53. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2022

Aðalfundur ÆÍ 27. ágúst 2022

í Kirkjumiðstöð Austurlands

53. aðalfundur ÆÍ var settur kl. 10 í Kirkjumiðstöð Austurlands.

Kosning fundarstjóra og fundarritara: Tillaga um Pálma Benediktsson sem fundarstjóra og Sigríði Magnúsdóttur sem fundaritara var samþykkt. 40 félagsmenn mættu á fundinn.

 

Skýrslur og reikningar

Skýrsla stjórnar: Margrét Rögnvaldsdóttir formaður flutti skýrsluna.

Niðurstaða ÆÍ um áframhaldandi aðild að Bændasamtökum Íslands (BÍ) var rifjuð upp þar sem félagsmenn höfnuðu aðild að BÍ sem búgreinadeild æðarræktar. Í framhaldi af þessari niðurstöðu var byrjað að vinna að því aðlaga lög félagsins. Lögfræðingarnir Guðrún Gauksdóttir, fyrrverandi formaður ÆÍ, og Páll Þorkelsson, gjaldkeri ÆÍ, tóku að sér að yfirfara lögin og setja inn þær breytingar sem nauðsynlegar voru vegna þessa. Allir félagsmenn fengu tillögur að nýjum lögum félagsins sendar með fundaboði aðalfundarins.  Þær voru síðan kynntar á aðalfundinum og hver og ein lagagrein borin upp til samþykktar eða synjunar. Fyrir aðalfundinn höfðu stjórn ekki borist neinar breytingartillögur. Ný samþykkt lög verða síðan birt á vef ÆÍ þar sem hægt verður að skoða þau.

Tilkynning um niðurstöðu félaga ÆÍ var send til Bændasamtakanna. Margrét, formaður, og Erla Friðriksdóttir, varaformaður, fóru síðan á fund með þeim Gunnari Þorgeirssyni, formanni BÍ og Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra BÍ, til að ræða þessar niðurstöður en einnig hugmyndir um það hvort ÆÍ yrði hugsanlega með svokallaða aukaaðild að bændasamtökunum. Fyrir það eru ekki greidd félagsgjöld, en starfsmenn BÍ vakta t.d. samráðsgáttina (samradsgatt.island.is) og þar með það sem varðar okkar hagsmuni. Við greiðum aðeins fyrir þá vinnu sem við biðjum um hjá BÍ. Þannig ætti að vera auðvelt að koma upplýsingum til félagsins sem berast til BÍ um þessa gátt.

Bréf til Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, var sent í maí sl. þar sem óskað var eftir fundi um starfsemi ÆÍ og hugsanlegar lausnir vegna styrkumsókna og fl. sem áður var hægt að koma á framfæri á meðan Matvælasjóður hét Framleiðnisjóður. Farið var yfir nýtt vottunarkerfi sem hugsanlega kæmi til greina fyrir ÆÍ. En einnig var farið yfir í bréfi til ráðherra að stöðva átti núverandi vottun á æðardúni og taka það út úr lögum. En ráðuneytið samþykkti að hætta við að fella lögin um dúnmat niður eftir mótmæli frá ÆÍ þar til eitthvað nýtt kemur í staðinn, jafngott eða betra. Kynnt stuttlega samstarfið við Íslandsstofu. Þetta allt þarf að ræða við ráðherrann þegar fundurinn verður.

Margrét sagði líka frá því að Erla muni kynna tillögu að nýju vottunarkerfi síðar á fundinum. Martin Månhammer frá vottunarfyrirtækinu IDFL í Sviss er í samvinnu við stjórn  ÆÍ að skoða möguleika á nýju vottunarkerfi fyrir okkur. Nokkrir fundir voru haldnir með honum sem  Margrét, Erla, Ragna Óskarsdóttir og Árni Örvarsson sátu.

Fuglaflensan. Hertar varnaraðgerðir voru kynntar í mars sl. vegna dauða farfugla sem koma hingað. Það er ekkert vitað um æðarfugla sem hafa fengið fuglaflensu. Stjórn ÆÍ fékk leiðbeiningar hjá MAST um það hvernig bregðast ætti við ef æðarbændur fyndu dauðan fugl sem hugsanlega væri þá með fuglaflensu. Þessar leiðbeiningar voru sendar öllum félagsmönnum og birtar á heimasíðu og FB síðu ÆÍ. Hvorki MAST né fulltrúar í stjórn ÆÍ hafa  heyrt um sýkingu í æðarfuglum. Um er að ræða annan sjúkdóm en fuglakóleruna sem kom upp á Hrauni á Skaga tvö ár í röð og olli dauða hátt í eitt þúsund æðarkollna.

