Boð á sýningu og leiðsögn fyrir félagsmenn ÆÍ

Kæri félagsmaður ÆÍ, Íris og Signý hér, æðarbændur á Skálanesi í Seyðisfirði og vöruhönnuðir. Okkur langar til að bjóða þér/ykkur á sýninguna Annarsflokks í Ásmundarsal, en hún fjallar um Annarsflokks æðardún og hvernig mætti koma þeim æðardúni í farveg. Hér að neðan er að finna vefslóð þar sem allar upplýsingar eru að finna um sýninguna, en sýningin opnar 24. apríl næstkomandi og stendur til 15. maí 2024.

https://fb.me/e/1oRLG6p5D
https://www.asmundarsalur.is/annarsflokks

Okkur langar til að bjóða félagsmönnum ÆÍ á leiðsögn sem aðeins er ætluð félagsmönnum. Á leiðsögninni verður kafað dýpra ofan í verkefnið sem varðar samfélag æðarbænda. Okkur langar til að efla til samtals um þetta málefni, sem snertir okkur öll.

Vertu hjartanlega velkomin á leiðsögn laugardaginn 27. apríl kl. 12:00

Hlökkum til að sjá þig og ykkur.

Bestu kveðjur,
Íris og Signý

Kynningarefni á erlendum tungumálum

Vegna vaxanda eftirspurnar í Kína eftir íslenskum æðardúni og vörum úr íslenskum æðardúni hefur Æðarræktarfélag Íslands látið texta mynd Æðarræktarfélagsins um íslenska æðrdúninn með  kínverskum texta. Textaða myndin er nú aðgengileg á heimasíðu félagsins. Hér er hægt að velja myndina á íslensku, ensku, þýsku, japönsku og nú einnig á ensku með kínverskum texta.

Þá býðst félagsmönnum einnig að kaupa kynningarbækling félagsins sem gefinn er út á fjórum tungumálum. Íslensku, ensku, þýsku og japönsku. Þau sem hafa áhgua á að kaupa kynningarbæklinginn geta pantað hann hjá info@icelandeider.is

Aðalfundur ÆÍ 2023

Ágæti félagsmaður.

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands fyrir árið 2023 verður haldinn laugardaginn 18. nóvember í Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti, Árleyni 22, 112 Reykjavík og hann hefst kl. 10:00.

Meðfylgjandi er dagskrá aðalfundarins.  Félagar eru beðnir að tilkynna þátttöku í síðasta lagi fimmtudaginn 16. nóvember á info@icelandeider.is.  Láta vita hvort þeir mæti á fjarfund eða á staðinn.  Þeir sem velja að mæta á fjarfund hafa ekki möguleika á því að kjósa nema að senda einhvern með umboð frá þeim á fundinn.  Meðfylgjandi er eyðublað til að veita umboð.

Félagsgjaldið fyrir árið 2023 er kr. 7.000 og það var á gjalddaga í maí.  Þeir félagar sem ekki hafa heimabanka er bent á að fara til gjaldkera í sínum viðskiptabanka og láta sækja greiðsluseðilinn í bankanum.  Til þess að hafa kosningarrétt á aðalfundinum þurfa félagsmenn að hafa greitt sín félagsgjöld.

Stjórnin hlakkar til að sjá sem flesta félaga á þessum mikilvæga aðalfundi ÆÍ.

F.h. stjórnar.
Margrét Rögnvaldsdóttir formaður.

Aðalfundur ÆÍ – Fundargerð og ný stjórn

Á aðalfundi Æðarræktarfélags Íslands á Austurlandi í ágúst s.l. var kjörin ný stjórn félagsins og kosið um lagabreytingar. Í stjórn sitja nú:

Margrét Rögnvaldsdóttir, formaður Erla Friðriksdóttir, Sigríður Magnúsdóttir, Magnús Helgi Jónasson og Helga María Jóhannesdóttir. Varamenn eru Pálmi Benediktsson og Hallur Þorsteinsson.

