55. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2024
Aðalfundur ÆÍ 28. október 2024 í veiðiheimilinu Vökuholti á Laxamýri
54. aðalfundur ÆÍ haldinn í veiðiheimilinu Vökuholti á Laxamýri, 28. október kl. 10:00.
Margrét Rögnvaldsdóttir formaður bauð félagsmenn velkomna á aðalfund félagsins sem haldinn var bæði sem fjarfundur og staðfundur. Hún stakk upp á Atla Vigfússyni sem fundarstjóra og Helgu Maríu Jóhannesdóttur sem fundarritara.Var það samþykkt. Mættir voru 32 félagsmenn en 2 voru á fjarfundi.
Atli þakkaði það traust sem honum var sýnt og bauð fundargesti velkomna að Laxamýri. Hann kynnti staðinn og sögu hans og sagði frá æðarvarpinu sem þarna er og hans reynslu og upplifun af því í gegnum tíðina.
Að því loknu hófst dagsskrá fundarins.
Skýrsla stjórnar og reikningar
Skýrsla stjórnar
Margrét Rögnvaldsdóttir formaður kynnti skýrslu stjórnar.
Í stjórn félagsins eru Margrét Rögnvaldsdóttir formaður, Erla Friðriksdóttir varaformaður, Magnús Jónasson gjaldkeri, Helga María Jóhannesdóttir ritari og Sigríður Magnúsdóttir meðstjórnandi. Í varastjórn eru Pálmi Benediktsson og Hallur Þorsteinsson.
Aðalfundur var síðast haldinn í Landbúnaðarháskóla Íslands að Keldum, í nóvember 2023.
Stjórn er dreifð um landið og hefur haldið stjórnarfundi í gegnum fjarfundarbúnað. Stjórn hefur haldið áfram starfinu og haft að leiðarljósi þær ályktanir sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi í nóvember í fyrra, m.a. í sambandi við dúnmatið. Síðar á fundinum verða síðan kynntar tillögur að breytingu á reglugerð um dúnmat.
Ályktanirnar voru sendar á Matvælaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisráðuneytið, Steinar sem er með minka- og refveiðar og til þingmanna sem voru með þingamannatilllögu um breytingar á dúnmati eða niðurfellingu á þeim.
Verkefni með Íslandsstofu
Félagið hefur ekki fengið styrk til áframhaldandi markaðskynningu sem búið var að ákveða með Íslandstofu og átti að byrja í Bandaríkjunum. Búið er að breyta Framleiðnisjóð í Matvælasjóð og samkvæmt reglum hans getur félagið ekki sótt um styrk í hann. Félagið hefur verið í sambandi við ráðuneytið út af þessu. Formaður nýtti tækifærið þegar Bjarkey Gunnarsdóttir matvælaráðherra var í heimsókn á Raufarhöfn og fékk fund með henni. Fór hún yfir þessa hluti með ráðherranum sem tók vel í þessar hugmyndir. Vonir standa til að breytingar verði gerðar á reglugerð þannig að ÆÍ geti sótt um styrk til Matvælasjóðs.
Ákveðið var samt sem áður að halda áfram með verkefnið og farið var í það að heimsækja æðarvörp á Vesturlandi og Vestfjörðum til þess að búa til fleiri sögur sem birtar eru á vef Íslandsstofu. Betur verður gerð grein fyrir þessu verkefni síðar á fundinum.
Íslandsstofa hefur aðstoðað ÆÍ og sendiráðið í Bandaríkjunu við að liðka fyrir sölu á æðardún og vörum úr æðardún til Bandaríkjanna. Það er leyfilegt að selja fullunnar vörur til Bandaríkjanna með því að láta fylgja með yfirlýsingu sem allir félagar í ÆÍ hafa fengið sent, en ekki hefur fengist leyfi til að selja hrádún.
Ragnhildur í sendiráðinu í Bandaríkjunum hefur aðstoðað okkur í samskiptum við U.S Fish&Wildlife Service og stjórnvöld í USA. Þeir aðilar hafa sent á okkur ramma sem þeir telja að þurfi að koma fram til að fá leyfið fyrir sölu á hrádún í USA. Guðrún Gauksdóttir setti upp texta sem við fórum yfir með starfsmönnum Matvælaráðuneytis og Umhverfisráðuneytis. Því þetta gengur út á það að stjórnvöld á Íslandi staðfesti umbeðin atriði, vegna þess að æðarfuglinn er alfriðaður á Íslandi, svo stjórnvöld í USA geti samþykkt innflutning á hrádún. Starfsmenn ráðuneytanna gáfu samþykki sitt fyrir textanum og hann er nú til umfjöllunar hjá áðurnefndum samstarfsaðilum í USA.
Umsókn um styrk úr Matvælasjóði
Á árinu var leitað til Margrétar fyrrverandi formanns Matvælasjóðs varðandi umsókn um styrk úr sjóðnum. Hún taldi ólíklegt að félagið gæti fengið styrk miðað við núverandi reglugerð. Stjórn hefur samt sem áður ákveðið að sækja um í Matvælasjóð í febrúar og láta reyna á þetta og fá til þess utanaðkomandi aðstoð. Milvægt er að fá styrk úr sjóðnum til að halda áfram að kynna æðardún, æðarrækt og æðarfugl á mörkuðum og byrja þá á Bandaríkjamarkaði.