Endurmenntun. LBH hélt tvö námskeið um æðarrækt sem voru vel sótt og hafa óskir borist um fleiri slík námskeið. Hugsanlega er mögulegt að halda námskeið í byrjun næsta árs.

Fyrirspurnir til Æðarræktarfélagsins komu áður í gegnum BÍ en koma núna beint til okkar. Það hafa t.d. komið fyrirspurnir og boð um að gefa umsagnir um strandskipulög. En Magnús mun fylgjast með þessum málum fyrir Vestfirði, Pálmi fyrir Asutfirði og Guðrún Gauksdóttir fyrrerandi formaður aðstoðar þá. En Guðrún hefur lengi verið að fylgjast með gerð strandskipulaga.

Listamennirnir sem hafa verið í samstarfi við Æðarræktarfélagið að undanförnu opnuðu sýningu 7. maí sl. í Norræna húsinu, Tilraun II – Æðarrækt. Sýningin var um æðarrækt útfærð með nokkuð listrænu sniði. Hún var mjög vel sótt en sitt sýndist hverjum um sýninguna eins og gengur. Sýningin fer næst til Hafnar í Hornafirði og svo til Vega í Noregi.

Reikningar: Páll Þórhallsson, gjaldkeri, kynnti reikninga félagsins, sem unnir voru af KPMG og yfirfarðir af skoðunarmönnum reikninga ÆÍ. Eignir félagsins eru rúmar 16 milljónir. Umræður um reikningana og þeir síðan samþykktir samhljóða.

 

Kosningar

Kjósa þarf tvo aðalmenn í stjórn. Þeir sem ganga úr stjórn eru Páll Þórhallsson gjaldkeri og Erla Friðriksdóttir varaformaður. Í framboði eru:  Erla Friðriksdóttir og Helga María Jóhannesdóttir.  Kallað var eftir fleiri framboðum í stjórn. Svo var ekki. Helga María er formaður fyrir Æðarvé og er með varp í Skáleyjum. Erla og Helga María voru kosnar samhljóða í stjórn.

Í stjórn ÆÍ sitja núna Margrét Rögnvaldsdóttir, formaður, Erla Friðriksdóttir, Sigríður Magnúsdóttir, Magnús Helgi Jónasson og Helga María Jóhannesdóttir. Varamenn eru Pálmi Benediktsson og Hallur Þorsteinsson. Stjórnin skiptir síðan með sér verkum á næsta stjórnafundi.

 

Markaðs- og sölumál.        

Magnús Jónasson fór yfir tölur um markaðs- og sölumál frá 2008 -2021. Gögnin eru unnin upp úr gögnum frá Hagstofu Íslands. Árið 2021 voru flutt út 3400 kg. Salan mjakast hægt upp, núna er kílóverðið um 190 þúsund krónur. Langmest er enn selt til Japans og Þýskalands af æðardúni.

Ragna Óskarsdóttir (Icelandic Down/Íslenskur dúnn ehf) á Borgarfirði eystra útskýrði hvernig henni gengur að selja dúnsængur og flytja út í kössum sem eru þyngri og meiri að umfangi heldur en ein dúnsæng. Umræða um tollnúmer, 4 númer. Það þarf að skoða þessi númer betur.

Þar sem glærunar voru óskýrar verða þær sendar félagsmönnum. Magnús ætlar að setja glærurnar á pdf-form og koma þeim til félaganna.

 

Hópavinna vegna lagabreytinga.

Eftirfarandi umræðuefni fyrir hópavinnuna:

  1. Markmið og tilgangur ÆÍ.
  2. Hlutverk og verkefni deilda ÆÍ.
  3. Rafrænar kosningar, meirihluti og aukinn meirihluti í atkvæðagreiðslum.
  4. Aukaaðild að Bændasamtökunum.

 

Tillögum að lagabreytingum frá þátttakendum safnað saman eins og kemur fram hér á eftir.

