55. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2024

Aðalfundur ÆÍ 28. október 2024 í veiðiheimilinu Vökuholti á Laxamýri

54. aðalfundur ÆÍ haldinn í veiðiheimilinu Vökuholti á Laxamýri, 28. október kl. 10:00.

Margrét Rögnvaldsdóttir formaður bauð félagsmenn velkomna á aðalfund félagsins sem haldinn var bæði sem fjarfundur og staðfundur. Hún stakk upp á Atla Vigfússyni sem fundarstjóra og Helgu Maríu Jóhannesdóttur sem fundarritara.Var það samþykkt. Mættir voru 32 félagsmenn en 2 voru á fjarfundi.

Atli þakkaði það traust sem honum var sýnt og bauð fundargesti velkomna að Laxamýri. Hann kynnti staðinn og sögu hans og sagði frá æðarvarpinu sem þarna er og hans reynslu og upplifun af því í gegnum tíðina.

Að því loknu hófst dagsskrá fundarins.

 

Skýrsla stjórnar og reikningar

Skýrsla stjórnar

Margrét Rögnvaldsdóttir formaður kynnti skýrslu stjórnar.

Í stjórn félagsins eru Margrét Rögnvaldsdóttir formaður, Erla Friðriksdóttir varaformaður, Magnús Jónasson gjaldkeri, Helga María Jóhannesdóttir ritari og Sigríður Magnúsdóttir meðstjórnandi. Í varastjórn eru Pálmi Benediktsson og Hallur Þorsteinsson.

Aðalfundur var síðast haldinn í Landbúnaðarháskóla Íslands að Keldum, í nóvember 2023.

Stjórn er dreifð um landið og hefur haldið stjórnarfundi í gegnum fjarfundarbúnað. Stjórn hefur haldið áfram starfinu og haft að leiðarljósi þær ályktanir sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi í nóvember í fyrra, m.a. í sambandi við dúnmatið. Síðar á fundinum verða síðan kynntar tillögur að breytingu á reglugerð um dúnmat.

Ályktanirnar voru sendar á Matvælaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisráðuneytið, Steinar sem er með minka- og refveiðar og til þingmanna sem voru með þingamannatilllögu um breytingar á dúnmati eða niðurfellingu á þeim.

Verkefni með Íslandsstofu

Félagið hefur ekki fengið styrk til áframhaldandi markaðskynningu sem búið var að ákveða með Íslandstofu og átti að byrja í Bandaríkjunum. Búið er að breyta Framleiðnisjóð í Matvælasjóð og samkvæmt reglum hans getur félagið ekki sótt um styrk í hann. Félagið hefur verið í sambandi við ráðuneytið út af þessu. Formaður nýtti tækifærið þegar Bjarkey Gunnarsdóttir matvælaráðherra var í heimsókn á Raufarhöfn og fékk fund með henni. Fór hún yfir þessa hluti með ráðherranum sem tók vel í þessar hugmyndir. Vonir standa til að breytingar verði gerðar á reglugerð þannig að ÆÍ geti sótt um styrk til Matvælasjóðs.

Ákveðið var samt sem áður að halda áfram með verkefnið og farið var í það að heimsækja æðarvörp á Vesturlandi og Vestfjörðum til þess að búa til fleiri sögur sem birtar eru á vef Íslandsstofu. Betur verður gerð grein fyrir þessu verkefni síðar á fundinum.

Íslandsstofa hefur aðstoðað ÆÍ og sendiráðið í Bandaríkjunu við að liðka fyrir sölu á æðardún og vörum úr æðardún til Bandaríkjanna. Það er leyfilegt að selja fullunnar vörur til Bandaríkjanna með því að láta fylgja með yfirlýsingu sem allir félagar í ÆÍ hafa fengið sent, en ekki hefur fengist leyfi til að selja hrádún.

Ragnhildur í sendiráðinu í Bandaríkjunum hefur aðstoðað okkur í samskiptum við U.S Fish&Wildlife Service og stjórnvöld í USA.  Þeir aðilar hafa sent á okkur ramma sem þeir telja að þurfi að koma fram til að fá leyfið fyrir sölu á hrádún í USA.  Guðrún Gauksdóttir setti upp texta sem við fórum yfir með starfsmönnum Matvælaráðuneytis og Umhverfisráðuneytis.  Því þetta gengur út á það að stjórnvöld á Íslandi staðfesti umbeðin atriði, vegna þess að æðarfuglinn er alfriðaður á Íslandi, svo stjórnvöld í USA geti samþykkt innflutning á hrádún.  Starfsmenn ráðuneytanna gáfu samþykki sitt fyrir textanum og hann er nú til umfjöllunar hjá áðurnefndum samstarfsaðilum í USA.

Umsókn um styrk úr Matvælasjóði

Á árinu var leitað til Margrétar fyrrverandi formanns Matvælasjóðs varðandi umsókn um styrk úr sjóðnum. Hún taldi ólíklegt að félagið gæti fengið styrk miðað við núverandi reglugerð. Stjórn hefur samt sem áður ákveðið að sækja um í Matvælasjóð í febrúar og láta reyna á þetta og fá til þess utanaðkomandi aðstoð. Milvægt er að fá styrk úr sjóðnum til að halda áfram að kynna æðardún, æðarrækt og æðarfugl á mörkuðum og byrja þá á Bandaríkjamarkaði.

Úttekt á hreinsistöðvum

Mast hafði samband við ÆÍ vegna fyrirspurnar sem kom frá Kína þar sem farið var fram á að úttekt væri gerð á dúnhreinsistöðvum. ÆÍ gaf MAST upplýsingar um hverjir væru að hreinsa æðardún en til þess að hægt sé að flytja út dún til Kína þurfa hreinsistöðvar að fá þessa úttekt.

Erla mun fara betur yfir þetta mál síðar á fundinum.

Vinna við verndað afurðaheiti

Áframhaldandi vinna hefur staðið yfir varðandi verndaða afurðarheitið fyrir íslenskan æðardún og mun Margrét fara yfir þá vinnu um leið og hún kynnir nýtt vörumerki sem ÆÍ lét útbúa. Til að sækja um verndað afurðaheiti þarf að skila inn vörumerki fyrir það. Allir sem selja vöru úr dún eiga að geta nýtt sér þetta vörumerki. Eftir að ÆÍ er komið með verndaða afurðaheitið á Íslandi getur það sótt um að fá það einnig í Evrópu. Félagið hefur verið í sambandi við Hafliða Halldórsson hjá Icelandic lambs en hann hefur boðið fra aðstoð sína þar sem hann hefur reynslu af slíkri vinnu.

Friðlýsing æðarvarpa

Fyrirspurn barst frá aðila sem heldur utan um komur skemmtiferðaskipa um friðlýsingu æðarvarpa. Þrátt fyrir að friðlýsingin sé skráð á vef sýslumanns og þar komi fram hvar þessi vörp eru þá getur það reynst erfitt fyrir skipstjóra skemmtiferðaskipa að átta sig á því. Margrét benti á kortagrunninn sem við erum með en á því korti eiga að koma fram öll friðlýst æðarvörp og þar með þau sem liggja að sjó. Sigríður Magnúsdóttir fráfarandi stjórnarmaður tók að sér að fara yfir hvaða æðarvörp eru friðlýst og uppfæra það í kortagrunninum. Stefnt er að því að uppfæra kortagrunninn einu sinn á ári að vori. Formaður hvatti æðarbændur til að friðlýsa sín æðarvörp. Kortið er hægt að finna á heimasíðu félagsins.

Beðið var með umræður um skýrslu stjórnar þar til reikningar höfðu verið kynntir.

Reikningar

Magnús Helgi Jónasson, gjaldkeri, fór yfir ársreikninga félagsins fyrir árið 2023 en þeir voru unnir sem fyrr af KPMG og yfirfarnir af skoðunarmönnum reikninga ÆÍ.

Rekstrartekjur voru svipaðar á milli ára, hafa aukist aðeins og eru rúmar tvær milljónir. Gjöldin 2023 voru rúm milljón en árið 2022 voru þau rúmar 5,6 milljónir. Í innra starf fór 637.767 kr. Rekstarafkoma ársins var jákvæð um 638.194 kr. og heildarafkoma ársins er jákvæð um 1.433.720 kr. en til samanburðar var hún neikvæð um rúmar 3,2 milljónir 2022.

Eignir eru samtals eru 15.971.256 kr. og hafa aukist um tæpar tvær milljónir frá árinu 2022. Eigið fé félagsins nam 14.828.569 kr. Skammtíma skuldir félagsins nema 1.142.687 kr. og er stærstur hluti þeirra, eða 653.234 kr., greiðsla sem kom frá Æðarræktarfélagi Austurlands sem ÆÍ er að geyma fyrir félagið þar til hægt er aðendurgreiða þeim aftur. Restin er greiðsla til KPMG og Landbúnarháskólans en það voru reikningar sem ekki voru greiddir fyrr en í janúar 2024.

Handbært fé félagsins hefur aukist á milli ára og var í árslok 3.982.264 kr.

Helstu kostnaðarliðir undir markaðsstarfi eru markaðsefni, heimasíðan og auglýsingar.

Þá kynnti gjaldkeri fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 þar sem gert er ráð fyrir tekjum upp á 2.845.000 kr. Stærstur hluti af því eru félagsgjöld eða 2 milljónir kr. Gert er ráð fyrir gjöldum upp á 3,7 milljónir sem færu í markaðsstarf, innra starf og aðkeypta þjónustu.

Árgjaldið í félagið var hækkað úr 7.000 kr. í 10.000 kr. á síðasta aðalfundi. Stjórn lagði til að félagsgjaldið yrði nú hækkað upp í 10.500. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Í umræðum kom fram hugmynd úr sal hvort borga ætti stjórn einhver laun fyrir hennar störf sem mögulega gætu dekkað hluta af kostnaði sem hún verður fyrir. Margrét formaður taldi þetta verðuga athugassemd og taldi rétt að greiða fyrir vinnu umfram venjuleg stjórnarstörf. Tók hún sem dæmi að hún sótti um styrk hjá Matvælaráðuneytinu fyrir stuttu síðan og tók sú vinna þrjá og hálfan tíma. Þá fannst henni rétt að skoða hvort borga ætti útlagðan kostnað þegar stjórnarfundir væru ekki í fjarfundi, t.d. ferðakostnað.

Þá kom fram fyrirspurn um hversu margir væru skráðir í félagið. Margrét svaraði því til að það væru fleiri en 300 en erfitt hefur reynst að halda utan um félagaskrá. Félagsmenn eru sumir að borga seint og jafnvel gleyma því, jarðir seldar og nýir eigendur ekki skráðir eða það hafa orðið kynslóðaskipti. Hefur hún fengið Helgu Björgu til að fara yfir félagatalið til að ná inn nýjum félögum þar sem skipti hafa orðið á eigendum jarða.

Að umræðum loknum voru reikningar bornir upp til samþykktar og voru þeir samþykktir samhljóða.

 

Kosningar

Kjósa átti tvo aðalmenn í stjórn í stað Magnúsar og Sigríðar. Magnús bauð sig fram áfram og kynnti hann sig fyrir fundargestum. Hann er frá Æðey í Ísafjarðardjúpi og hefur verið viðloðinn æðarrækt frá unga aldri. Var hann kosinn áfram með lófaklappi.

Ragna S. Óskarsdóttir framkvæmdastjóri Íslensks dúns bauð sig einnig fram í stjórn en hún gat ekki mætt á fundinn. Margrét kynnti hana og var hún kosin með lófaklappi.

Einnig átti að kjósa einn í varastjórn. Herdís Steinsdóttir frá Hrauni á Skaga bauð sig fram en var ekki fundinum. Margrét las upp kynningu frá henni en hún er með doktospróf í líffræði og hefur tekið þátt í umhirðu æðarvarpsins á Hrauni frá blautu barnsbeini. Var hún kosin með lófaklappi.

Að lokum bað fundarstjóri formanna að lesa upp nýja stjórn en hana skipa:

Margrét Rögnvaldsdóttir formaður, Erla Friðriksdóttir varaformaður, Magnús Jónasson gjaldkeri, Helga María Jóhannesdóttir ritari og Ragna S. Óskarsdóttir meðstjórnandi. Mun stjórn mögulega skipta með sér verkum á ný.

Í varastjórn eru Hallur Þorsteinsson og Herdís Steinsdóttir.

Klappað var fyrir Sigríði og Pálma sem voru að fara úr stjórn og þeim þakkað vel unnin störf.

Að þessu loknu bað formaður fundargesti um að kynna sig.

 

Markaðs- og sölumál

Erla Friðriksdóttir, varaformaður, fór yfir stöðuna varðandi sölu- og markaðsmál.

Í tölum hagstofunnar eru tvær tölur, annars vegar hreinsaður dúnn og hins vegar hreinsaður og þveginn dúnn. Erla setti þessar tölur saman. Miklar sveiflur hafa verið milli ára í sölu og útflutningi á dún. 2010 og 2016 voru toppár í sölu á æðardún en síðan fór að halla undan fæti en hefur verið á uppleið aftur. Allar birgðar sem söfnuðust upp á þessum árum hafa verið seldar og mikil eftirspurn hefur verið eftir dún síðustu ár en ekki verið meira til. Í dag er því umfram eftirspurn eftir dúni. Árið 2022 var seldur 2.200 kg. en í fyrra fór út 2.600 kg. Svo virðist vera sem það sé minna magn af dúni í ár en verið hefur sem líklega má rekja til veðráttunnar í vor.

Útflutnigsverðmæti æðardúns árið 2023 var 663 milljónir kr. og hefur verð á kg. farið hækkandi frá 2021. Árið 2016 var toppár í sölu en þá fór verðið upp í 200 þúsund og fór svo lækkandi aftur. Árið 2021 fór salan að taka við sér á ný og verðið að hækka.

Árið 2023 var mest selt af dúni til Þýklands en Japan var í öðru sæti. Það sem af er ári 2024 er Þýskaland langstærst kaupandinn og Japan töluvert minni.

Nýlega er byrjað að flytja út æðardúnssvefnpoka en árið 2021 fóru 30 kg af svefnpokum út til Þýskalands að verðmæti 4,7 milljónir og árið 2023 fóru 4 kg af svefnpokum út til Bandaríkjanna og verðmætið er tæpar 600 þúsund kr.

Erfitt getur reynst að finna út hversu mikið magn af dúni fer út með æðardúnssængum. Samkvæmt Elíasi sem fór yfir þessar tölur í fyrra þá er 20 – 30 % af heildarþyngd sængurinnar dúnn. Samkvæmt því fór um 200 kg. af dún í sængur sem fluttar voru út í fyrra.

Útflutningsverðmæti æðardúnssænga árið 2023 var 200 milljónir en var 225 milljónir árið áður. Það sem af er árinu 2024 er útflutningverðmætið komið upp í 106 milljónir. Þegar þessum tölum er bætt við útflutninsverðmæti æðardúns þá er verðmætið komið upp í milljarð.

Langstærsti markaðurinn fyrir æðardúnssængur árið 2023 var Bretland en Bandaríkin og Kína koma þar á eftir. Það sem af er árið 2024 eru það Bandaríkin sem eru langstærsti markaðurinn. Ekki er hægt að segja til um hvort koddar séu inni í þessum tölum.

 

Íslandsstofa og ÆÍ

Margrét Rögnvaldsdóttir fór yfir stöðuna varðandi samstarf Íslandsstofu og og ÆÍ.

Hún byrjaði á að sýna myndband sem félagið kostaði og var unnið með Íslandsstofu. Myndbandið er á heimsíðunni eiderdownoficeland.com sem sett var upp með Íslandsstofu eftir vinnustofurnar sem margir aðilar tóku þátt í á sínum tíma. Til að halda verkefninu gangandi þá var farið í það að búa til fleiri sögur úr æðarvörpum og eru þær að finna á heimsíðunni.

Í vor fóru Joe og Eygló og heimsóttu æðarvörp á Vesfjörðum og Vesturlandi. Hann tekur myndir og hún skrifar texta. Úr þessu urðu til sjö sögur sem komnar eru inn á heimasíðuna. Þessar myndir og texta á síðan að nota í minni sögur sem á að birta á Inspired by Iceland til að vekja áhuga á æðardún og æðarrækt. Íslandsstofa geymir þetta fyrir félagið og útvegar sérfræðiþjónustu okkur að kostnaðarlausu. ÆÍ hefur kostað myndatökuna á myndbandinu og myndökur á þessum heimsóknum. Annað hefur Íslandstofa séð um

Íslandsstofa og ÆÍ hafa ákveðið að halda áfram með verkefnið og reyna að fá meiri styrk fyrir það. ÆÍ hefur nú þegar sótt um styrk til Matvælasjóðs til að halda því gangandi. Áformað er að þau Joe og Eygló heimsæki æðarvörp á Norðurlandi næsta sumar og búa til sögur úr þeim.

Mikill áhugi virðist vera á þessum myndböndum úti í heimi því Inspired by Iceland og Íslandsstofa hafa aldrei fengið annað eins áhorf og á myndbandi sem fór inn í lok júlí.

Ábending kom úr sal um að erfitt sé að finna þessar sögur og myndbönd inni á heimsíðu Inspired by Iceland.

 

Kynning á nýju vörumerki ÆÍ

Margrét Rögnvaldsdóttir sá um þessa kynningu.

Eitt af verkefnum með Íslandstofu var hugmynd um að búa til nýtt merki fyrir vörur úr æðardún. Er það auk þess mikilvægur þáttur í tengslum við verndaða afurðaheitið. Félagsmerkið okkar sem annars er mjög fallegt hentar ekki til að nota í þeim tilgangi. Leitað var til grafísks hönnuðar sem Íslandsstofa hefur mikið notað sem heitir Óskar og hefur hann komið með tillögu að vörumerki sem hefur yfirheitð Eiderdown of Iceland.

Hannaðar hafa verið þrjár samsetningar af merkin sem hægt er að nota með margskonar bakgrunni sem Margrét sýndi á fundinum.

Næsta skref í þessari vinnu er að fá einkaleyfi fyrir merkinu hjá Hugverkastofu og sækja um verndaða afurðaheitð fyrir áramót. Merkið verður síðan kynnt félagsmönnum og búið til ferli til þess að þeir geti fengið að nýta merkið. Merkið verður skráð undir umsókn um verndað afurðaheiti á heimasíðu félagsins. Í framhaldi af því, eða á næsta ári verður sótt um að fá Evrópumerkið inn. Stefnt er að því að hafa aðalfund í Reykjavík í nóvember á næsta ári. Þá mun íslenska vörumerkið komið inn og umsóknin til Evrópu farin og kannski komin.

Áformað er að sækja um styrk til MAST í febrúar á næsta ári og verður líklega fenginn aðili frá MAST til að aðstoða við gerð umsóknarinnar. Vonir eru bundnar við það að fá styrk og kallað verður eftir fundi með ráðherra fyrir jól.

Fyrirspurn kom um það hvort ekki fylgdi mikill kostnaður við það að fá einkaleyfi. Því var svarað að ekki fylgdi því mikill kostnaður en gerð merkisins kostaði um 5-600 þúsund kr. Félagið á merkið og þarf að skrá það hjá Hugverkastofu og er ætlunin að skrá það einnig sem menningararf.

Þetta verkefni hefur setið á hakanum vegna mikils tíma sem fór í vinnu í kringum dúnmatið.

Fundarmenn voru sammála um að merkið væri mjög fallegt.

 

Kynning á úttekt MAST á hreinsistöðvum

Erla Friðriksdóttir sagði frá nýjum reglum á vottorðum á dúni sem fluttur er inn til Kína og úttekt MAST á hreinsistöðvum.

Í sumar kom upp sú staða að ekki var hægt að leysa út dún úr tolli í Kína sem þangað hafði verið seldur. Þetta var vegna breytinga á reglum þar í landi sem gera kröfu um að hreinsistöðvar æðardúns á Íslandi séu teknar út og vottaðar af einhvers konar matar- og dýralæknis yfirvöldum. Einnig að dúnninn sé löglega tíndur af villtum æðarfugli, að hann hafi verið hitameðhöndlaður, þ.e. hitaður í 120 gráður í að lágmarki 8 klst., og að dúnninn sé hreinn og þurr og laus við allar mengunarbakteríur. Þá er líka gerð krafa um að pakkningarnar séu merktar og viktaðar og númeraðar með númeri hreinsistöðvar. Að auki þarf geymsla æðardúnsins að standast hreinlætiskröfur og geyma þarf hreinsaðan dún á öðrum stað en óhreinsaðan til þess að tryggja að engin krossmengun geti átt sér stað.

MAST ákvað að bregðast við þessu og barst ÆÍ bréf í framhaldi þar sem fram kemur að þó dúnframleiðsla sem slík falli ekki undir eftirlit MAST þá sé MAST lögbært yfirvald hvað dýrasjúkdóma varðar og því falli það í skaut stofnunarinnar að gefa út vottorð vegna útflutnings á dúni.

Í bréfinu kemur einnig fram að MAST sé að vinna að því að gera verklag í kringum þetta og þær hreinsistöðvar sem ætli sér að flyta út dún til Kína verði að sækja um að fá úttekt og skráningarnúmer. Þá er einnig tekið fram hvað fylgja þurfi slíkri umsókn.

Mast óskaði eftir upplýsingum um þá aðila sem eru að hreinsa og flytja út dún og sendi þeim í framhaldi þessar kröfur. Þær hreinsistöðvar sem vildu gátu sótt um þessa úttekt og þurftu m.a. að vera með grunnteikningu af hreinsistöðinni og sýna flæði dúnsins um hana. Að lokum kemur úttektaraðili frá MAST og gengur úr skugga um að þetta sé í lagi. Þeir skoða sérstaklega hvort komið sé í veg fyrir krossmengun, að meindýravörnum sé sinnt og að hreinn dúnn komist ekki í snertingu við gólf þó hann sé kominn í umbúðir. Þrjár hreinsistöðvar eru nú þegar komnar með úttekt, Grunney á Höfnum á Skaga, Íslenskur æðardúnn í Stykkihólmi og RB hreinsun í Borgarnesi.

Boðið var upp á umræður um þennan lið.

Miklar umræður spunnust út frá þessum lið. M.a. var spurt hvort þessi Kínamarkaður væri álitlegur ef gengið er að þeirra kröfum. Erla svaraði því til allt væri álitlegt, eftir því sem eftirspurnin eykst hækkar verð dúnsins þar sem hann er takmörkuð auðlind og ÆÍ vinnur að því öllum stundum að tryggja það að æðarbændur fái sem mest fyrir dúninn sinn. Einnig var spurt um það hvort fleiri ríki væru að selja æðardún. Erla vitnaði í Árna Snæbjörnsson fyrrverandi ráðunaut en hann áætlaði að um 4.000 kg af æðardúni féllu til á hverju ári í heiminum, þar af væri 3.000 kg frá Íslandi, 500 kg frá Kanada og hin 500 skiptust niður á Noreg, Færeyjar, Svalbarða, eitthvað frá Grænlandi og mögulega eitthvað frá Rússlandi.

Sú sem hreinsaði dúninn sem sat fastur í tollinum í Kína sagði frá því að hún hefði enn ekki verið beðin um vottunarnúmer og því teldi hún að dúnninn sæti þar enn fastur. Hún velti því fyrir sér hvort hver sem er gæti notað númer hreinsistöðvar án þess að eigendur vissu af. Taldi Erla að svo ætti ekki að vera hægt. Mögulega gætu útflytjendur, sem ekki hreinsa sjálfir, notað númer hreinsistöðvarinnar en taldi þetta vera umhugsunarvert og mikilvægt væri að skoða þetta nánar. Senda þurfi fyrirspurn á MAST, þar sem það getur verið snúið þegar útflutningsaðili er annar en sá sem hreinsar, og grennslast fyrir um þetta. Það þyrfti að vera eitthvað kerfi hjá MAST sem sannreynir að rétt númer sé notað.

Erla sagði að búið værii að biðja um fund með MAST og þetta væri eitt af því sem fara þyrfti yfir. Á heimasíðu MAST er að finna upplýsingar um þær hreinsistöðvar sem komnar eru með úttekt en hún vissi ekki hvort vottunarnúmerið kæmi fram þar.

Því hefur verið haldið fram að MAST sé að stimpla vottorðin án þess að athuga að allt sé samkvæmt reglum en Erla hefur þó þurft að sýna fram á að hún hiti dúninn í 120 gráður með því að stinga hitamæli inn í dúninn. Einhver viðleitni virðist því vera til að fylgja þessu eftir en að öðru leyti er þetta stjórnsýslu aðgerð þar sem send er inn umsókn og þeir stimpla vottorðið.

Spurt var hvort hægt væri að nota vottorðin í fleiri löndum en Kína. Vottorðin eru gefin út bæði á kínversku og ensku og því ætti það að vera hægt en hafa þarf í huga að mögulega eru misjafnar kröfur í hverju landi hvað varðar innflutning. Önnur lönd hafa t.d. ekki verið að gera þess kröfu um vottun hingað til.

Fyrirspurn kom um kostnað vegna þessarar vottunar og áhyggjur af því að MAST væri með þessu orðinn milliliður á milli erlendra kaupenda og dúnbænda/útflutningsaðila látnar í ljós, í stað þess að við réðum öllu ferlinu sjálf.

Erla svaraði fyrirspurn um kostnað en hann var um 50.000 kr. fyrir úttekt á hreinistöðinni en vissi ekki hvort um árlega úttekt væri að ræða. Þá taldi hún að við gætum ekki ráðið við þær kröfur sem lönd gerðu um hreinlæti og smitvarnir á þeim vörum sem þeir flytja inn, líkt og við gerum ákveðnar kröfur um innflutning á dýrum. Lönd vilja verja sín landamæri.

Þá kom fram ábending um að við þyrftum að passa vel upp á meðferð æðardúnsins þar sem við værum að fá betri gæði á vörunni ef rétt er farið með hann. Æðarbóndi sem sendir inn vel meðhöndlaðan dún til hreinsunar fær betri nýtingu úr dúninum og þar með meira verð fyrir hann. Hugmynd kom fram um að félagið myndi útbúa myndband um það hvernig meðhöndla á dún. Margrét minnti á að haldin hafa verið námskeið hjá ÆÍ um meðferð dúns.

Erla áréttaði að einungis 1. flokks dúnn væri söluvara samkvæmt lögum. Fyrir kemur að dúnn fái ekki mat hjá dúnmatsmanni og þá þarf að skila honum aftur til bænda sem geta nýtt hann til eigin nota.