Úttekt á hreinsistöðvum
Mast hafði samband við ÆÍ vegna fyrirspurnar sem kom frá Kína þar sem farið var fram á að úttekt væri gerð á dúnhreinsistöðvum. ÆÍ gaf MAST upplýsingar um hverjir væru að hreinsa æðardún en til þess að hægt sé að flytja út dún til Kína þurfa hreinsistöðvar að fá þessa úttekt.
Erla mun fara betur yfir þetta mál síðar á fundinum.
Vinna við verndað afurðaheiti
Áframhaldandi vinna hefur staðið yfir varðandi verndaða afurðarheitið fyrir íslenskan æðardún og mun Margrét fara yfir þá vinnu um leið og hún kynnir nýtt vörumerki sem ÆÍ lét útbúa. Til að sækja um verndað afurðaheiti þarf að skila inn vörumerki fyrir það. Allir sem selja vöru úr dún eiga að geta nýtt sér þetta vörumerki. Eftir að ÆÍ er komið með verndaða afurðaheitið á Íslandi getur það sótt um að fá það einnig í Evrópu. Félagið hefur verið í sambandi við Hafliða Halldórsson hjá Icelandic lambs en hann hefur boðið fra aðstoð sína þar sem hann hefur reynslu af slíkri vinnu.
Friðlýsing æðarvarpa
Fyrirspurn barst frá aðila sem heldur utan um komur skemmtiferðaskipa um friðlýsingu æðarvarpa. Þrátt fyrir að friðlýsingin sé skráð á vef sýslumanns og þar komi fram hvar þessi vörp eru þá getur það reynst erfitt fyrir skipstjóra skemmtiferðaskipa að átta sig á því. Margrét benti á kortagrunninn sem við erum með en á því korti eiga að koma fram öll friðlýst æðarvörp og þar með þau sem liggja að sjó. Sigríður Magnúsdóttir fráfarandi stjórnarmaður tók að sér að fara yfir hvaða æðarvörp eru friðlýst og uppfæra það í kortagrunninum. Stefnt er að því að uppfæra kortagrunninn einu sinn á ári að vori. Formaður hvatti æðarbændur til að friðlýsa sín æðarvörp. Kortið er hægt að finna á heimasíðu félagsins.
Beðið var með umræður um skýrslu stjórnar þar til reikningar höfðu verið kynntir.
Reikningar
Magnús Helgi Jónasson, gjaldkeri, fór yfir ársreikninga félagsins fyrir árið 2023 en þeir voru unnir sem fyrr af KPMG og yfirfarnir af skoðunarmönnum reikninga ÆÍ.
Rekstrartekjur voru svipaðar á milli ára, hafa aukist aðeins og eru rúmar tvær milljónir. Gjöldin 2023 voru rúm milljón en árið 2022 voru þau rúmar 5,6 milljónir. Í innra starf fór 637.767 kr. Rekstarafkoma ársins var jákvæð um 638.194 kr. og heildarafkoma ársins er jákvæð um 1.433.720 kr. en til samanburðar var hún neikvæð um rúmar 3,2 milljónir 2022.
Eignir eru samtals eru 15.971.256 kr. og hafa aukist um tæpar tvær milljónir frá árinu 2022. Eigið fé félagsins nam 14.828.569 kr. Skammtíma skuldir félagsins nema 1.142.687 kr. og er stærstur hluti þeirra, eða 653.234 kr., greiðsla sem kom frá Æðarræktarfélagi Austurlands sem ÆÍ er að geyma fyrir félagið þar til hægt er aðendurgreiða þeim aftur. Restin er greiðsla til KPMG og Landbúnarháskólans en það voru reikningar sem ekki voru greiddir fyrr en í janúar 2024.
Handbært fé félagsins hefur aukist á milli ára og var í árslok 3.982.264 kr.
Helstu kostnaðarliðir undir markaðsstarfi eru markaðsefni, heimasíðan og auglýsingar.
Þá kynnti gjaldkeri fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 þar sem gert er ráð fyrir tekjum upp á 2.845.000 kr. Stærstur hluti af því eru félagsgjöld eða 2 milljónir kr. Gert er ráð fyrir gjöldum upp á 3,7 milljónir sem færu í markaðsstarf, innra starf og aðkeypta þjónustu.
Árgjaldið í félagið var hækkað úr 7.000 kr. í 10.000 kr. á síðasta aðalfundi. Stjórn lagði til að félagsgjaldið yrði nú hækkað upp í 10.500. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Í umræðum kom fram hugmynd úr sal hvort borga ætti stjórn einhver laun fyrir hennar störf sem mögulega gætu dekkað hluta af kostnaði sem hún verður fyrir. Margrét formaður taldi þetta verðuga athugassemd og taldi rétt að greiða fyrir vinnu umfram venjuleg stjórnarstörf. Tók hún sem dæmi að hún sótti um styrk hjá Matvælaráðuneytinu fyrir stuttu síðan og tók sú vinna þrjá og hálfan tíma. Þá fannst henni rétt að skoða hvort borga ætti útlagðan kostnað þegar stjórnarfundir væru ekki í fjarfundi, t.d. ferðakostnað.
