiningu ÆÍ við BÍ. Glærur frá kynningunni má finna hér.

 

Að kynningu lokinni var opnað fyrir spurningar sem gert er grein fyrir hér á eftir ásamt svörum frá fulltrúum BÍ.

Hvar verður okkar rödd og hver verður í forsvari fyrir ÆÍ? Sú barátta sem við höfum verið að standa í er gæðamat sem var nærri dottið út sem hefði orðið mjög alvarlegt fyrir okkur en það náðist að grípa í taumana áður en það var fellt niður. Við þurfum að vera viss um að fá aðstoð við útflutning ef eitthvað sem þarf að höndla sér því dúnn er ekki matvæli þá þurfum við að vera viss um að fá aðstoð því þetta getur verið töluverður hluti af okkar tekjum. Mögulega getur verið vafamál um grenjavinnslu á vorin í framtíðinni. Einnig eru fleiri vargar en bara tófur. Hver myndi sinna okkur og hvað fáum við fyrir okkar félagsgjald?

Svar: Margir hafa verið uppteknir af því að hafa sinn eigin tengilið. Þetta snýst allt um verkefni og vísað á þá sérfræðinga sem eru sérfræðingar í hverju verkefni fyrir sig.

Bændasamtökin hafa verið að þétta samstarf bænda þ.a. samtökin verði í forsvari fyrir bændur almennt. Í stóru myndinni hefur BÍ verið í forsvari fyrir búgreinarnar sem slíkar. Á búgreinadeildarfundum sem haldnir eru með formönnum greinanna er farið yfir málefni hverrar búgreinar fyrir sig vikulega. Ef það er vandi í reglugerðum eða breytingum á þeim er það rætt innan hverrar búgreinar. Að öllu jöfnu er brugðist við ef eitthvað fer fram hjá okkur sjálfum. BÍ hefur einnig frumkvæði að því að ræða um málefni einstakra búgreina Nú stendur fyrir dyrum hugsanlega að segja upp samningi Evrópusamningsins á landbúnaðarvörum. Hvað verður um heimildir til útflutnings á dúni ef öllu verður sagt upp? Samráðsfundir allra búgreina eru á þriðjudögum og á mánudögum eru starfsmannafundir til að fara yfir málefni vikunnar. 14 starfsmenn starfa hjá BÍ. Við verðum beinir aðilar að Bí og höfum aðgang að fleiri starfsmönnum en hefur verið.

Varðandi gæðamatið þá kom lögmaður BÍ að því máli og aðstoðaði ÆÍ við að verja það. Eitthvað sem við þurfum að tryggja í samtalinu og hvernig verði staðið að.

 

Hvað verður um heimasíðu ÆÍ taka samtökin að sér að halda utan um hana og uppfæra og vinna við Íslandsstofu mun markaðsdeild BÍ sinna þessu?

Svar: Umtalsvert efni er á heimasíðum aðildarfélaganna sem má ekki týnast eða gleymast eins og t.d. fræðslugreinar sem eru á heimasíðu ÆÍ. Heimasíður aðildarfélaganna verða settar í undirsíður undir heimasíðu BÍ og samtökin greiða Isnic gjaldið. Stjórn viðkomandi búgreinadeildar er stefnumarkandi fyrir starfið. Hrossabændur eru einnig í samstarfi við Íslandsstofu. Við þurfum að þétta samtalið við Íslandsstofu sem bændasamtök, bæði varðani dún, hross og öðru sem snýr að íslenskum landbúnaði.

 

Hvað er hátt hlutfall bænda núþegar í BÍ af heildarfjölda bænda á landinu.

Svar: Áætlað er að um 70-80% af heildarhluta bænda séu komnir í samtökin.

 

Standa félagsgjöldin undir rekstri BÍ?

Svar: BÍ vill gera mikið meira en gert er í dag en til þess þarf auknar tekjur. Samtökin reyna að sníða sér stakk eftir vexti. Stóra áskorunin næsta er hvernig tekjur samtakanna verða auknar. Fjárhagsáætlun er á pari.

 

Hvað mun breytast fyrir æðarbændur m.v. það sem verið hefur ef félagið sameinast BÍ?