Fundastjóri afhenti Páli Þórhallssyni og Guðrúnu Gauksdóttir fundinn til að kynna tillögur um lagabreytingar.  Góðar útskýringar hjá Páli og Guðrúnu. Nokkrar umræður urðu í sal. Halli Þorsteinssyni finnst lögin svolítið gerræðislega orðuð og stjórn hafi of mikil völd. Guðrún útskýrir að t.d. stofnun nýrra deildar þurfi samþykki aðalfundar.

Umræður um hverjum stendur til boða að vera í félaginu. Frekar opið. Ragna er t.d. ekki með æðarvarp.

Ákvæði um  rafrænar kosningar kemur inn í 6. gr  félagsins. Möguleikinn notaður sjaldan, en nauðsynlegt að hafa þarna eins og reynslan hefur sýnt okkur í COVID.

Nægur fjöldi til að breyta lögum er þegar 10% félaga ÆÍ eru mættir. Dálítið stíft.

Rætt um kosningu varamanna, hvort þeir eigi að vera til eins árs eða þriggja ára.

Ný grein um slit félagsins. Umræður um notkun orðanna aukinn meirihluti 2/3 eða 3/4.

 

Lögin lögð fyrir eftir breytingar þeirra Páls og Guðrúnar vegna breyttra aðstæðna, nefnilega þeirra að ÆÍ er nú ekki hluti af BÍ. Miklar umræður urðu um innihald greinanna í lögunum.

1. gr.

Heiti og heimili

Félagið heitir Æðarræktarfélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Fullgild félagaskrá skal ávallt liggja fyrir á hverjum aðalfundi félagsins.

Samþykkt samhljóða.

 

2. gr. (áður 2. og 3.gr)

Deildir

Félagsvæði Æðarræktarfélags Íslands er allt landið, sem skiptist í deildir samkvæmt ákvörðun aðalfunda félagsins. Deildir setja sér samþykktir, skipa stjórn og hafa sjálfstæðan fjárhag, þ.m.t. ákvörðun um félagsgjöld. Leggist starfsemi deildar niður skulu gerðarbækur deildarinnar ásamt öðrum eignum deildarinnar varðveitast hjá Æðarræktarfélaginu. Hafi niðurlögð deild átt fjárhagsleg verðmæti skulu þau varðveitt á aðgreindum reikningum félagsins í fjögur ár nema ný deild sé stofnuð innan þeirra tímamarka. Að þeim tímamörkum liðnum er stjórn félagsins heimilt að ráðstafa fénu eins og öðru lausafé félagsins í starfsemi sinni

Breytingartillaga nr. 1:  Í stað „samkvæmt ákvörðun“ komi  „samkvæmt samþykkt“

Samþykkt.

 

Breytingartillaga nr. 2: Í stað „nema ný deild sé stofnuð innan“ komi „nema ný deild sé stofnuð á sama svæði innan þeirra tímamarka. Þá rennur féð til hennar. Að þeim tímamörkum liðnum…“

Samþykkt.

 

Greinin síðan samþykkt með áorðnum breytingum.

 

3. gr.

Félagsaðild

Félagar, einstaklingar og lögaðilar, geta allir orðið sem njóta hlunninda af æðarvarpi eða hafa áhuga fyrir æðarrækt og stofnun nýrra varpstöðva.

Breytingartillaga nr.3:  „Allir sem njóta hlunninda af æðarvarpi eða hafa áhuga fyrir æðarrækt og stofnun nýrra varpstöðva geta orðið félagar, bæði einstaklingar og lögaðilar“. Ekki þótti ástæða til að breyta þriðju gein laganna þar sem textinn innihélt sömu upplýsingar en með annarri orðaröð.

Greinin samþykkt.

4. gr.

Markmið og tilgangur

Markmið félagsins er að stuðla að vernd æðarfugls og varpsvæða hans á Íslandi með sjálfbæra æðarrækt að leiðarljósi. Ennfremur að auka þekkingu á æðarrækt og menningarsögulegri þýðingu hennar.

 

Hlutverk félagsins er að vinna að hagsmunum æðarræktar og efla æðarvarp í landinu. Það felst fyrst og fremst í því að leita leiða til að verja varplönd fyrir hvers konar ágangi sem æðarfugli og varpi stafar hætta af. Einnig skal unnið að eflingu hlunninda á viðeigandi hátt að öðru leyti svo sem að auka verðmæti dúns með flokkun og mati á honum á grundvelli viðeigandi gæðakerfis. Ennfremur verði leiðbeiningaþjónusta á verkefnaskrá félagsins. Félagið skal fylgjast með sölu á æðardún og styðja við markaðssetningu eftir því sem í þess valdi stendur.