Þá kom fram fyrirspurn um hversu margir væru skráðir í félagið. Margrét svaraði því til að það væru fleiri en 300 en erfitt hefur reynst að halda utan um félagaskrá. Félagsmenn eru sumir að borga seint og jafnvel gleyma því, jarðir seldar og nýir eigendur ekki skráðir eða það hafa orðið kynslóðaskipti. Hefur hún fengið Helgu Björgu til að fara yfir félagatalið til að ná inn nýjum félögum þar sem skipti hafa orðið á eigendum jarða.
Að umræðum loknum voru reikningar bornir upp til samþykktar og voru þeir samþykktir samhljóða.
Kosningar
Kjósa átti tvo aðalmenn í stjórn í stað Magnúsar og Sigríðar. Magnús bauð sig fram áfram og kynnti hann sig fyrir fundargestum. Hann er frá Æðey í Ísafjarðardjúpi og hefur verið viðloðinn æðarrækt frá unga aldri. Var hann kosinn áfram með lófaklappi.
Ragna S. Óskarsdóttir framkvæmdastjóri Íslensks dúns bauð sig einnig fram í stjórn en hún gat ekki mætt á fundinn. Margrét kynnti hana og var hún kosin með lófaklappi.
Einnig átti að kjósa einn í varastjórn. Herdís Steinsdóttir frá Hrauni á Skaga bauð sig fram en var ekki fundinum. Margrét las upp kynningu frá henni en hún er með doktospróf í líffræði og hefur tekið þátt í umhirðu æðarvarpsins á Hrauni frá blautu barnsbeini. Var hún kosin með lófaklappi.
Að lokum bað fundarstjóri formanna að lesa upp nýja stjórn en hana skipa:
Margrét Rögnvaldsdóttir formaður, Erla Friðriksdóttir varaformaður, Magnús Jónasson gjaldkeri, Helga María Jóhannesdóttir ritari og Ragna S. Óskarsdóttir meðstjórnandi. Mun stjórn mögulega skipta með sér verkum á ný.
Í varastjórn eru Hallur Þorsteinsson og Herdís Steinsdóttir.
Klappað var fyrir Sigríði og Pálma sem voru að fara úr stjórn og þeim þakkað vel unnin störf.
Að þessu loknu bað formaður fundargesti um að kynna sig.
Markaðs- og sölumál
Erla Friðriksdóttir, varaformaður, fór yfir stöðuna varðandi sölu- og markaðsmál.
Í tölum hagstofunnar eru tvær tölur, annars vegar hreinsaður dúnn og hins vegar hreinsaður og þveginn dúnn. Erla setti þessar tölur saman. Miklar sveiflur hafa verið milli ára í sölu og útflutningi á dún. 2010 og 2016 voru toppár í sölu á æðardún en síðan fór að halla undan fæti en hefur verið á uppleið aftur. Allar birgðar sem söfnuðust upp á þessum árum hafa verið seldar og mikil eftirspurn hefur verið eftir dún síðustu ár en ekki verið meira til. Í dag er því umfram eftirspurn eftir dúni. Árið 2022 var seldur 2.200 kg. en í fyrra fór út 2.600 kg. Svo virðist vera sem það sé minna magn af dúni í ár en verið hefur sem líklega má rekja til veðráttunnar í vor.
Útflutnigsverðmæti æðardúns árið 2023 var 663 milljónir kr. og hefur verð á kg. farið hækkandi frá 2021. Árið 2016 var toppár í sölu en þá fór verðið upp í 200 þúsund og fór svo lækkandi aftur. Árið 2021 fór salan að taka við sér á ný og verðið að hækka.
Árið 2023 var mest selt af dúni til Þýklands en Japan var í öðru sæti. Það sem af er ári 2024 er Þýskaland langstærst kaupandinn og Japan töluvert minni.
Nýlega er byrjað að flytja út æðardúnssvefnpoka en árið 2021 fóru 30 kg af svefnpokum út til Þýskalands að verðmæti 4,7 milljónir og árið 2023 fóru 4 kg af svefnpokum út til Bandaríkjanna og verðmætið er tæpar 600 þúsund kr.
Erfitt getur reynst að finna út hversu mikið magn af dúni fer út með æðardúnssængum. Samkvæmt Elíasi sem fór yfir þessar tölur í fyrra þá er 20 – 30 % af heildarþyngd sængurinnar dúnn. Samkvæmt því fór um 200 kg. af dún í sængur sem fluttar voru út í fyrra.
Útflutningsverðmæti æðardúnssænga árið 2023 var 200 milljónir en var 225 milljónir árið áður. Það sem af er árinu 2024 er útflutningverðmætið komið upp í 106 milljónir. Þegar þessum tölum er bætt við útflutninsverðmæti æðardúns þá er verðmætið komið upp í milljarð.
Langstærsti markaðurinn fyrir æðardúnssængur árið 2023 var Bretland en Bandaríkin og Kína koma þar á eftir. Það sem af er árið 2024 eru það Bandaríkin sem eru langstærsti markaðurinn. Ekki er hægt að segja til um hvort koddar séu inni í þessum tölum.