Rætt var um mismunandi aðferðir við dúnþurrkun og forhreinsun áður en dúnn er sendur á hreinistöðvar:

  • Erla vildi meina að allir séu að gera sitt besta og vanda sig en misjafnar aðstæður séu hjá fólki varðandi þurrkun. Mestu skiptir að þurrka dúninn sem best og hreinsa burt egg, unga og annað sem skemmt getur dúninn. Losa um botnaklessur. Þá skiptir annað rusl ekki eins miklu máli.
  • Á Laxamýri er mikið af sprekum í dúninum þar sem æðarfuglinn verpir innan um víðirunna. Með því að tína sprekin úr dúninum áður en hann fer í hreinsun verður hann léttari og hreinsunarkostnaðurinn því minni.
  • Á Patreksfirði hefur ekki reynst vel að þurrka dún í hlöðu þar sem of mikill raki var til staðar en góð reynsla af þurrkun í fiskhjalli sem sérstaklega var útbúinn til þess.
  • Á Skálanesi er komin góð reynsla af því að þurrka dún í litlum tilbúnum gróðurhúsum.
  • Tromluþurrkun hefur yfirleitt ekki gefið góða raun þar sem dúnninn virðist vindast utan um ruslið. Slíkur þurrkari er þó notaður í Norðurkoti með góðum árangri.
  • Í Æðey var amerískur tromluþurrkari notaður áður í neið en þau hafa hætt því fyrir löngu. Nú þurrka þau dúninn einvörðungu með því að breiða hann út á segl í góðu veðri eða hafa hann á grindum og hreyfa hann sem minnst á meðan hann er að þorna.
  • Akrýldúkar hafa reynst vel til að hafa yfir dúninum því hann hitar dúninn.
  • Í Hvalllátrum hafa þau góða reynslu af því að vera sem minnst að hreyfa við dúninum á meðan hann er að þorna. Dúnninn er hitaður í potti sem gengur fyrir rafmagni þegar mikil bleytutíð er en annars þurrka þau hann á grindum og úti. Hann er síðan hristur og grófasta ruslið tínt úr.

 

Refa- og minkaveiðar

Daði Lang Friðriksson sem sér um refa- og minnkaveiðar í Þingeyjarsveit kom og sagði frá sínu starfi og starfsemi Bjarmalands.

Daði býr í Mývatnssveit og er atvinnumaður í refa- og minkaveiðum. Hann er starfsmaður hjá sveitarfélaginu Þingeyjarsveit. Svæði hans er Skútustaðahreppur hinn forni sem nú kallast Þingeyjarsveit og hefur hann unnið við þetta í 5 ár.

Daði veiðir aðallega mink og ref og fer stundum yfir á önnur svæði. Á síðasta ári veiddi hann 200 minka og 100 tófur. Mikil aukning hefur verið á mink en tófan er á niðurleið. Núna í september hefur hann ásamt öðrum náð 70 minkum. Daði er á föstum launum hjá sveitarfélaginu og er vinnutími hans mjög óreglulegur. Hann getur búist við að fá símtal á hvaða tíma og degi vikunnar sem er og reynir að mæta þá á svæðið. Sveitarfélagið útvegar honum bíl og hann hefur eina minkatík sem hjálpar honum mikið.

Samkvæmt Daða er það gildruveiði sem aðallega virkar á þessu svæði og tíkin lætur hann vita hvar minkinn er að finna. Þá setur hann niður gildrur eða sest upp á hól með haglabyssu og bíður. Einnig hefur hann stundað það að fara eldsnemma á morgnana þegar fengitíðin er í mars Þá er hann gjarnan búin að sjá slóðir og er fljótur að ná minknum.

Daði sagðist þó aðallega vera mættur á fundinn fyrir hönd Bjarmalands, félags refa- og minkaveiðimanna. Hann er gjaldkeri í félaginu og er verið að koma félaginu í gang aftur. Garðar Páll formaður félagsins bað hann að nefna að nú væru þeir að smíða síur sem hægt er að koma með á svæði. Þá nefndi hann hvort áhugi væri fyrir því að hann eða einhver annar myndi halda námskeið eða aðstoða menn í því að leggja minkagildrur. Kostnaður fylgir því að fá minkaveiðimenn á staðinn en þeir sem eru á svæðinu gætu kíkt sálfir í.

Daði vill sjá meiri samvinnu og samstarf á milli ÆÍ og Bjarmalands og velti því fyrir sér hvernig hægt væri að virkja það. Stakk hann upp á að einn stjórnarmaður væri í sambandi við stjórnarmann í Bjarmalandi og væri þá milligöngumaður á milli æðarbænda sem lenda i vandræðumn og Bjarmalands eða veiðimanns á svæðinu. A.m.k. þurfi að finna leið sem virkar og hentar.

Daði talaði um að það ríkti ekki alltaf skilningur hjá sveitarstjórnum um mikilvægi þess að halda niðri ref og mink og einnig spilar peningasjónarmið stóran þátt í því hvort þessu er sinnt að einhverju marki.Velti hann því fyrir sér hvort ÆÍ gæti haft áhrif inn í sveitarfélögin því mikilvægt sé að hafa þetta í lagi um allt land.

Boðið var upp á umræður og fyrirspurnir um þennan lið.

Í umræðum kom fram að síurnar sem verið er að smíða eru eru svipaðar þeim og Reynir Bergsveinsson notaði með góðum árangri. Síurnar eru annað hvort smíðaðar í steinrör eða í plaströr. Spurning hvort einhverjir sem eru að vitja um gömlu síurnar hans Reynis gætu miðlað af sinni reynslu og þekkingu.

Reynst hefur vel að setja hænsnanet á girðingarstubba sem eru ofan í ám eða vötnum og síðan rör þar við. Stýringin er þá hænsnanetið.

Norðausturfélagið á Merakkasléttu er mjög virkt og þar er mikið af gömlum rörum sem veiða vel. Notaður er goggur til að fara ofan í rörin til að ná minknum. Félagið væri til í að vera með í tilraunum í kringum þetta og borga kostnað við það.

Á Patreksfirði fá þeir borgað 7.000 kr. fyrir skottið og 1.600 kr. fyrir afkvæmið. Ekkert er borgað fyrir minkaveiði. Öll önnur veiði er upp á sport. Síur frá Reyni hafa virkað mjög vel.

Friðun á tófunni maí, júní og júlí er að valda miklum vandræðum. Á þeim tíma má ekki taka greni en má skjóta læður sem koma í varpið. Þarna ræður náttúruverndarsjónarmið.

Landeigendur þurfa í raun að gefa leyfi til veiða á sinni jörð. Veiðimenn hafa litið þannig á það að á meðan þeim er ekki bannað það þá megi þeir það.

Fyrirspurn kom um hvort hægt væri að fá Daða til að koma á Tjörnes sem er ekki hans svæði og taldi hann svo vera þrátt fyrir að á því svæði væri veiðimaður sem skipaður er af sveitarfélaginu. Landeigendur gætu ráðið sér grenjaskyttu.

Misjafnar skoðanir eru um hvernig veiðum skuli háttað. Sumir eru á því að eingöngu eigi að vera vetrarveiði á meðan aðrir vilja eingöngu hafa grenjaveiði. Telur Daði að öll veiði sé best í bland. Vandamálið sé hins vegar að það er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum hvernig að þessu er staðið og hvernig er borgað fyrir veiðarnar. Daði er á föstum launum hjá sínu sveitarfélagi en aðrir fá borgað fyrir skott.

Formaður var ánægð með að fá samtalið og samstarfið við Bjarmalandi og finnst nauðsynlegt að samræma þessar veiðar um landið. ÆÍ er tilbúið til að auglýsa fyrir Bjarmaland þessar síur/rör ef þeir útbúa auglýsingu. Hægt væri að fá kennslu/námskeið á svæðin þar sem deildirnar starfa svo kostnaður myndi dreifast á marga.

Að lokum var ÆÍ hvatt til þess að ýta á sveitarfélögin svo þau standi við skyldur sínar af því að veiða ref og mink.

 

Hádegishlé

Þá var gert hlé á fundinum á meðan boðið var upp á hádegisverð, súpu og brauð, sem fundarmenn gerðu góð skil.

 

Kynning á tillögum að breytingu á reglugerð um dúnmat.

Þá var komið að því að kynna tilögur að breytingum á reglugerð um dúmat. Var það í höndum Margrétar Rögnvaldsdóttur að kynna þann lið.

Sagði hún að stjórn hefði haldið áfram að vinna samkvæmt samþykktum ályktunum frá síðasta aðalfundi. Guðrún Gauksdóttir var fengin í þá vinnu að skoða þetta með stjórn sem ráðgefandi lögmaður. Hún gat ekki verið með okkur á fundinum en bað fyrir kveðju. Margrét las upp ályktanir sem samþykktar voru um mikilvægi þess að lög um gæðamat á æðardúni héldi gildi sínu og að stjórn ÆÍ færi í viðræður við ráðuneytið um áframhaldandi skoðun á dúnmati og framkvæmd þess samkvæmt núgildandi lögum og að stjórn ÆÍ vinni áfram með IDFL að staðli fyrir íslenskan æðardún.

Margrét ítrekaði að í dag geta allir sem vilja keypt þessa þjónustu af IDFL og hafa margir gert það.

Ástæður þess að breyta þurfi núgildandi kerfi:

  • Aðlaga þarf kerfið að aukinni sölu að fullframleiddum vörum, t.d. sængum og smávörum.
  • Vottorðið er frekar stórt og hentar ekki á minni vörur.
  • Lögin setja gæðavottorðinu ramma.
  • Sveigjaneiki er fyrir hendi að breyta reglugerð án þess að breyta lögunum sjálfuum.

Fyrst áfanginn í þessari vinnu er að efla virkni dúnmatskerfisins. Leggja þarf mat á það hvort gæðavottunarkerfið sé nægilega virkt. Stjórn leggur til að breyta þessu að því leytinu að utanumhald og eftirlit verði í höndum MAST en ekki ráðuneytisins. Skipun dúnmatsmanna og leyfissvipting gæti verið áfram í höndum ráðuneytisins eins og það er í dag skv. lögum en eftirlit gæti verið í höndum MAST, samskipti við dúnmatsmenn, afhending vottorðabóka, skráning og afhending tækja og móttaka við starfslok eða þegar fólk er ekki lengur með leyfi. MAST gæti þá tekið við og haldið utan um skýrslurnar og fylgst með því hvort dúnmatsmenn séu að uppfylla starfsskyldur sínar og fara eftir reglum.  MAST myndi síðan senda ráðuneytinu skýrslu árlega um gang mála.

Annar áfangi væri síðan að aðalaga dúnmatskerfið að fullframleiddri vöru. Skoða þarf þá möguleika sem við höfum til að breyta kerfinu án þess að breyta lögunum, t.d. með því að útbúa minni vottorð fyrir fullframleidda vöru og sleppa plastinu utan af því. Flóknara gæti orðið að finna leið til að votta tilgreinda þyngd fullunninnar vöru. MAST gæti verið með hugmyndir um það hvernig hægt væri að leysa þetta vandamál ef þeir fást í þetta samstarf.

Boðið var upp á umræður um þetta málefni.

Helga Björk dúnmatsmaður kom fram með þá skoðun að hún vill taka út alla svæðisskiptingu dúnmatsmanna og hafa bara eitt svæði. Taldi hún meiri líkur á skyldleika dúnmatsmanna við dúnbændur/framleiðendur ef þeir eru innan sama svæðis.

Ekki voru allir sammála því og töldu rétt að halda áfram með svæðisskiptingu svo dúnmatsmenn myndu ekki safnast saman á einn stað, t.d. á höfuðborgarsvæðið, en þeir gætu samt haft leyfi til að meta af öðru svæði. Þá væri mikilvæg að sjá til þess að hafa áfram sérfræðinga í dúni til að meta æðardún en ekki MAST, þó stofnunin geti sinnt eftirliti með þeim.

Erla áréttaði að tryggja þurfi dreifingu dúnmatsmanna um landið.

Þá kom fram í umræðum að vöntun hefur verið á dúnmatsmönnum í sumum landssvæðum á og óskað hefur verið eftir fjölgun. Þeir sem sótt hafa námskeið í dúnmati hafa ekki allir skilað sér sem dúnmatsmenn. Kveðið er á um ákveðinn fjölda dúnmatsmanna yfir landið og krafa er gerð um það að þeir séu með þekkingu og reynslu af æðardún. Sækja þarf sérstaklega um að verða dúnmatsmaður til ráðuneytisins.

 

Kosningar um tillögur og ályktanir

Eftirfarandi ályktanir voru bornar upp á fundinum til samþykktar:

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 28. september 2024 í Vökuholti að Laxamýri samþykkir að stjórn félagsins hefur leyfi til þess að halda áfram með vinnu á þróun dúnmatskerfisins með því að fara í frekara samtal við Ráðuneytið og MAST“.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

 

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 28. september 2024 í Vökuholti að Laxamýri hvetur stjórnvöld og sveitarstjórnir til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitafélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra. Æðarræktarfélagið mælist til þess að sveitarfélög haldi utan um tjón í æðarvörpum og tilkynni þau til Umhverfisstofnunar, eins og segir til um í samningi þeirra við Umhverfisstofnun“.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

 

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 28. september 2024 í Vökuholti að Laxamýri samþykkir að stjórn félagsins hafi leyfi til að fara til frekari samstarfs við Bjarmaland.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

 

Önnur mál

Til máls tók fulltrúi fyrir nokkra aðila frá Harðbak I en hún kom með þau skilaboð frá sínu fólki að sjá til þess að Margrét yrði áfram formaður.  Fleiri tóku ekki til máls undir þessum lið.

Fundarstjóri þakkaði fundargestum fyrir komuna og var fundi slitið kl. 13:50.

Helga María Jóhannesdóttir

ritari

 

 

54. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2023

Aðalfundur ÆÍ 18. nóvember 2023 í Landbúnaðarháskóla Íslands

 

54. aðalfundur ÆÍ var haldinn i Landbúnaðarháskóla íslands 18. nóvember kl. 10:00. Fundurinn hófst á því að Áshildur bauð fólk velkomið í Landbúnaðarháskóla Íslands og lýsti ánægju sinn yfir því samstarfi sem verið hefur í gegnum tíðina við ÆÍ. Hún kynnti síðan fyrirkomulag fundarins og gaf Margréti Rögnvaldsdóttur formanni orðið.

Margrét bauð félagsmenn velkomna á aðalfund félagsins sem haldinn var bæði sem fjarfundur og staðfundur. Hún stakk upp á Páli Þórhallssyni sem fundarstjóra og Helgu Maríu Jóhannesdóttur sem fundarritara.Var það samþykkt. Mættir voru 46 félagsmenn á staðinn en 10 voru á fjarfundi.

 

Skýrsla stjórnar og reikningar

Margrét Rögnvaldsdóttir formaður kynnti skýrslu stjórnar.

Í stjórn félagsins eru Margrét Rögnvaldsdóttir formaður, Erla Friðriksdóttir varaformaður, Magnús Jónasson gjaldkeri, Helga María Jóhannesdóttir ritari en var áður meðstjórnandi. Stjórn skipti með sér verkum upp á nýtt en áður var Sigríður Magnúsdóttir ritari en er nú meðstjórnandi. Í varastjórn eru Pálmi Benediktsson og Hallur Þorsteinsson.

Tveir aðalfundir voru haldnir í mars árið 2022 fyrir árin 2020 og 2021 vegna þess að fresta hafði þurft fundum í covidinu. Aðalfundur fyrir árið 2022 var síðan haldinn í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum í ágúst. Gert er ráð fyrir að aðalfundur fyrir árið 2024 verði á Laxamýri við Laxá í Aðaldal, laugardaginn 28. september.

Á síðasta aðalfundi var tekin ákvörðun um að ÆÍ yrði áfram sjálfstætt félag en ekki búgreinadeild innan Bændasamtaka Íslands. Stjórn gerði síðan samning við BÍ um að aukaaðild að samtökunum en í því felst m.a. að þeir vakta samráðsgáttina ÆÍ að kostnaðarlausu en greiða þarf fyrir aðra þjónustu sem félagið gæti þurft á að halda. Í framhaldi af þessu þurfti að breyta lögum félagsins.

Covid hafði líka haft áhrif á starfið innan deilda félagsins sem margar hverjar höfðu ekki haldið aðalfund. Skoraði stjórn á þær að halda aðalfund innan deildanna áður en að þessum aðalfundi kæmi. Hafa margar deildir gert það. Haldinn var fundur með formönnum deilda á undan aðalfundi. Vargeyðing er mikið til umræðu innan þeirra og skortur á fjármagni til að sinna henni.

Mikill tími hefur farið á þessu starfsári í umræðu um nýtt dúnmat. Á síðasta aðalfundi fékk stjórn umboð til að halda áfram viðræðum við IDFL um þróun á nýju gæðamati eða staðli sem gæti mögulega komið í staðinn fyrir það gæðamat sem nú er í gildi. Haldnir hafa verið fjölmargir stjórnarfundir um þetta mál, einnig fundir með IDFL og síðan tveir kynningafundir fyrir þá sem eru að hreinsa og/eða selja dún eða vörur úr dún og dúnmatsmenn og að lokum var haldinn kynningarfundur fyrir alla félagsmenn. Skiptar skoðanir hafa verið um þetta mál en gögn og niðurstöður fundanna hafa verið send á alla félagsmenn.

Það nýjasta í þessu máli er að á yfirstandandi löggjafarþingi, þann 24. október s.l., var lagt fram þingmannafrumvarp þar sem lagt er til afnám laga um gæðamat á æðardúni og að lögin skuli þegar öðlast gildi. Þessu frumvarpi fylgir nánast samhljóða rökstuðningur eins og fylgdi drögum að frumvarpi því sem ráðherra setti í samráðsgátt stjórnvalda árið 2020 og núverandi frumvarp jafnframt lagt fram án nokkurs samráðs við hagsmunastamtök æðarbænda.

Lokið var við heimasíðugerð í samstarfi við Íslandsstofu og er félagið nú komið með varanlegt lén fyrir heimasíðuna. Hannað var vörumerk fyrir æðardún sem félagið á og er það í skráningu hjá Hugverkastofunni. Þrátt fyrir það vantar enn fjármagn til að fara í markaðssókn og kynna æðarfugl og æðardún betur. Áður gat ÆÍ sótt styrki til Framleiðnisjóðs til ýmissa verkefna en hann hefur nú verið lagður niður og í hans stað er kominn Matvælasjóður. Ekki er hægt að sækja styrki til hans þar sem æðarrækt hefur ekkert með matvöru að gera. Margrét og Erla fóru á fund matvælaráðherra 10. maí s.l. ásamt Kristni Björnssyni verkefnisstjóra og tengiliðs ÆÍ hjá Íslandsstofu og Pétri Óskarssyni framkvæmdastjóra Íslandsstofu þar sem óskað var eftir því að fá einhvern styrk frá Matvælastjóði til að halda áfram með verkefnið. Ekki var hægt að verða við þeirri beiðni en ráðherra sagði að von væri á breytingum á reglum sjóðsins. Ekki hefur enn borið á þeim breytingum en stjórn mun fylgja þessu eftir og halda áfram að leita leiða til að fá  styrki.

Boðið var upp á umræður um skýrslu stjórnar en enginn bað um orðið.

 

Reikningar

Magnús Helgi Jónasson, gjaldkeri, fór yfir ársreikninga félagsins en þeir voru unnir af KPMG og yfirfarnir af skoðunarmönnum reikninga ÆÍ.

Tap var á rekstri félagsins upp á 3,3 milljónir kr. Eigið fé félagsins nam 13,4 milljónum. Undir gjöld falla að langmestu leyti markaðsstarf og innra starf og eru samtals 6.276.826 kr. Þar af fóru 4 milljónir í gerð kynningarmyndbands vegna heimsíðunnar eiderdownoficeland.com sem unnin var með Íslandsstofu. Afkoma ársins var neikvæð um 3.281.080 kr. en var jákvæð fyrir árið 2021 um 532.471 kr. Stærstu eignir Æðarræktarfélagsins eru fjárfestingarverðbréf. Samtals eru eignir félagsins rúmar 14 milljónir.

Styrkir og endurgreiðslur til deilda voru tekinar af á síðasta ári. Árgjaldið í félagið hefur verið 7.000 kr. Lögð var fram tillaga um hækkun félagsgjalda úr 7.000 kr. í 10.000 kr. Tillagan var samþykkt, tveir voru á móti.

Umræður um reikninga. Í umræðum komu m.a. fram áhyggjur af því hvort hærra gjald myndi fæla fólk úr félaginu og þeim vanda sem deildirnar standa frammi fyrir þar sem þær fá ekki lengur hluta af félagsgjaldinu.

Að umræðum loknum voru reikningar bornir upp til samþykktar og voru þeir samþykktir samhljóða.

 

Kosningar

Kjósa átti formann en Margrét Rögnvaldsdóttir, núverandi formaður, var í framboði. Enginn bauð sig fram á móti henni og hún því endurkjörin.

Einnig átti að kjósa einn í varastjórn og einn skoðunarmann reikninga. Hallur Þorsteinsson sem var í núverandi varastjórn var kosinn áfram og Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði var endurkjörinn sem skoðunarmaður reikninga.

 

Markaðs- og sölumál

Elías Gíslason fór yfir stöðuna varðandi sölu- og markaðsmál.

Salan hefur gegið vel og engar eldri birgðir eru til af æðardúni í landinu í dag. Verð á æðardún hélst nokkuð stöðugt frá árinu 2019 til ársins 2022 en hefur síðan snarhækkað 2023. Langt er síðan verðið hefur verið svona hátt. Japan hefur alltaf verið stærsti kaupandinn á æðardún og Þýskaland komið rétt á hælana á þeim. Á árinu 2023 hefur hins vegar verið seldur mun meiri dúnn til Þýskalands heldur en Japan.

Í dag selst dúnninn að mestu þveginn en áður var hann nánast seldur eingöngu óþveginn.

Gífurleg aukning hefur orðið á sölu á fullunninni vöru, þ.e. æðardúnssængum. Útflutningsverðmæti hefur að sama skapi aukist til muna. Árið 2020 var verðmæti útflutnings æðardúnssænga 7.4% af heildarverði ársins en árið 2022 var það komið upp í 28.35% af heildarverði ársins. Mest er nú selt af æðardúnsængum til Bretlands eða 47.3% en Bandaríkin eru næstir með 18.8% á árinu 2022.

 

Áhrif tófu og minks á dreifingu æðarhreiðra í Breiðafjarðareyjum – Jón Einar Jónsson

Jón Einar sagði frá rannsókn á áhrifum tófu og minks á dreifingu æðarhreiða sem gerð var hjá Háskólasetrinu á Snæfellsnesi. Nýlega birtist grein um efnið í vísindatímaritinu Ecology Letters.

Rannsóknin var gerð í eyjunum Brokey og Burkey á Breiðafirði. Í báðum eyjum eru heimamenn til skrafs og ráðgerðar, auk þess sem til eru margra ára skráningar á varptölum í báðum eyjunum. Eyjarnar voru lengi vel lausar við tófu og mink og til eru gögn um það hvenær það breyttist.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að áhrif minks á fjölda æðarhreiðra er gífurleg og er hann ríkjandi fyrirbæri í þessu vistkerfi, þ.e. hann hefur meiri áhrif á varp en hitastig. Hann á það jafnvel til að þurrka út allt æðarvarp í minni eyjum og þjappa því í stærri eyjarnar.

 

Kynning á Bjarmalandi og vinnu í kringum æðarvarp

Garðar Páll Jónsson formaður kynnti starf félagsins en þetta er félagsskapur atvinnuveiðimanna í kringum veiðar á mink og ref. Markmið þess er að minnka stofnstærð minks og refs með markvissum aðgerðum.

Bjarmaland hefur gefið út gjaldskrá fyrir refa- og minkaveiðar og hefur boðið ÆÍ upp á þjónustu utan þess sem þeir eru samningsbundnir við sveitarfélögin. Kostnaður er mikill vegna minkahunda og hafa sveitarfélög ekki verið að sinna þessu málefni nógu vel. Garðar telur mikilvægtr að þrýsta á sveitarfélögin að standa við það sem þeim ber að gera. Þá sagði hann að það væri ekki stórmál að halda niðri stofnstærð en það kostar vinnu og fjármagn.

Undir þessum lið kynnti Margrét formaður eyðublað/tjónablað sem stjórn hefur verið að vinna að. Æðarbændur geta notað blaðið til að tilkynna tjón sem þeir verða fyrir í sínu æðarvarpi. Lítið hefur verið um tilkynningar til Umhverfisstofnunar um tjón í æðarvörpum þrátt fyrir að tilkynna eigi slíkt skv. samningi á milli sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar. Blaðinu á að skila inn til sveitarfélaga. Er það von stjórnar að þetta blað muni auðvelda tilkynningar til sveitarfélaga og stuðla með því að bættri skráningu svo hægt sé að safna gögnum um þessi tjón.

 

Kynning á breytingum á jarðarlögum

Guðrún Gauksdóttir lögmaður kynnti breytingar á jarðarlögum sem tóku gildi 14. júlí 2022 en þar koma m.a. fram róttækar breytingar varðandi forkaupsrétt sameigenda að jörðum. Þessar breytingar ganga út á það að forkaupsréttur sameigenda að jörð gengur framar rétti maka, niðja, systkina og foreldra við sölu og erfðir. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir marga og er nú þegar farið að koma upp vandkvæði hjá sýslumanni við meðferð dánarbússkipta. Undanþága er frá þessu, þ.e. sameigendur geta fallið frá forkaupsrétti, ef vilji er fyrir hendi hjá öllum. Taldi hún að markmiðið með þessu lögum væri virðingarvert sem snýr að því að fækka eigendum að jörðum en of langt sé gengið varðandi forkaupsréttinn. Mikilvægt er fyrir æðarbændur sem eru sameigendur að jörð að kynna sér þessi nýju ákvæði.

Boðið var upp á umræður um erindið.

 

Hádegishlé

Þá var gert hlé á fundinum á meðan boðið var upp á hádegisverð, súpu og brauð, sem fundarmenn gerðu góð skil.

 

Kynning á mögulegri vottun á æðardún

Dagskrárbreyting

Elías Kristjánsson lagði fram bréf frá Æðardúnshópi Félags atvinnurekanda þar sem mótmælt er niðurfellingu á lögum nr. 52/2005 um gæðamat á æðardúni.

 

Forsagan – Erla Friðriksdóttir

Erla fór yfir forsöguna og rakti meðal annars sögu gæðamats á æðardúni sem rekja má til ársins 1970. Fram til ársins 1970 giltu engar reglur um viðskipti með íslenskan æðardún og hafði það áhrif á traust í viðskiptum með afurðina og þar með hvaða verð fékkst fyrir dúninn. Æðarardúnn var seldur í misjöfnu ástandi, sem leiddi til þess að þeir sem ekki vönduðu síg við hreinsun á dúninum eyðilögðu orðspor hans og æðarbænda í viðskiptum.

Fyrsta baráttumál nýstofnaðs Æðarræktarfélags Íslandsárið 1969 var að sett yrðu lög um gæðamat á æðardúni sem legðu grundvöll að virðisaukningu fyrir þessa einstöku afurð. Lög um gæðamat á æðardúni tóku gildi árið 1970 og gæðamatskerfið hefur verið hornsteinn í viðskiptum með æðardún upp frá því. Íslenskur æðardúnn er seldur á hærra verði en annar æðardúnn, s.s. æðardúnn frá Kanada enda geta kaupendur treyst að um gæðavöru er að ræða þar sem lögin kveða á um að allur æðardúnn skuli metinn og eingöngu er heimilt að selja fyrsta flokks æðardún hvort heldur er í hrávöru eða í fullunnum vörum.