Svar: Stuðningur æðarræktar verður talsverður bara með því að sitja fundi búgreinadeilda og fylgjast með því sem er að gerast í landbúnaði almennt á landinu og BÍ vill fá að vita hvað er að gerast í æðarræktinni dags daglega. Hvernig verður deildin eftir sameiningu, allavega eins en á að verða betri. Ef stjórnvöld eru að gera eitthvað s.s. reglugerðabreygingar er mikill styrkur að vera með tvo lögfræðinga starfandi hjá samtökunum. Verið að þróa málin áfram. Hvað vill ÆÍ að BÍ geri fyrir þau? Hvaða þjónustu vill búgreinadeildin fá? Sérverkefni sem deildirnar koma með til samtakanna þarf að fylgja fjármagn. Samlegð er í markaðsmálum. Hvernig vill ÆÍ hafa samstarfið.

 

Ef að sameiningu verður fær deild æðarræktar einhverja hlutdeild í félagsgjaldinu s.s. til að halda búgreinadeildarfundi og sinna þeim verkefnum sem félagið hefur verið að vinna að til þessa s.s. samstarf við Íslandsstofu, umsókn um verndað afurðarheiti og fleira sem félagið hefur verið og mun vinna að?

Svar: Ákveðnar þóknunareiningar eru greiddar til deildanna vegna deildafunda en meiriháttar ákvarðanir þarf að samþykkja af stjórn BÍ. BÍ er mjög viljugt til að grasrótin fái að njóta sín. Samstaða bænda skiptir máli ekki bara gagnvart hinu opinbera.

 

Hvað viljum við að þið gerið er það sett á blað nóg að verkefnum hjá ÆÍ ef stór verkefni þá þarf ÆÍ að koma með það fjármagn?

Svar: Starfsáætlun ársins með markmiðasetningu. Hvað varðar landbúnaðinn í heild sinni verður stefnumörkun fyrir landbúnað í heild sem verður vonandi samþykkt á búnaðarþingi. Verkefni sem er sérstaklega greint á búgreinar eiga heima í starfsáætlun Bí.

 

Sækja starfsmenn BÍ um styrki fyrir búgreinafélögin?

Svar: BÍ getur aðstoðað við að sækja um styrki í samvinnu við viðkomandi búgreinadeild. Styrkir eru aðgreindir inn á verkefni sérstaklega og BÍ sér um bókhaldið.

 

Framleiðnisjóður hefur verið lagður niður og matvælasjóður tekinn við. Æðarrækt er því ekki styrkhæf lengur. Framleiðnisjóður hefur verið megin bakhjarl ÆÍ. Myndi BÍ aðstoða við að finna leiðir til fjármögnunar eða leiðrétta að Framleiðnissjóður sé orðin að sjóði sem eingöngu veitir styrki til matvæla?

Svar: Varðandi Framleiðnisjóð og Matvælasjóð þá hefur formaður BÍ gagnrýnt að þrátt fyrir að með breytingunn hefði Matvælasjóður átt að taka við réttindum og skyldum Framleiðnisjóðs þá hefðu lögin um Matvælasjóð  bara snúið að matvælum. Það var rætt við f.v. ráðherra að laga þurfi þennan lagatexta þannig að hluti þeirra styrkja sem fóru frá Framleiðnisjóði í annað en matvæli í íslenskum landbúnaði yrði virt. Ekki er búið að fá samtal um þetta við núverandi ráðherr um hvernig hægt er að útvíkka eða breyta úthlutun úr Matvælasjóði eða hvort vilji sé til þess. Annað sem bændur, framleiðendur og fólk í nýsköpun þurfa að horfa til er að það eru aðrir sjóðir sem þarf að sækja um styrki til. Fjármunir eru til annarstaðar en hjá Matvælasjóði.

 

Vargeyðing flugvargur refur og minkur. Fellur það undir nýja sýn BÍ í framtíðinni?

Svar: Varðandi vargeyðingu þá þarf að taka samtalið við sveitarstjórnarsigið. BÍ er tilbúið til að taka umræðuna við sveitarstjórnarstigið, það er rétti vettvangurinn til að taka umræðuna.

 

Ef ÆÍ gengur í BÍ þá verður félagið lagt niður sem slíkt, er það eins með önnur búgreinafélög?

Svar: Nokkur aðildarfélög hafa sett sín gömlu félög í “skúffuna” en þar er engin starfsemi. Garðyrkjubændur eru t.d. með “skúffufyrirtæki” þ.e. gamla kennitala þess félags er til ennþá. Það er hægt að tæpa á þessu í verkskiptingu í aðdraganda væntanlegrar sameiningar. Drög að samkomulagi við BÍ verður sent ÆÍ.

Upplýsingafundur um fyrirhugaða kosningu og sameiningu

Áríðandi – upplýsingafundur á Teams 27. janúar, kl. 16.00

Kæri félagi í ÆÍ.