Ný lög félagsins hafa verið uppfærð og eru aðgengileg hér. Fundargerð aðalfundar er hér!

Breytt tillaga fyrir aðalfund ÆÍ

Ágæti félagsmaður.

Stjórn félagsins fannst vanta frekari skilgreiningu á deildum í tillögu að endurskoðuðum lögum ÆÍ. Þess vegna sendum við ykkur þetta aftur þar sem 2. gr. í nýjum tillögum er tekin fyrir deildir. Breyting

Minnum á að félagar eru beðnir að tilkynna þátttöku í síðasta lagi þriðjudaginn 23. ágúst annað hvort á info@icelandeider.is eða í síma 6996571 Margrét.

Stjórnin hlakkar til að sjá sem flesta félaga á þessum mikilvæga aðalfundi ÆÍ.

F.h. stjórnar
Margrét Rögnvaldsdóttir formaður.

Aðalfundur ÆÍ 2022 – Dagskrá og tillaga að nýjum lögum ÆÍ.

Ágæti félagi í ÆÍ.

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands fyrir árið 2022 verður haldinn laugardaginn 27. ágúst á Eiðum Kirkjumiðstöð Austurlands og hefst kl. 10:00.  Kirkjumiðstöðin er ca 18 km frá Egilsstöðum.

Meðfylgjandi er dagskrá aðalfundarins og tillaga að nýjum lögum Æðarræktarfélags Íslands.

Félagar eru beðnir að tilkynna þátttöku í síðasta lagi þriðjudaginn 23. ágúst annað hvort á info@icelandeider.is eða í síma 6996571 Margrét.

Greiðslubeiðni vegna árgjalda 2022 er komin í heimabanka.  Þeir félagar sem hafa ekki heimabanka er bent á að fara til gjaldkera í sínum viðskiptabanka og láta sækja greiðsluseðilinn í bankanum.

Stjórnin hlakkar til að sjá sem flesta félaga á þessum mikilvæga aðalfundi ÆÍ.

F.h. stjórnar
Margrét Rögnvaldsdóttir formaður

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2022

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands verður haldinn í Kirkjumiðstöð Austurlands laugardaginn 27. ágúst.  Kirkjumiðstöð Austurlands er ca. 18 km frá Egilsstöðum.  Dagskrá og skráning verður auglýst síðar.  Nú er tilvalið að huga að gistingu.

Þessi aðalfundur er mjög mikilvægur fyrir okkur öll.  Meirihluti félagsmanna kaus að Æðarræktarfélag Íslands ætti að vera sér félag en ekki sameinast Bændasamtökum Íslands.  En við eigum samt mörg sameiginleg hagsmunamál þar sem við getum enn unnið með Bændasamtökunum.  Stóru málin á þessum aðalfundi verða ný lög félagsins og framtíðarsýn.  Á aðalfundinum verður m.a. sýnd afurð samstarfsins við Íslandsstofu og kynnt ný tillaga að dúnmati.

Að venju gerum við líka ýmislegt skemmtilegt saman.  Förum í ferðalag og m.a. heimsækjum Rögnu á Borgarfirði eystra og skoðum hennar fyrirtæki.  Á laugardagskvöldið verður sameiginlegur kvöldverður og þá gerum við ráð fyrir að heyra frá formönnum deilda.

Innheimta félagsgjalda er hafin. Ef einhverjar spurningar vakna hafið samband á info@icelandeider.is.

Við í stjórninni hlökkum til að hitta sem flest ykkar á þessum mikilvæga aðalfundi ÆÍ á Austurlandi.

F.h. stjórnar Æðarræktarfélags Íslands
Margrét Rögnvaldsdóttir formaður.

 

 

Fuglaflensa

Í mars 2022 voru fyrirskipaðar hertar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla. Þetta var gert þar sem talið var að auknar líkur væru á að skæðar fuglaflensuveirur bærust til landsins vegna mikils fjölda tilfella í löndum þar sem íslenskir farfuglar hafa vetursetu eða viðkomu á leið til landsins. Þetta er í samræmi við viðbúnaðarstig 2 sem nánar er fjallað um neðar á þessari síðu.