 

Samþykkt.

 

5. gr.

Tekjur

 

Á aðalfundi eru félagsgjöld fyrir einstaklinga og lögaðila ákveðin frá ári til árs. Reikningsár félagsins er almanaksárið

 

Samþykkt.

6. gr.

Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda árlega á þeim tíma, sem best þykir henta samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar. Aðalfundur skal boðaður með rafrænum hætti með minnst 10 daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina hvar og hvenær fundurinn verður haldinn. Tillögur um lagabreytingar og meiriháttar framkvæmdaáætlanir skulu tilkynntar með fundarboði. Tekið skal fram í fundarboði eigi félagsmenn rétt á að taka þátt í fundinum á rafrænan hátt. Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt. Á milli aðalfunda skal halda aukafundi eftir því sem stjórn félagsins telur þörf á og einnig ef meirihluti félagsmanna óskar þess.

 

Atkvæðisrétt á aðalfundi og öðrum fundum hafa þeir einir sem eru skráðir félagar og greitt hafa árgjald yfirstandandi árs. Stjórn er heimilt að boða til rafrænna kosninga í aðkallandi málum þegar sérstaklega stendur á.

 

Breytingartillaga nr. 4. „Aðalfundur Æðarræktarfélagsins skal haldinn í ágúst ár hvert. Stjórnin ákveður nánar um stað og stund“.

 

Tilögunni var hafnað.

 

 

Breytingartillaga nr. 5. „Aðalfundur skal boðaður … með minnst 14 daga fyrirvara“.

 

Samþykkt.

 

Greinin síðan samþykkt með áorðnum breytingum

 

 

Athugasemd frá gjaldkera um að rafrænar kosningar verði aðeins að vera sem öryggisventill. Önnur athugasemd þessu tengd er að þeir sem ákveða að vera rafrænt á aðalfundi þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir geta ekki tekið þátt eða kosið.

 

7. gr. Ný grein

Dagskrá aðalfundar

Störf aðalfundar eru eftirfarandi:

a. Skýrsla stjórnar um störf og verkefni á liðnu ári.

b. Kynning endurskoðaðra ársreikninga.

c. Starfsáætlun fyrir næsta ár.

d. Liðir a.-c. bornir undir atkvæði aðalfundar

e. Lagabreytingar ef einhverjar eru.

f. Ákvörðun um árgjald.

g. Tillögur til ályktana fundarins

h. Sala og markaðsmál

i. Fréttir frá deildum.

j. Kosningar.

k. Önnur mál

 

Samþykkt.

 

8. gr.

Ákvarðanir aðalfundar

Ákvarðanir á aðalfundi skulu teknar með einföldum meirihluta atkvæða fundarmanna nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki a.m.k. 3/4 hluta fundarmanna og þar sem mættur er minnst 10% kjörgengra félagsmanna. Mæti of fáir, skal boða til framhaldsfundar og öðlast þá tillögur til lagabreytinga gildi ef 3/4 hlutar fundarmanna samþykkja þær, án tillits til fundarsóknar. Lagabreytingar sem félagsmenn vilja leggja fram, skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en 2 vikum fyrir boðaðan aðalfund.

 

Breytingartillaga nr. 6. „Kjósa skal 2 varamenn til 1 árs í senn í staðinn fyrir 3 ára“.

Tilögunni var hafnað.

 

Breytingartillaga nr. 7. „Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna.

Samþykkt

 

Breytingartillaga nr. 8. „Lagabreytingar sem félagsmenn vilja leggja fram, skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en 3 vikum fyrir boðaðan aðalfund.

 

Samþykkt.

 

Greinin síðan samþykkt með áorðnum breytingum.

 

9. gr.

Stjórn og stjórnarfundir

 

Stjórn félagsins skal skipuð fimm stjórnarmönnum, formanni og fjórum meðstjórnendum. Kjörgengir eru einstaklingar sem hafa náð 18 ára aldri og hafa greitt félagsgjald á yfirstandandi ári. Stjórnin skal kosin á aðalfundi til þriggja ára í senn. Stjórnarmenn ganga úr stjórninni þannig: Formaður eftir þrjú ár, tveir meðstjórnendur eftir eitt ár og tveir meðstjórnendur eftir tvö ár

og heldur röðin þannig áfram. Stjórnin skiptir með sér verkum. Kjósa skal tvo varamenn til þriggja ára. Á aðalfundum skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga til tveggja ára í senn.

