Nytsömust íslenzkra anda – Nýleg fræðigrein um æðarfuglinn.
Nýlega kom út tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands Ritið þar sem vaktar eru upp aðkallandi spurningar er varða loftslagsbreytingar, fækkun dýrategunda, umhverfissiðfræði og sjálfbærni. Þeir þverfaglegu textar og listaverk sem birtast í Ritinu eiga það sameiginlegt að fela í sér nýstárleg sjónarhorn á viðfangsefni sem áður voru gegnsýrð hugmyndafræði mannmiðjunar. Tekin eru til gagnrýninnar umfjöllunar gamalgróin viðhorf um aðgreiningu manna og dýra og er efnið tímabært framlag til pósthúmanískrar umræðu á Íslandi. Höfundar takast hér á við flóknar sameiginlegar áskoranir og viðfangsefni sem blasa við nú á tímum mannaldar – þvert á landamæri og (dýra)tegundir. Þá er einnig fjallað um birtingarmyndir dýra í sjónrænu efni og framsetningu þeirra á söfnum og sýningum. Dýr í sínum margvíslegu myndum hafa löngum haft sterkt aðdráttarafl og heillað manninn frá upphafi vega. Þá hafa þau jafnframt valdið manneskjunni margvíslegum heilabrotum, sem vara enn um sinn, eins og dæmin í þessu hefti sýna glöggt. Á meðal efnis í Ritinu er grein um æðarfuglinn eftir Eddu R.H. Waage og Karl Benediktsson og ber heitið: „Nytsömust íslenzkra anda“. Æðarfuglinn, friðun hans og aðdragandi fyrstu fuglafriðunarlaganna. Hægt er að nálgast greinina hér.