Sértækar leiðbeiningar MAST fyrir æðarbændur

Tilfelli í Evrópu

Tilvísunarrannsóknastofa ESB fyrir fuglaflensu (IZSVe) birtir reglulega yfirlit yfir greiningar sem tilkynntar eru til ESB í gegnum skráningarkerfið ADIS. Í yfirliti frá 9. maí 2022 kemur fram að greiningar á hinu skæða afbrigði H5N1 hafa verið tilkynntar í 3156 villtum fuglum síðan í október 2021. Aðeins eitt sýni er tilgreint að hafi verið úr æðarfugli en tekið skal fram að í mörgum tilfellum er ekki skráð nákvæmlega um hvaða andartegund er að ræða.

Yfirlit yfir tilfelli í villtum fuglum á Bretlandseyjum af þessu skæða afbrigði fuglaflensuveirunnar má finna á heimasíðu DEFRA. Þar eru fimm tilfelli í æðarfugli skráð, öll frá tímabilinu 24.4.-1.5., fjögur á Hjaltlandseyjum og eitt í Moray á Skotlandi.

Til viðbótar er vakin athygli á rannsóknum frá 2016 þar sem mótefni voru mæld í heilbrigðum æðarfuglum á þremur varpsvæðum í Danmörku. Í því úrtaki reyndust 12% æðarfugla vera með mótefni gegn H5 eða H7 fuglaflensuveirum (Lam o.fl., 2020). En það skal tekið fram að meinvirkni veiranna er ekki tiltekið, þ.e.a.s. ekki er vitað hvort um hefur verið að ræða hið skæða afbrigði veirunnar sem nú geisar.

Sóttvarnir

Forvarnir gegn smitsjúkdómum felast fyrst og fremst í að gæta fyllsta hreinlætis í umgengni við æðarfuglinn. Þessar leiðbeiningar fjalla um smitvarnir við daglega umhirðu í æðarvarpi, bæði fyrir fólk og æðarfugla.

Sóttvarnir fyrir fólk

  1. Smithætta á fuglaflensu fyrir fólk er almennt talin lítil. Þrátt fyrir það er ávallt rétt að gæta almenns persónulegs hreinlætis við daglega umhirðu,  sem m.a. felur í sér góðan handþvott eftir umgengi við fuglana, sbr. upplýsingasíðu Mast um fuglaflensu.
  2. Ef vart verður við veikindi eða aukin dauðsföll í æðarfuglum eða öðrum villtum fuglum er mælt með að nota að minnsta kosti veiruhelda grímu og einnota hanska.

Sóttvarnir fyrir æðarfugla

  1. Tryggja skal að óhreinindi berist ekki milli æðarvarps og búfjár, þeim báðum til varnar. Því er aðgæsla brýn þegar æðarbændur umgangast jafnframt annað búfé, sér í lagi alifugla.
  2. Varúðarráðstafanir geta m.a. falist í að nota sérstaka galla eða önnur hlífðarföt, stígvél og einnota hanska. Jafnframt er ráðlagt að nota sérstaka poka, áhöld og tæki í æðarvarpinu. Að öðrum kosti getur þvottur og sótthreinsun á fötum og búnaði tryggt hreinlæti .
  3. Þörf er sérstakrar aðgæslu þegar um er að ræða gestkomandi í varpi, bæði innlenda og erlenda gesti eða  farandverkafólk og við heimsóknir á milli æðarvarpa, ekki síst frá varplandi þar sem sýking hefur komið upp.
  4. Veiðimenn sem sinna vargeyðingu og fara á milli varpa verða að sýna sérstaka aðgæslu.
  5. Hundar (og önnur spendýr) geta borið smit á milli staða, meðal annars með því að bera sýkt hræ með sér.
  6. Aðilar sem taka að sér hreinsun dúns þurfa að gæta sérstaklega að því að sótthreinsa poka eða senda ekki poka á milli æðarvarpa.