 

Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir. Skylt er að boða fund ef þrír stjórnarmanna óska þess. Ritari gegnir ritarastörfum og heldur rafræna gerðabók. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins. Að öðru leyti ákveður stjórn hverju sinni um skiptingu verkefna milli stjórnarmanna.

 

Breytingartillaga nr. 8. „Kjósa skal 2 varamenn til 1 árs í senn“.

 

Tillögunni hafnað.

 

Vísað til stjórnar að skoða þessa grein og athuga orðalag.

 

Greinin samþykkt að öðru leyti.

 

10 gr. (Ný grein)

Slit félagsins

Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi. Við slit félagsins skal eigum þess ráðstafað í samræmi við tillögu stjórnar. Samþykki ¾ félagsmanna þarf til slita á félaginu. Ef slíta skal félaginu, verður það einungis gert á fundi, þar sem mættir eru minnst 3/4 hlutar félagsmanna, og verður það aðeins gert, að hlutar fundarmanna greiði því atkvæði. Að öðrum kosti skal boða til nýs fundar og verður þá félaginu slitið 2/3 á löglegan hátt ef 3/4 hlutar fundarmanna greiða því atkvæði, án tillit til þess, hve margir eru mættir á fundinum

 

Spurning: Ef félaginu verður slitið, hvað verður um eigur þess? Sjá útskýringu í 10. gr.  Stjjórn beðin um að athuga orðalagið og bera aðra tillögu fram á næsta aðalfundi.

 

Fundurinn samþykkir lögin í heild sinni með áorðnum breytingum.

(Nýju lögin eru birt í heild aftast í fundargerðinni.)

 

Tillaga frá stjórn

Stjórn Æðarræktarfélags Íslands leggur til að ÆÍ verði skráð sem aukaaðili að Bændasamtökum Íslands.

 

Margrét kynnti hvað fælist í þessu. Sérstakur samningur verður þá gerður á milli BÍ og ÆÍ. Stjórn stingur upp á því að BÍ vakti t.d. gátt stjórnvalda. Hugsanlega samráð um vargeyðingu. Við gætum e.t.v. leigt fundarsal hjá Bændasamtökunum fyrir okkar fundi.

 

Tillagan var samþykkt.

 

Kynning frá Íslandsstofu. 

Kristinn Björnsson frá Íslandsstofu kynnti samstarf okkar í gegnum fjarfundarbúnað. Ný heimasíða er í vinnslu og langt komið að gera heimildarmynd eða kynningarmyndband um æðardúninn sem verður á þessari heimasíðu sem er fyrst og fremst sölusíða fyrir ÆÍ.

Fyrirspurnir úr sal. Spurning um að hafa textann bæði á ísl og ensku. En þá er spurning um hvaða efni væri fyrir hvort mál. Þessi kynning er hugsuð til að kynna fyrir erlendum kaupendum. Þetta efni fer fyrst og fremst inn sem kynningarsíða fyrir æðardún og vörur úr æðardún erlendis og fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi. Núverandi heimasíða ÆÍ er hugsuð fyrir félagsmenn og þá sem hafa áhuga á æðarrækt. Hún verður í svipuðu formi og hingað til.

 

Kynning á nýjum tillögum að dúnmati. Erla Friðriksdóttir.

Erla rifjaði upp þegar fella átti úr gildi lög um mat á æðardún hjá landbúnaðarráðherra,  en stjórn ÆÍ mótmælti niðurfellingunni og í framhaldinu vorum við beðin um að koma með lausnir. Erla fór yfir tillögu Martin Månhammer hjá IDFL (International Down and Feather Testing Laboratoy) í Sviss að nýju vottunarkerfi.

Framtíðarsýnin er að selja eingöngu fullunna vöru.

Vottun á æðardúni er nauðsynleg, svo fólk geti treyst því að það sé að kaupa æðardún.