Í ljósi aðstæðna hefur ekki enn verið ákveðið hvenær aðalfundur félagsins verður haldinn.
Ákveðið hefur verið að halda fjarfund á Teams með formanni Bændasamtaka Íslands og félögum í ÆÍ þar sem fjallað verður um fyrirhugaða kosningu um sameiningu Æðarræktarfélagsins og Bændasamtakanna. Á fundinum gefst félögum tækifæri til að fá svör við spurningum sem þeir hafa varðandi þær breytingar sem fylgja hugsanlegri sameiningu.
Í kjölfar fundarins verður gerð skoðanakönnun meðal félagsmanna um hug þeirra til sameiningar. Fjarfundurinn er hugsaður sem liður í undirbúningi fyrir aðalfund.

Fundartími: Fimmtudagur 27. janúar 2022, kl. 16.00
Leiðbeiningar verða sendar út í næstu viku og félagar munu fá sendan tengil inn á fundinn.

Með kveðju,
stjórn ÆÍ

Áríðandi tilkynning: Aðalfundi frestað!

Til félagsmanna í ÆÍ.

Stjórn Æðarræktarfélags Íslands telur óhjákvæmilegt að fresta aðalffundi félagsins sem halda átti á morgun, laugardag 6. nóvember. Stjórn hafa borist í gegnum síma og póst eindregin tilmæli um að fresta fundinum. Á fundinum stóð til að taka eina mikilvægustu ákvörðun frá stofnun félagsins og því brýnt að almenn þátttaka yrði af hálfu félagsmanna. Af þeim 30 sem höfðu skráð sig á fundinn hafa margir tilkynnt í dag um breytingar. Þá yrði á netfundi ekki hægt að greiða atkvæði. Stjórn hafa borist í gegnum síma og póst eindregin tilmæli um að fresta fundinum.
Þetta var erfið ákvörðun og stjórm þykir leitt að þetta komi sér illa fyrir þá sem hafa þegar lagt land undir fót til að mæta á fundinn.
Stjórnin

Skráning nauðsynlegt á aðalfund ÆÍ!

Ágæti félagsmaður.

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands verður haldinn á laugardaginn 6. nóvember á Nauthól.  Tilkynna þarf þátttöku á info@icelandeider.is.  Þeir sem ætla að mæta vinsamlega látið vita í síðasta lagi á morgun föstudaginn 5 nóvember fyrir kl. 16.  Það á einnig við þá sem ætla að mæta á netfund.  Þeir þurfa að tilkynna sig á fundinn og senda netfang á info@icelandeider.is.  Þá muni þeir fá sent í tölvupósti link á fundinn.  Athugið þeir sem mæta á netfund geta ekki greitt atkvæði.

Vinsamlega mætið tímanlega á Nauthól til að fá afhent kjörgögn.  Stjórnin mælist til að fólk sé með grímu.

4. nóvember 2021
Stjórnin

Aðalfundir Æðarræktarfélags Íslands fyrir árin 2020 og 2021

Aðalfundir Æðarræktarfélags Íslands 2020 og 2021

Ágæti félagsmaður.

Aðalfundir Æðarræktarfélags Íslands fyrir árin 2020 og 2021 verða haldnir laugardaginn 6. nóvember 2021 í Nauthól, Nauthólsvegi 106, 101 Reykjavík. Fundahald hefst kl. 10.00 og lýkur kl. 15.00, sbr. meðfylgjandi dagskrá. Fundirnir verða aðgengilegir á Teams fyrir félagsmenn en ekki verður hægt að greiða atkvæði á netfundi (nánari upplýsingar verða sendar síðar).

Aðalfundirnir verða með óhefðbundnu sniði þar sem aðalfundir 2020 og 2021 fara fram samhliða og þá skal taka afstöðu til þess hvort Æðarræktarfélag Íslands sem slíkt verði lagt niður og sameinað Bændasamtökum Íslands sem búgreinadeild æðarræktar. Stjórn telur því ástæðu til að gera í aðalfundaboði ítarlega grein fyrir fyrirkomulagi fundanna. Lagt er til að á aðalfundi 2020 verði einungis ársreikningur tekinn til umræðu og afgreiðslu og öðrum liðum frestað til aðalfundar 2021.