Íslandsstofa og ÆÍ
Margrét Rögnvaldsdóttir fór yfir stöðuna varðandi samstarf Íslandsstofu og og ÆÍ.
Hún byrjaði á að sýna myndband sem félagið kostaði og var unnið með Íslandsstofu. Myndbandið er á heimsíðunni eiderdownoficeland.com sem sett var upp með Íslandsstofu eftir vinnustofurnar sem margir aðilar tóku þátt í á sínum tíma. Til að halda verkefninu gangandi þá var farið í það að búa til fleiri sögur úr æðarvörpum og eru þær að finna á heimsíðunni.
Í vor fóru Joe og Eygló og heimsóttu æðarvörp á Vesfjörðum og Vesturlandi. Hann tekur myndir og hún skrifar texta. Úr þessu urðu til sjö sögur sem komnar eru inn á heimasíðuna. Þessar myndir og texta á síðan að nota í minni sögur sem á að birta á Inspired by Iceland til að vekja áhuga á æðardún og æðarrækt. Íslandsstofa geymir þetta fyrir félagið og útvegar sérfræðiþjónustu okkur að kostnaðarlausu. ÆÍ hefur kostað myndatökuna á myndbandinu og myndökur á þessum heimsóknum. Annað hefur Íslandstofa séð um
Íslandsstofa og ÆÍ hafa ákveðið að halda áfram með verkefnið og reyna að fá meiri styrk fyrir það. ÆÍ hefur nú þegar sótt um styrk til Matvælasjóðs til að halda því gangandi. Áformað er að þau Joe og Eygló heimsæki æðarvörp á Norðurlandi næsta sumar og búa til sögur úr þeim.
Mikill áhugi virðist vera á þessum myndböndum úti í heimi því Inspired by Iceland og Íslandsstofa hafa aldrei fengið annað eins áhorf og á myndbandi sem fór inn í lok júlí.
Ábending kom úr sal um að erfitt sé að finna þessar sögur og myndbönd inni á heimsíðu Inspired by Iceland.
Kynning á nýju vörumerki ÆÍ
Margrét Rögnvaldsdóttir sá um þessa kynningu.
Eitt af verkefnum með Íslandstofu var hugmynd um að búa til nýtt merki fyrir vörur úr æðardún. Er það auk þess mikilvægur þáttur í tengslum við verndaða afurðaheitið. Félagsmerkið okkar sem annars er mjög fallegt hentar ekki til að nota í þeim tilgangi. Leitað var til grafísks hönnuðar sem Íslandsstofa hefur mikið notað sem heitir Óskar og hefur hann komið með tillögu að vörumerki sem hefur yfirheitð Eiderdown of Iceland.
Hannaðar hafa verið þrjár samsetningar af merkin sem hægt er að nota með margskonar bakgrunni sem Margrét sýndi á fundinum.
Næsta skref í þessari vinnu er að fá einkaleyfi fyrir merkinu hjá Hugverkastofu og sækja um verndaða afurðaheitð fyrir áramót. Merkið verður síðan kynnt félagsmönnum og búið til ferli til þess að þeir geti fengið að nýta merkið. Merkið verður skráð undir umsókn um verndað afurðaheiti á heimasíðu félagsins. Í framhaldi af því, eða á næsta ári verður sótt um að fá Evrópumerkið inn. Stefnt er að því að hafa aðalfund í Reykjavík í nóvember á næsta ári. Þá mun íslenska vörumerkið komið inn og umsóknin til Evrópu farin og kannski komin.
Áformað er að sækja um styrk til MAST í febrúar á næsta ári og verður líklega fenginn aðili frá MAST til að aðstoða við gerð umsóknarinnar. Vonir eru bundnar við það að fá styrk og kallað verður eftir fundi með ráðherra fyrir jól.
Fyrirspurn kom um það hvort ekki fylgdi mikill kostnaður við það að fá einkaleyfi. Því var svarað að ekki fylgdi því mikill kostnaður en gerð merkisins kostaði um 5-600 þúsund kr. Félagið á merkið og þarf að skrá það hjá Hugverkastofu og er ætlunin að skrá það einnig sem menningararf.
Þetta verkefni hefur setið á hakanum vegna mikils tíma sem fór í vinnu í kringum dúnmatið.
Fundarmenn voru sammála um að merkið væri mjög fallegt.
Kynning á úttekt MAST á hreinsistöðvum
Erla Friðriksdóttir sagði frá nýjum reglum á vottorðum á dúni sem fluttur er inn til Kína og úttekt MAST á hreinsistöðvum.
Í sumar kom upp sú staða að ekki var hægt að leysa út dún úr tolli í Kína sem þangað hafði verið seldur. Þetta var vegna breytinga á reglum þar í landi sem gera kröfu um að hreinsistöðvar æðardúns á Íslandi séu teknar út og vottaðar af einhvers konar matar- og dýralæknis yfirvöldum. Einnig að dúnninn sé löglega tíndur af villtum æðarfugli, að hann hafi verið hitameðhöndlaður, þ.e. hitaður í 120 gráður í að lágmarki 8 klst., og að dúnninn sé hreinn og þurr og laus við allar mengunarbakteríur. Þá er líka gerð krafa um að pakkningarnar séu merktar og viktaðar og númeraðar með númeri hreinsistöðvar. Að auki þarf geymsla æðardúnsins að standast hreinlætiskröfur og geyma þarf hreinsaðan dún á öðrum stað en óhreinsaðan til þess að tryggja að engin krossmengun geti átt sér stað.