Árið 2005 voru lögin og reglugerðin endurskoðuð og svo aftur 2011. Í febrúar 2020 fær stjórn ÆÍ tilkynningu um að búið væri að leggja fram frumvarp á Alþingi um að fella niður lög um gæðamat á æðardúni. Var þetta gert án nokkurs samráðs og kom æðarbændum og stjórn ÆÍ mjög á óvart. Stjórn ÆÍ fór þá á fund ráðherra og mótmælti þessari ákvörðun og var frumvarpið í kjölfarið dregið til baka og ÆÍ gefið tækifæri til að skoða mögulega kosti sem tekið gætu við af lögunum. Í framhaldi af þessu leitaði ÆÍ til Staðlaráðs, iCert og IDFL til að kanna mögulega vottun á æðardúni. Leitað er eftir kerfi sem er jafn gott eða betra en lög um gæðamat á æðardúni. Enn sem komið er hefur slíkt kerfi ekki fundist.

 

Tillaga að mögulegri vottun – Margrét Rögnvaldsdóttir

Margrét rakti þá atburði sem urðu til þess að viðræður hófust við IDFL um mögulega vottun. Í framhaldi af því sem fram kom í erindi Erlu hafði IDFL sjálft frumkvæði af því að vinna áfram í þessu máli og þróa staðal fyrir íslenskan æðardún. Einhverjir æðarbændur hafa nú þegar nýtt sér þjónustu IDFL. Í kjölfar fundar með ráðuneytinu í apríl 2022 sem IDFL hafði frumkvæði af óskaði ráðuneytið eftir afstöðu ÆÍ til IDFL. ÆÍ hélt þá tvo fundi með þeim félagsmönnum sem hreinsa og/eða selja dún eða vörur úr dún og dúnmatsmönnum eins og fram kom í skýrslu stjórnar. Stjórnin sjálf tekur ekki afstöðu í þessu máli en ákveðið var að tekin yrði afstaða til málsins á aðalfundi og niðurstaða kynnt ráðuneytinu.

Eftir að fundirnir voru haldnir var óskað var eftir skriflegum athugasemdum um kosti og galla núverandi dúnmats og IDFL staðalinn. Margrét hefur tekið saman þær athugasemdir sem bárust og kynnti hún þær á fundinum. Einnig kynnti hún uppkast af samningi eða staðli sem IDFL hefur unnið að og hefur þegar verið sendur á félagsmenn. IDFL skoðar ekki allan dún heldur tekur út dúnhreinsistöðvar og aðila sem búa til vörur úr dún. Síðan er tekin stykkprufa, um 10%, hjá æðarbændum sjálfum.

Eftir kynningu Erlu og Margrétar var boðið upp á umræður og tóku margir til máls. Voru skiptar skoðanir um málefnið og mismunandi þarfir sem komu fram varðandi dúnmat.

 

Kosningar um ályktanir

Eftirfarandi ályktanir voru bornar upp á fundinum til samþykktar:

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember 2023 í Landbúnaðarháskóla Íslands telur þýðingarmikið að lög nr. 52/2005 um gæðamat á æðardúni haldi gildi sínu. Lögin hafa gegnt veigamiklu hlutverki við sölu á æðardúni í yfir 50 ár eða allt frá 1970 þegar lögin voru fyrst sett. Lög um gæðamat á æðardúni hafa verið hornsteinn þess að kaupendur æðardúns geti treyst að um fyrsta flokks íslenskan æðardún sé að ræða hvort heldur sem um ræðir æðardún eða vörur sem innihalda æðardún. Lögin hafa gegnt lykilhlutverki í að tryggja sérstöðu íslensks æðardúns á heimsvísu“.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

 

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember 2023 í Landbúnaðarháskóla Íslands mælist til þess að stjórn félagsins fari í viðræður við ráðuneytið um áframhaldandi skoðun á dúnmati og framkvæmd þess skv. núgildandi lögum“.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

 

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember 2023 í Landbúnaðarháskóla Íslands mælist til þess að stjórn félagsins vinni áfram með IDFL að staðli fyrir íslenskan æðardún“.

24 kusu með ályktuninn, 19 voru á móti. Ályktunin var því samþykkt.

 

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember 2023 í Landbúnaðarháskóla Íslands hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitafélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra. Æðarræktarfélagið mælist til þess að sveitarfélög haldi utan um tjón í æðarvörpum og tilkynni þau til Umhverfisstofnunar. Eins og segir til um í samningi þeirra við Umhverfisstofnu“.

Ályktunin var samþykkt, einn var á móti.

 

Eftirfarandi áskorun frá Æðardúnshópi Félags atvinnurekenda var lesin upp á fundinum og borin upp til samþykktar:

,,Æðardúnshópur í Félagi atvinnurekenda skorar eindregið á Æðarræktarfélag Íslands að leggjast hart gegn því við matvælaráðherra að lög nr. 52/2005  um gæðamat verði felld úr gildi. Lögin hafa allar götur frá því þau voru sett árið 1970 gegnt mikilvægu hlutverki fyrir útflutning á æðardúni og vörum sem innihada íslenskan æðardún. Lögin hafa fyrir löngu sannað mikilvægi sitt og standast enn fyllilega tímans tönn. Það getur haft slæmar afleiðngar fyrir seljendur og kaupendur á æðaradúni sem hafa reytt sig á lögin í um 53 ár verði þau felld úr gildi. Þá munu opnast möguleikar fyrir sölu á æðaradúni sem ekki stenst þær gæðakröfur sem nú eru gerðar til íslensks æðardúns en íslenskur æðardúnn nýtur nú algjörrar sérstöðu á heimsvísu“.

Áskorunin var samþykkt samhljóða.

 

Í lok fundar var Guðrún Gauksdóttir fyrrverandi formaður ÆÍ gerð að heiðursfélaga fyrir störf sín í þágu félagsins og æðarræktar á Íslandi.

Fundi slitið.

 

Helga María Jóhannesdóttir

ritari

 

53. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2022

Aðalfundur ÆÍ 27. ágúst 2022

í Kirkjumiðstöð Austurlands

53. aðalfundur ÆÍ var settur kl. 10 í Kirkjumiðstöð Austurlands.

Kosning fundarstjóra og fundarritara: Tillaga um Pálma Benediktsson sem fundarstjóra og Sigríði Magnúsdóttur sem fundaritara var samþykkt. 40 félagsmenn mættu á fundinn.

 

Skýrslur og reikningar

Skýrsla stjórnar: Margrét Rögnvaldsdóttir formaður flutti skýrsluna.

Niðurstaða ÆÍ um áframhaldandi aðild að Bændasamtökum Íslands (BÍ) var rifjuð upp þar sem félagsmenn höfnuðu aðild að BÍ sem búgreinadeild æðarræktar. Í framhaldi af þessari niðurstöðu var byrjað að vinna að því aðlaga lög félagsins. Lögfræðingarnir Guðrún Gauksdóttir, fyrrverandi formaður ÆÍ, og Páll Þorkelsson, gjaldkeri ÆÍ, tóku að sér að yfirfara lögin og setja inn þær breytingar sem nauðsynlegar voru vegna þessa. Allir félagsmenn fengu tillögur að nýjum lögum félagsins sendar með fundaboði aðalfundarins.  Þær voru síðan kynntar á aðalfundinum og hver og ein lagagrein borin upp til samþykktar eða synjunar. Fyrir aðalfundinn höfðu stjórn ekki borist neinar breytingartillögur. Ný samþykkt lög verða síðan birt á vef ÆÍ þar sem hægt verður að skoða þau.

Tilkynning um niðurstöðu félaga ÆÍ var send til Bændasamtakanna. Margrét, formaður, og Erla Friðriksdóttir, varaformaður, fóru síðan á fund með þeim Gunnari Þorgeirssyni, formanni BÍ og Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra BÍ, til að ræða þessar niðurstöður en einnig hugmyndir um það hvort ÆÍ yrði hugsanlega með svokallaða aukaaðild að bændasamtökunum. Fyrir það eru ekki greidd félagsgjöld, en starfsmenn BÍ vakta t.d. samráðsgáttina (samradsgatt.island.is) og þar með það sem varðar okkar hagsmuni. Við greiðum aðeins fyrir þá vinnu sem við biðjum um hjá BÍ. Þannig ætti að vera auðvelt að koma upplýsingum til félagsins sem berast til BÍ um þessa gátt.

Bréf til Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, var sent í maí sl. þar sem óskað var eftir fundi um starfsemi ÆÍ og hugsanlegar lausnir vegna styrkumsókna og fl. sem áður var hægt að koma á framfæri á meðan Matvælasjóður hét Framleiðnisjóður. Farið var yfir nýtt vottunarkerfi sem hugsanlega kæmi til greina fyrir ÆÍ. En einnig var farið yfir í bréfi til ráðherra að stöðva átti núverandi vottun á æðardúni og taka það út úr lögum. En ráðuneytið samþykkti að hætta við að fella lögin um dúnmat niður eftir mótmæli frá ÆÍ þar til eitthvað nýtt kemur í staðinn, jafngott eða betra. Kynnt stuttlega samstarfið við Íslandsstofu. Þetta allt þarf að ræða við ráðherrann þegar fundurinn verður.

Margrét sagði líka frá því að Erla muni kynna tillögu að nýju vottunarkerfi síðar á fundinum. Martin Månhammer frá vottunarfyrirtækinu IDFL í Sviss er í samvinnu við stjórn  ÆÍ að skoða möguleika á nýju vottunarkerfi fyrir okkur. Nokkrir fundir voru haldnir með honum sem  Margrét, Erla, Ragna Óskarsdóttir og Árni Örvarsson sátu.

Fuglaflensan. Hertar varnaraðgerðir voru kynntar í mars sl. vegna dauða farfugla sem koma hingað. Það er ekkert vitað um æðarfugla sem hafa fengið fuglaflensu. Stjórn ÆÍ fékk leiðbeiningar hjá MAST um það hvernig bregðast ætti við ef æðarbændur fyndu dauðan fugl sem hugsanlega væri þá með fuglaflensu. Þessar leiðbeiningar voru sendar öllum félagsmönnum og birtar á heimasíðu og FB síðu ÆÍ. Hvorki MAST né fulltrúar í stjórn ÆÍ hafa  heyrt um sýkingu í æðarfuglum. Um er að ræða annan sjúkdóm en fuglakóleruna sem kom upp á Hrauni á Skaga tvö ár í röð og olli dauða hátt í eitt þúsund æðarkollna.

Endurmenntun. LBH hélt tvö námskeið um æðarrækt sem voru vel sótt og hafa óskir borist um fleiri slík námskeið. Hugsanlega er mögulegt að halda námskeið í byrjun næsta árs.

Fyrirspurnir til Æðarræktarfélagsins komu áður í gegnum BÍ en koma núna beint til okkar. Það hafa t.d. komið fyrirspurnir og boð um að gefa umsagnir um strandskipulög. En Magnús mun fylgjast með þessum málum fyrir Vestfirði, Pálmi fyrir Asutfirði og Guðrún Gauksdóttir fyrrerandi formaður aðstoðar þá. En Guðrún hefur lengi verið að fylgjast með gerð strandskipulaga.

Listamennirnir sem hafa verið í samstarfi við Æðarræktarfélagið að undanförnu opnuðu sýningu 7. maí sl. í Norræna húsinu, Tilraun II – Æðarrækt. Sýningin var um æðarrækt útfærð með nokkuð listrænu sniði. Hún var mjög vel sótt en sitt sýndist hverjum um sýninguna eins og gengur. Sýningin fer næst til Hafnar í Hornafirði og svo til Vega í Noregi.

Reikningar: Páll Þórhallsson, gjaldkeri, kynnti reikninga félagsins, sem unnir voru af KPMG og yfirfarðir af skoðunarmönnum reikninga ÆÍ. Eignir félagsins eru rúmar 16 milljónir. Umræður um reikningana og þeir síðan samþykktir samhljóða.

 

Kosningar

Kjósa þarf tvo aðalmenn í stjórn. Þeir sem ganga úr stjórn eru Páll Þórhallsson gjaldkeri og Erla Friðriksdóttir varaformaður. Í framboði eru:  Erla Friðriksdóttir og Helga María Jóhannesdóttir.  Kallað var eftir fleiri framboðum í stjórn. Svo var ekki. Helga María er formaður fyrir Æðarvé og er með varp í Skáleyjum. Erla og Helga María voru kosnar samhljóða í stjórn.

Í stjórn ÆÍ sitja núna Margrét Rögnvaldsdóttir, formaður, Erla Friðriksdóttir, Sigríður Magnúsdóttir, Magnús Helgi Jónasson og Helga María Jóhannesdóttir. Varamenn eru Pálmi Benediktsson og Hallur Þorsteinsson. Stjórnin skiptir síðan með sér verkum á næsta stjórnafundi.

 

Markaðs- og sölumál.        

Magnús Jónasson fór yfir tölur um markaðs- og sölumál frá 2008 -2021. Gögnin eru unnin upp úr gögnum frá Hagstofu Íslands. Árið 2021 voru flutt út 3400 kg. Salan mjakast hægt upp, núna er kílóverðið um 190 þúsund krónur. Langmest er enn selt til Japans og Þýskalands af æðardúni.

Ragna Óskarsdóttir (Icelandic Down/Íslenskur dúnn ehf) á Borgarfirði eystra útskýrði hvernig henni gengur að selja dúnsængur og flytja út í kössum sem eru þyngri og meiri að umfangi heldur en ein dúnsæng. Umræða um tollnúmer, 4 númer. Það þarf að skoða þessi númer betur.

Þar sem glærunar voru óskýrar verða þær sendar félagsmönnum. Magnús ætlar að setja glærurnar á pdf-form og koma þeim til félaganna.

 

Hópavinna vegna lagabreytinga.

Eftirfarandi umræðuefni fyrir hópavinnuna:

  1. Markmið og tilgangur ÆÍ.
  2. Hlutverk og verkefni deilda ÆÍ.
  3. Rafrænar kosningar, meirihluti og aukinn meirihluti í atkvæðagreiðslum.
  4. Aukaaðild að Bændasamtökunum.

 

Tillögum að lagabreytingum frá þátttakendum safnað saman eins og kemur fram hér á eftir.

Fundastjóri afhenti Páli Þórhallssyni og Guðrúnu Gauksdóttir fundinn til að kynna tillögur um lagabreytingar.  Góðar útskýringar hjá Páli og Guðrúnu. Nokkrar umræður urðu í sal. Halli Þorsteinssyni finnst lögin svolítið gerræðislega orðuð og stjórn hafi of mikil völd. Guðrún útskýrir að t.d. stofnun nýrra deildar þurfi samþykki aðalfundar.

Umræður um hverjum stendur til boða að vera í félaginu. Frekar opið. Ragna er t.d. ekki með æðarvarp.

Ákvæði um  rafrænar kosningar kemur inn í 6. gr  félagsins. Möguleikinn notaður sjaldan, en nauðsynlegt að hafa þarna eins og reynslan hefur sýnt okkur í COVID.

Nægur fjöldi til að breyta lögum er þegar 10% félaga ÆÍ eru mættir. Dálítið stíft.

Rætt um kosningu varamanna, hvort þeir eigi að vera til eins árs eða þriggja ára.

Ný grein um slit félagsins. Umræður um notkun orðanna aukinn meirihluti 2/3 eða 3/4.

 

Lögin lögð fyrir eftir breytingar þeirra Páls og Guðrúnar vegna breyttra aðstæðna, nefnilega þeirra að ÆÍ er nú ekki hluti af BÍ. Miklar umræður urðu um innihald greinanna í lögunum.

1. gr.

Heiti og heimili

Félagið heitir Æðarræktarfélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Fullgild félagaskrá skal ávallt liggja fyrir á hverjum aðalfundi félagsins.

Samþykkt samhljóða.

 

2. gr. (áður 2. og 3.gr)

Deildir

Félagsvæði Æðarræktarfélags Íslands er allt landið, sem skiptist í deildir samkvæmt ákvörðun aðalfunda félagsins. Deildir setja sér samþykktir, skipa stjórn og hafa sjálfstæðan fjárhag, þ.m.t. ákvörðun um félagsgjöld. Leggist starfsemi deildar niður skulu gerðarbækur deildarinnar ásamt öðrum eignum deildarinnar varðveitast hjá Æðarræktarfélaginu. Hafi niðurlögð deild átt fjárhagsleg verðmæti skulu þau varðveitt á aðgreindum reikningum félagsins í fjögur ár nema ný deild sé stofnuð innan þeirra tímamarka. Að þeim tímamörkum liðnum er stjórn félagsins heimilt að ráðstafa fénu eins og öðru lausafé félagsins í starfsemi sinni

Breytingartillaga nr. 1:  Í stað „samkvæmt ákvörðun“ komi  „samkvæmt samþykkt“

Samþykkt.

 

Breytingartillaga nr. 2: Í stað „nema ný deild sé stofnuð innan“ komi „nema ný deild sé stofnuð á sama svæði innan þeirra tímamarka. Þá rennur féð til hennar. Að þeim tímamörkum liðnum…“

Samþykkt.

 

Greinin síðan samþykkt með áorðnum breytingum.

 

3. gr.

Félagsaðild

Félagar, einstaklingar og lögaðilar, geta allir orðið sem njóta hlunninda af æðarvarpi eða hafa áhuga fyrir æðarrækt og stofnun nýrra varpstöðva.

Breytingartillaga nr.3:  „Allir sem njóta hlunninda af æðarvarpi eða hafa áhuga fyrir æðarrækt og stofnun nýrra varpstöðva geta orðið félagar, bæði einstaklingar og lögaðilar“. Ekki þótti ástæða til að breyta þriðju gein laganna þar sem textinn innihélt sömu upplýsingar en með annarri orðaröð.

Greinin samþykkt.

4. gr.

Markmið og tilgangur

Markmið félagsins er að stuðla að vernd æðarfugls og varpsvæða hans á Íslandi með sjálfbæra æðarrækt að leiðarljósi. Ennfremur að auka þekkingu á æðarrækt og menningarsögulegri þýðingu hennar.

 

Hlutverk félagsins er að vinna að hagsmunum æðarræktar og efla æðarvarp í landinu. Það felst fyrst og fremst í því að leita leiða til að verja varplönd fyrir hvers konar ágangi sem æðarfugli og varpi stafar hætta af. Einnig skal unnið að eflingu hlunninda á viðeigandi hátt að öðru leyti svo sem að auka verðmæti dúns með flokkun og mati á honum á grundvelli viðeigandi gæðakerfis. Ennfremur verði leiðbeiningaþjónusta á verkefnaskrá félagsins. Félagið skal fylgjast með sölu á æðardún og styðja við markaðssetningu eftir því sem í þess valdi stendur.

 

Samþykkt.

 

5. gr.

Tekjur

 

Á aðalfundi eru félagsgjöld fyrir einstaklinga og lögaðila ákveðin frá ári til árs. Reikningsár félagsins er almanaksárið

 

Samþykkt.

6. gr.

Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda árlega á þeim tíma, sem best þykir henta samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar. Aðalfundur skal boðaður með rafrænum hætti með minnst 10 daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina hvar og hvenær fundurinn verður haldinn. Tillögur um lagabreytingar og meiriháttar framkvæmdaáætlanir skulu tilkynntar með fundarboði. Tekið skal fram í fundarboði eigi félagsmenn rétt á að taka þátt í fundinum á rafrænan hátt. Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt. Á milli aðalfunda skal halda aukafundi eftir því sem stjórn félagsins telur þörf á og einnig ef meirihluti félagsmanna óskar þess.

 

Atkvæðisrétt á aðalfundi og öðrum fundum hafa þeir einir sem eru skráðir félagar og greitt hafa árgjald yfirstandandi árs. Stjórn er heimilt að boða til rafrænna kosninga í aðkallandi málum þegar sérstaklega stendur á.

 

Breytingartillaga nr. 4. „Aðalfundur Æðarræktarfélagsins skal haldinn í ágúst ár hvert. Stjórnin ákveður nánar um stað og stund“.

 

Tilögunni var hafnað.

 

 

Breytingartillaga nr. 5. „Aðalfundur skal boðaður … með minnst 14 daga fyrirvara“.

 

Samþykkt.

 

Greinin síðan samþykkt með áorðnum breytingum

 

 

Athugasemd frá gjaldkera um að rafrænar kosningar verði aðeins að vera sem öryggisventill. Önnur athugasemd þessu tengd er að þeir sem ákveða að vera rafrænt á aðalfundi þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir geta ekki tekið þátt eða kosið.

 

7. gr. Ný grein

Dagskrá aðalfundar

Störf aðalfundar eru eftirfarandi:

a. Skýrsla stjórnar um störf og verkefni á liðnu ári.

b. Kynning endurskoðaðra ársreikninga.

c. Starfsáætlun fyrir næsta ár.

d. Liðir a.-c. bornir undir atkvæði aðalfundar

e. Lagabreytingar ef einhverjar eru.

f. Ákvörðun um árgjald.

g. Tillögur til ályktana fundarins

h. Sala og markaðsmál

i. Fréttir frá deildum.

j. Kosningar.

k. Önnur mál

 

Samþykkt.

 

8. gr.

Ákvarðanir aðalfundar

Ákvarðanir á aðalfundi skulu teknar með einföldum meirihluta atkvæða fundarmanna nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki a.m.k. 3/4 hluta fundarmanna og þar sem mættur er minnst 10% kjörgengra félagsmanna. Mæti of fáir, skal boða til framhaldsfundar og öðlast þá tillögur til lagabreytinga gildi ef 3/4 hlutar fundarmanna samþykkja þær, án tillits til fundarsóknar. Lagabreytingar sem félagsmenn vilja leggja fram, skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en 2 vikum fyrir boðaðan aðalfund.

 

Breytingartillaga nr. 6. „Kjósa skal 2 varamenn til 1 árs í senn í staðinn fyrir 3 ára“.

Tilögunni var hafnað.

 

Breytingartillaga nr. 7. „Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna.

Samþykkt

 

Breytingartillaga nr. 8. „Lagabreytingar sem félagsmenn vilja leggja fram, skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en 3 vikum fyrir boðaðan aðalfund.

 

Samþykkt.

 

Greinin síðan samþykkt með áorðnum breytingum.

 

9. gr.

Stjórn og stjórnarfundir

 

Stjórn félagsins skal skipuð fimm stjórnarmönnum, formanni og fjórum meðstjórnendum. Kjörgengir eru einstaklingar sem hafa náð 18 ára aldri og hafa greitt félagsgjald á yfirstandandi ári. Stjórnin skal kosin á aðalfundi til þriggja ára í senn. Stjórnarmenn ganga úr stjórninni þannig: Formaður eftir þrjú ár, tveir meðstjórnendur eftir eitt ár og tveir meðstjórnendur eftir tvö ár

og heldur röðin þannig áfram. Stjórnin skiptir með sér verkum. Kjósa skal tvo varamenn til þriggja ára. Á aðalfundum skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga til tveggja ára í senn.

 

Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir. Skylt er að boða fund ef þrír stjórnarmanna óska þess. Ritari gegnir ritarastörfum og heldur rafræna gerðabók. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins. Að öðru leyti ákveður stjórn hverju sinni um skiptingu verkefna milli stjórnarmanna.

 

Breytingartillaga nr. 8. „Kjósa skal 2 varamenn til 1 árs í senn“.

 

Tillögunni hafnað.

 

Vísað til stjórnar að skoða þessa grein og athuga orðalag.

 

Greinin samþykkt að öðru leyti.

 

10 gr. (Ný grein)

Slit félagsins

Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi. Við slit félagsins skal eigum þess ráðstafað í samræmi við tillögu stjórnar. Samþykki ¾ félagsmanna þarf til slita á félaginu. Ef slíta skal félaginu, verður það einungis gert á fundi, þar sem mættir eru minnst 3/4 hlutar félagsmanna, og verður það aðeins gert, að hlutar fundarmanna greiði því atkvæði. Að öðrum kosti skal boða til nýs fundar og verður þá félaginu slitið 2/3 á löglegan hátt ef 3/4 hlutar fundarmanna greiða því atkvæði, án tillit til þess, hve margir eru mættir á fundinum

 

Spurning: Ef félaginu verður slitið, hvað verður um eigur þess? Sjá útskýringu í 10. gr.  Stjjórn beðin um að athuga orðalagið og bera aðra tillögu fram á næsta aðalfundi.

 

Fundurinn samþykkir lögin í heild sinni með áorðnum breytingum.

(Nýju lögin eru birt í heild aftast í fundargerðinni.)

 

Tillaga frá stjórn

Stjórn Æðarræktarfélags Íslands leggur til að ÆÍ verði skráð sem aukaaðili að Bændasamtökum Íslands.

 

Margrét kynnti hvað fælist í þessu. Sérstakur samningur verður þá gerður á milli BÍ og ÆÍ. Stjórn stingur upp á því að BÍ vakti t.d. gátt stjórnvalda. Hugsanlega samráð um vargeyðingu. Við gætum e.t.v. leigt fundarsal hjá Bændasamtökunum fyrir okkar fundi.

 

Tillagan var samþykkt.

 

Kynning frá Íslandsstofu. 

Kristinn Björnsson frá Íslandsstofu kynnti samstarf okkar í gegnum fjarfundarbúnað. Ný heimasíða er í vinnslu og langt komið að gera heimildarmynd eða kynningarmyndband um æðardúninn sem verður á þessari heimasíðu sem er fyrst og fremst sölusíða fyrir ÆÍ.

Fyrirspurnir úr sal. Spurning um að hafa textann bæði á ísl og ensku. En þá er spurning um hvaða efni væri fyrir hvort mál. Þessi kynning er hugsuð til að kynna fyrir erlendum kaupendum. Þetta efni fer fyrst og fremst inn sem kynningarsíða fyrir æðardún og vörur úr æðardún erlendis og fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi. Núverandi heimasíða ÆÍ er hugsuð fyrir félagsmenn og þá sem hafa áhuga á æðarrækt. Hún verður í svipuðu formi og hingað til.

 

Kynning á nýjum tillögum að dúnmati. Erla Friðriksdóttir.

Erla rifjaði upp þegar fella átti úr gildi lög um mat á æðardún hjá landbúnaðarráðherra,  en stjórn ÆÍ mótmælti niðurfellingunni og í framhaldinu vorum við beðin um að koma með lausnir. Erla fór yfir tillögu Martin Månhammer hjá IDFL (International Down and Feather Testing Laboratoy) í Sviss að nýju vottunarkerfi.

Framtíðarsýnin er að selja eingöngu fullunna vöru.

Vottun á æðardúni er nauðsynleg, svo fólk geti treyst því að það sé að kaupa æðardún.

Vottunin gengur út á eftirfarandi:

  1. Rekjanleika æðardúnsins.
  2. Æðardúnninn verði vottaður sem „meinlaus“ (cruelty free – þ.e. vara sem er aflað án þess að fuglinum sé gert mein).
  3. Framleiðsla vöru úr æðardúni gæti gengið hraðar fyrir sig þar sem ekki þarf að kalla til matsmann í hvert skipti.
  4. Nútímaleg vottun. IDFL er með gagnagrunn sem hefur verið notaður og þróaður í áratugi og er notaður af stærstu framleiðendum á dúni á heimsvísu.

Lítil þróun hefur verið í vélbúnaði til að hreinsa æðardún frá því að fyrstu dúnhreinsivélarnar voru teknar í notkun á sínum tíma. Martin telur að IDFL geti veitt aðstoð við að þróa og bæta núverandi vélbúnað. Áhugi er hjá IDFL að komið verði upp rannsóknarstofu hér á landi til rannsókna á dúninum.