Meginverkefni aðalfunda 2020 og 2021:

  • Afgreiðsla ársreikninga
  • Skrifleg atkvæðagreiðsla um sameiningu við Bændasamtök Íslands. Í 9. gr. laga ÆÍ þarf aukinn meirihluti fundarmanna að samþykkja breytingar á lögunum. Framhald fundarins ræðst af niðurstöðu kosninga um hvort Æðarræktarfélagið sameinist Bændasamtökunum sem búgreinadeild eða ekki.
    • Ef niðurstaða atkvæðagreiðslu er sú að sameinast Bændasamtökum Íslands sem búgreinadeild æðarræktar þá er lagt til að aðalfundi verði frestað og núverandi stjórn ÆÍ veitt umboð til að starfa fram að framhaldsaðalfundi og gera m.a. nauðsynlegar ráðstafanir til aðlögunar að kerfisbreytingunni. Á framhaldsaðalfundi yrði ný stjórn kjörin í samræmi við samþykktir Bændasamtaka Íslands
    • Ef niðurstaða kosninganna verður sú að af sameiningu við Bændasamtökin verði ekki þá verður gengið til kosninga um stjórn Æðarræktarfélagsins: Kjörinn verður nýr formaður félagsins, tveir stjórnarmenn og varamaður. Jafnframt verða kjörnir skoðunarmenn reikninga. Þá er lagt til að fundi verði frestað og lögð verði fyrir framhaldsaðalfund endurskoðuð lög Æðarræktarfélags Íslands.

Greiðslubeiðni vegna árgjalda hefur verið send í heimabanka félagsmanna.
Ekki verður tekið við greiðslu félagsgjalda á fundinum.
Fyrirspurnir og athugasemdir berist á netfangið info@icelandeider.is
Félagsmenn eru hvattir til að senda inn ný eða breytt heimilisföng, netföng og símanúmer á netfangið info@icelandeider.is

Vegna Covid19, veitinga og skipulags í fundarsal eru félagsmenn vinsamlega beðnir um að skrá þátttöku í síðasta lagi fimmtudaginn 4. nóvember á info@icelandeider.is eða í síma 867 0765 (Guðrún).

  1. október 2021.
    Fyrir hönd stjórnar ÆÍ,
    Guðrún Gauksdóttir, formaður

 

Aðalfundir Æðarræktarfélags Íslands 2020 og 2021
haldnir í
Nauhól, Nauthólsvegi 106, Reykjavík
6. nóvember 2021
kl. 10.00 – 15.00

Dagskrá

Kl. 10:0010:30
Fundarsetning. Aðalfundur 2020. Tilnefning fundarstjóra og fundarritara. Ársreikningur lagður fram til samþykktar. Fyrirspurnir og umræður. Öðrum liðum aðalfundar 2020 frestað til aðalfundar 2021.

Kl. 10.30-12.30
Aðalfundur 2021 settur. Skýrslur stjórnar. Ársreikningur. Sölu- og markaðsmál.
Kristinn Björnsson v erkefnastjóri kynnir samstarf Íslandsstofu og  ÆÍ.

Kl. 12:30 – 13.00 Léttur hádegisverður

Kl. 13:0015:00
Kynning, umræður og skrifleg atkvæðagreiðsla um sameiningu ÆÍ við BÍ

  • Ef niðurstaða atkvæðagreiðslu er sú að sameinast Bændasamtökum Íslands sem búgreinadeild æðarræktar þá er lagt til að aðalfundi verði frestað og núverandi stjórn ÆÍ veitt umboð til að starfa fram að framhaldsaðalfundi og gera m.a. nauðsynlegar ráðstafanir til aðlögunar að kerfisbreytingunni. Á framhaldsaðalfundi yrði ný stjórn kjörin í samræmi við samþykktir Bændasamtaka Íslands
  • Ef niðurstaða atkvæðagreiðslu er sú að af sameiningu við Bændasamtök Íslands verði ekki þá verður gengið til kosninga um stjórn Æðarræktarfélagsins: Kjörinn verður nýr formaður félagsins, tveir stjórnarmenn og varamaður. Jafnframt verða kjörnir skoðunarmenn reikninga. Þá er lagt til að fundi verði frestað og lögð verði fyrir framhaldsaðalfund endurskoðuð lög Æðarræktarfélags Íslands.

Kl. 15:00
Fundarslit

Aðalfundir ÆÍ 2020 og 2021

Ágæti félagsmaður.

Laugardaginn 6. nóvember n.k. verður haldinn aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands fyrir árin 2020 og 2021 og verður dagskrá ásamt fundarboði send út síðar.