MAST ákvað að bregðast við þessu og barst ÆÍ bréf í framhaldi þar sem fram kemur að þó dúnframleiðsla sem slík falli ekki undir eftirlit MAST þá sé MAST lögbært yfirvald hvað dýrasjúkdóma varðar og því falli það í skaut stofnunarinnar að gefa út vottorð vegna útflutnings á dúni.
Í bréfinu kemur einnig fram að MAST sé að vinna að því að gera verklag í kringum þetta og þær hreinsistöðvar sem ætli sér að flyta út dún til Kína verði að sækja um að fá úttekt og skráningarnúmer. Þá er einnig tekið fram hvað fylgja þurfi slíkri umsókn.
Mast óskaði eftir upplýsingum um þá aðila sem eru að hreinsa og flytja út dún og sendi þeim í framhaldi þessar kröfur. Þær hreinsistöðvar sem vildu gátu sótt um þessa úttekt og þurftu m.a. að vera með grunnteikningu af hreinsistöðinni og sýna flæði dúnsins um hana. Að lokum kemur úttektaraðili frá MAST og gengur úr skugga um að þetta sé í lagi. Þeir skoða sérstaklega hvort komið sé í veg fyrir krossmengun, að meindýravörnum sé sinnt og að hreinn dúnn komist ekki í snertingu við gólf þó hann sé kominn í umbúðir. Þrjár hreinsistöðvar eru nú þegar komnar með úttekt, Grunney á Höfnum á Skaga, Íslenskur æðardúnn í Stykkihólmi og RB hreinsun í Borgarnesi.
Boðið var upp á umræður um þennan lið.
Miklar umræður spunnust út frá þessum lið. M.a. var spurt hvort þessi Kínamarkaður væri álitlegur ef gengið er að þeirra kröfum. Erla svaraði því til allt væri álitlegt, eftir því sem eftirspurnin eykst hækkar verð dúnsins þar sem hann er takmörkuð auðlind og ÆÍ vinnur að því öllum stundum að tryggja það að æðarbændur fái sem mest fyrir dúninn sinn. Einnig var spurt um það hvort fleiri ríki væru að selja æðardún. Erla vitnaði í Árna Snæbjörnsson fyrrverandi ráðunaut en hann áætlaði að um 4.000 kg af æðardúni féllu til á hverju ári í heiminum, þar af væri 3.000 kg frá Íslandi, 500 kg frá Kanada og hin 500 skiptust niður á Noreg, Færeyjar, Svalbarða, eitthvað frá Grænlandi og mögulega eitthvað frá Rússlandi.
Sú sem hreinsaði dúninn sem sat fastur í tollinum í Kína sagði frá því að hún hefði enn ekki verið beðin um vottunarnúmer og því teldi hún að dúnninn sæti þar enn fastur. Hún velti því fyrir sér hvort hver sem er gæti notað númer hreinsistöðvar án þess að eigendur vissu af. Taldi Erla að svo ætti ekki að vera hægt. Mögulega gætu útflytjendur, sem ekki hreinsa sjálfir, notað númer hreinsistöðvarinnar en taldi þetta vera umhugsunarvert og mikilvægt væri að skoða þetta nánar. Senda þurfi fyrirspurn á MAST, þar sem það getur verið snúið þegar útflutningsaðili er annar en sá sem hreinsar, og grennslast fyrir um þetta. Það þyrfti að vera eitthvað kerfi hjá MAST sem sannreynir að rétt númer sé notað.
Erla sagði að búið værii að biðja um fund með MAST og þetta væri eitt af því sem fara þyrfti yfir. Á heimasíðu MAST er að finna upplýsingar um þær hreinsistöðvar sem komnar eru með úttekt en hún vissi ekki hvort vottunarnúmerið kæmi fram þar.
Því hefur verið haldið fram að MAST sé að stimpla vottorðin án þess að athuga að allt sé samkvæmt reglum en Erla hefur þó þurft að sýna fram á að hún hiti dúninn í 120 gráður með því að stinga hitamæli inn í dúninn. Einhver viðleitni virðist því vera til að fylgja þessu eftir en að öðru leyti er þetta stjórnsýslu aðgerð þar sem send er inn umsókn og þeir stimpla vottorðið.
Spurt var hvort hægt væri að nota vottorðin í fleiri löndum en Kína. Vottorðin eru gefin út bæði á kínversku og ensku og því ætti það að vera hægt en hafa þarf í huga að mögulega eru misjafnar kröfur í hverju landi hvað varðar innflutning. Önnur lönd hafa t.d. ekki verið að gera þess kröfu um vottun hingað til.
Fyrirspurn kom um kostnað vegna þessarar vottunar og áhyggjur af því að MAST væri með þessu orðinn milliliður á milli erlendra kaupenda og dúnbænda/útflutningsaðila látnar í ljós, í stað þess að við réðum öllu ferlinu sjálf.