Vottun æðardúns er nauðsynleg og vottunarkerfið þarf að vera þannig að allir geti nýtt sér það.

Borið var upp hvort stjórn eigi að halda áfram að vinna með IDLF með aðkomu Matvælaráðuneytisins að þróun á þessu vottunarkerfi sem mögulega geti komið í staðinn fyrir núverandi lög.

Samþykkt að stjórn haldi áfram að skoða þessa leið.

 

Heimsókn til Borgarfjarðar eystra

Kynning og heimsókn til fyrirtækisins Icelandic Down/Íslenskur dúnn ehf. í eigu Rögnu Óskarsdóttur. Í kjölfarið var hressing. Þar á eftir var gengið um Borgarfjörð undir leiðsögn Óla úr Lomundarfirði. Sagðar voru  sögur af heimamönnum og álfum. Heimsókn í kirkjuna og frásögn af altaristöflu Kjarvals.

Að lokum var svo kvöldverður í Fjarðarborg. Hlaðborð m/heilgrilluðu lambalæri og viðeigandi meðlæti. Í desert var rabbabarapæ m/rjóma, ís og kaffi. Undir borðum voru svo sagðar fréttir af deildum.

 

Sunnudaginn 28. ágúst

Félagar Æðarræktarfélags Austurlands tóku á móti fólki á Skálanesi við Seyðisfjörð og Ormstöðum í Norðfjarðarsveit. Á báðum stöðum var gengið um svæðið og staðhættir skoðaðir.

 

Sigriður Magnúsdóttir ritaði fundargerð og setti ný lög saman.

 

Ný lög Æðarræktarfélags Íslands 2022

 

1.gr.

Heiti og heimili

Félagið heitir Æðarræktarfélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Fullgild félagaskrá skal ávallt liggja fyrir á hverjum aðalfundi félagsins.

2. gr.

Deildir

Félagssvæði Æðarræktarfélags Íslands er allt landið, sem skiptist í deildir samkvæmt samþykkt aðalfunda félagsins. Deildir setja sér samþykktir, skipa stjórn og hafa sjálfstæðan fjárhag, þ.m.t. ákvörðun um félagsgjöld. Leggist starfsemi deildar niður skulu gerðarbækur deildarinnar ásamt öðrum eignum deildarinnar varðveitast hjá Æðarræktarfélaginu. Hafi niðurlögð deild átt fjárhagsleg verðmæti skulu þau varðveitt á aðgreindum reikningum félagsins í fjögur ár nema ný deild sé stofnuð á sama svæði innan þeirra tímamarka. Þá rennur féð til hennar. Að þeim tímamörkum liðnum er stjórn félagsins heimilt að ráðstafa fénu eins og öðru lausafé félagsins í starfsemi sinni.

 

3. gr.

Félagsaðild

Félagar, einstaklingar og lögaðilar, geta allir orðið sem njóta hlunninda af æðarvarpi eða hafa áhuga fyrir æðarrækt og stofnun nýrra varpstöðva.

 

4. gr.

Markmið og tilgangur

Markmið félagsins er að stuðla að vernd æðarfugls og varpsvæða hans á Íslandi með sjálfbæra æðarrækt að leiðarljósi. Ennfremur að auka þekkingu á æðarrækt og menningarsögulegri þýðingu hennar.

 

Hlutverk félagsins er að vinna að hagsmunum æðarræktar og efla æðarvarp í landinu. Það felst fyrst og fremst í því að leita leiða til að verja varplönd fyrir hvers konar ágangi sem æðarfugli og varpi stafar hætta af. Einnig skal unnið að eflingu hlunninda á viðeigandi hátt að öðru leyti svo sem að auka verðmæti dúns með flokkun og mati á honum á grundvelli viðeigandi gæðakerfis. Ennfremur verði leiðbeiningaþjónusta á verkefnaskrá félagsins. Félagið skal fylgjast með sölu á æðardún og styðja við markaðssetningu eftir því sem í þess valdi stendur.

 

5. gr.

Tekjur

 Á aðalfundi eru félagsgjöld fyrir einstaklinga og lögaðila ákveðin frá ári til árs. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

6.gr.

Aðalfundur 

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda árlega á þeim tíma, sem best þykir henta samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar. Aðalfundur skal boðaður með rafrænum hætti með minnst 14 daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina hvar og hvenær fundurinn verður haldinn. Tillögur um lagabreytingar og meiriháttar framkvæmdaáætlanir skulu tilkynntar með fundarboði. Tekið skal fram í fundarboði eigi félagsmenn rétt á að taka þátt í fundinum á rafrænan hátt. Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt. Á milli aðalfunda skal halda aukafundi eftir því sem stjórn félagsins telur þörf á og einnig ef meirihluti félagsmanna óskar þess.

Atkvæðisrétt á aðalfundi og öðrum fundum hafa þeir einir sem eru skráðir félagar og greitt hafa árgjald yfirstandandi árs. Stjórn er heimilt að boða til rafrænna kosninga í aðkallandi málum þegar sérstaklega stendur á.

 

7. gr.

Dagskrá aðalfundar

Störf aðalfundar eru eftirfarandi:

a. Skýrsla stjórnar um störf og verkefni á liðnu ári.

b. Kynning endurskoðaðra ársreikninga.

c. Starfsáætlun fyrir næsta ár.

d. Liðir a.-c. bornir undir atkvæði aðalfundar

e. Lagabreytingar ef einhverjar eru.

f. Ákvörðun um árgjald.

g. Tillögur til ályktana fundarins

h. Sala og markaðsmál

i. Fréttir frá deildum.

j. Kosningar.

k. Önnur mál

8. gr.

Ákvarðanir aðalfundar

Ákvarðanir á aðalfundi skulu teknar með einföldum meirihluta atkvæða fundarmanna nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna og þar sem mættur er minnst 10% kjörgengra félagsmanna. Mæti of fáir, skal boða til framhaldsfundar og öðlast þá tillögur til lagabreytinga gildi ef 3/4 hlutar fundarmanna samþykkja þær, án tillits til fundarsóknar. Lagabreytingar sem félagsmenn vilja leggja fram, skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en 3 vikum fyrir boðaðan aðalfund.

9. gr.

Stjórn og stjórnarfundir 

Stjórn félagsins skal skipuð fimm stjórnarmönnum, formanni og fjórum meðstjórnendum. Kjörgengir eru einstaklingar sem hafa náð 18 ára aldri og hafa greitt félagsgjald á yfirstandandi ári. Stjórnin skal kosin á aðalfundi til þriggja ára í senn. Stjórnarmenn ganga úr stjórninni þannig: Formaður eftir þrjú ár, tveir meðstjórnendur eftir eitt ár og tveir meðstjórnendur eftir tvö ár og heldur röðin þannig áfram. Stjórnin skiptir með sér verkum. Kjósa skal tvo varamenn til þriggja ára. Á aðalfundum skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga til tveggja ára í senn.

Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir. Skylt er að boða fund ef þrír stjórnarmanna óska þess. Ritari gegnir ritarastörfum og heldur rafræna gerðabók. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins. Að öðru leyti ákveður stjórn hverju sinni um skiptingu verkefna milli stjórnarmanna.

 

10. gr.

Slit félagsins

Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi. Við slit félagsins skal eigum þess ráðstafað í samræmi við tillögu stjórnar. Samþykki 3/4 félagsmanna þarf til slita á félaginu. Ef slíta skal félaginu, verður það einungis gert á fundi, þar sem mættir eru minnst 3/4 hlutar félagsmanna, og verður það aðeins gert, að 2/3 hlutar fundarmanna greiði því atkvæði. Að öðrum kosti skal boða til nýs fundar og verður þá félaginu slitið á löglegan hátt ef 3/4 hlutar fundarmanna greiða því atkvæði, án tillit til þess, hve margir eru mættir á fundinum.

51. & 52. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2022

Fundargerð aðalfunda ÆÍ, fyrir árin 2020 og 2021, 26. mars 2022.

Aðalfundarstörf fyrir árið 2020

Fundarsetning: Guðrún Gauksdóttir, formaður ÆÍ, flutti ávarp:

„Kæru félagar í ÆÍ!

Það var viðbúið að færri félagar mæti til aðalfundar nú en ella, vegna Covid faraldursins og þess að fundurinn er ekki á hefðbundnum tíma. Afboðanir hafa verið að berast frá félögum og stjórnin hefur ekki farið varhluta sjálf af veirunni.

Það er í fyrsta skipti sem hægt er að fylgjast með aðalfundi ÆÍ  í gegnum fjarfundarbúnað á TEAMS og geri ég ráð fyrir að svo verði í framtíðinni. Það eru því tímamót í ýmsum skilningi hjá félaginu. Við munum á næstunni kjósa um það hvort félagið verði hluti Bændasamtaka Íslands sem búgreinadeild æðarræktar eða haldi áfram sem sjálfstætt félag.

Hjá mér eru tímamót því ég mun ekki gefa aftur kost á mér sem formaður. Ég hef setið í stjórn ÆÍ frá aðalfundi 2003 og tók við sem formaður félagsins árið 2010. Ég hef reyndar syndgað upp á náðina síðastliðin 2 ár. Á tímamótum er tækifæri til að horfa um öxl.

Á þeim árum sem ég hef setið í stjórn og síðar gegnt formennsku hafa orðið umtalsverðar breytingar á starfi og högum félagsins, fyrst og fremst vegna afnáms búnaðargjalds og í kjölfar þess breytinga á félagskerfi Bændasamtaka Íslands. Æðarræktafélag Íslands hefur verið aðildarfélag Bændasamtaka Íslands frá stofnun félagsins árið 1969 og því hafa þessar breytingar haft bein áhrif á starfsemi ÆÍ, m.a. á hlutverk og störf stjórnar og auk þess höggvið skarð í tekjur félagsins okkar.

Áður en búnaðargjald var afnumið var það megintekjustofn félagsins eins og grein hefur verið gerð fyrir í bréfi til félaga. Þeim hluta gjaldsins sem rann til Bændasamtakanna var m.a. varið til þjónustu hlunnindaráðgjafa við ÆÍ. Á þeim tíma sem ég sat í stjórn voru það Árni Snæbjörnsson og síðar Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir sem voru hlunnindaráðgjafar. Þekking þeirra og framlag til æðarræktar er ómetanlegt og þau lögðu grunn að mörgum þeim viðfangsefnum sem félagið er að fást við í dag.

Við brotthvarf hlunnindaráðgjafa í kjölfar afnáms búnaðargjalds varð stjórn ÆÍ að feta nýja stigu. Það eru margir félagar ÆÍ sem sakna heimsókna og þeirrar aðstoðar og hvatningar sem Árni og Guðbjörg miðluðu af þekkingu sinni. Eftir að búnaðargjald var afnumið og aðstoðar hlunnindaráðgjafa naut ekki lengur við þá voru góð ráð dýr og stjórn ÆÍ hefur leitað leiða til að halda uppi starfi félagsins. Fyrst og fremst  hefur verið um sjálfboðavinnu að ræða af hálfu stjórnarmanna en félagið einnig keypt þjónustu í einstök verkefni. Félagsmenn hafa sýnt umburðarlyndi þegar hnökrar hafa komið upp í starfinu og kann ég þeim þakkir fyrir. Í forgrunni hefur verið að gæta eins og kostur er sjóða félagsins. Með sama hætti hafa Bændasamtökin og önnur búgreinafélög þurft að leita leiða til að mæta þeim áskorunum sem fylgdu afnámi búnaðargjalds og þeim breytingum sem það hafði á félagskerfi Bændasamtakanna. Á sömu vegferð er Æðarræktarfélag Íslands nú.

Áherslur stjórnar ÆÍ hafa byggst á þeim verkefnum, sem félaginu eru falin í lögum félagsins, og stjórn vinnur hverju sinni að í umboði aðalfunda. Jafnframt byggja áherslur stjórnar á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið að æðarrækt frá því að félagið var stofnað fyrir rúmum 50 árum en tekst jafnframt á við nýjar áskoranir.

Ég þakka félögum Æðarræktarfélags Íslands það traust sem þeir hafa sýnt mér á síðastliðnum tæpum 20 árum og fyrir að fela mér forystu í félaginu. Ég þakka samstarsfólki í stjórnum hverju sinni og hlunnindaráðgjöfum okkar fyrir farsælt og gott samstarf.

Ég óska nýjum formanni, sem verður kosinn hér á eftir, stjórn og félaginu heilla í því starfi sem framundan er. Það eru tímamót í sögu félagsins hvort sem fyrir valinu verður að sameinast Bændasamtökum Íslands sem búgreinadeild æðarræktar eða að starfa á sjálfstæðum grundvelli. Æðarrækt á engan sinn líka og áhersla verður lögð á vöxt og viðgang búgreinarinnar hvor vettvangurinn sem fyrir valinu verður. Mikilvægast er að æðarbændur haldi hópinn í baráttu sinni.

Við fögnuðum síðast þegar við hittumst – fyrir tæpum þremur árum síðan – hálfrar aldar afmæli félagsins, m.a. með heimsókn á Bessastaði. Aðalfundirnir í dag eru með óhefðbundnu sniði sem skýrist af ýmsu og margir sakna fastra liða eins og frétta frá deildum og erinda frá fræðimönnum.

Nú lýsi ég 51. og síðan 52. aðalfund félagsins setta. Sæmundur Sæmundsson fer með fundarstjórn og Sigríður Magnúsdóttir, ritari félagsins skráir fundargerð“.

 

Fundarsókn var þokkaleg, 29 manns sátu fundinn í húsnæði Landbúnaðarháskóla Ísands í Keldnaholti, Árleyni 22, en 14 til viðbótar voru á TEAMS. Þetta er í fyrsta skipti sem félagar taka þátt í aðalfundi á netinu.

Fundarstjóri, Sæmundur Sæmundsson, bar upp ársreikninga félagsins fyrir árið 2019 og voru þeir samþykktir.

 

Aðalfundarstörf fyrir árið 2021

Fundarsetning og skýrsla stjórnar:

 

Guðrún Gauksdóttir flutti skýrslu stjórnar:

„Áherslur stjórnar ÆÍ hafa byggst á þeim verkefnum sem félaginu eru falin í lögum félagsins  og stjórn vinnur að hverju sinni  í umboði aðalfunda. Jafnframt byggja áherslur stjórnar á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið að  æðarrækt frá því að félagið var stofnað fyrir rúmum 50 árum en tekst jafnframt á við nýjar áskoranir.

 

Vottun íslensks æðardúns

Lögskipað vottunarkerfi íslensks æðardúns hefur mikla sérstöðu. Ári eftir að ÆÍ var stofnað var lögfest kerfi gæðamats á æðardúni og hefur það frá upphafi verið grundvöllur trausts í viðskiptum með æðardún og þekkt og viðurkennt á meðal hráefniskaupenda. Þegar gæðamatskerfinu var breytt og það var jafnframt látið taka til fullunninnar vöru komu í ljós ágallar á kerfinu og vinnur stjórn nú að tillögum að breytingum á reglukerfinu í samráði við Landbúnaðarráðuneytið. Þá má nefna að miklar breytingar og nýungar hafa almennt orðið í vottunarkerfum á síðustu árum og stjórn því kannað möguleika á notkun annarra vottunarkerfa samhliða eða sem gætu komið í stað þess kerfis sem nú er í gildi. Landbúnaðarráðuneytið lagði árið 2020 til að vottunarkerfi æðardúns yrði afnumið en eftir andmæli stjórnar ÆÍ og viðræður við fulltrúa ráðuneytisins voru þær tillögur dregnar tilbaka. Það liggur þó fyrir að þetta er og verður þýðingarmikið verkefni hjá ÆÍ að vinna að endurskoðun vottunarkerfisins og nauðsynlegt að gefa sér rúman tíma og athuga þá kosti sem í boði eru gaumgæfilega.

Fulltrúar úr stjórn ÆÍ hafa m.a. fundað með Staðlaráði Íslands, ICERT og International Down and Feather Labaratory. Þá mun vottun íslensks æðardúns sem verndaðs afurðaheitis m.a. skipta miklu máli, en sú umsókn er í undirbúningi. Þá eru þeir félagsmenn sem eru í hreinsun, sölu og útflutningi æðardúns hvattir til að leita leiða fyrir sín fyrirtæki að því er varðar þær fjölbreyttu vottanir sem í boði eru í dag. ÆÍ hefur staðið fyrir grunnkerfi um vottun á æðardúni og ver af öllu afli og hefur mótað að breyttum aðstæðum.

 

Markaðssetning æðardúns og samstarf við Íslandsstofu

Æðardúnn er afar takmörkuð auðlind og meginmarkmið ÆÍ hefur verið að draga úr sveiflum í eftirspurn og verði á æðardúni. Aukin fullframleiðsla á vöru úr æðardúni beint til kaupanda dregur úr sveiflum og skilar mestu verðmæti til æðarbænda. ÆÍ hefur leitað ýmissa leiða í þessum efnum og  kynningarefni var endurnýjað árið 2012, gefnir út bæklingar og kynningarmynd á fjórum tungumálum og hefur það efni staðið fyrir sínu.

Mikil þróun hefur aftur á móti orðið í leiðum í markaðsetningu og því er það ómetanlegt fyrir ÆÍ að vera nú komið í samstarf við Íslandsstofu og njóta sérfræðiþekkingar og leiðsagnar fagfólks þar. Í ljósi þeirrar þýðingar sem stjórn ÆÍ telur að sú samvinna hafi fyrir æðarrækt hefur verið ákveðið að verja fjárhæð af sjóði félagsins til að hrinda markaðssetningunni af stað og er undirbúningur að nýjum söluvef æðardúns vel á veg kominn. Gert er ráð fyrir að vefurinn verði opnaður seinnipart sumars eða í haust. Þá ætlar Íslandsstofa að skipuleggja myndatökur á nokkrum stöðum á landinu fyrir vefsíðuna í vor. Ljóst er að framvinda markaðsátaksins í samvinnu við Íslandsstofu ræðst af því hvernig gengur að afla styrkja til þeirra verkefna sem framundan eru. Stjórn hefur óskað eftir fundi með landbúnaðarráðherra til að kynna þýðingu markaðsverkefnisins fyrir æðarrækt í landinu og hvort opinberir styrkir séu í boði. Framleiðnisjóður sem hefur verið aðalstyrktaraðili í átaksverkefnum ÆÍ var lagður niður í fyrra og í stað hans stofnaður Matvælasjóður, þar sem verkefni tengd æðardúni eru ekki styrkhæf.

Það er ÆÍ mikils virði að vera komð í samstarf við Íslandsstofu. Félagsmenn geta kynnt sér vef Íslandsstofu www.inspiredbyiceland.com og upplýsingar um starfsemi hennar www.islandsstofa.is

Að því er varðar markaðsstarf þá felst hluti af kynningu og markaðssetningu æðardúns  einnig í veitingu upplýsinga og stuðningi við þá sem sem vilja kynnast æðarrækt hvort sem um er að ræða einstaklinga, kvikmyndagerðarmenn og fleiri aðila og félaginu berst fjöldi slíkra fyrirspurna. Félagsmenn sem eru seljendur/útflytjendur æðardúns eru hvattir til að senda tengiliðaupplýsingar á netfang félagsins, yfirfara þær eða uppfæra.

 

Bandaríkjamarkaður nú opinn fyrir vörur úr æðardúni

Íslandsstofa hefur unnið að því að opna leiðir fyrir æðardún og vörur úr æðardúni á Bandaríkjamarkað í samráði við sendiráð Íslands í Bandaríkjunum og nú hillir undir langþráðar breytingar í þeim efnum. Þegar er búið að opna fyrir  innflutning á vörum úr æðardúni frá Íslandi til Bandaríkjanna. Félagsmenn eru hvattir til að láta stjórn vita ef þeir lenda í einhverjum erfiðleikum í útflutningi til Bandaríkjana en minnisblaði hér að lútandi hefur verið dreift á tollhafnir í Bandaríkjunum. Að því er varðar innflutning æðardúns (hráefnis) á Bandaríkjamarkað þá er einhver bið á að opnað verði fyrir hann, líklega u.þ.b. 2 ár.

 

Sölumál

Glærur sem Erla Friðriksdóttir, varaformaður ÆÍ, hafði tekið saman og voru kynntar á fundinum og má sækja með þessari krækju. http://icelandeider.is/wp-content/uploads/2022/04/20220326.Solumal.SENT_.pdf

 

Vargeyðing

Mál tengd vargeyðingu eru eitt af meginverkefnum ÆÍ samkvæmt lögum félagsins. Fram að afnámi búnaðargjalds gátu deildir félagsins sótt um styrk til ÆÍ til vargeyðingar en eftir að þessi stærsta tekjulind félagsins hvarf var ákveðið að hætta að greiða slíka styrki. Þegar mál tengd vargeyðingu hafa verið til umfjöllunar hjá stjórnvöldum hefur ÆÍ lagt áherslu á að koma að sjónarmiðum æðarbænda. Nú síðast átti fulltrúi úr stjórn ÆÍ sæti í nefnd þeirri sem skipuð var til að endurskoða lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum en þeirri vinnu er ekki lokið.

 

Gagnvirkur kortagrunnur yfir æðarvarp á Íslandi

Margrét Rögnvaldsdóttir hefur stýrt uppfærslu á gagnvirkum kortagrunni yfir æðarvarp á Íslandi í samvinnu við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og er hann aðgengilegur á vef félagsins. Það er mikill áfangi að hafa uppfærðar upplýsingar um fjölda og staðsetningu æðarvarpa á Íslandi og slíkur grunnur felur í sér ýmis tækifæri.

 

Námskeið

Endurmenntun Landbúnaðarháskólans hélt í samráði við stjórn ÆÍ dúnmatsnámskeið í haust og var þátttaka mjög góð. Um næstu helgi, er fyrirhugað námskeið um æðarrækt með áherslu á ungauppeldi og vargeyðingu.

 

Tilraun 2 æðarrækt

Fyrirhugað er að sýningin um æðarrækt og æðardún, sem unnin er í samvinnu við Listaháskóla Íslands, verði opnuð 7. maí í Norræna húsinu en nánari upplýsingar verða sendar félagsmönnum síðar.

 

Önnur verkefni

Að frátöldum framangreindum meginverkefnum tekst ÆÍ og stjórn á við margvísleg önnur viðfangsefni og sum þeirra eru ný af nálinni. Starfsemi sem felur í sér  mögulega ógn við búsvæði æðarfugls hefur færst í vöxt, t.d. sjókvíaeldi og nýting þangs og þara. ÆÍ hefur lagt áherslu á rannsóknir á þessu sviði.  Einnig má nefna sjúkdóma sem herja á æðarfugl, t.d. fuglakóleru.  ÆÍ telur samvinnu við þá sem stunda rannsóknir á æðarfugli og búsvæðum hans og þeirri margvíslegu vá sem að fuglinum steðjar mikilvæga og staðið fyrir kynningu á þeim málefnum á aðalfundum félagsins. Þá má nefna átak í friðlýsingarmálum og hönnun sérstaks skiltis sem eigendur friðlýstra æðarvarpa geta fengið keypt. Nánari upplýsingar eru á vefsíðu félagsins.

 

Breytingar á félagskerfi Bændasamtaka Íslands (BÍ)

Eins og félagsmönnum er kunnugt þá hafa orðið breytingar á félagskerfi BÍ og mun í tengslum við aðalfund verða kosið um hvort ÆÍ sameinist BÍ. Hafa félagsmönnum verið sendir póstar með upplýsingum um hvað sameining felur í sér. Fundur með formanni Bændasamtakanna var haldinn í janúar eins og kemur fram í pósti sem sendur var á félaga ÆÍ. Á fundinum gafst félagsmönnum tækifæri til að spyrja út í þær breytingar sem felast í sameiningu við Bændasamtökin. Siðar á fundinum verður lögð fram tillaga að bráðabirgðaákvæði við lög ÆÍ þar sem lagt er til að rafræn kosning fari fram um sameiningu ÆÍ við Bændasamtökin“.

Tillöguna má sjá hér að neðan, en allir nema einn fundarmaður samþykktu tillöguna.

 

Tillaga að ákvæði til bráðabirgða í lög Æðarræktarfélag Íslands vegna kosninga um sameiningu félagsins við Bændasamtök Íslands

Tillaga að ákvæði til bráðabirgða hljóðar svo:

Stjórn Æðarræktarfélags Íslands er heimilt að efna til rafrænnar atkvæðagreiðslu á meðal kjörgengra félagsmanna í framhaldi af aðalfundi áranna 2020 og 2021, sem haldinn er þann 26. mars árið 2022, um það hvort félagið verði sameinað Bændasamtökum Íslands. Niðurstaða þeirra kosninga er bindandi með sama hætti og ef þær hefðu farið fram á aðalfundinum sjálfum. Jafnframt er stjórn falið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til aðlögunar samþykkta félagsins í samræmi við niðurstöður kosninganna og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir tilefni þeirra.

Greinargerð

Æðarræktarfélag Íslands hefur verið eitt af aðildarfélögum að Bændasamtökum Íslands.  Nú hafa  orðið breytingar á félagskerfi samtakanna og aðildarfélögin hafa eitt af öðru kosið um sameiningu við Bændasamtökin sem deildir búgreina. Félagar ÆÍ eiga eftir að kjósa um sameiningu. Stjórn ÆÍ telur almenna þátttöku í kosningum mikilvæga og að sem flestir félagsmenn eigi kost á þátttöku í kosningunum hvort sem þeir komast á aðalfund eða ekki. Í kjölfar kynningarfundar með BÍ þann 27. janúar s.l. gekkst stjórn ÆÍ fyrir skoðanakönnun meðal félagsmanna um hug þeirra til sameiningar. Í könnuninni tóku þátt 122 og voru 52 samþykkir sameiningu við Bændasamtökin en 70 mótfallnir.

Til að tryggja sem almennasta þátttöku í kosningu um þetta mikilvæga mál leggur stjórn ÆÍ til að bráðabirgðaákvæði verði samþykkt við lög félagsins sem heimili rafræna atkvæðagreislu um þetta tiltekna mál. Með ákvörðun um rafræna atkvæðagreiðslu í kjölfar aðalfundar gefst flestum félagsmönnum kostur á að greiða atkvæði óháð því hvort þeir geti sótt aðalfund eða ekki.

Félagar í ÆÍ eru búsettir í öllum landshlutum og eiga ekki allir heimangengt til aðalfundar og einnig koma hér til áhrif af Covid en fjöldi sýkinga er enn mikill. Eingöngu er lögð til þessi afmarkaða tillaga að bráðabirgðaákvæði við lögin. Ljóst er að endurskoðun á lögum félagsins þarf að fara fram fyrir næsta aðalfund hver sem niðurstaða kosnnganna verður. Bráðabirgðaákvæðið fellur niður þegar rafræn kosning er afstaðin.

 

Ársreikningur: Sæmundur Sæmundsson, fundarstjóri, fór yfir ársreikninginn fyrir árið 2020 og bar hann upp til samþykktar. Ársreikningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Íslandsstofa og ÆÍ: Kristinn Björnsson verkefnastjóri átti að kynna samstarf Íslandsstofu og Æðarræktarfélagsins, en komst ekki til fundarins. Hann sendi glærurnar sínar til fundarins og Margrét Rögnvaldsdóttir fór yfir þær með fundarmönnum og sýndi nýja vefinn sem enn er verið að vinna með Íslandsstofu. Það á að fara í myndartökur í vor í samstarfi við æðarbændur.  Meðal annars á að gera áhrifamyndband. Vefurinn verður vistaður og í umsjá Íslandsstofu án kostnaðar fyrir ÆÍ.  Það er áætlað að þessi vefur fari í loftið síðsumars.