Viðbrögð við grun

  1. Tilkynna skal tafarlaust til Matvælastofnunar ef veikur eða dauður villtur fugl finnst, óháð tegund.
  2. Fjarlægja dauða fugla. Afar mikilvægt er að gæta þess að dreifa ekki smiti. Hræ á helst að setja í tvöfalda sterka plastpoka til að koma í veg fyrir leka. Þegar Matvælastofnun hefur metið þörf á sýnatöku og úrskurðað að ekki skuli tekin sýni, skal koma hræjum á þar til gerða staði sveitarfélagsins. Þá er mikilvægt að hræið sé í plastpoka til að draga úr líkum á að ránfuglar og hræætur komist á hræið á sorphaugnum. Gæta skal persónulegra sóttvarna þegar hræ er tekið upp með því að setja hræið í plastpoka, án þess að það sé snert með berum höndum.
  3. Við eftirlit á varpsvæðum er hægt að minnka smithættu fyrir æðarfuglana með því að byrja eftirlit á svæði með heilbrigðum fuglum og enda þar sem vart hefur orðið við dauðsföll eða veikindi. Forðast skal að ganga til baka nema að undangenginni hreinsun fatnaðar, skófatnaðar, handa og áhalda.
  4. Með því að fjarlægja hræ minnka líkur á að aðrir fuglar smitist og beri smit á önnur svæði. Ránfuglar virðast vera líklegri en æðarfuglar til að veikjast af fuglaflensu, þar sem greiningar fuglaflensuveira H5N1 í dauðum ránfuglum veturinn 2021/22 hafa verið mun algengari en í æðarfuglum.
  5. Aðgerðir eins og að fæla fugla frá sýktum svæðum og/eða drepa fugla eru mjög umdeildar og þarf að meta sérstaklega áður en til þeirra er gripið. Með því að fæla fugla frá sýktum svæðum leita þeir annarra varpstaða og auka þannig hættu á smitdreifingu. Þetta skal ekki gert nema í samráði við og að fengnu samþykki Náttúrufræðistofnunar.

 

 

Æðardúnn á Hönnunarmars

Á nýafstöðnum Hönnunarmars sem fram fór í Reykjavík dagana 4. – 8. maí s.l. var opnuð sýning í Norræna húsinu um sjálfbært sambýli æðarfugla og manna á Íslandi, í Danmörku og Noregi. Sýningin er byggð á rannsókn á fuglinum og umhverfi hans, á sambandi hans við manninn, hefðinni, æðardúni og því hvernig dýrmæt sjálfbær hlunnindi eru nýtt á Norðurslóðum.

Sýningin stendur yfir til 31. júlí 2022 í Hvelfingu, Norræna húsinu.

Nánar hér!

Aðalfundaboð 2020 og 2021

Aðalfundaboð

2020 og 2021

 

Ágæti félagi í ÆÍ.

Aðalfundir Æðarræktarfélags Íslands fyrir árin 2020 og 2021 verða haldnir laugardaginn 26. mars 2022 í húsnæði Landbúnaðarháskóla Ísands í Keldnaholti, Árleyni 22, Reykjavík. Fundahald hefst kl. 10.00 og lýkur kl. 13, sbr. meðfylgjandi dagskrá.

Félagar eru vinsamlega beðnir um að skrá þátttöku á fundinum í síðasta lagi 23. mars n.k. á info@icelandeider.is

Teams fundur!  Þeir félagar sem óska eftir að fylgjast með aðalfundinum á TEAMS verða að skrá netfang sitt á info@icelandeider.is  í síðasta lagi 23. mars n.k. (Ath. ekki er hægt að kjósa á Teams)

Greiðslubeiðni vegna árgjalda fyrir 2020 og 2021 er  í heimabanka.