Erla svaraði fyrirspurn um kostnað en hann var um 50.000 kr. fyrir úttekt á hreinistöðinni en vissi ekki hvort um árlega úttekt væri að ræða. Þá taldi hún að við gætum ekki ráðið við þær kröfur sem lönd gerðu um hreinlæti og smitvarnir á þeim vörum sem þeir flytja inn, líkt og við gerum ákveðnar kröfur um innflutning á dýrum. Lönd vilja verja sín landamæri.
Þá kom fram ábending um að við þyrftum að passa vel upp á meðferð æðardúnsins þar sem við værum að fá betri gæði á vörunni ef rétt er farið með hann. Æðarbóndi sem sendir inn vel meðhöndlaðan dún til hreinsunar fær betri nýtingu úr dúninum og þar með meira verð fyrir hann. Hugmynd kom fram um að félagið myndi útbúa myndband um það hvernig meðhöndla á dún. Margrét minnti á að haldin hafa verið námskeið hjá ÆÍ um meðferð dúns.
Erla áréttaði að einungis 1. flokks dúnn væri söluvara samkvæmt lögum. Fyrir kemur að dúnn fái ekki mat hjá dúnmatsmanni og þá þarf að skila honum aftur til bænda sem geta nýtt hann til eigin nota.
Rætt var um mismunandi aðferðir við dúnþurrkun og forhreinsun áður en dúnn er sendur á hreinistöðvar:
- Erla vildi meina að allir séu að gera sitt besta og vanda sig en misjafnar aðstæður séu hjá fólki varðandi þurrkun. Mestu skiptir að þurrka dúninn sem best og hreinsa burt egg, unga og annað sem skemmt getur dúninn. Losa um botnaklessur. Þá skiptir annað rusl ekki eins miklu máli.
- Á Laxamýri er mikið af sprekum í dúninum þar sem æðarfuglinn verpir innan um víðirunna. Með því að tína sprekin úr dúninum áður en hann fer í hreinsun verður hann léttari og hreinsunarkostnaðurinn því minni.
- Á Patreksfirði hefur ekki reynst vel að þurrka dún í hlöðu þar sem of mikill raki var til staðar en góð reynsla af þurrkun í fiskhjalli sem sérstaklega var útbúinn til þess.
- Á Skálanesi er komin góð reynsla af því að þurrka dún í litlum tilbúnum gróðurhúsum.
- Tromluþurrkun hefur yfirleitt ekki gefið góða raun þar sem dúnninn virðist vindast utan um ruslið. Slíkur þurrkari er þó notaður í Norðurkoti með góðum árangri.
- Í Æðey var amerískur tromluþurrkari notaður áður í neið en þau hafa hætt því fyrir löngu. Nú þurrka þau dúninn einvörðungu með því að breiða hann út á segl í góðu veðri eða hafa hann á grindum og hreyfa hann sem minnst á meðan hann er að þorna.
- Akrýldúkar hafa reynst vel til að hafa yfir dúninum því hann hitar dúninn.
- Í Hvalllátrum hafa þau góða reynslu af því að vera sem minnst að hreyfa við dúninum á meðan hann er að þorna. Dúnninn er hitaður í potti sem gengur fyrir rafmagni þegar mikil bleytutíð er en annars þurrka þau hann á grindum og úti. Hann er síðan hristur og grófasta ruslið tínt úr.
Refa- og minkaveiðar
Daði Lang Friðriksson sem sér um refa- og minnkaveiðar í Þingeyjarsveit kom og sagði frá sínu starfi og starfsemi Bjarmalands.
Daði býr í Mývatnssveit og er atvinnumaður í refa- og minkaveiðum. Hann er starfsmaður hjá sveitarfélaginu Þingeyjarsveit. Svæði hans er Skútustaðahreppur hinn forni sem nú kallast Þingeyjarsveit og hefur hann unnið við þetta í 5 ár.
Daði veiðir aðallega mink og ref og fer stundum yfir á önnur svæði. Á síðasta ári veiddi hann 200 minka og 100 tófur. Mikil aukning hefur verið á mink en tófan er á niðurleið. Núna í september hefur hann ásamt öðrum náð 70 minkum. Daði er á föstum launum hjá sveitarfélaginu og er vinnutími hans mjög óreglulegur. Hann getur búist við að fá símtal á hvaða tíma og degi vikunnar sem er og reynir að mæta þá á svæðið. Sveitarfélagið útvegar honum bíl og hann hefur eina minkatík sem hjálpar honum mikið.
Samkvæmt Daða er það gildruveiði sem aðallega virkar á þessu svæði og tíkin lætur hann vita hvar minkinn er að finna. Þá setur hann niður gildrur eða sest upp á hól með haglabyssu og bíður. Einnig hefur hann stundað það að fara eldsnemma á morgnana þegar fengitíðin er í mars Þá er hann gjarnan búin að sjá slóðir og er fljótur að ná minknum.