Kosningar: Fyrst var kjörinn formaður ÆÍ til eins árs. Einn var í framboði, Margrét Rögnvaldsdóttir, og var hún einróma kjörin sem nýr formaður ÆÍ. Í aðalstjórn voru þrír í framboði um tvö sæti, Árni Rúnar Örvarsson, Magnús Jónasson og Sigríður Magnúsdóttir. Hér þurfti að kjósa og atkvæðaseðlum dreift. Niðurstaðan varð sú að Sigríður og Magnús voru kosin í stjórn. Í varastjórn voru líka þrír í framboði um tvö sæti, Pálmi Benediktsson, Óðinn Logi Þórisson og Hallur Þorsteinsson. Aftur var atkvæðaseðlum dreift og kosið. Niðurstaðan hér var að þeir Pálmi og Hallur voru kosnir í varastjórn.

Skoðunarmenn reikninga verða áfram þeir Pétur Guðmundsson og Ásgeir Gunnar Jónsson.

Önnur mál: Umræður um aðild ÆÍ að Bændasamtökunum. Þeir sem lögðu fram spurningar og tóku þátt í umræðunum voru m.a. þau Merete Rabölle, Hallur Þorsteinsson, Valgeir Jónasson, Gunnþór Kristjánsson, Margrét Rögnvaldsdóttir.

Fundarslit: Guðrúnu Gauksdóttur fyrrum formanni voru þökkuð vel unnin störf í þágu Æðarræktarfélagsins og árnað heilla í framtíðinni. Guðrún þakkaði falleg orð í sinn garð. Að því búnu var fundi slitið og fundarmönnum boðið kaffi og meðlæti.

Fundarritari var Sigríður Magnúsdóttir.

50. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2019

Fundargerð aðalfundar ÆÍ, 31. ágúst 2019 í Kötlu 2, Bændahöllinni

Aðalfundarstörf:

Fundarsetning

Guðrún Gauksdóttir, formaður ÆÍ, flutti í upphafi fundar ávarp í tilefni af 50 ára afmæli félagsins. Hún rifjaði upp hverjir komu að stofnun félagsins fyrir 50 árum og voru á fyrsta fundinum þann 29. nóvmber 1969 en það voru þeir Gísli Kristjánsson sem var ritsjóri Freys, Sæmundur Stefánsson í Hrísey, Helgi þórarinsson í Æðey, Gísli Vagnsson, Mýrum og Jón Þorbergsson á Laxamýri. 30 félagar mættu á fyrsta fundinn en á fundinum hér í dag eru tveir félagar sem voru á þessum fundi. Það er Úlla Knudsen, ekkja Sæmundar Stefánssonar og móðir Sæmundar núverandi gjaldkera ÆÍ og Ingibjörg Eyþórsdóttir móðir Guðrúnar formanns ÆÍ.

Gísli Kristjánsson var fyrsti formaður ÆÍ, síðan var það Sæmundur Stefánsson, þá Ólafur E. Ólafsson frá Króksfjarðarnesi, Sigurlaug Bjarnadóttir frá Vigur, Davíð Gíslason Mýrum, og síðast Jónas Helgason Æðey á undan Guðrúnu Gauksdóttur, núverandi formanni.

Heiðursfélagar í gegnum árin hafa verið kjörnir Baldur Jónsson sá fyrsti, en hann var uppfinningamaður  og frumkvöðull að smíði dúnhreinsivélar, síðan formennirnir Gísli, Ólafur, Sigurlaug og Sæmundur. Starf ráðunauta hefur verið félaginu mjög mikilvægt og árið 1999 var Árni G. Pétusson, ráðunautur um 15 ára skeið, kosinn heiðursfélagi. Í dag á 50 ára afmælinu verða þeir Davíð Gíslason fyrrverandi formaður og Árni Snæbjörnsson,  hlunnindaráðunautur í 23 ár eða allt til ársins 2008, heiðraðir.

Guðrún gerði sveiflur í sölu á æðardúni að umtalsefni og talaði um að unnið verði að því hörðum höndum að útrýma þessum sveiflum. Hugsanlega lagast það við meiri fullframleiðslu á vörum úr æðardúni í landinu.

Guðrún minntist Eiríks Snæbjörnssonar bónda á Stað í Reykhólahreppi sem lést sl. vor en hann var um árabil í varastjórn ÆÍ og sat oft fundi búnaðarþings fyrir hönd félagsins.

Guðrún setti því næst aðalfundinn og tilnefndi fundarstjóra og fundarritara. Sólveig Bessa Magnúsdóttir tók að sér fundarstjórn og Sigríður Magnúsdóttir, ritari ÆÍ, var fundarritari.

Skýrsla formanns

Guðrún Gauksdóttir, formaður, flutti skýrslu stjórnar og fór yfir aðstæður æðarvarps á landinu í sumar. Veðurfar var með afbrigðum hagstætt dúntekju á sunnan- og vestanverðu landinu. En almennt kom fuglinn seinna í varp, sérstaklega norðan og austanlands og sums staðar mjög seint eða ekki.

Stjórnin fundaði nokkrum sinnum á Skype sl. vetur, en einnig var vinnufundur í Reykjavík 30. mars sl. Megináhersla hefur verið á skráningu varpjarða og undirbúning fyrir kortagrunn, umsókn um verndað afurðaheiti, eflingu deilda (búið að stofna suðvesturdeild) og samstarf til undirbúnings æðarræktar-sýningar, sem kynnt var á síðasta fundi. Margrét mun gera grein fyrir stöðunni í þessum verkefnum hér á eftir. Erla fer yfir sölu- og markaðsmál en nú er tímabíl sölutregðu. Vargnefndin er að störfum og verður kynnt áfangaskýrsla hér á eftir. Það eru mörg brýn verkefni sem bíða, t.d. endurskoðun dúnmatskerfis.

Námskeið fyrir dúnmatsmenn og almennt námskeið um æðarrækt verður haldið hjá endurmenntun LBHÍ í vor. Það er ýmislegt sem þarf að huga að eins og æðarfugl á válista, áhrif loftlagsbreytinga, ganga loðnu og áhrif á búsvæði æðarfugls og fjármögnun félagsstarfsins svo eitthvað sé nefnt.

Reikningar

Sæmundur Sæmundsson, gjaldkeri, fór yfir ársreikninginn og gerði grein fyrir því að eftir að búnaðarfélagsgjaldið rennur ekki lengur til félagsins, er það erfiður róður að fyrir félagið að standa undir eigin rekstri án þess að ganga á sjóði félagsins. Hann stakk upp á því að árgjaldið yrði hækkað upp í 7000 kr. af þessu tilefni og var það samþykkt. Ársreikningurinn var einnig samþykktur.

Skráning æðarvarpa; Verndað afurðaheiti; Sýning um æðarfugl og æðarrækt

Margrét Rögnvaldsdóttir, stjórnarmaður, sagði frá átaki við skráningu æðarvarpa á landsvísu en þau voru samtals 376 á árinu 2018. Unnið verður að því að merkja þessa staði inn á kort af Íslandi og hafa aðgengilegt á heimasíðu félagsins. Á slíku korti mætti t.d. sjá hvar á landinu æðarvörpin eru staðsett og einnig hver þeirra eru friðlýst. Í öðru lagi gerði hún grein fyrir því að verið er að vinna að umsókn um verndað afurðaheiti fyrir íslenska æðardúninn. Það gerir dúninn verðmeiri og það er ljóst að viðskiptavinurinn treystir betur vöru sem hefur verið vottuð. Margrét hvatti eindregið til þess að allar æðardúnsængur væru framleiddar hér á landi. Hún benti líka á að skynsamlegt væri að hafa á heimasíðu ÆÍ ekki bara lista yfir þá sem selja æðardún úr landi, heldur einnig þá sem eru að selja fullunna vöru. Einnig væri hægt að hafa upplýsingar um þá aðila sem hreinsa t.d. æðardúnssængur hér á landi. Í þriðja lagi kynnti Margrét framgang verkefnisins sýning um æðarfugl og æðarrækt, Tilraun II – Æðardúnn, sem farið er af stað. Það verður athyglisvert að sjá hvernig listamennirnir sem koma að þessu verkefni frá LHÍ, sjá þetta fyrir sér. Tveir þeirra fóru sl. vor í heimsókn í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði til Sólveigar Bessu Magnúsdóttur æðarbónda þar til að kynna sér varpið.

Skýrsla varghóps

Skýrsla frá Óðni Loga Þórissyni, formanni hópsins, var lesin upp á fundinum þar sem Óðinn átti ekki heimangengt. Þar segir m.a. að rætt hafi verið við um 20 sveitarfélög víðsvegar um landið og fengust um 40 samningar sem hafa verið gerðir við grenjaskyttur. Í ljós kom við lestur samninganna að mismunandi er hvað sveitafélögin greiða fyrir hvert unnið dýr en sammerkt er með þeim öllum að kjör veiðimanna eru ekki í samræmi við þann kostnað og vinnu sem þeir leggja til verksins. Þetta leiðir til þess að vanir veiðimenn með mikla reynslu gefast upp og nýliðun er lítil. Það skal þó taka fram að sveitafélög standa sig misvel á þessu sviði. Ennfremur kemur fram að sameiginlegt með öllum varg er að þær eru ágengar tegundir sem skerða líffræðilega fjölbreyttni. Vargeyðsla er því fyrst og fremst umhverfismál. Að endingu segir Óðinn að fyrirhugað sé að endurskoða veiðilöggjöfina og ætlar hóðurinn að reyna að fá áheyrnarfulltrúa við það borð. Hann sendir að lokum afmælisóskir í tilefni 50 ára afmælis ÆÍ.

Skýrsla formanns og rekstrarreikningur voru borin undir atkvæði fundarins og samþykkt.

Ávarp

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands (BÍ) flutti ávarp frá samtökunum.

Sigurður byrjaði á því að færa fundinum kveðjur stjórnar og starfsfólks Bændasamtaka Íslands og þakkaði fyrir að fá að ávarpa fundinn. Formaður samtakanna, Guðrún Sigríður Tryggvadóttir í Svartárkoti, bað fyrir sérstakar kveðjur en hún var stödd í göngum í sínu heimahéraði og gat því ekki verið með á fundinum.

Sigurður rakti sögu félagsins, aðdraganda og formlega stofnun ÆÍ 1969, en árið 1917 skrifaði séra Sigurður Stefánsson í Vigur merka grein um æðarræktina í Búnaðarritið sem fór víða og fleiri dæmi má finna frá fyrri hluta 20. aldarinnar. Það var þó ekki fyrr en 1947 sem fyrsti ráðunauturinn í æðarrækt var ráðinn til Búnaðarfélags Íslands, en það var Ólafur Sigurðsson á Hellulandi í Skagafirði. Fyrstu árin var ráðgjöf hans einkum fólgin í að heimsækja bændur, leiðbeina um dúnhreinsun og útvega tæki til hennar.  Hlé varð þó á þessari vinnu um miðjan sjötta áratuginn þar sem fjármuni þraut.

Þetta breyttist síðan aftur við stofnun æðarræktarfélagsins fyrir 50 árum. Stofnun félagsins var í miklu og góðu samstarfi við Búnaðarfélag Íslands og strax í kjölfar stofnunarinnar var Árna G. Péturssyni heitnum, þá sauðfjárræktarráðunaut falið að annast málefni æðarræktarinnar. Það gerði hann allt til starfsloka árið 1985 þegar Árni Snæbjörnsson tók við þeim og sinnti þeim til 2008. Ýmsar breytingar hafa síðan orðið en núna er verkefnið á borði Sigríðar Ólafsdóttur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML).  Æðarræktarfélagið og heildarsamtök bænda hafa því alla tíð unnið vel saman og ég vona að svo verði áfram. Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvað þeir fái fyrir það að vera í BÍ ekki síst í félagi eins og Æðarræktarfélaginu. Bændasamtökin vinna að hagsmunum allra bænda og eru málsvari stéttarinnar. Aðild eflir kynningar- og ímyndarmál landbúnaðarins. Félagsmenn njóta ráðgjafar um réttindi og um málefni sem snerta alla bændur. Eiinig koma BÍ fram fyrir hönd bænda gagnvart ríkisvaldinu og gera samninga fyrir bændur. Félagsmenn njóta 30% afsláttar af flestum forritum BÍ og fá sérkjör á gistingu á Hótel Sögu. Félagsmenn geta leigt orlofsíbúð á höfuðborgarsvæðinu og sem félagsmaður er hægt að sækja um stuðning í starfsmenntasjóð og nýjan velferðarsjóð.

En meginatriðið er og verður að samtakamáttur heildarinnar er mikill og verður meiri eftir því sem fleiri taka þátt, sagði Sigurður. Slagkraftur fjöldans skiptir öllu máli. Sameinaðir stöndum vér sundraðir föllum vér eins og ávallt. Ég hvet alla til að vera félagar í BÍ en að sjálfsögðu er það val hvers og eins eins og áður hefur komið fram.

Sigurður kom einnig inn á fleiri þætti sem snerta starfsemi BÍ en einnig alla landsmenn eins og loftslagsmál, fæðuöryggi og lýðheilsa. Hann sagði að í ljósi þeirrar stöðu sem landbúnaðurinn er í um þessar mundir er mikilvægara en nokkru sinni að við snúum bökum saman, allir íslenskir bændur, burtséð frá búgreinum, landshlutum, stjórnmálaskoðunum eða öðru því sem kann að greina okkur að. Að lokum óskaði hann fundinum velfarnaðar í störfum.

Fræðsluerindi

Eyrún Gyða Gunnlaugsdóttir sagði frá BS rannsókn sem hún gerði á Hvanneyri á breytileika á varptíma æðarfugla innan Íslands. Í ágripi að verkefninu segir m.a. Það færist í aukana að breytingar á varptíma og stofnstærðabreytingar fugla og dýra séu tengdar við loftslagsbreytingar. Því er mikilvægt að fylgjast með þeim breytingum og skrásetja þær upplýsingar. Varptími æðarfugla getur gefið ýmsar vísbendingar um afkomu þeirra. Þegar æðarkollur eru ekki í nógu góðu næringarástandi verpa þær seint eða ekki, þær verpa jafnvel fyrr ef fituforði þeirra er sérlega góður. Því getur varptími þeirra stjórnast af ástandi fæðustofna á vetrarstöðvum en hann getur einnig stjórnast af öðrum lífrænum og ólífrænum þáttum eins og veðurfari, stærð æðarvarps og afræningjum, sem nánar verður fjallað um í þessu riti. Hér er varptími æðarfugla kortlagður yfir landið í heild, en þetta er í fyrsta skiptið sem slíkar upplýsingar eru teknar saman yfir allt landið. Leitast var við að sjá hvort munur væri á varptíma æðarfugla á milli landshluta og hvort breytileiki á varptíma væri til staðar innan landshluta. BS verkefni Eyrúnar er aðgengilegt á skemman.is á vef Háskóla Íslands. Hér er slóðin: https://skemman.is/bitstream/1946/33478/1/BS_Breytileiki_i_varptima_aedarfugla_Eyrun_Gyda.pdf

Markaðsmál

Erla Friðriksdóttir í Stykkishólmi, varaformaður ÆÍ, gerði því næst grein fyrir sölu- og markaðsmálum. Frá 2008 til dagsins í dag hefur salan verið í kringum 3 tonn árlega, en eftir 2017 hefur heldur hallað undan fæti og árið 2018 var útflutningur um 2 tonn. Tæp 800 kg eru farin út á þessu ári 2019. Verð á dún hefur sveiflast nokkuð. Árið 2008 var kílóverðið 107 þúsund krónur, það lækkaði aðeins 2009 en hefur svo stigvaxið til 2016 en þá var það hæst 205 þúsund krónur á kíló. Síðan þá hefur verðið lækkað og salan úr landi minnkað. Útflutningsverðmæti æðardúnsins er í samræmi við þessar tölur sem hér eru skráðar. Stærstu kaupendur æðardúns eru í Japan og Þýskalandi, en æðardúnn hefur einnig verið seldur til Danmerkur, Noregs, Sviss, Kína og Tævan en í miklu minna magni en til Þýskalands og sérstaklega Japan sem er langstærsti kaupandinn. Í fyrra fór í fyrsta skipti æðardúnn til Póllands. Síðan gerði Erla grein fyrir fjölda kílóa seldu til útlanda á þessu ári og verði á hverju kílói skv. tölum frá Hagstofunni. Allir útflutningsaðilar á æðardúni á landinu eru með birgðir frá í fyrra, segir Erla. Fyrirspurn úr sal kom um það hvort þessar tölur ættu bæði við um hreinan dún og unna vöru eins og sængur. En Erla svaraði þvi að þessar tölur miðuðust við útflutning á æðardún en ekki á unninni vöru. Glærur Erlu

Tillögur að ályktunum fundarins

Fjórar ályktanir voru bornar upp og allar samþykktar. Þær eru:

  1. Árgjald. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands árið 2019 ályktar að árgjald fyrir árið 2020 verði kr. 7.000.
  2. Styrkir til deilda. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2019 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrki vegna tilgreindra, rökstuddra verkefna, s.s. vargeyðingar. Styrkir verða einungis greiddir gegn afriti af reikningum.
  3. Sjókvíaeldi og æðarfugl. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2019 ítrekar fyrri ályktanir sínar um að brýn nauðsyn sé á því að rannsaka og vakta áhrif sjókvíaeldisstöðva og stækkunar þeirra á lífríki sjávar og þar með beina og óbeina hættu fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls.
  4. Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2019 ítrekar ályktun sína frá aðalfundum 2017 og 2018 að í breytingum á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og lögum nr. 74/2012 um veiðigjald, sem varða öflun sjávargróðurs, felist ólögmæt skerðing á eignarrétti eigenda jarða sem liggja að sjó og þessi hlunnindi tilheyra, þ. á m. æðarbænda. Stjórn ÆÍ er falið að vinna að lausn málsins ásamt þeim æðarbændum sem málið varðar. Stjórn ÆÍ er falið að leita eftir upplýsingum um það hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum öflunar sjávargróðurs á vistkerfi æðafugls fyrir og eftir að lögin tóku gildi og jafnframt hvernig ráðstöfun auðlindagjalds fyrir auðlindina er háttað.

Kosningar

Kjósa þarf bæði í aðalstjórn og varastjórn, tvo stjórnarmenn, varamann, og skoðunarmann reikninga. Erla Friðriksdóttir varaformaður og Sæmundur Sæmundsson gjaldkeri ganga út. Erla gaf kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, en Sæmundur gaf ekki kost á sér áfram. Páll Þórhallsson var kosinn inn í aðalstjórn en hann var varamaður. Magnús Helgi Jónasson var kosinn áfram til þriggja ára í varastjórn og nýr í varastjórn með honum er Pálmi Benediktsson. Skoðunarmenn reikninga verða áfram þeir Pétur Guðmundsson og Ásgeir Gunnar Jónsson. Engin ný framboð komu fram á fundinum.

Önnur mál

Steinn Rögnvaldsson, bóndi á Hrauni á Skaga, kvaddi sér hljóðs og sagði frá dauða hátt í eitt þúsund æðarkolla í sumar og fyrrasumar. Tekin voru sýni úr dauðum fuglum og einnig úr jarðvegi og vatni á staðnum þar sem fuglarnir drápust. Sýnin úr fuglunum hafa verið rannsökuð og niðurstaðan sú að sennilega sé þetta fuglakólera, en sýni úr vatni og jarðvegi hafa ekki verið rannsökuð. Ástæðan er hugsanlega sú að æðarrækt er ekki hefðbundin búgrein og þar af leiðandi ekki til nein viðbragðsáætlun við svona miklum fugladauða eins og þarna varð, álítur Steinn.

Davíð Gíslason benti mönnum á að skoða upplýsingar um fuglakóleru á netinu en þar segir m.a. að smit sé í driti fuglanna og að ráðlegt sé að snerta ekki dauða fugla. Lesa má frétt í Bændablaðinu frá 2018 um þetta á eftirfarandi krækju: https://www.bbl.is/frettir/frettir/fuglakolera-drepur-aedarkollur-og-villta-fugla/20149/

Sæmundur Sæmundsson, fyrrverandi gjaldkeri, stóð upp og þakkaði fyrir samstarfið en hann lætur af störfum sem stjórnarmaður í stjórn ÆÍ.

Fundarslit

Formaðurinn, Guðrún Gauksdóttir, þakkaði æðarbændum fyrir velsóttan fund (85 manns) og bauð nýja stjórn og varamenn velkomna til starfa. Hún benti á mikilvægi þess að í stjórn sitji fólk frá sem flestum landsvæðum eins og nú er raunin. Guðrún þakkaði einnig Sigurði Eyþórssyni framkvæmdastjóra BÍ fyrir ávarp hans og sagði BÍ mikilvægan bakhjarl ÆÍ og tók undir orð Sigurðar um samtakamátt fjöldans. Hún þakkaði Eyrúnu Gyðu Gunnlaugsdóttur fyrir hennar erindi og kvað ÆÍ alla tíð hafa lagt áherslu á fræðslu til félagsmanna og að samstarf við vísindamenn væri æðarbændum þýðingarmikið. Guðrún þakkaði einnig Margréti Rögnvaldsdóttur í stjórn ÆÍ fyrir skráningu á vörpum og öflun nýrra félaga. Guðrún sagði að stjórn myndi bregðast hratt við erindi Steins Rögnvaldssonar, bónda á Hrauni á Skaga vegna alvarlegrar fuglakóleru sem hann sagði frá undir liðnum Önnur mál. Hátt í þúsund æðarkollur drápust af þessum sökum í sumar og í fyrrasumar á bænum. Ákveðið að Sigríður setji inn upplýsingar um fuglakóleru á heimasíðu félagsins. Að þessu sögðu sleit Guðrún þessum 50. afmælisaðalfundi félagsins og bauð gestum til hádegisverðar.

Aðalfundur ÆÍ 2020 verður haldinn Í Skagafirði að ári.

Fundarritari

Sigríður Magnúsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ný stjórn kosin á aðalfundi ÆÍ 31. ágúst 2019. Guðrún Gauksdóttir, formaður, Erla Friðriksdóttir varaformaður, Páll Þórhallsson gjaldkeri, Sigríður Magnúsdóttir ritari og Margrét Rögnvaldsdóttir meðstjórnandi. Í varstjórn eru Magnús Helgi Jónasson og Pálmi Benediktsson. Á myndina vantar Pál Þórhallsson, gjaldkera.

 

49. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2018

49. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands

Radison Blu 10. nóvember 2018 kl. 10:00

68 mættir

Fundarsetning

Guðrún Gauksdóttir formaður setti 49. fund ÆÍ og bauð fólk velkomið. Minntist góðs fundar á síðasta ári á Raufarhöfn og þakkaði heimafólki þar fyrir gott skipulag. Minntist látins félaga Reynis Bergsveinssonar.

Guðrún gerði að tillögu sinni að Salvar Baldursson yrði fundastjóri og Sólveig Bessa Magnúsdóttir ritari og var það samþykkt.

Salvar tók við stjórn fundarins og gengið var til dagskrár.

Skýrsla stjórnar: Guðrún Gauksdóttir

Stjórn æðarræktarfélags skipa Guðrún Gauksdóttir, Erla Friðriksdóttir, Salvar Baldursson, Sólveig Bessa Magnúsdóttir og Sæmundur Sæmundsson, í varastjórn eru Margrét Rögnvaldsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir. Guðrún talaði um tíðarfar síðasta vor. Fremur svalt var í veðri í maí um landið suðvestanvert á meðan hlýtt var á Norðaustur- og Austurlandi. Mjög hlýir dagar voru í lok mánaðar á Norðuausturlandi. Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur, þá sérstaklega vestanlands. Ný mánaðarúrkomumet voru sett á nokkrum stöðvum í maí. Júnímánuður var óvenju þungbúinn um landið sunnan- og vestanvert. Sólskinsstundir í Reykjavík hafa ekki mælst eins fáar síðan árið 1914. Úrkoma var mikil í þessum landshlutum og veður fremur svalt. Á austanverðu landinu var aftur á móti hlýtt og sólríkt. Hiti fór þar margoft yfir 20 stig. Sunnan- og suðvestanáttir voru ríkjandi. Veðurfarið hafði víða slæm áhrif á dúntekju Vestanlands en heildardúntekja á landinu var ágæt þar sem vel viðraði austan og norðaustanlands. Nánar verður farið yfir það í fréttum frá deildum. Þá hefur dúnsala verið dræmari og heyrum við betur um það undir liðnum sölu- og markaðsmál.

Verkefni stjórnar voru margvísleg. Haldinn var vinnufundur s.l. vor þar sem unnið var úr ályktunum og hópavinnu frá aðalfundinum á Raufarhöfn. Á fundinum var ályktað um ágang vargs og möguleg áhrif þangskurðar og sjókvíaeldis á æðarfugl. Athugasemdum og tilmælum frá hópavinnu á aðalfundinum má skipta í fjóra flokka þ.e.; fullvinnslu og sýnileika,  að virkja deildir og efla samskipti félagsmanna, fræðslu um umhirðu varps og æðardúns og markaðsmál og markaðssetningu. Þessi viðmið hafa verið grunnur að þeim áhersluatriðum sem stjórn hefur unnið  að. Tilnefnt var í nefnd sem kölluð er vargnefnd þar sem hugmyndin er að fram komi tillögur og hugmyndir um heildarstefnumótun í þeim málum (sjá kynningu hér síðar). Hvað varðar tillögu um þangskurð og sjókvíaeldi er verið að ýta á stjórnvöld með rannsóknir á þessum málum. Að því er varðar þangskurð sérstaklega þá hefur stjórn unnið með æðarbændum sem hagsmuna hafa að gæta.  Hvað varðar tilmæli um sýnileiki og markaðssetning leiddi það til þess að leitað var  samstarfs við Listaháskóla íslands (sjá kynningu hér síðar). Þá er Í gangi átak að endurvekja deildir og efla samstarf en Margrét hefur haldið utan um það verkefni (sjá kynningu hér síðar). Þáttur í markaðssetningu og sýnileika er að sækja um að íslenskur æðardúnn verði verndað afurðaheiti (sjá kynningu hér síðar). Auk þess er verið að vinna að markaðsrannsóknum í Þýskalandi og tengslin við Japan. Átak í friðlýsingu æðarvarpa getur verið mikilvægur þáttur í sýnileika og að vekja athygli á mikilvægi fuglsins (sjá kynningu hér síðar). Önnur verkefni stjórnar snúa að dúnmati bæði reglum og framkvæmd en það eru ákveðnir erfiðleikar með vottorðin á fullunnum vörum. Í gangi er endurskoðun á lögum félagsins í samstarfi við lögfræðing bændasamtakanna en það er kjörið að nýta afmælisárið til að uppfæra lögin. Alltaf er áframhaldandi vinna í kringum heimasíðu en þar væri æskilegt að koma meiri upplýsingum inn t.d. varðandi söluaðila, en það kemur alltaf töluvert af fyrirspurnum um söluaðila/útflutningsaðila. ÆÍ er núna með lista með söluaðilum frá þeim sem eru í Samtökum atvinnulífsins – æðardúnshópsins. Vinna við miðlun fræðsluefnis eru í gangi og Sigríður heldur utan um það. Stefnan er að finna fróðleik um æðardún og vinnslu og fá heimild til að birta á heimasíðu. ÆÍ er með hugmyndir að faraí  kynnisferðir til Vega í Noregi og/eða Kanada og fljótlega verður sendur út póstur til að kanna áhuga á slíkri heimsókn. Auk þessa alls hefur ÆÍ veitt upplýsingar og ráðgjöf að fremsta megni til félagsmanna. Æðarræktarfélagið verður 50 ára á næsta ári og fyrirhugað er að halda upp á þann áfanga með ýmsum hætti. Ákveðið hefur verið að halda fundinn í Reykjavík 30.-31. ágúst og er m.a. fyrirhugað að heimsækja Bessastaði og fá að skoða varpið þar.