Vottunin gengur út á eftirfarandi:

  1. Rekjanleika æðardúnsins.
  2. Æðardúnninn verði vottaður sem „meinlaus“ (cruelty free – þ.e. vara sem er aflað án þess að fuglinum sé gert mein).
  3. Framleiðsla vöru úr æðardúni gæti gengið hraðar fyrir sig þar sem ekki þarf að kalla til matsmann í hvert skipti.
  4. Nútímaleg vottun. IDFL er með gagnagrunn sem hefur verið notaður og þróaður í áratugi og er notaður af stærstu framleiðendum á dúni á heimsvísu.

Lítil þróun hefur verið í vélbúnaði til að hreinsa æðardún frá því að fyrstu dúnhreinsivélarnar voru teknar í notkun á sínum tíma. Martin telur að IDFL geti veitt aðstoð við að þróa og bæta núverandi vélbúnað. Áhugi er hjá IDFL að komið verði upp rannsóknarstofu hér á landi til rannsókna á dúninum.

Vottun æðardúns er nauðsynleg og vottunarkerfið þarf að vera þannig að allir geti nýtt sér það.

Borið var upp hvort stjórn eigi að halda áfram að vinna með IDLF með aðkomu Matvælaráðuneytisins að þróun á þessu vottunarkerfi sem mögulega geti komið í staðinn fyrir núverandi lög.

Samþykkt að stjórn haldi áfram að skoða þessa leið.

 

Heimsókn til Borgarfjarðar eystra

Kynning og heimsókn til fyrirtækisins Icelandic Down/Íslenskur dúnn ehf. í eigu Rögnu Óskarsdóttur. Í kjölfarið var hressing. Þar á eftir var gengið um Borgarfjörð undir leiðsögn Óla úr Lomundarfirði. Sagðar voru  sögur af heimamönnum og álfum. Heimsókn í kirkjuna og frásögn af altaristöflu Kjarvals.

Að lokum var svo kvöldverður í Fjarðarborg. Hlaðborð m/heilgrilluðu lambalæri og viðeigandi meðlæti. Í desert var rabbabarapæ m/rjóma, ís og kaffi. Undir borðum voru svo sagðar fréttir af deildum.

 

Sunnudaginn 28. ágúst

Félagar Æðarræktarfélags Austurlands tóku á móti fólki á Skálanesi við Seyðisfjörð og Ormstöðum í Norðfjarðarsveit. Á báðum stöðum var gengið um svæðið og staðhættir skoðaðir.

 

Sigriður Magnúsdóttir ritaði fundargerð og setti ný lög saman.

 

Ný lög Æðarræktarfélags Íslands 2022

 

1.gr.

Heiti og heimili

Félagið heitir Æðarræktarfélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Fullgild félagaskrá skal ávallt liggja fyrir á hverjum aðalfundi félagsins.

2. gr.

Deildir

Félagssvæði Æðarræktarfélags Íslands er allt landið, sem skiptist í deildir samkvæmt samþykkt aðalfunda félagsins. Deildir setja sér samþykktir, skipa stjórn og hafa sjálfstæðan fjárhag, þ.m.t. ákvörðun um félagsgjöld. Leggist starfsemi deildar niður skulu gerðarbækur deildarinnar ásamt öðrum eignum deildarinnar varðveitast hjá Æðarræktarfélaginu. Hafi niðurlögð deild átt fjárhagsleg verðmæti skulu þau varðveitt á aðgreindum reikningum félagsins í fjögur ár nema ný deild sé stofnuð á sama svæði innan þeirra tímamarka. Þá rennur féð til hennar. Að þeim tímamörkum liðnum er stjórn félagsins heimilt að ráðstafa fénu eins og öðru lausafé félagsins í starfsemi sinni.

 

3. gr.

Félagsaðild

Félagar, einstaklingar og lögaðilar, geta allir orðið sem njóta hlunninda af æðarvarpi eða hafa áhuga fyrir æðarrækt og stofnun nýrra varpstöðva.

 

4. gr.

Markmið og tilgangur

Markmið félagsins er að stuðla að vernd æðarfugls og varpsvæða hans á Íslandi með sjálfbæra æðarrækt að leiðarljósi. Ennfremur að auka þekkingu á æðarrækt og menningarsögulegri þýðingu hennar.