Daði sagðist þó aðallega vera mættur á fundinn fyrir hönd Bjarmalands, félags refa- og minkaveiðimanna. Hann er gjaldkeri í félaginu og er verið að koma félaginu í gang aftur. Garðar Páll formaður félagsins bað hann að nefna að nú væru þeir að smíða síur sem hægt er að koma með á svæði. Þá nefndi hann hvort áhugi væri fyrir því að hann eða einhver annar myndi halda námskeið eða aðstoða menn í því að leggja minkagildrur. Kostnaður fylgir því að fá minkaveiðimenn á staðinn en þeir sem eru á svæðinu gætu kíkt sálfir í.
Daði vill sjá meiri samvinnu og samstarf á milli ÆÍ og Bjarmalands og velti því fyrir sér hvernig hægt væri að virkja það. Stakk hann upp á að einn stjórnarmaður væri í sambandi við stjórnarmann í Bjarmalandi og væri þá milligöngumaður á milli æðarbænda sem lenda i vandræðumn og Bjarmalands eða veiðimanns á svæðinu. A.m.k. þurfi að finna leið sem virkar og hentar.
Daði talaði um að það ríkti ekki alltaf skilningur hjá sveitarstjórnum um mikilvægi þess að halda niðri ref og mink og einnig spilar peningasjónarmið stóran þátt í því hvort þessu er sinnt að einhverju marki.Velti hann því fyrir sér hvort ÆÍ gæti haft áhrif inn í sveitarfélögin því mikilvægt sé að hafa þetta í lagi um allt land.
Boðið var upp á umræður og fyrirspurnir um þennan lið.
Í umræðum kom fram að síurnar sem verið er að smíða eru eru svipaðar þeim og Reynir Bergsveinsson notaði með góðum árangri. Síurnar eru annað hvort smíðaðar í steinrör eða í plaströr. Spurning hvort einhverjir sem eru að vitja um gömlu síurnar hans Reynis gætu miðlað af sinni reynslu og þekkingu.
Reynst hefur vel að setja hænsnanet á girðingarstubba sem eru ofan í ám eða vötnum og síðan rör þar við. Stýringin er þá hænsnanetið.
Norðausturfélagið á Merakkasléttu er mjög virkt og þar er mikið af gömlum rörum sem veiða vel. Notaður er goggur til að fara ofan í rörin til að ná minknum. Félagið væri til í að vera með í tilraunum í kringum þetta og borga kostnað við það.
Á Patreksfirði fá þeir borgað 7.000 kr. fyrir skottið og 1.600 kr. fyrir afkvæmið. Ekkert er borgað fyrir minkaveiði. Öll önnur veiði er upp á sport. Síur frá Reyni hafa virkað mjög vel.
Friðun á tófunni maí, júní og júlí er að valda miklum vandræðum. Á þeim tíma má ekki taka greni en má skjóta læður sem koma í varpið. Þarna ræður náttúruverndarsjónarmið.
Landeigendur þurfa í raun að gefa leyfi til veiða á sinni jörð. Veiðimenn hafa litið þannig á það að á meðan þeim er ekki bannað það þá megi þeir það.
Fyrirspurn kom um hvort hægt væri að fá Daða til að koma á Tjörnes sem er ekki hans svæði og taldi hann svo vera þrátt fyrir að á því svæði væri veiðimaður sem skipaður er af sveitarfélaginu. Landeigendur gætu ráðið sér grenjaskyttu.
Misjafnar skoðanir eru um hvernig veiðum skuli háttað. Sumir eru á því að eingöngu eigi að vera vetrarveiði á meðan aðrir vilja eingöngu hafa grenjaveiði. Telur Daði að öll veiði sé best í bland. Vandamálið sé hins vegar að það er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum hvernig að þessu er staðið og hvernig er borgað fyrir veiðarnar. Daði er á föstum launum hjá sínu sveitarfélagi en aðrir fá borgað fyrir skott.
Formaður var ánægð með að fá samtalið og samstarfið við Bjarmalandi og finnst nauðsynlegt að samræma þessar veiðar um landið. ÆÍ er tilbúið til að auglýsa fyrir Bjarmaland þessar síur/rör ef þeir útbúa auglýsingu. Hægt væri að fá kennslu/námskeið á svæðin þar sem deildirnar starfa svo kostnaður myndi dreifast á marga.
Að lokum var ÆÍ hvatt til þess að ýta á sveitarfélögin svo þau standi við skyldur sínar af því að veiða ref og mink.
Hádegishlé
Þá var gert hlé á fundinum á meðan boðið var upp á hádegisverð, súpu og brauð, sem fundarmenn gerðu góð skil.
Kynning á tillögum að breytingu á reglugerð um dúnmat.
Þá var komið að því að kynna tilögur að breytingum á reglugerð um dúmat. Var það í höndum Margrétar Rögnvaldsdóttur að kynna þann lið.
Sagði hún að stjórn hefði haldið áfram að vinna samkvæmt samþykktum ályktunum frá síðasta aðalfundi. Guðrún Gauksdóttir var fengin í þá vinnu að skoða þetta með stjórn sem ráðgefandi lögmaður. Hún gat ekki verið með okkur á fundinum en bað fyrir kveðju. Margrét las upp ályktanir sem samþykktar voru um mikilvægi þess að lög um gæðamat á æðardúni héldi gildi sínu og að stjórn ÆÍ færi í viðræður við ráðuneytið um áframhaldandi skoðun á dúnmati og framkvæmd þess samkvæmt núgildandi lögum og að stjórn ÆÍ vinni áfram með IDFL að staðli fyrir íslenskan æðardún.