Ársreikningar: Sæmundur Sæmundsson

Gjaldkeri fór yfir ársreikninga félagsins. Helstu tölur úr ársreikningi eru að tekjur voru kr. 1.218.171, gjöld kr. 1.691.112, því var rekstrarhalli upp á  kr. 472.941, að teknu tilliti til fjármunatekna og fjármagnsgjalda er niðurstaðan kr. 109.551 í mínus. Sæmundur nefnir að ljóst sé að niðurfelling búnaðargjalda séu að hafa þessi áhrif á tekjur félagsins og ljóst sé að hækka þarf félagsgjöld því þrátt fyrir að félagið búi að því að eiga ágæta sjóði gangi ekki að reka félagið með halla til lengri tíma. Efnahagsreikningur félagsins sýnir að eignir félagsins eru kr. 15.694.170.

Fyrirspurnir um skýrslu formanns og reikninga.

Helgi Pálsson spyr af hverju ekki sé lengur í reikningum sú upphæð sem sé ógreidd til deilda þ.e. þegar deildir séu ekki komnar með kennitölu og reikning til að fá greitt. Sæmundur svarar að þetta væri ekki lengur inn í reikningum því það væri hæpið að aðildarfélög gætu fengið félagsgjöld greidd aftur í tímann. Helgi spyr líka um liðinn bundið eigið fé. Sæmundur svarar að skv. lögum um ársreikninga á að meta fjármálagerninga á markaðsvirði. En mismunurinn á nafnverði og markaðsvirði  (matsbreytingin) á að vera færður á eiginfjárreikning sem bundið eigið fé þar sem ekki er heimilt að greiða út arð eða úthluta því úr eiginfjárreikningi félagsins. (37. og 38. gr.)Við sölu á bréfunum leysist þessi færsla upp.“

 

Starf innan deilda: Margrét Rögnvaldsdóttir

Margrét Rögnvaldsdóttir segir frá starfi sínu við innra starf deilda en hún hafði áhuga á að fá yfirsýn yfir hversu margar jarðir með æðarvarp væru á hennar svæði. Hún byrjaði að skrá jarðir í sinni deild. Bar saman varp 1940 og 2018 og notaði viðmið hvort dúnninn væri hirtur. Nú eru 32 jarðir með æðarvarp en voru 49 árið 1940, svæðið er Æðarræktarfélagið N-Austurlandi Kelduhverfi í Vopnafjörð að Hellisheiði. Nú stendur til að skrá þetta á sama hátt um allt land. Lengi vel hefur verið talið að varp sé á um 400 jörðum en tölur eru síðan 1940.  Þessi vinna er komin í ákveðinn farveg og verður unnin í samvinnu við félögin um allt land.  Margrét nefnir að  N-Austurland og Austurland séu komin með facebookarsíðu þar sem sé ýmis fræðsla og fl. og fólk getur haft samskipti innan deildarinnar. Deildir eru á öllu landinu nema Suðausturlandi en Margrét og stjórn ÆÍ eru að aðstoða fólk við að endurvekja deildir.  Flestar deildir eru komnar á skrá hjá ríkisskattstjóra og komnar með kennitölu og bankareikning til að fá sína hlutdeild í félagsgjöldum.

Nauðsynlegt að hafa yfirsýn yfir hvar og  hversu margir stunda æðarrækt því sem hópur er slagkrafturinn meiri til að vinna að sameiginlegum málum það ættu allir æðarðræktendur að vera félagsmenn. Margrét óskar eftir að fá sendar upplýsingar um æðarvörp.

 

Verndað afurðarheiti: Margrét Rögnvaldsdóttir

Æðarræktarfélagið er að vinna í umsókn um verndað afurðarheiti fyrir íslenskan æðardún. Það hefur sýnt sig að vörur sem hafa verndað afurðarheiti seljast betur og á hærra verði.  Kannanir í Evrópu hafa sýnt að neytendur eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir vörur sem bera landfræðilega merkingar og staðfesta uppruna vörunnar þannig að hann sé skýr og óyggjandi. Neytendur þurfa að vita hvaðan varan kemur og hvernig hún er unnin. Ef umsóknin verður samþykkt þá er fengin heimild til að nota auðkennismerki GI kerfisins hjá ESB sem er mjög þekkt og staðfestir sérstöðu og gæði. Ferlið tekur töluverðan tíma því umsóknin þarf að vera ítarleg og með staðfestingu í ýmis gögn og rannsóknir.  Helstu rök fyrir að sækja um verndað afurðarheiti eru: að fá formlega viðkenningu á sérstöðu íslenska æðardúnsins; að styrkja samkeppnisstöðu gagnvart öðrum dún; að skapa ný tækifæri á innlendum og erlendum mörkuðum; og að koma til móts við auknar kröfur neytenda um upplýsingar um uppruna afurða. ÆÍ vonast eftir að vera búið að fá verndað afurðarheitið Íslenskur æðardúnn – Icelandic Eiderdown á 50 ára afmæli félagins árið 2019.

Fyrirspurn frá Guðrúnu Sigurðardóttur um hvort umbúðirnar þurfi að vera vottaðar. Margrét átti von á að vottunin væri eingöngu á dúninn.

Varnir í æðarvörpum- vinnuhópur : Sólveig Bessa Magnúsdóttir

Stjórn ÆÍ ákvað á vinnufundi s.l. vor að kalla til menn  úr félaginu til að mynda vinnuhóp sem fjallað gæti um varnir í æðarvörpum í víðu samhengi. En þannig eru málin í vörnum æðarvarpa í dag að fjármagn frá opinberum aðilum hefur dregist verulega saman síðust ár og æðarbændur skortir bæði fjármagn og tíma til að verja vörp sín.  Nefndinni er ætlað að fjalla um varnir við ref, mink og flugvarg.

Sólveig Bessa tók að sér að koma hópmun saman. Fyrsti fundur hópsins var að morgni þessa fundardags þar var rætt um fyrirkomulag á nefndarstörfum og hlutverk nefndarinnar og þessir punktar komu fram: a. Kerfið og umhverfið sem við lifum – varnir – friðlönd. b. Jafningjafræðsla þ.e. kynna og/eða nýta þá þekkingu  sem til staðar er hjá æðarbændum og veiðimönnum. c. Safna saman upplýsingum um hvernig staðan í vargeyðingu er í dag.  Helgi Þorsteinsson tók að sér að verða formaður hópsins en aðrir í hópnum eru Ásgeir Gunnar Jónsson, Björgvin Sveinsson, Páll Þórhallsson, Helgi Pálsson, Sigurður Guðjónsson, Pétur Guðmundsson og Óðinn Logi Þórisson.

Ávörp gesta: Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtakanna

Sindri þakkaði fyrir boðið og fannst ánægjulegt að heyra mikinn hug æðarbænda fyrir að efla starfið. Nefndi að þetta væri annað umhverfi eftir að búnaðargjöldin lögðust af. Ræddi um breytingu á félagsgjöldum en það eru  u.þ.b. þriðjungur af þeim sem áður voru í BÍ sem ákváðu að vera með í Bændasamtölunum eftir breytingu. Aðildarfélög BÍ eru allt sjálfstæð félög og félögin standa og falla með félagsmönnum. BÍ hefur stofnað vinnuhóp til að skoða núverandi stöðu eftir breytingu. BÍ vill vera stóri bróðir eða hin mjúka hönd til að styðja og leiða aðildarfélögin. Sindri sagði að öll  séum við mikilvæg í samfélagi sveitanna hvað sem við búum við og hversu stórt og saman sköpum við þetta menningarsamfélag, m.a. með tilliti til ferðaþjónustu. Sindri ræddi um góðar landbúnaðarafurðir á Íslandi. Fór yfir helstu málefni sem BÍ er að vinna í um þessar mundir þar sem stærstu málin væru hrákjötsmálin, tollamál og umhverfismálin. Óskaði æðarbændum velfarnaðar í störfum og þakkaði samstarfið.

Merete Rabölle spyr Sindra í hvað félagsgjöldin fari  og hvað bændasamtökin geri fyrir æðarbændur.  Sindri þakkar fyrir fyrirspurnina og svarar að hagsmunagæslan fari oft hljóðlega fram og komi ekki alltaf upp á yfirborðið. BÍ vinni að hagsmunum sveitanna á margvíslegan hátt, þau gæti hagsmuna gagnvart þingi oft í samstarfi við aðildarfélögin. BÍ sé í forsvari fyrir samninga sem gerðir eru við ríkið. Bændasamtökin hafi marga snertifleti. Margir starfsmenn vinna fyrir BÍ og landbúnaðinn í heild  og geta hjálpað aðildarfélögum að koma  sínum málum áleiðis.  BÍ á Hótel Sögu bændur geta fengið þar afslátt.

Landbúnaðarklasinn:  Tjörvi Bjarnason frá Bændasamtökunum

Tjörvi kynnti landbúnaðarklasann sem stofnaður var 2014 sem hefur verið að byggja upp starfsemi, en markmiðið er m.a. að gæta að sameiginlegum hagsmunum og deila þekkingu. Unnið er að fjölgun aðila og nýir aðilar hafa verið að koma inn í samstarfið og þar á meðal ÆÍ. Tjörvi fór yfir hvað klasi væri og klasa sambærilegra félaga. Klasa er ætlað að efla samkeppnishæfni og samstarf aðila án þess að sameinast. Við vaxandi kröfur er þetta leið til að dragast  ekki aftur úr, komast inn og á nýja markaði og efla sinn hag.  Landbúnaðarklasinn stefnir að því að standa fyrir  viðskiptahraðli þá gætu aðilar sótt um að taka þátt og einhver ákveðinn fjöldi verður svo  valinn úr þeim umsóknum.  Þetta gæti hugsanlega verið spennandi fyrir einhverja æðarbændur. Landbúnaðarklasinn í heild gæti snert um 12-20 þúsund manns þ.e. sem hafa einhvern hag af eða tengjast s.s. BÍ og aðildarfélög og fyrirtæki s.s. afurðarstöðvar og þjónustustofnanir.  Það sem hefur verið gert er t.d. gerð sjónvarpsþátta, samningur við sjávarklasann um aðstöðu fyrir nýsköpun og framleiðslu, stefnumótun milli frumkvöðla og fyrirtækja og ýmislegt fleira. þetta er heimasíða landbúnaðarklasans www.landbunadarklasinn.is

 

Hádegisverður

Tilraun II – æðardúnn: Hildur Steinþórsdóttir, Rúna Thors og Tinna Gunnarsdóttir frá Listaháskóla Íslands:

Hildur, Rúna og Tinna kynntu verkefni sem þær vinna að á vegum Listaháskóla Íslands í samvinnu við ÆÍ. Verkefnið er farandsýning með 12 verkum þar sem að æðardúnn er settur í nýtt óvænt samhengi í gegnum skapandi samtal listamanna, æðarbænda og fræðimanna.

Hildur er arkitekt og Rúna og Tinna eru vöruhönnuðir en þær byggja hugmynd sýna á  sýningu sem var í Hafnarborg „Tilraun –leir og fleira“ þar sem paraðir voru saman hönnuðir og listamenn.  Hugmyndin er að  halda sýningu sem mundi veita innsýn inn í ferlið og aðferðarfræðina. Þetta yrði opin tilraun þannig að eitthvað nýtt getur alltaf komið inn.  Hlutverkið er að horfa á umhverfið og leita að möguleikum. Þess vegna er gaman að tengja saman sem flesta aðila. Sýningin ætti að vera víða um land og möguleiki á að fara út fyrir landsteinana. Sýningin á að fræða horfandann um æðarfuglinn og umhverfi hans þar sem æðarræktarferlið  er einstætt ferli þar sem sambýli virðing, hugvit og nýtni eru einkennandi og einnig að samband manns og æðarfugls er einstakt. Spurt er m.a. hvert  hlutverk æðardúns sé í framtíðinni. Ekki er eitt markmið með sýningunni það, getur breyst og nýtt komið inn. Þær segja tilhneigingu í nútímanum til að aðgreina menningu frá efnum en þær vilja flétta saman menningu og efni og sýna gæði og gildi efnis. Sýningin mun samanstanda af 12 mismundandi verkum og sýningaraðilar hafa bakgrunn í myndlist, hönnun, arkitektúr, tónlist, sviðslist o.fl. Þær þurfa aðstoð æðarbænda og vilja að þeir taki þátt, þær gera ráð fyrir að ferðast um og hafa samband. Það vantar fjármagn í verkefnið og eru þær að sækja um styrki á ýmsum stöðum.  Upphaf verkefnisins var í maí 2018 og áætluð lok eru í nóvember 2019

Merete Rabölle var með fyrirspurn um hvort þetta væru 12 bændur. Þær útskýra betur að um sé að ræða 12 mismunandi listamenn.

Margrét Rögnvaldsdóttir tekur til máls og nefnir hversu spennandi þetta verkefni sé og  að æðarbændur væru glaðir að fá þær í heimsókn og í samvinnu.

Æðardúnn og æðarrannsóknir: Jón Einar Jónsson, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Jón Einar sagði frá  starfsemi  Rannsóknarseturs HÍ á Snæfellsnesi í rannsóknum á æðarfugli.

Rannsóknir eru m.a. í muninum á formbyggingu dúns æðarfugls og  grágæsar. Búið að gefa út skýrslu á ensku og til er samdráttur á íslensku.

Rannsóknarsetrið fylgist með 30 kollum á hverju ári og taka starfsmenn dún og ætla að fylgjast með hvort verða breytingar á dúninum  með aldri. Þeir eru einnig farnir að merkja unga.

Páll Þórhallsson spurði um litarmun á dún. Jón Einar sagði að skýringar væru mismunandi og ýmsar getgátur væru i gangi en engin vissa s.s.  væri spurning hvort dúnn upplitist í sól, hvort kollur séu að verpa í gamalt gæsahreiður, hvort það séu gamlar kollur sem eru ljósari. Spurning úr sal um úlpurnar frá Canada goouse  hvaða dúnn þetta sé. Jón segir að flest allur dúnn  komi frá Kína og hann geti ekki svarað þessu. Pétur Guðmundsson  spyr hvort eitthvað sé um albinóa. Jón segir eitthvað um það. Sigríður Magnúsdóttir spyr hvort kolla og gæs reyti báðar dún ef þær eru að verpa í sama hreiður.  Jón svarar að það verði samkeppni um hreiðrið á meðan þær eru að verpa en svo nær önnur yfirhöndinni og þá sé varla komin dúnn.

Kynning á stöðu sérfræðings í hlunnindanýtingu með áherslu á æðarrækt: Bjarni Jónsson hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra

Bjarni Kynnti hugmyndir um nýtt sérsvið náttúrustofu á norðurlandi vestra í hlunnindanýtingu

Bjarni er forstöðumaður og staðsettur á Sauðarkróki.  Hann segir að það vanti upp á að sinna ráðunautastarfi fyrir okkar  hóp og taldi þetta vera svið sem þyrfti að koma að.

Sigríður Magnúsdóttir spyr hvað komið hafi út úr rannsóknum á fugladauða á Hrauni á Skaga. Bjarni svarar að þetta hafi verið fuglakólera sem varð ekki útbreidd en er bráðsmitandi.

Salvar hvetur æðarbændur og aðra hlunnindabændur til að ýta þessa þjónustu sem þeir hyggjast koma á fót hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra

Friðlýsing æðarvarps – kynning á skiltum:  Sigríður Magnúsdóttir

Sigríður kynnir friðlýsingu æðarvarpa og skilti sem stjórn ÆÍ hefur látið hanna og gefa út. Hugmyndin er að koma í veg fyrir óæskilega umferð í æðarvörpum. Tímabilið sem skiltin eru virk er frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert. Bæjarnafnið kemur fram á skiltinu og á því er lögð áhersla á það að öll óviðkomandi umferð um varplandið sé óheimil á þessum tiltekna tíma. Yfirlit friðlýsinga í gildi liggja frammi hjá sýslumönnum. Hægt er að panta skiltin í gegnum heimasíðu ÆÍ, þau eru í tveimur stærðum og kosta kr. 6.200 og 8.060.

Nokkur umræða varð um merkin og hvort þau væru nógu áberandi eða hefðu nægan fælingarmátt, nokkrir nefndu að bannmerkið  hefði þurft að vera meira áberandi  og að þetta skilti muni e.t.v. frekar laða fólk að. Einnig kom ábending um að það hefði þurft að vera á fleiri tungumálum. Guðrún, Bessa og fleiri úr stjórn svara þessu þannig að mikil umræða hafi verið í stjórn við gerð skiltanna og einmitt þessi sjónarmið hafi komið fram en haft var að leiðarljósi  við hönnun skiltanna að koma í veg fyrir óæskilega umgengni um varplöndin en í sátt við umhverfið og mannlíf einnig að skiltin væru ekki mjög áberandi hvorki í lit eða skilaboðum  og væru þannig ekki sjónmengun. Þau gæfu til kynna að þarna væri æðarvarp í gangi og væru vinsamleg ábending til fólks að það virti þennan viðkvæma tíma fuglanna. Umhverfisstofnun kom inn í hönnun skiltanna. Bændum væri svo frjálst að hafa auk þess áberandi bannmerki með þessum ef þess þyrfti.

Ingunn kom með ábendingu um að hægt væri að hafa  QR kóða á skiltunum þannig að hægt væri að kalla fram fleiri tungumál í gegnum síma eða tölvu.

Æðarfugl á válista : Jón Einar Jónsson, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Jón Einar fór yfir nýlegar upplýsingar frá Náttúrustofu Íslands þar sem fram kemur að æðarfugl er kominn á válista, sjá glærur. Margar ástæður geta legið til þess að fuglinn sé kominn á válista en eins og staðan er nú er vonandi ekki ástæða til að hafa áhyggjur af stofnstærðinni nema eitthvað komi uppá í náttúrunni. Hægt er að fara inn á válista IUCN (alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna) á netinu: https://www.iucn.org/resources/conservation-tools/iucn-red-list-threatened-species og inn á Náttúrufræðistofnun til að sjá fugla á íslandi á válista: http://ni.is/midlun/utgafa/valistar

Jón Einar taldi margt geta haft áhrif á fækkun æðarfugls s.s. veðurfar, súrnun sjávar, og minkur, refur og hitastig sjávar.

Sölu – og markaðsmál: Erla Friðriksdóttir

Erla fór yfir útflutningstölur síðustu 10 ára.

Sjá töflu að neðan um magn hrádúns í útflutningi, útflutningsverðmæti og meðalverð æðardúns. Ath. að tölur fyrir árið 2018 eiga ekki við allt árið

 

Eins og þessar töflur sýna fór útflutningur á æðardúni   í fyrsta sinn síðan 2009 undir tvö tonn.

Þessar tölur sýna líka að magn í útflutningi og verð er að lækka. Dúnninn er eins og áður mest fluttur til Japan og Þýskalands en einnig til annarra landa í minna mæli.

Merete Rabölle spyr Erlu hvort hún haldi að það hafi hrif á markaðinn að æðarfuglinn sé kominn á válista. Erla svarar að það sé agalegt að æðarfuglinn sé kominn á válista en hún geri sér ekki grein fyrir hvaða þýðingu það hafi fyrir tínslu á dún. Þetta sé kannski meira varðarráðstöfun núna og hún hafi ekki áhyggjur af því viðskiptalega. Hún nefnir að margir viðskiptavinir hennar hafi  áhyggjur af því að enginn taki við að týna æðardúninn af yngri kynslóðunum. Merete spyr hvaða ógn hún telji vera í viðskiptum með dún, hvort rússneskur dúnn  sé  ógn eða önnur samkeppni.  Erla veit ekki til þess  og heldur að það sé engin bein ógn bara spurning um framboð og eftirspurn.

Spurning úr sal um hvernig  salan sé innanlands og  eftirspurnin á innanlandsmarkaði. Erla getur bara svarað fyrir sig þar sem hún er að framleiða smávörur á innanlandsmarkað að hennar reynsla er að þessar vörur seljast bæði til Íslendinga og útlendinga en Íslendingar kaupa samt ekki sængur af henni. En það er ekki til tölur um innanlandssölu.

Pétur Guðmundsson tók til máls og talaði um að sennilega væri hluti ástæðunnar fyrir sölutregðu núna ákveðið framboð á æðardún  frá Rússlandi á lágu verði,það sé notað til að pína verðið niður.

Fréttir frá deildum

  • Vesturland – Svanur Steinarsson
    Mikil rigning en flestir náð þokkalegum dún. Þrátt fyrir ágætan dún náði kollan að koma upp ungum. Refurinn er mikið vandamál og ekki nóg sem sveitafélagið kemur að þessu. Vill nefna að honum finnst að eigendur eigi að fá leyfi til að brenna sinu en það er mikið ferli.
  • Æðarræktarfélag Snæfellinga -Ásgeir Gunnar Jónson
    Tekur undir með Svani með að veður var blautt. Áhyggjuefni á hans svæði er ásókn í þangskurð t.d. erlendir aðilar en það verður borin upp tillaga á fundinum um þangskurð. Ásgeir vill nota tækifærið hér og nefna að hann hefur verið að meta dún í smásölu en vottorðin eru stór og ljót og í óumhverfisvænum plastvasa. Hann kemur með tillögu um að fá einhverja í lið með sér til að framleiða nett falleg vottorð.
  • Dalasýsla og A- barðastrandasýsla – Helga María Jóhannesdóttir
    Æðarvarpið fór vel af stað gott veður í apríl en maí og júní úrkomusamir auk þess var svalt í verðri þetta hægði á varpinu. Þrátt fyrir það var góð dúntekja. Töluvert samt af yfirgefnum hreiðrum vegna bleytu og sérstaklega á fastalandinu en misjafnt eftir stöðum. Þau hafa fengið mann til að eyða vargi sem fór víða annars sinnir fólk þessu sjálft. Glíma við flugvarg í eyjunum en tófan og fleira í landi. Deila áhyggjum af auknum þangskurði og vilja að það verði rannsakað hvaða áhrif það hefur á æðarfuglinn og lífríkið.
  • Dúnland Ísafjarðarsýslur og V-Barðastrandasýsla – Salvar Baldursson
    Varpið gekk ágætlega en blautt vor, svæðið er stórt svo það var misjafnt. Sama baráttan við refinn sem er skæður og minkinn líka. Annars allt í svipuðu formi og vanalega.
  • Strandasýsla – Pétur Guðmundsson
    Allt betra en í fyrra, þokkaleg tíð. Mikið af fugli sem ekki varp og skilaði ekki í hreiður. Hefur dregið 619 unga úr minkagreni.
  • Varpland Húnavatnssýslu Helgi Pálsson
    Tíðarfar til dúnhirðu var slaklegt í vor, rigning og því þurfti að fara oft til að taka dún.
    Mikið um ref og mink og svo er hrafninn farinn  að valda miklum búsifjum. Uppeldi er á haugunum á Blönduósi. Deildin er loksins komin með kennitölu og heitir í dag Varpland. Varp fór snemma af stað einnig verpti eitthvað af fugli eftir Jónsmessu. Mikið af æðarungum komst upp í vor.
  • Norðvesturland – Sigurður Guðjónsson
    Voraði vel í Skagafirði en svæðið nær yfir fleira en eitt veðurfarssvæði. Fengu ekkert hret og viðraði ágætlega. Fengu samt flóð í Héraðsvötnum en þar er varp í hólmum. Óútskýrður fugladauði á Hrauni á Skaga sem sennilega hefur verið fuglakólera en dreifðist ekki út til annarra varpa en varð verulegt tjón á Hrauni. Upplifði sölutregðu, finnst hún vera orðin pínulítið löng hverju sem er um að kenna. Lítur ekki bara á æðarrækt sem atvinnumál heldur menningarmál – strandmenningu. Hafa sótt um í sjóð og fengið  styrk í sýningu og líka frá ÆÍ.
    Ekki mikið svigrúm til að standa í sýningum. Hættur að fá styrki frá félaginu en hefur fengið styrki eftir öðrum leiðum. Svartbak hefur fækkað kannski vegna þess að búið er að loka fyrir aðgang að úrgangi. Refurinn er búinn að granda tveimur vörpum í Skagafirði og er kominn vel á veg með það þriðja. Fólk hefur ekki bolmagn í litlum vörpum til að vaka yfir vörpum í einn og hálfan mánuð.
  • Æðarræktarfélag Norðausturlands – Margrét Rögnvaldsdóttir
    Héldu aðalfund og 39 mættu. Reyna að hafa fræðslu og Helgi sýndi hvernig hann ver varpið sitt. Einmuna tíð í vor og sumar og fólk almennt mjög ánægt með varpið og mikið komist upp af unga. Mikið um mink, ref og flugvarg. Annars allir mjög kátir með þetta sumar.
  • Skaftafellssýsla – Gísli Karl
    Gísli kominn til að kynna sér starf æðarbænda. Kemur sem fulltrúi Skaftafellssýslu en þar eru menn að reyn að koma starfi í gang og endurvekja félagið.

Tillögur/ályktanir

Fundarstjóri Salvar Baldursson las upp tillögur þær sem liggja fyrir fundinum. Hér eru þær settar fram eins og þær voru samþykktar.

I. Árgjald.
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands árið 2018 ályktar að árgjald fyrir árið 2019 verði kr. 6.000.

II. Styrkir til deilda. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2018 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrki vegna tilgreindra, rökstuddra verkefna, s.s. vargeyðingar. Styrkir verða einungis greiddir gegn afriti af reikningum.

III. Sjókvíaeldi og æðarfugl. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2018 ítrekar fyrri ályktanir sínar um að brýn nauðsyn sé á því að rannsaka og vakta áhrif sjókvíaeldisstöðva og stækkunar þeirra á lífríki sjávar og þar með beina og óbeina hættu fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls.

IV. Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2018 ítrekar ályktun sína frá aðalfundi 2017 að í breytingum á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og lögum nr. 74/2012 um veiðigjald, sem varða öflun sjávargróðurs, felist ólögmæt skerðing á eignarrétti eigenda jarða sem liggja að sjó og þessi hlunnindi tilheyra, þ. á m. æðarbænda. Stjórn ÆÍ er falið að vinna að lausn málsins ásamt þeim æðarbændum sem málið varðar.