 

Hlutverk félagsins er að vinna að hagsmunum æðarræktar og efla æðarvarp í landinu. Það felst fyrst og fremst í því að leita leiða til að verja varplönd fyrir hvers konar ágangi sem æðarfugli og varpi stafar hætta af. Einnig skal unnið að eflingu hlunninda á viðeigandi hátt að öðru leyti svo sem að auka verðmæti dúns með flokkun og mati á honum á grundvelli viðeigandi gæðakerfis. Ennfremur verði leiðbeiningaþjónusta á verkefnaskrá félagsins. Félagið skal fylgjast með sölu á æðardún og styðja við markaðssetningu eftir því sem í þess valdi stendur.

 

5. gr.

Tekjur

 Á aðalfundi eru félagsgjöld fyrir einstaklinga og lögaðila ákveðin frá ári til árs. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

6.gr.

Aðalfundur 

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda árlega á þeim tíma, sem best þykir henta samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar. Aðalfundur skal boðaður með rafrænum hætti með minnst 14 daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina hvar og hvenær fundurinn verður haldinn. Tillögur um lagabreytingar og meiriháttar framkvæmdaáætlanir skulu tilkynntar með fundarboði. Tekið skal fram í fundarboði eigi félagsmenn rétt á að taka þátt í fundinum á rafrænan hátt. Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt. Á milli aðalfunda skal halda aukafundi eftir því sem stjórn félagsins telur þörf á og einnig ef meirihluti félagsmanna óskar þess.

Atkvæðisrétt á aðalfundi og öðrum fundum hafa þeir einir sem eru skráðir félagar og greitt hafa árgjald yfirstandandi árs. Stjórn er heimilt að boða til rafrænna kosninga í aðkallandi málum þegar sérstaklega stendur á.

 

7. gr.

Dagskrá aðalfundar

Störf aðalfundar eru eftirfarandi:

a. Skýrsla stjórnar um störf og verkefni á liðnu ári.

b. Kynning endurskoðaðra ársreikninga.

c. Starfsáætlun fyrir næsta ár.

d. Liðir a.-c. bornir undir atkvæði aðalfundar

e. Lagabreytingar ef einhverjar eru.

f. Ákvörðun um árgjald.

g. Tillögur til ályktana fundarins

h. Sala og markaðsmál

i. Fréttir frá deildum.

j. Kosningar.

k. Önnur mál

8. gr.

Ákvarðanir aðalfundar

Ákvarðanir á aðalfundi skulu teknar með einföldum meirihluta atkvæða fundarmanna nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna og þar sem mættur er minnst 10% kjörgengra félagsmanna. Mæti of fáir, skal boða til framhaldsfundar og öðlast þá tillögur til lagabreytinga gildi ef 3/4 hlutar fundarmanna samþykkja þær, án tillits til fundarsóknar. Lagabreytingar sem félagsmenn vilja leggja fram, skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en 3 vikum fyrir boðaðan aðalfund.

9. gr.

Stjórn og stjórnarfundir 

Stjórn félagsins skal skipuð fimm stjórnarmönnum, formanni og fjórum meðstjórnendum. Kjörgengir eru einstaklingar sem hafa náð 18 ára aldri og hafa greitt félagsgjald á yfirstandandi ári. Stjórnin skal kosin á aðalfundi til þriggja ára í senn. Stjórnarmenn ganga úr stjórninni þannig: Formaður eftir þrjú ár, tveir meðstjórnendur eftir eitt ár og tveir meðstjórnendur eftir tvö ár og heldur röðin þannig áfram. Stjórnin skiptir með sér verkum. Kjósa skal tvo varamenn til þriggja ára. Á aðalfundum skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga til tveggja ára í senn.

Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir. Skylt er að boða fund ef þrír stjórnarmanna óska þess. Ritari gegnir ritarastörfum og heldur rafræna gerðabók. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins. Að öðru leyti ákveður stjórn hverju sinni um skiptingu verkefna milli stjórnarmanna.

 

10. gr.

Slit félagsins

Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi. Við slit félagsins skal eigum þess ráðstafað í samræmi við tillögu stjórnar. Samþykki 3/4 félagsmanna þarf til slita á félaginu. Ef slíta skal félaginu, verður það einungis gert á fundi, þar sem mættir eru minnst 3/4 hlutar félagsmanna, og verður það aðeins gert, að 2/3 hlutar fundarmanna greiði því atkvæði. Að öðrum kosti skal boða til nýs fundar og verður þá félaginu slitið á löglegan hátt ef 3/4 hlutar fundarmanna greiða því atkvæði, án tillit til þess, hve margir eru mættir á fundinum.