Margrét ítrekaði að í dag geta allir sem vilja keypt þessa þjónustu af IDFL og hafa margir gert það.
Ástæður þess að breyta þurfi núgildandi kerfi:
- Aðlaga þarf kerfið að aukinni sölu að fullframleiddum vörum, t.d. sængum og smávörum.
- Vottorðið er frekar stórt og hentar ekki á minni vörur.
- Lögin setja gæðavottorðinu ramma.
- Sveigjaneiki er fyrir hendi að breyta reglugerð án þess að breyta lögunum sjálfuum.
Fyrst áfanginn í þessari vinnu er að efla virkni dúnmatskerfisins. Leggja þarf mat á það hvort gæðavottunarkerfið sé nægilega virkt. Stjórn leggur til að breyta þessu að því leytinu að utanumhald og eftirlit verði í höndum MAST en ekki ráðuneytisins. Skipun dúnmatsmanna og leyfissvipting gæti verið áfram í höndum ráðuneytisins eins og það er í dag skv. lögum en eftirlit gæti verið í höndum MAST, samskipti við dúnmatsmenn, afhending vottorðabóka, skráning og afhending tækja og móttaka við starfslok eða þegar fólk er ekki lengur með leyfi. MAST gæti þá tekið við og haldið utan um skýrslurnar og fylgst með því hvort dúnmatsmenn séu að uppfylla starfsskyldur sínar og fara eftir reglum. MAST myndi síðan senda ráðuneytinu skýrslu árlega um gang mála.
Annar áfangi væri síðan að aðalaga dúnmatskerfið að fullframleiddri vöru. Skoða þarf þá möguleika sem við höfum til að breyta kerfinu án þess að breyta lögunum, t.d. með því að útbúa minni vottorð fyrir fullframleidda vöru og sleppa plastinu utan af því. Flóknara gæti orðið að finna leið til að votta tilgreinda þyngd fullunninnar vöru. MAST gæti verið með hugmyndir um það hvernig hægt væri að leysa þetta vandamál ef þeir fást í þetta samstarf.
Boðið var upp á umræður um þetta málefni.
Helga Björk dúnmatsmaður kom fram með þá skoðun að hún vill taka út alla svæðisskiptingu dúnmatsmanna og hafa bara eitt svæði. Taldi hún meiri líkur á skyldleika dúnmatsmanna við dúnbændur/framleiðendur ef þeir eru innan sama svæðis.
Ekki voru allir sammála því og töldu rétt að halda áfram með svæðisskiptingu svo dúnmatsmenn myndu ekki safnast saman á einn stað, t.d. á höfuðborgarsvæðið, en þeir gætu samt haft leyfi til að meta af öðru svæði. Þá væri mikilvæg að sjá til þess að hafa áfram sérfræðinga í dúni til að meta æðardún en ekki MAST, þó stofnunin geti sinnt eftirliti með þeim.
Erla áréttaði að tryggja þurfi dreifingu dúnmatsmanna um landið.
Þá kom fram í umræðum að vöntun hefur verið á dúnmatsmönnum í sumum landssvæðum á og óskað hefur verið eftir fjölgun. Þeir sem sótt hafa námskeið í dúnmati hafa ekki allir skilað sér sem dúnmatsmenn. Kveðið er á um ákveðinn fjölda dúnmatsmanna yfir landið og krafa er gerð um það að þeir séu með þekkingu og reynslu af æðardún. Sækja þarf sérstaklega um að verða dúnmatsmaður til ráðuneytisins.
Kosningar um tillögur og ályktanir
Eftirfarandi ályktanir voru bornar upp á fundinum til samþykktar:
Ályktun
,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 28. september 2024 í Vökuholti að Laxamýri samþykkir að stjórn félagsins hefur leyfi til þess að halda áfram með vinnu á þróun dúnmatskerfisins með því að fara í frekara samtal við Ráðuneytið og MAST“.
Ályktunin var samþykkt samhljóða.
Ályktun
,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 28. september 2024 í Vökuholti að Laxamýri hvetur stjórnvöld og sveitarstjórnir til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitafélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra. Æðarræktarfélagið mælist til þess að sveitarfélög haldi utan um tjón í æðarvörpum og tilkynni þau til Umhverfisstofnunar, eins og segir til um í samningi þeirra við Umhverfisstofnun“.
Ályktunin var samþykkt samhljóða.
Ályktun
,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 28. september 2024 í Vökuholti að Laxamýri samþykkir að stjórn félagsins hafi leyfi til að fara til frekari samstarfs við Bjarmaland.
Ályktunin var samþykkt samhljóða.
Önnur mál
Til máls tók fulltrúi fyrir nokkra aðila frá Harðbak I en hún kom með þau skilaboð frá sínu fólki að sjá til þess að Margrét yrði áfram formaður. Fleiri tóku ekki til máls undir þessum lið.
Fundarstjóri þakkaði fundargestum fyrir komuna og var fundi slitið kl. 13:50.
Helga María Jóhannesdóttir
ritari