Námskeið fyrir þá sem eru áhugafólk um æðarrækt – Fjarkennsla
Æðarrækt og æðardúnn
Námskeið fyrir þá sem eru áhugafólk um æðarrækt og vilja öðlast réttindi eða viðhalda réttindum sem dúnmatsmenn
Í samstarfi við Æðarræktarfélag Íslands og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stendur Endurmenntun LBHÍ fyrir námskeiði ætlað þeim sem vilja öðlast réttindi eða viðhalda réttindum sínum sem dúnmatsmenn skv. reglugerð um gæðamat á æðardúni nr. 350/2011. Námskeiðið hentar einnig þeim sem hafa almennan áhuga á æðarrækt og vilja kynna sér lifnaðarhætti og sérstöðu æðarfuglsins hér á landi.
Námskeiðið er ætlað öllu áhugafólki um æðarrækt, m.a. þeim sem hafa hugleitt að hefja æðarrækt og þeim sem starfað hafa á undanþágu frá ráðuneytinu.
Farið er yfir lifnaðarhætti, eiginleika og sérstöðu æðarfuglsins, hvernig eigi að koma upp varpi og ferilinn frá dúntekju til sölu dúnsins. Fjallað er um þær óskir og kröfur sem neytandinn gerir til æðardúns og hvernig þörfum er fullnægt og litið á þær kröfur sem gerðar eru til gæðamats á æðardúni og lagarammann sem búgreinin býr við.
Á námskeiðinu gefst tími til umræðna og fyrirspurna auk verklegrar þjálfunar við flokkun og gæðamat á æðardúni.
Tími: Lau. 10. apríl. Kl. 10:00-16:00
Staður: Vegna sóttvarnarreglna sem eru í gildi verður námskeiðið í fjarkennslu. Notast verður við Teams. Þeir sem vilja verða sér út um dúnmatsréttindi fá verklega kennslu í dúnmati í staðarnámi þriðjudaginn 20. apríl kl. 17-18 hjá LBHÍ á Keldnaholti í Reykjavík.
Kennsla: Ýmsir sérfræðingar
Verð: 29.000 kr. (fræðsla, kaffi og hádegismatur)
Nánari upplýsingar og dagskrá á vef Endurmenntunar LBHÍ