Þar sem aðalfundi fyrir 2020 var frestað verður fyrirkomulag þannig að haldnir verða aðalfundir fyrir árin 2020 og 2021. Á fundinum verða, auk kosninga til formanns og tveggja stjórnarmanna og varamanns, afgreidd brýnustu mál. Skýrsla stjórnar verður kynnt. Ársreikningar verða lagðir fram til kynningar og samþykktar. Þá verður að lokinni kynningu og umræðu gengið til kosninga um sameiningu Æðarræktarfélagsins við Bændasamtök Íslands en á Búnaðarþingi í júní s.l. voru samþykktar breytingar á félagskerfi samtakanna.

Það er ljóst að hvor leiðin sem aðalfundur ÆÍ  velur, þ.e. að sameinast Bændasamtökunum sem búgreinadeild æðarræktar eða að standa utan þeirra sem sjálfstætt félag, mun hafa talsverðar breytingar í för með sér fyrir félagið.  Æðarræktarfélagið sem slíkt hefur frá stofnun þess verið aðili að Bændasamtökunum.  Í megindráttum felur sameining við Bændasamtökin í sér að Æðarræktarfélag Íslands sem slíkt verður lagt niður og í stað verður stofnuð búgreinadeild æðarræktar innan Bændasamtakanna. Æðarbændur skrá sig þá sem félagsmenn í Bændasamtökin og greiða félagsgjöld þangað beint. Það skal tekið fram að ef að sameiningu verður þá mun Æðarræktarfélagið halda núverandi sjóðum sínum sérgreindum á kenntiölu félagsins (eins konar skúffufélag) og renna þeir ekki til Bændasamtakanna. Ef aðalfundur ÆÍ velur að standa utan Bændasamtakanna þarf að gera tilteknar breytingar á samþykktum félagsins. Það verður því að líkindum hlutverk framhaldsaðalfundar að leggja fram nauðsynlegar breytingar á samþykktum félagsins í ljósi niðurstöðu kosninganna hvor leiðin sem valin verður.

Frekari upplýsingar verða sendar síðar og jafnframt geta félagsmenn beint fyrirspurnum til stjórnar á netfang info@icelandeider.is

Á aðalfundinum (2020 og 2021) hafa þeir atkvæðisrétt sem greitt hafa félagsgjöldin.

Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér samþykktir BÍ og áherslur Bændasamtaka Íslands.

Með kveðju,

Stjórn Æðarræktarfélags Íslands

Námskeið fyrir þá sem eru áhugafólk um æðarrækt – Fjarkennsla

Æðarrækt og æðardúnn
Námskeið fyrir þá sem eru áhugafólk um æðarrækt og vilja öðlast réttindi eða viðhalda réttindum sem dúnmatsmenn

Í samstarfi við Æðarræktarfélag Íslands og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stendur Endurmenntun LBHÍ fyrir námskeiði ætlað þeim sem vilja öðlast réttindi eða viðhalda réttindum sínum sem dúnmatsmenn skv. reglugerð um gæðamat á æðardúni nr. 350/2011. Námskeiðið hentar einnig þeim sem hafa almennan áhuga á æðarrækt og vilja kynna sér lifnaðarhætti og sérstöðu æðarfuglsins hér á landi.

Námskeiðið er ætlað öllu áhugafólki um æðarrækt, m.a. þeim sem hafa hugleitt að hefja æðarrækt og þeim sem starfað hafa á undanþágu frá ráðuneytinu.

Farið er yfir lifnaðarhætti, eiginleika og sérstöðu æðarfuglsins, hvernig eigi að koma upp varpi og ferilinn frá dúntekju til sölu dúnsins. Fjallað er um þær óskir og kröfur sem neytandinn gerir til æðardúns og hvernig þörfum er fullnægt og litið á þær kröfur sem gerðar eru til gæðamats á æðardúni og lagarammann sem búgreinin býr við.

Á námskeiðinu gefst tími til umræðna og fyrirspurna auk verklegrar þjálfunar við flokkun og gæðamat á æðardúni.

Tími: Lau. 10. apríl. Kl. 10:00-16:00
Staður: Vegna sóttvarnarreglna sem eru í gildi verður námskeiðið í fjarkennslu. Notast verður við Teams. Þeir sem vilja verða sér út um dúnmatsréttindi fá verklega kennslu í dúnmati í staðarnámi þriðjudaginn 20. apríl kl. 17-18 hjá LBHÍ á Keldnaholti í Reykjavík.

Kennsla: Ýmsir sérfræðingar
Verð: 29.000 kr. (fræðsla, kaffi og hádegismatur)

Nánari upplýsingar og dagskrá á vef Endurmenntunar LBHÍ