Umræður um tillögurnar

  • Sjókvíaeldi og æðarfugl: Helgi Páll segir frá sinni reynslu af sjókvíðaeldi og jákvæðum áhrifum þess á æðarvarpið að Hlaðseyri við Patreksfjörð, nú er búið að taka laxahringina og færa utar í fjörðinn.
  • Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni: Ásgeri Gunnar segir að þetta mál brenni á bændum í þeirra félagi lítið annað hafi verið rætt á aðalfundi deildarinnar.
    Erla Friðriksdóttir segir að með nýjum lögum sé verið að ganga á eignarétt landeigenda verið sé að innheimta auðlindagjald eða skatt af landareign.
    Kristinn segir að grundvöllurinn að þessu gjaldi sem fiskistofa ætlar að taka er sá að rannsaka þurfi þang hann telur að búin sé að rannsaka þang í mörg ár og þeim sem hafa slegið þang hafi veri gert að skila skýrslum, hann spyr hvað  ætlar fiskistofa að fara að rannsaka sem ekki er búið að gera nú þegar, stutt sé í að tekið verið gjald af rúllunum og kollunum.
    Helgi Pálsson talar um hnignun vistkerfa, talar um að þari og þang sé horfið.
    Greinargerð með þessari tillögu lá fyrir fundinum og var send út í tölvupósti til félagsmanna.
    Atli sér ekki annað en að félagið þurfi að vinna að þessu stóra máli í samvinnu við aðra hagsmunaaðila.

Kosningar

Kosið var um tvo menn í stjórn og tvo í varastjórn. Salvar og Sólveig Bessa gáfu ekki kost á sér til endurkjörs í aðalstjórn. Sigríður Magnúsdóttir og Margrét Rögnvaldsdóttir gáfu kost á sér í aðalstjórn, ekki komu önnur framboð og þær samþykktar með lófataki. Tvö framboð lágu fyrir í varastjórn. Það voru þeir Páll Þórhallsson og Magnús Helgi Jónasson, voru þeir samþykktir með lófataki. Páll er kosinn til  þriggja ára og Magnús til eins árs. Þá var Guðrún Gauksdóttir formaður kosinn búnaðarþingsfulltrúi og varaformaður Erla Friðriksdóttir til vara. Ásgeri Gunnar kosinn sem skoðunarmaður reikninga til tveggja ára.

Önnur mál

Guðmundur á Hvammstanga kveður sér hljóðs til að tala um félagsgjöldin, vill vekja athygli á að félagaskráin sem gengið hefur um salinn sé eitthvað gölluð það sé búið a henda út af skránni. Sæmundur svarar og segir að stjórn viti nú þegar af þessu og  ein ástæða sé að kerfið hafi eitthvað  klikkað, það sé ekki verið að henda fólki vitsvitandi út en tekið var vel til í skránni fyrir tveimur árum en þetta þarf að athuga vel og farið verður yfir hvað raunverulega hefur gerst.

Sigríður spyr hvernig farið sé að því að stofna deild. Margrét ætlar að vinna að þessum málefnum og aðstoða við að stofna deildir.

Formaður slítur fundi

Guðrún þakkar gestum fundarins og fundarmönnum góða fundarsókn. Þakkar Bessu og Salvari fyrir samstarfið og framlag þeirra til ÆÍ á liðnum árum og býður nýtt fólk velkomið í stjórn.

Hún segir að stjórnin taki vel við ábendingum og vinni eftir þeim.

Guðrún nefnir að halda eigi upp á  50 ára afmæli að ári og hún hvetur félaga til að hafa samband með hugmyndir fyrir afmælishátíð.

Fundi slitið kl. 16:00

Fundarritari

Sólveig Bessa Magnúsdóttir

48. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017

48. aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands
Hnitbjörgum Raufarhöfn 26. ágúst 2017 kl. 10:00

76 mættir

Fundarsetning
Guðrún Gauksdóttir formaður setti fundinn og bauð fólk velkomið. Hún lýsti ánægju með hversu vel væri mætt til fundar en það sýndi sig að ávallt væri betri mæting á fundina þegar þeir væru út á landi. Það væri stefna stjórnar að hafa þá á landsbyggðinni þriðja hvert ár.
Guðrún gerði að tillögu sinni að Salvar Baldursson yrði fundastjóri og Sólveig Bessa Magnúsdóttir ritari og var það samþykkt.

Salvar tók við stjórn fundarins og fór yfir praktísk atriði varðandi hópverkefni og fl. Gengið til aðalfundardagskrár.

Skýrsla stjórnar: Guðrún Gauksdóttir
Guðrún Gauksdóttir formaður byrjaði á að segja frá hverjir væru í stjórn ÆÍ en nú eru það þau: Erla Friðriksdóttir, Salvar Baldursson, Sólveig Bessa Magnúsdóttir og Sæmundur Sæmundsson í aðalstjórn og þær Margrét Rögnvaldsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir í varastjórn.
Að venju fór formaður yfir veðurfar á landinu á varptíma en í vor varð mikil úrkoma og því vandi vegna bleytu í öllum landshlutum en í mismiklu mæli þó. Mikilvægt er í þannig árferði að geta þurrkað dúninn fljótt. Hreinsunaraðilar tóku fljótt við dúni til að geta þurrkað og hreinsað sem fyrst en eins eru æðarbændur margir hverjir með góða aðstöðu til að þurrka dún. Í tengslum við það væri gaman að taka saman þær fjölbreyttu aðferðir og tæki sem bændur nota við þurrkun dúns.
Af verkefnum stjórnar hefur stærsta málið verið viðbrögð við niðurfellingu búnaðargjalda og hvernig ÆÍ skuli bregðast við því, greinargerð frá stjórn ÆÍ liggur fyrir fundinum og tilgangur hópavinnu er að fá fram hjá félagsmönnum hvert skal stefna. Önnur verkefni eru málefni sjókvíaeldis og breytingar á lögum um fiskveiðistjórn að því er tekur til öflunar sjávargróðurs. Í þriðja lagi eru verkefnin fólgin í aðstoð við félagsmenn á ýmsan hátt og svara fyrirspurnum kaupenda um seljendur á æðardúni eða upplýsa almennt um æðarfuglinn. Verið að vinna að samræmdu friðlýsingarskilti. Guðrún minnti á kynningarefnið, bæklinginn og DVD disk.

Ársreikningar: Sæmundur Sæmundsson
Gjaldkeri fór yfir ársreikninga félagsins. Helstu tölur úr ársreikningi eru að tekjur voru kr. 4.670.802, gjöld kr. 1.721.920, hagnaður kr. 2.948.882, að teknu tilliti til fjármunatekna og fjármagnsgjalda er niðurstaðan kr. 3.297.797. Efnahagsreikningur félagsins sýnir að eignir félagsins eru kr. 15.837.921.
Sæmundur nefndi að félagsgjöld séu að skila sér seint inn. Aðalbreytingar hjá félaginu verða nú að búnaðargjöld koma ekki lengur inn.

Fyrirspurnir um skýrslur og reikninga.
Fyrirspurn um cd diskinn hvort hann væri á youtube rás. Erla svaraði því að myndin væri inn á heimssíðunni þó hún væri ekki í eins góðri upplausn og á diskinum
Ábending kom um að hafa bankanúmer til að leggja inná, það væru ekki allir með heimabanka. Sæmundur og Guðrún svöruðu því til að þetta verði á næsta fundarboði, reikningsnúmer var alltaf í útsendum gögnum en hefur fallið niður síðustu tvö ár, bætt verður úr því.
Spurt var hvað fjármagnsgjöld væru. Sæmundur svaraði því að það væru í þessu tilviki þóknanir til banka fyrir að innheimta félagsgjöld.
Fundarstjóri bar upp ársreikninga félagsins og voru þeir samþykkir samhljóða.

Kosningar
Kosið var um formann og skoðunarmann reikninga. Guðrún Gauksdóttir gaf kost á sér áfram og var hún endurkjörin formaður. Pétur Guðmundsson gaf einnig kost á sér áfram og var endurkjörinn sem skoðunarmaður reikninga. Þá var formaður kosinn búnaðarþingsfulltrúi og varaformaður til vara.

Tillögur/ályktanir
Fundarstjóri Salvar Baldursson las upp tillögur þær sem liggja fyrir fundinum. Hér eru þær settar fram eins og þær voru samþykktar.

I. Árgjald
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands árið 2017 ályktar að árgjald fyrir árið 2018 verði kr. 5.000.
II. Styrkir til deilda
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrki vegna tilgreindra, rökstuddra verkefna, s.s. vargeyðingar.
Styrkir verða einungis greiddir gegn afriti af reikningum.
III. Minka- og refaveiði
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra. Þá beinir aðalfundur því til stjórnar félagsins að hún beiti sér fyrir því að leitað verði nýrra leiða í baráttunni fyrir því að tryggja æðarvarp gegn ágangi minks, refs og flugvargs.
IV. Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni.
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 ályktar að í breytingum á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, sem varða öflun sjávargróðurs og taka gildi 1. janúar 2018, felist ólögmæt skerðing á eignarrétti eigenda jarða sem liggja að sjó og þessi hlunnindi tilheyra, þ. á m. æðarbænda. Stjórn ÆÍ er falið að vinna að lausn málsins ásamt þeim æðarbændum sem málið varðar.
V. Sjókvíaeldi og æðarfugl
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 ályktar að brýn nauðsyn sé á því að rannsaka og vakta áhrif sjókvíaeldisstöðva og stækkunar þeirra á lífríki sjávar og þar með beina og óbeina hættu fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls.

Umræður um tillögurnar

  • Ályktun um árgjald:
    Sæmundur gerði grein fyrir hvers vegna ákveðið er að hækka árgjaldið úr 4.000 í 5.000 en búast má við að félagsgjöld þurfi að hækka næstu ár til að mæta tekjutapi vegna afnáms búnaðargjalds.
  • Ályktun um styrki til deilda:
    Sæmundur gerði grein fyrir þessari tillögu en sú breyting er í þessari tillögu að einungis verður greitt til deilda en ekki til einstaklinga innan deildanna til að hvetja til þess að deildir séu virkar og haldi utan um starfið.
  • Ályktun um refa- og minkaveiðar:
    Nokkur umræða varð um þessa tillögu og almennt um veiðar. Helgi Þorsteinsson nefndi að það þyrfti að flýta grenjaleitum. Helgi Pálsson taldi að það gengi ekki alltaf upp að flýta grenjavinnslu því þá næðist kannski að vinna greni en refurinn næðist e.t.v. ekki því hann forðast að koma að greninu næstu daga. Valgeir Jónasson spyr hvort við þurfum ekki að gera eitthvað í sambandi við flugvarg. Helgi Þorsteinsson nefndi að hægt væri að nota myndavélar við greni, refurinn búinn að vinna mikinn skaða ef farið er á greni í lok júní. Marinó Oddsson nefnir að mikið sé af nýjum grenjum og þess vegna ekki nóg að leita á þekktum stöðum, launin séu svo lág að ekki fáist menn. Atli Árnason, saknar þess að ekki sé tekið á flugvarginum og vill fá það inn í þessa tillögu. Jóhannes Árnason á Höskuldarstöðum nefnir að skelfilegt sé að sjá það í kringum fiskvinnslustöðvar að slori sé sturtaða í sjó. Björgvin Sveinsson vill benda á vetrarveiði því refur sem skotinn er að vetri fer ekki á greni að vori.
    Tillaga kom fram um breytingu á útsendri tillögu þar sem varnir gegn flugvargi er bætt inn í og var það Samþykkt.
  • Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni:
    Greinargerð með þessari tillögu lá fyrir fundinum og var send út í tölvupósti til félagsmanna.
    Atli sér ekki annað en að félagið þurfi að vinna að þessu stóra máli í samvinnu við aðra
    hagsmunaaðila.
  • Sjókvíaeldi og æðarfugl
    Hallur Þorsteinsson telur tillögurnar tvær IV og V snúast um einkahagsmuni fárra æðarbænda og það sé e.t.v. ekki hlutverk æðarræktarfélagsins að hafa puttana í eignarhaldi á svæðum. Salvar nefndi að stjórn æðarræktarfélagsins hefði einungis þá afstöðu að það þyrfti að fylgjast með sjókvíaeldinu en að öðru leiti ekki sett sig upp á móti því.

Önnur mál
Enginn hvað sér hljóðs

Ávörp gesta: Einar Ófeigur Björnsson stjórnarmaður Bændasamtaka Íslands
Einar Ófeigur kynnti sig og sagðist vera sauðfjárbóndi, skógarbóndi og æðarbóndi á Lóni í Kelduhverfi. Hann flutti kveðju formanns bændasamtakanna sem ekki átti heimangengt. Einar sagði að s.l. ár hafi verið annasamt hjá BÍ en nú séu miklir umbreytingatímar hjá samtökunum. Eitt af stóru viðfangsefnum s.l. árs er vinna í nefnd vegna búvörusamninga. Í hugmyndfræði sem BÍ hefur þar að leiðarljósi rúmast æðarræktin vel, þar sem hún byggist á sjálfbærni og góðri umgengni við náttúruna. Hann nefndi að kannski væru enn ónýtt tækifæri til að vinna úr dúni og skapa þannig aukin verðmæti s.s. minjagripi fyrir ferðamenn, það eru ýmsir sjóðir sem hægt væri að fá úr ef menn luma á góðri hugmynd. Taldi hann að nú þyrftu menn að vera í meiri vörn til að verja byggðir landsins en nokkru sinni fyrr, ekki síst vegna mikilla erfiðleika í sauðfjárræktinni. Breyting á innheimtu félagsgjalda hefur verið stórt verkefni hjá BÍ en þær breytingar urðu um síðustu áramót að búnaðargjald féll niður. Eftir breytingarnar metur hver og einn hvort hann sér hag sinn í að vera í BÍ þ.e. greiðsla félagsgjalda er frjáls en ekki í formi skatta af veltu eins og þegar búnaðargjöld voru. Einar útskýrði nánar hvernig félagsaðild er núna og hvernig greiðslur á félagsgjöldum væru og nefndi einnig að aðildarfélög BÍ þyrftu að ákveða innan sinna samtaka hvernig þau innheimtu sín félagsgjöld og fjármögnuðu sín samtök. Hann nefndi einnig að í samþykktum BÍ væri skilyrði um að þeir sem kosnir væru á búnaðarþing væru í BÍ. Hann sagði að eðlilegt væri að félög líkt og ÆÍ velti því fyrir sér hvað það hefði út úr því að vera í samtökum bænda en eftirfarandi mætti hafa í huga; Bændasamtökin vinna að hagsmunum allra bænda og eru málsvari stéttarinnar, aðild eflir kynni innan stéttarinnar, BÍ vinnur að ýmsum kynningar- og ímyndarmálum landbúnaðarins, félagsmenn njóta ráðgjafar um það sem snertir bændur, BÍ kemur fram fyrir hönd bænda gagnvart ríkisvaldinu og gerir samninga fyrir bændur. Félagsmenn njóta 30% afsláttar af flestum forritum BÍ og fá sérkjör á gistingu á Hótel Sögu, félagsmenn geta leigt orlofsíbúðir á höfuðborgarsvæðinu og orlofshús á Hólum í Hjaltadal, sem félagsmaður er hægt að sækja um í stuðning í starfsmenntasjóð og nýjan velferðarsjóð. En meginatriðið er samtakamáttur heildarinnar og verður meiri eftir því sem fleiri taka þátt, slagkraftur fjöldans skipir öllu máli. Einar hvetur alla til að vera félagsmenn í BÍ en að sjálfsögðu er það val. Lokaorð hans voru „sameinaðir stöndum við sundraðir föllum við“.

Hópavinna
Fundamönnum var nú skipt í sex hópa hver með sinn hópstjóra, viðfangsefni hópanna voru:

  • Hvert er hlutverk Æðarræktarfélags Íslands?
  • Hver eru verkefni Æðarræktarfélags Íslands?
  • Hver er framtíðarsýn félagsmanna fyrir Æðarræktarfélag Íslands?

Eftir hópavinnu las Salvar fundarstjóri upp nokkra punkta af því sem hópavinnan hafði skilað en afraksturinn fer til stjórnar sem vinnur úr þeim og kynnir félagsmönnum síðar.

Guðrún Gauksdóttir tók til máls og sleit formlegum aðalfundi. Hún þakkaði Margréti Rögnvaldsdóttir og hennar félögum fyrir skipulag og þeirra vinnu við fundinn og dagskrána.

Skoðunarferð
Eftir hádegi var farin skoðunarferð í tveimur rútum um Sléttu og Langanes. Leiðsögumenn voru Jóhannes Árnason frá Höskuldarnesi og Sverrir Möller frá Ytra-Lóni sem sögðu frá því sem fyrir augu bar á akstrinum og lífi fólks fyrr og nú á þessu svæði en mikil byggð var þar áður fyrr sem nú er mikið til lögst af. Fyrst var skoðað Heimskautagerðið sem stendur á hæð ofan við Raufarhöfn. Þar sagði Jónas Friðrik Guðnason frá þessu áhugaverða verkefni sem hefur verið í vinnslu í nokkur ár og er ekki lokið enn. Þá var ekið á Langanes yfir Hófaskarð og um Þórshöfn. Stoppað var við nýlegan fuglaskoðunarpall við Skoruvíkurbjarg sem heitir Járnkarlinn. Pallur þessi er mikið mannvirki og úr honum er gott að skoða fuglinn í bjarginu. Að lokum var stoppað í Skálum og skoðaðar minjar fiskiþorps sem stóð í blóma á fyrri hluta 20 aldar en er nú í eyði. Á Skálum var áð um stund enda boðið upp á glæsilegar veitingar á dúkuðum borðum í boði Æðarræktarfélagsins en í umsjón heimafólks.

Kvöldverður í Hnitbjörgum og kvölddagskrá
Margrét Rögnvaldsdóttir bauð fólk velkomið og þakkaði leiðsögufólki aðstoðina í ferð dagsins.
Yfir borðhaldi og inn á milli dagskrárliða sem hér neðar er gerð grein fyrir fór heimafólk með gamanmál í formi söngs og leiks. Einnig var happdrætti með ýmsum góðum vinningum úr héraði.

Sölumál
Pétur Guðmundsson og Erla Friðriksdóttir fóru í nokkrum orðum yfir sölumál á dún. Erla sagði að það hafi farið mikið af dún út árið 2016 eða 3.382 kg og útflutningsverðið var um 205 þúsund á kg. Í maí á þessu ári fóru 27 kg. og útflutningsverðið var um 190 þúsund en ekkert var flutt út í júní. Hún man ekki eftir að það hafi gerst fyrr að ekki fari æðardúnn í útflutning einn mánuð hvað þá í júní þegar nýi dúnninn er að koma inn, ástæðan er e.t.v. sú hversu mikið fór út á síðasta ári. Hún nefnir að það sé aðeins niðursveifla í íslenskum krónum en ekki mikill munur í erlendri mynt. Pétur talar um að það séu fréttir um að það séu til birgðir hjá kaupendum erlendis og það sé e.t.v. ástæða minni sölu nú en hann áréttar að menn megi passa sig í að slá verðinu ekki niður þó komi sölutregða í nokkra mánuði.

Kynning á verkefni um fullunna vöru – Sæmundur Sæmundsson
Sæmundur sagði í máli og myndum frá áhugaverðu verkefni sem sonur hans, Kristján Pétur Sæmundsson og tengdadóttirin Birta Ísólfsdóttir, eru að vinna að með hönnun og framleiðslu á hágæða útivistarjakka þar sem æðardúnn er notaður í fyllingu. Parið tók þátt í frumkvöðlakeppni sem heitir Gulleggið og lentu þar í öðru sæti. Framleiðslan verður seld undir vörumerkinu S. Stefánsson og co en það vörumerki var í eigu Sæmundar Stefánssonar föður Sæmundar. Sæmundur eldri var frumkvöðull við að byggja upp og nýta æðarvarpið í Hrísey. Hugmyndin er að nýta sögu ættarinnar og þá staðreynd að æðardúnn er einstök hrein náttúrafurð, til að markaðssetja útivistarjakkann.

Fréttir frá deildum

  • Strandasýsla -Pétur Guðmundsson
    Pétur sagði að vorið hefði verið hroðalegt, mikil rigning og dúntekja verið u.þ.b. þriðjungur af dún í meðalári. Taldi hann að mikið af fuglinum hefði ekki orpið. Í sambandi við varg er lítið um mink, tekist hefur nánast að útrýma honum.
  • Vestur -Húnavatnssýsla – Helgi Pálsson
    Á hans svæði eru 7-8 vörp varpið tókst ágætlega í vor en það dróst fram á sumarið lengur en venjulega. Kannski aðeins minna varp en áður en það hafa verið toppár frá 2011. Hann sagði að íslenski refurinn væri bara staðalbúnaður í íslenskum vörpum. Ekki mikið um mink og síðan 2006 hefur ekki verið drepinn minkur í Heggstaðanesinu.
  • Vestur- Barðastrandasýsla og Ísafjarðasýslur – Dúnland – Salvar Baldursson
    Ekki mikil starfsemi hjá félaginu s.l. ár, fáir fundir. Salvar talaði um að að dúntekja hefði verið misgóð á svæðinu enda svæðið stórt, rigningunni hefði verið misskipt og rigning hefur mis mikil áhrif í vörpum eftir undarlagi. Erfitt að eiga við ref og mink á svæðinu.
  • Snæfellsnes og Hnappadalssýsla – Ásgeri Gunnar.
    Ásgeir segir að á hans svæði hafi verið góð tíð og gott varp.
  • Skagafjarðardeild – Helga Ingimarsdóttir
    Helga segir ekki hafa verið haldinn fundur í nokkur ár hjá þeim. Hún segir að varp hafi gengið misvel, fyrstu kollur hafi komið snemma eða í lok apríl en það virtist samt sem fuglinn skilaði sér ekki í varp. Mikil bleytutíð og fólk hafi þurft að leggja mikla vinnu í þurrkun og dúnn sé allt að því 20-30% minni en venjulega. Mikið áhyggjuefni er aukinn ágangur af flugvargi en eins hjá þeim og annars staðar mikill ágangur af mink og ref.
  • Æðarræktarfélag Norð- Austurlands – Margrét Rögnvaldsdóttir
    Margrét sagði frá því að þau hefðu haldið löglegan aðalfund en félagið hafði verið sofandi lengi, miklar væntingar væru um gott starf. Misjafnar sögur af varpi á svæðinu sumstaðar var mikil bleyta. Mikið verið að berjast við flugvarg. Á sléttu er lítið um ref og mink en meira í Vopnafirði.

Sunnudagur 27. ágúst
Boðið var upp á fjórar ferðir milli 10:00-12:00. Þar sem heimafólk gekk með hópum eða tók á móti á bæjum sínum. Það var gengið á Hraunhafnartanga með Guðrúnu Sigurðardóttur Harðbak, farið í heimsókn í Skinnalón þar sem Hallur Þorsteinsson tók á móti fólki, farið í Núpskötlu og gengið á Rauðanúp þar sem Kristbjörg og Helga Jónsdóttir tóku á móti gestum og/eða farið í Grjótnes þar sem Gunnar Páll Baldursson sýndi sitt ættaróðal. Flestir fundagestir nýttu þetta boð og gaman var að upplifa einstaka gestrisni heimafólks.

Fundarritari
Sólveig Bessa Magnúsdóttir

47. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2016

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands.                                                                                       Kötlu II, Hótel Sögu 12. nóvember 2016.

Guðrún Gauksdóttir formaður setti fundin kl. 11:00. Bauð alla velkomna og afsakar það að sumir hafi fengið fundarboðið seint. En ef engar athugasemdir eru þá sé fundurinn rétt boðaður. Upplýsir að fundurinn verðið hljóðritaður. Tilnefnir Salvar Baldursson sem fundarstjóra og Margréti Rögnvaldsdóttir sem fundarritara. Það var samþykkt.

Salvar ber upp hvort einhver geri athugasemd við fundarboð. Það var ekki gert og hann fór yfir dagskrána. Gerir breytingu á röðun dagskrár. Niels Árni Lund frá Atvinnuvegaráðuneytinu er fyrstur á dagskrá.

Atvinnuvegaráðuneyti. Niels Árni Lund.

Niels Árni flytur kveðjur frá Gunnar Braga. Ráðuneytið telur að Æðarræktarfélag Íslands sjái vel um málefni æðarbænda. Talar um merkingar á vörum og notkun á dún. Ráðuneytið sé opið fyrir tillögum um minna eða breytt gæðavottorð en það sem nú er notað fyrir minni fullunna vöru eins og t.d. vettlinga eða húfur. En frumkvæði fyrir slíkum breytingum verði að koma frá æðarbændum sjálfum það kemur ekki úr ráðuneytinu segir Níels Árni. Gott námskeið hefur verið fyrir dúnmatsmenn á vegum Hvanneyra og ráðuneytisins. Breyting á Bændasamtökunum breytir ekki því að þau sinna áfram því að afhenda dúnmatsmönnum öll sín gögn. 20 dúnmatsmenn starfa í landinu. Þetta er allt í góðu ferli að mati ráðuneytisins. Hefur sjálfur vottað með bréfi til útflytjenda að dúninn sé ósýktur og farið sé að öllum reglum um náttuúrvernd. Ef eitthvað sem æðarbændur vilja að ráðuneytið sinni þá verður frumkvæði að koma frá æðarbændum.

Skýrsla stjórnar. Guðrún Gauksdóttir.

Guðrún þakkar Birni Inga Knútssyni gjaldkera félagsins samstarfið en hann fer úr stjórn. Sæmundur tók sæti í aðalstjórn í staðinn og tók líka að sér að vera gjaldkeri. Guðrún fór yfir það helsta í starfi stjórnar og í æðarvarpinu. Æðarvarp síðastliðið vor og sumar var mjög gott vegna góðs tíðarfars. Almennt séð eru fregnir mjög góðar.

Verkefni stjórnar . Kynningarefni bæklingur og diskur á 4 tungumálum eru komin í hús. Félagsmenn seti sig í samband við Guðrúnu ef þeir vilja fá DVD myndina. Diskurinn verður seldur á kostnaðarverði. Það hefur verið eftirspurn eftir disknum sérstakleg frá Þýskalandi. Myndin er inn á heimasíðu félagsins. Líka hægt að fá bæklinga til að nýta í sölu. Hann er líka seldur á kostnaðarverði. Söfn og kynningarstarfsemi hafa fengið bæklinga ókeypis. Heimasíðan er komin í gagnið en við viljum nýta hana betur. Bæði til þess að félagsmenn geti nýtt sér hana og líka kaupendur æðardúns. Kallar eftir upplýsingum frá félagsmönnum sem vilja koma sér á framfæri eða þeir sem eru að selja dún. Rannsókn sem átti að fara fram í Japan á markaðsmálum datt upp fyrir vegna þess að rannsóknaraðilinn rakst alls staðar á lokaðar dyr. Styrkur sem fékkst til að rannsaka markaðinn nýtist vonandi í annað verkefni. Stjórnin fór í átak til að auka friðun æðarvarpa. Sendi leiðbeiningar um hvernig æðarbændur ættu að ber sig að. Mjög góðar leiðbeiningar eru á vef Sýslumanns. Nú eru 48 æðarvörp auglýst friðuð. Stjórn ætlar að fylgja þessu eftir. Guðrún segir að stjórnin hafi rætt um hvernig við bregðumst við því að búnaðargjald verði fellt niður um áramót. Kemur betur fram við tillögur frá þessum aðalfundi. Deildir og stjórn finni út saman niðurstöðu í þessu máli. Einnig hefur stjórn rætt nýtingu auðlinda sjávar og sjávarsvæða. Sérstaklega í sambandi við þangskurð og sjóeldi. Guðrún sagði frá velheppnuðu dúnmatsnámskeið síðastliðið vor. Verið að undirbúa námskeið í æðarvarpi sem verður í vor í samvinnu við Lanbúnaðarháskólann. Japanskur aðili vill fá dúnfjaðrir. Guðrún sendi þetta á söluaðila dúns en ef einhver vill fá þessar upplýsingar þá er ekki annað en að setja sig í sambandi við Guðrúnu.