Stjórnin


Dagskrá

 

Kl. 10:0010:30

  • Fundarsetning. Aðalfundur 2020. Tilnefning fundarstjóra og fundarritara. Ársreikningur lagður fram til samþykktar. Fyrirspurnir og umræður. Öðrum liðum aðalfundar 2020 frestað til aðalfundar 2021.

Kl. 10.30-13.00

  • Aðalfundur 2021 settur. Skýrslur stjórnar. Ársreikningur. Sölu- og markaðsmál.                 Kristinn Björnsson verkefnastjóri kynnir samstarf Íslandsstofu og  ÆÍ.
  • Tillaga að bráðabirgðaákvæði í lög ÆÍ – heimild til rafrænna kosninga um sameiningu við Bændasamtök Íslands og um að stjórn verði veitt heimild til að undirbúa þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að fylgja eftir niðurstöðu rafrænnar kosningar um sameiningu við Bændasamtök Íslands.
  • Kjörinn verður nýr formaður félagsins og jafnfrant tveir stjórnarmenn og varamaður. Þá verða kjörnir skoðunarmenn reikninga.

13.00 Fundarslit og kaffi

 

Tillaga að ákvæði til bráðabirgða í lög Æðarræktarfélag Íslands vegna kosninga um sameiningu félagsins við Bændasamtök Íslands

 

Tillaga að ákvæði til bráðabirgða hljóðar svo:

 

Stjórn Æðarræktarfélags Íslands er heimilt að efna til rafrænnar atkvæðagreiðslu á meðal kjörgengra félagsmanna í framhaldi af aðalfundi áranna 2020 og 2021, sem haldinn er þann 26. mars árið 2022, um það hvort félagið verði sameinað Bændasamtökum Íslands. Niðurstaða þeirra kosninga er bindandi með sama hætti og ef þær hefðu farið fram á aðalfundinum sjálfum. Jafnframt er stjórn falið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til aðlögunar samþykkta félagsins í samræmi við niðurstöður kosninganna og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir tilefni þeirra.

 

Greinargerð

Æðarræktarfélag Íslands hefur verið eitt af aðildarfélögum að Bændasamtökum Íslands.  Nú hafa  orðið breytingar á félagskerfi samtakanna og aðildarfélögin hafa eitt af öðru kosið um sameiningu við Bændasamtökin sem deildir búgreina. Félagar ÆÍ eiga eftir að kjósa um sameiningu. Stjórn ÆÍ telur almenna þátttöku í kosningum mikilvæga og að sem flestir félagsmenn eigi kost á þátttöku í kosningunum hvort sem þeir komast á aðalfund eða ekki. Í kjölfar kynningarfundar með BÍ þann 27. janúar s.l. gekkst stjórn ÆÍ fyrir skoðanakönnun meðal félagsmanna um hug þeirra til sameiningar. Í könnuninni tóku þátt 122 og voru 52 samþykkir sameiningu við Bændasamtökin en 70 mótfallnir.

Til að tryggja sem almennasta þátttöku í kosningu um þetta mikilvæga mál leggur stjórn ÆÍ til að bráðabirgðaákvæði verði samþykkt við lög félagsins sem heimili rafræna atkvæðagreislu um þetta tiltekna mál. Með ákvörðun um rafræna atkvæðagreiðslu í kjölfar aðalfundar gefst flestum félagsmönnum kostur á að greiða atkvæði óháð því hvort þeir geti sótt aðalfund eða ekki.

Félagar í ÆÍ eru búsettir í öllum landshlutum og eiga ekki allir heimangengt til aðalfundar og einnig koma hér til áhrif af Covid en fjöldi sýkinga er enn mikill. Eingöngu er lögð til þessi afmarkaða tillaga að bráðabirgðaákvæði við lögin. Ljóst er að endurskoðun á lögum félagsins þarf að fara fram fyrir næsta aðalfund hver sem niðurstaða kosnnganna verður. Bráðabirgðaákvæðið fellur niður þegar rafræn kosning er afstaðin.