Skýrsla hlunnindaráðgjafa. Sigríður Ólafsdóttir.

Hefðbundið ár. Sigríður stóð fyrir dúnmatsnámskeiði með Landbúnaðarháskólanum. Sumir hafa sent henni hnit vegna friðlýsingar og hún sent til Landhelgisgæslunnar. Ekki nein breyting vegna minka og tófu. Sigríður talar um að vegna breytinga á Bændasamtökunum þá verði líka breytingar á starfi hlunnindaráðgjafa. Starfið minnki. Hvaða þjónustu gætu æðarbændur hugsað sér að kaupa frá RML?

Reikningar félagsins; Björn Ingi Knútsson.

Hefðbundinn reikningur. Staða félagsins er sterk. Aflast meira en eytt er. Gott vegna verkefna framtíðarinnar þar sem búnaðargjaldið er að hverfa. Formaðurinn Guðrún hefur verið dugleg að þefa upp ýmsa styrki. Fengum styrk á síðast ári upp á 1 milljón. Björn telur að innheimta félagsgjalda hafi gengið vel þó svo að minna hafi skilast inn 2015 en 2014 þrátt fyrir fjölgun félaga. Seðilinn birtist í heimabanka undir valfrjálsar greiðslur. Skorar á deildir að hvetja sitt fólk að borga félagsgjöldin. Deildir sem ekki hafa kennitölu og bankareikning fá ekki hlutdeild sína í félagsgjöldum. Heimasíðan orðin mjög fín. En hún auðvitað kostar. Aðalfundur á Hótel Sögu er ódýr en við höldum aðalfund 3 hvert ár úti á landi sem kostar meira. Einn stjórnarfundur var kostaður í Stykkishólmi 2015.

Fyrirspurnir og umræður

Miklar umræður urðu um innheimtu félagsgjalda og ýmsir tóku til máls. Kvartað yfir því að gjaldið sé skráð undir valgreiðslur í heimabankanum. Þetta fari fram hjá mörgum. Björn benti á að þetta væri gert til þess að ekki kæmu dráttarvextir á félagsgjöldin.   Nokkrir félagsmenn kvarta yfir því að þeir hafi ekki verið rukkaðir um félagsgjaldið. Auk þess sem sumir eru ekki með heimabanka og fá þar að leiðandi enga rukkun. Þessi umræða lýkur með því að Guðrún formaður segir að stjórnin taki allt þetta til skoðunar og leysi málið með innheimtu félagsgjalda. Þannig það sé alveg ljóst hverjir hafi kosningarrétt á aðalfundi.

Búnaðargjaldið er í skoðum hjá stjórn ÆÍ og formönnum deilda. Stjórn kynnir þetta til félagsmanna.

Fyrirspurn kom um hvort hægt væri að fá upplýsingar um umferð á heimasíðunni. Guðrún er ekki með þær upplýsingar núna en þær upplýsingar er hægt að nálgast.

Spurningar um hvað æðarbændur græða á því að hafa friðlýst varp. Hagur hvers og eins og líka heildarhagur. Sýnileg fyrir vikið. Þannig við getum takmarkað umferð yfir landið og flug. Þessar upplýsingar eru á heimasíðunni en fólk getur óskað eftir að fá þetta í pósti.  Bæði einstaklingshagsmunir og heildarhagsmunir. Æðarbændur hafa þá lögin á bak við sig ef varp er friðlýst. Það þarf að merkja friðlýst æðarvarp og Guðrún sagði að það væri stefna stjórnar að koma upp sameiginlegu skilti til að merkja slíkt varp.

Salvar ber upp til samþykktar skýrslu stjórnar og reikninga. Allir samþykkja.

Léttur hádegisverður Kl. 12:00‐13:00

Fræðsluerindi. Varpvistfræði æðarfugls við Breiðafjörð Fyrirlesari: Dr. Þórður Örn Kristjánsson

Þórður ólst upp með æðarfugli og ákvað að verða fuglafræðingur. Markmið verkefnisins var að athuga hvort þéttleiki æðarvarps og sníkudýr í fuglinum hefði áhrif á æðuvarp. Rannsóknarsvæðið var í Breiðafirði þar sem 25% af íslenska æðarfuglastofninum er staðsettur.

Sníkjuhreiður þar sem kollur lauma eggi í annarra hreiður er útbreidd varphegðun meðal andfugla í mjög þéttu varpi. Hvers vegna gera þær þetta? Hugsanlega vöntun á góðu hreiðurstæði. Eða kvenfuglar ekki í nægilega góðu líkamsástandi fyrir álegu og auk þess minnkar líkur á afráni eigin eggja úr urptinni. Áleguhegðun rannsökuð með merkingum fugla með litun á gogg. Skoðað hvernig er í ofurþéttu varpi miðað við venjulegt. Samhjálp í ofurþéttu varpi. Mörg egg og líklegt að fleiri kollur eigi eggin einnig skyldleiki. Þétt varp verður til þess að hugsanlega ruglast kolla á því hvaða hreiður hún á sjálf. Minnkandi hitatap frá varpblettinum á því að leggjast á heit egg. Æðurin missir allt af 45% af líkamsþyngd við álegu. Samband milli urptarstærðar og líkamsástands er algengt. Hvað léttast kollur mikið? Ekki samband á milli stærðar? Eiga eldri kollur stærri urpt en yngri? Hlutfallslegt var 32% en þyngdartap per dag er 26 gr. Þungar kollur við upphaf álegu misstu hlutfallslega meiri þyngd en léttari. Fara sjaldnar af hreiðri og léttist meira. Ef kollur voru léttar og hugsanlega ungar nutu þær þess að aðrar kollur lágu á þeirra hreiðri. Ekkert samband fannst á milli urptarstærðar og líkamsþyngdar. Ekkert samand fannst á milli dúntekju og þyngdartaps kollu á álegu. Æðarfulgar 7-15 ára eru líklegastir til að sinna óvenju stórum urptum. Mörg snýkjudýr eru í æðarhreiðrum. Geta haft neikvæð áhrif á fuglin. Allur lífsferill flóa á sér stað í hreiðrinu sjálfu. Sníkjudýrin eru í hreiðri fugla en ekki á fuglunum sjálfum. Alls konar smákvikindi en bara tvö dýr. Dúnflóin og sjófuglamítilinn. Munur á milli varpa. Meira flóarmagn í þéttu hreiðurstöðum. Kollur éta mikið fyrir varptímann. Mest af skelfiski, kuðungi, ígulkerum og kröbbum.   Æðarungar éta mestmegnis marflær fyrstu vikurnar. Kuðungar voru alltaf aðalfæðan nema árið 2007 þegar bertálknar voru ráðandi. Lykilfæða á Breiðafirði reyndist vera flekkunökkvi. Samlokur ekki mikilvæg fæða. Talsvert aðrar niðurstöður en hafa fengist áður. Lífmassi og fjölbreytt fæðuframboð í Breiðafirði. Þannig ekki þarf að leita eða eyða orku í að finna fæðu. Breiðafjörður tilvalið búsvæði æðarfugla. Mjög áhugavert erindi Þórðar. Það er hægt að nálgast alla rannsóknina á heimasíðu Háskóla Íslands www.hi.is

Fræðsluerindi. Auðlindir í netlögum. Lagaleg umgjörð um öflun sjávargróðurs. Fyrirlesari: Arnór Snæbjörnsson, lögfræðingur frá Atvinnuvegaráðuneytinu.

Geri grein fyrir frumvarpi um nýtingu þangs og þara. Lagarammi um nýtingu nytjastofna auðlinda sé sjálfbær. Sjávargróður er nytjastofn í ramma laganna. Reynsla frá Breiðafirði. Nýting aðallega í því að slá þang í fjörum. Líka verið tekinn þari með gripkló. En þarinn vex mest utan netlagnar allt að 30 m dýpi. Það er aðallega hrossaþari sem er nýttur. Engin fyrirmæli í löggjöf en þarf að setja lög og reglur um það. Sérbúnir sláttuprammar slá þangið. Klóþang vex í fjöru . Svipar um sumt til landbúnaðar frekar en sjávarútvegs. Fjörueigendur eru landeigendur yfirleitt bændur. Þari hrossaþari/stórþari vex á meiri dýpi þ.e. langmestu leyti utan netlagna. Nýting hefur verið stöðug hingað til. En nú eru að minnsta kosti tveir aðilar sem ætla að hefja vinnslu á þessu sviði. Þessir nýju aðilar hafa þess vegna ýtt við nýju regluverki. Frumvarpið byggir að leggja þetta inn undir fiskiveiðstjórnarlöggjöfina. Upplýsingaöflun og skráning afladagbók. Eftirlit með nýtingu. Skoðað í framhaldi hvort ætti að setja frekari reglur. Enginn má stunda þessa vinnslu án þess að hafa leyfi frá Fiskistofu. Þannig yrði sláttuprammi skráður sem skip.   Heimilað er að setja skilyrði fyrir útbúnaði pramma. Þurfa að skila inn veiðiskýrslu. Þarf að ná samkomulag við landeiganda um heimild til öflunarinnar áður en leyfishafi hefur öflun sjávargróðurs. Utan netlaga þá þarf heimild til að skipta svæðinu í hólf og takmarka öflun utan þeirra og þannig væri svæðin lokuð skipulega til að hvíla þau inn á milli. Lagt á veiðigjald til að standa undir rannsóknum og eftirliti.  Eigendur sláttupramma borga það gjald. Þetta er takmörkuð auðlind og ekki til nóg þekking. Aukin áhersla á rannsóknir næstu 3 ár. Landeigandi ræður líka mikið um notkun. Frumvarpið myndi gilda tímabundið og síðan endurskoðað. Það komu tillögur að breytingum í meðferð þingsins. Breiðafjörðurinn bestur til nýtingar og þar eru þeir nýju aðilar að hefja starfsemi. Möguleiki á að leyfisveita fjölda móttökusvæða. Kvóti á svæðum. Sækja þarf um að fá starfsleyfi. Ýmislegt þá skoðað eins og t.d. fjárhagslegt bolmagn. Leyfi myndi gilda til 15 ára í senn og endurskoðað með tilliti til aflamagns. Heimild til að breyta eða afturkalla leyfi til verndar umhverfinu og til að endurskipuleggja stjórn sé um að ræða brot á lögum eða skilyrðum. Samþykkt að núverandi Þörungaverksmiðja á Reykhólum myndi njóta forgangs umfram aðra umsækjendur. Þetta þýðir að landeigendur gætu samið við þá einu aðila sem hefðu leyfi og þeir vildu fá til sláttar á sínu svæði. Frumvarpið er ekki samþykkt en verður líklega lagt aftur fyrir þingið. Til skoðunar er að skipa sérstakan samráðshóp um nýtingu og verndun þangs og þara.

Umræður og fyrirspurnir.

Netlögin við stórstraumsfjöru. Þangið er innan við netlögin. Nýting í nágrannalöndum er með ólíkum hætti. Bæði í Kanada og Noregi. Umræða um framkvæmd og hvað væri rétt að gera í þessum efnum. Hver væru vistáhrifin á aðrar lífverur? Það þarf að rannsaka. Talað um að þangvöxtur sé á landi og eign landeigenda. Bændur skera þangið og fái greitt fyrir. Núna eru verktakar sem skera þangið og landeigendur hafa miklu minni möguleika á að hafa tekjur af að skera þang.   Eitt stöðugildi til að rannsaka þetta allt saman. Í Hafrannsóknarstofnum er mikil þekking á þessu sviði og þess vegna eru þessar rannsóknir þar. Erla telur að rannsaka eigi meira áður en frekari leyfi eru veitt. Þangið eigi ekki heima í þessum lögum þar sem þetta sé eign landeigenda. Bara þarinn.  Menn gera sér grein fyrir að þetta hráefni eru verðmæti. Margir telja alveg út úr korti að ríkið sé að ráðstafa þanginu úr fjörunni okkar. Fáranlegt að kalla þetta veiðigjald. Ekkert þang skorið í neinni fjöru ef ríkið ætlar að fara að ráðstafa okkar eigum. Miklar umræður um hvaða áhrif þetta muni hafa á lífríkið.

Fræðsluerindi. Lífríki í netlögum Fyrirlesari: Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi

Jón hefur rannsakað æðarfugl í 10 ár. Nú er farið velta meir fyrir sér hvað meiri þang og þaraskurður hefur áhrif á æðarfuglinn. Ekki verið rannsakað hér á Íslandi. Hvers vegna er klóþang mikilvægt fyrir æðarfugl. Æðarfugl mjög háður þessu þegar ungarnir eru litlir. Ef ekkert þang þá ekkert ungauppeldi. Þangið hefur íbúa marflær ofl. Ungarnir týna þessar pöddur upp úr þangþekjunni og þangið veitir skjól fyrir ungana þegar þeir eru litlir. Gildir fyrstu 3 vikurnar áður en þeir kafa. Í Breiðafirði er tæpur þriðjungar af grunnsvæði Íslands. Klóþang ekki nema fjörur séu grýttar. Hvergi jafnmikið af botnföstum þörungum. Mikið af botndýrum. Þangið kemur upp á fjöru en þari að mjög litlu mæli. Klóþang er nýtt hjá Írum Kanada og Noregi. Klóþang er greinóttur runni allt að 2 m á hæð. Getur orðið 30 ára. Mikið af lífverum er í þessu klóþangi sem oft er talað um sem regnskóg sjávar. Þarna leynast líka smáfiskar. Stórþari skiptir æðarfuglinn litlu máli, en hann er búsvæði mikilla nytjafiskistofna. En þegar hann slitnar upp þá skiptir hann máli. Þang og þari eru fæðuuppspretta og skjól. Mikilvæg í fæðukeðjum. Mikilvæg sem búsvæði. Hver verða áhrif aukinna nýtingar? Áhrif nýtingar eru aðeins þekkt frá erlendum rannsóknum. Svæiðsbundin áhrif. Minni fæða fyrir dýr ofar í fæðukeðjum. Skjól vantar fyrir lífrík. Næringargildi. Eru bein áhrif sláttar klóþangs. Lítið af magnbundnum upplýsingum. Afleit áhrif sláttar klóþangs. Fæðuframboð fyrir æðarunga minnkar, skjól mninkar , einföldun búsvæðis, áhrif þéttleika bogkrabba, snigla, kræklings, hveldýra og hrúðukarla. Áhrif klóþangstekju á æðarfugl í Kanada eru einu rannsóknir sem eru til. Yngstu ungarnir geta ekki kafað og því háðir fæðuöflun í yfirboði sem er ekki möguleg utan klóþangs. Yfirboðið minnkar fyrir æðarungana. Þetta hefur ekki verið rannsakað á Íslandi. Fleiri þættir ráða vali æðarfugls á búsvæði en bara klóþang. Þyrfti að rannsaka samanburðasvæði með engu klóþangi. Hvað væri fuglinn að borða á hvoru svæði fyrir sig. Flókið og dýrt verkefni. Núna eru rannsóknir um uppskeru og blautvigt. Bara verið að rannsaka þarann og þangið. Ekki að svara spurningum um lífríkið. Eða hvaða áhrif aukin ásókn í þara og þang hefur á lífríkið. Jón mun leggja til að farið verið í rannsóknir á lífríkinu. Hvaða áhrif verður á það við að auka þangsláttinn.

Umræður og fyrirspurnir

Umræða um áhrif af dragnótaveiðum og laxeldi. Jón segir að ekkert sé vitað um dragnót en það sé vitað að meiri bátaumferð hefur vond áhrif á fugla. Þó er ekki margt sem truflar æðarkollur. Hugsanlega meiri inngrip með laxeldi en slátt á þara og þangi sem getur vaxið aftur. Kemur mengun frá laxaeldi? Ef meiri mengun þá getur það hugsanlega orðið til þess að það verði vöntun á súrefni. Skiptar skoðanir á þessu og ekki neinar rannsóknir til. Á Vestfjörðum hafa menn þó haft æðarrækt nálægt laxeldi og telja það hafi ef eitthvað er verið til bóta fyrir fuglinn.

Pétur frá Ófeigsfirði kynnir fréttir og tillögur frá deildum.

Svanur Steinarsson Mýra og Borgarfjarðarsýsla, Æðarræktarfélag Vesturlands. Gott vor. Allt mjög gott. Æðarvarp gekk vel mikið æti og fuglinn kom snemma. Virtist koma upp helling af ungum. Refurinn virtist vera í aukningu.

Erla Friðriksdóttir Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla. Æðarverndarfélag Snæfellinga. Allt mjög gott og dúninn mikill. Sömu áhyggjur með mink og ref. Minkur aftur að aukast minni peningur frá sveitafélögum. Mikilar áhyggjur af þara og þangskurði.

Helga María Jóhannsdóttir Dalasýsla og A-Barðastrandasýsla Æðarvé. Æðarvarp mun fyrr af stað í vor en í fyrra. Búið að leiða út mjög snemma. Einhver æðarvörp urðu fyrir skaða af flugvargi en þau réðu einhvern til að skjóta varginn. Æðarvé á hlut í bát í Reykhólum. Miklar áhyggjur af þessari auknu ásókn í þara- og þangskurð.

Salvar Baldursson N-Ísafjarðarsýsla Dúnlandi. Svipað og hjá öðrum refur og minkur meiri. Fiskeldið í umræðu hjá þeim. Menn hafi ekki forsendur að vera brjálaðir út í þetta. En það verður að fylgjast mjög vel með. Reynsla komin af þessu í Arnarfirði. Menn með vörp þar sjá ekki neinn mun. En þarf að fylgjast með og rannsaka áhrifin.

Pétur í Ófeigsfirði Strandasýsla Æðarræktarfélag Strandasýslu. Minkurinn eiginlega horfinn allt Reyni að þakka. Sumarið gott eins og hjá öðrum.

Helgi Pálsson V-Húnavatnssýsla Æðarræktarfélag. Verðrátta mjög góð. Þetta ár mjög ólíkt fyrri árum að því leiti hvað margir æðarungar komust upp miðað við fyrri ár. Skagafjörð og Eyjafjörð allt gjörbreytt. Kríu fækkar og verpir seint. Ætið hrundi. En teistu er að fjölga. Æðarvarp byrjaði með seinni móti í vor en byrjaði með krafti þegar það byrjaði. Mikið af æðarfugl á Húnaflóa og þakti svona fersjómílur. Hvarf svo og kom svo aftur í varp. Aðalfundur haldinn 27.10 og 6 manns mættu. Styttu nafnið úr Æðarræktarfélag Húnvetninga í Æðarræktarfélag. Er að bjóða mönnum frá Ströndum að mæta á sína fundi. Þakkar stjórn og fræðsluerindi.

Jóhann Rögnvaldsson Austur-Húnvatnssýsla og Skagafjörður Æðarverndarfélag N-Vesturlands. Sama og hjá öðrum refur og minkur. Áhyggjur af hvað lítið er af minkahundum til undaneldis. Þarf að flytja inn hunda. Kannski vill ÆÍ taka þátt í kostnaði.

Margrét Rögnvaldsdóttir N-Þingeyjarsýsla og N-Múlasýsla í Vopnafjörð Æðarræktarfélag N-Austurlands. Sagði frá fundi á Raufarhöfn til að endurvekja þessa deild. Á fundinn mættu 33. Mikill áhugi á að endurvekja deildina sem nú er komin með kennitölu, samþykktir og bankareikning. Annars var sumarið gott eins og hjá öðrum. Mest um flugvarg en þó var töluvert vart við tófu og mink í Vopnafirði.

Sölu- og markaðsmál. Pétur frá Ófeigsfirði

Pétur sagði að verðið hækkaði mikið frá því í fyrra. Búið að selja 500 kg meira en í fyrra. 2.5 tonn fyrstu 9 mánuði ársins. Ekkert í birgðum frá 2015. Kg er 215.000 kr. Án VSK.

Kosningar.

Vegna óvissu með innheimtu og greiðslu félagsgjalda og þar að leiðandi kosningarrétt fundarmanna kom sú tillaga fram að allir fundarmenn gætu greitt atkvæði. Þessi tillaga var samþykkt.

Í aðalstjórn vantaði tvo aðalmenn til 3 ára. Í framboði eru Sæmundur Sæmundsson, Sigríður Magnúsdóttir og Erla Friðriksdóttir. Erla fær 31 atkvæði, Sæmundur 29 og Sigríður 28 atkvæð. Einn seðill var auður. Þannig Erla og Sæmundur taka sæti í aðalstjórn

Kjósa þarf einn varamann til 2 ára. Í framboði eru Sigrún Ólafsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir. Sigrún fær 14 atkvæði en Sigríður 25 og er því kosin í varastjórn til 2 ára. Einn seðill er ógildur.

Ásgeir Gunnar Jónsson er kosinn einróma sem skoðunarmaður til eins árs.

Önnur mál

Kom fram fyrirspurn um hvort hægt sé að leita eftir styrk til ÆÍ. Það er hægt.

Fundarslit og kaffiveitingar kl 17:00

45. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2014

45. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn í Félagsheimilinu Árnesi, Trékyllisvík 23. ágúst 2014. 

Mættir 87 manns

  1. Fundarsetning

    Formaður félagsins, Guðrún Gauksdóttir setti fund og bauð fólk velkomið í Trékyllisvík. Þakkaði heimamönnum móttökurnar og lýsti ánægju yfir góðri mætingu sem sýnir hvaða hug fólk ber til Stranda. Guðrún stakk upp á Guðbjörgu Helgu sem fundarstjóra og Sólveigu Bessu sem fundarritara og var það samþykkt með lófataki. Guðrún sagði að hún mundi gefa kost á sér til formanns en óskaði eftir að heyra ef einhverjir ætluðu að gefa kost á sér til formanns.
    Guðbjörg tók við fundarstjórn og fór yfir dagskrá og praktísk atriði.

  2. Skýrslur og reikningar

    1. Skýrsla stjórnar
      Guðrún Gauksdóttir ræddi um að s.l. ár hafi verið aðeins rólegra hjá stjórn en árin áður vegna þess að búið væri að klára kynningarefnið sem töluverð vinna fór í síðastliðin ár. Hjá félaginu er hægt er að fá kynningarbæklingana á fjórum tungumálum og kynningarmyndin er einnig á fjórum tungumálum á sama diski, hún kostar 1250 kr. Heimasíðan er í vinnslu og endurskoðum, félagið hefur fengið Guðbjörg Helgu til að vinna í henni og koma í endanlegt form. Guðrún fór yfir hverjir væru í stjórn : Guðrún Gauksdóttir formaður, Björn Ingi gjaldkeri, Sólveig Bessa Magnúsdóttir ritari (var varamaður en komin inn fyrir Ástu sem hefur dregið sig í hlé), Erla Friðriksdóttir og Salvar Baldursson meðstjórnendur og Halla Steinólfsdóttir varamaður. Eiríkur Snæbjörnsson er búnaðarþingsfulltrúi.
      Helstu verkefni núna eru að dreifa kynningarefni og fylgjast með hvað er í gangi hverju sinni. Nú stendur yfir vinnsla við umsögn vegna reglugerðar um refa og minkaveiðar. Nýbúið er að taka á móti hóp frá Vega í Noregi sem kom hér í síðustu viku. Stefnt er að heimsækja Vega á næsta ári. Styrkur var veittur til rannsóknar á æðardúni. Einnig hefur félagið veitt styrki til æðarbænda v. vargeyðingar en fáar umsóknir hafa borist. Ítrekar að sækja þurfi um endurgreiðslu. Guðrún fór að lokum aðeins yfir veðurfar á landinu m.t.t. dúntekju og umhirðu æðarvarpa. Vorið var hagstætt og sumarið hlýtt, maí víðast góður en úrkoma var víða í júní sem hafði áhrif.
      Guðrún Gauksdóttir kynnti hugmynd Sigríðar Magnúsdóttur af skilti sem sýnir friðlýst æðarvarp en töluvert er um að ágangur fólks hafi truflandi áhrif í varplöndum.
    2. Reikningar
      Erla Friðriksdóttir lagði fram reikninga og greindi frá niðurstöðutölum ársreikninga tap ársins var 1.297.284og eigið fé 8.272.766. sjá ársreikning.Guðbjörg bar upp reikningana til samþykkis og voru þeir samþykktir. 
    3. Skýrsla hlunnindaráðgjafa
      Sigríður Ólafsdóttir hlunnindaráðgjafi flutti erindi um það sem hún hefur verið að vinna s.l. ár og kynnti reglugerð um refa og minkaveiðar. Verið er að endurskoða gæðavottunarskírteinið þar sem það þykir of stórt og ómeðfærilegt. Einnig er verið er að vinna að skilti til að nota þar sem vörp eru friðlýst. Sigríður er að safna hnitum vegna æðarvarpa fyrir Landhelgisgæsluna í þeim tilgangi að hægt sé að forðast að fljúga nálægt vörpum. Hún hvetur fólk til að senda sér eða gæslunni hnit. Sigríður fór í gegnum friðlýsingarferli á æðarvörpum en gögnum s.s. loftmynd eða teikningu er og komið til sýslumanns á hverju svæði og kostar friðlýsing 8.000. Sigríður fór í gegnum breytingar á reglugerð v. veiða á ref og mink sem voru send út til ýmissa aðila m.a. æðarræktarfélagsins til umsagnar.
      Orðið gefið laust um reglugerðina:
      Konráð Eggertsson taldi að þyrfti að skoða hana alvarlega og gera margar athugasemdir. Lagði til að tilnefna nefnd í málið.
      Guðrún Gauks kynnti tillögu stjórnar vegna aðkomu að þessum reglugerðarbreytingum, sjá hér síðar í fundargerð undir „tillögur“
      Pétur Guðmundsson sagði að sér sýnist að nú stefni í það að allir peningarnir fari í skriffinnsku. Hann taldi að þegar ætti að fara henda pening í að finn út hvað tófan æti væri allt komið í vitleysu. Páll Hersteinsson hefði bara átt eitt orð yfir þetta hún væri alæta. Nefndi að tófan æti allan smáfugl og erfitt sé því að meta tjónið eins og farið er fram á í reglugerðinni – hvað kostar smáfuglinn-. Talaði um að ferðamenn sæju muninn þar sem tófan er unnin hvað fuglalíf væri meira. Hann taldi að við (hagsmunaaðilar) þyrftum að stjórna ef við ættum að borga veiðarnar og að þá viljum við allan peninginn.
      Matthías Lýðsson, þakkaði stjórn skýrslu og framlagða reikninga, ánægður með hugmyndir um skiltagerð f. friðlýsingar. Benti á að gott væri að hafa stimpil lögreglustjóra á skiltum, það sýndi meiri þunga. Hvað varðar útburð á hræjum telur hann nú þegar óheimilt að bera út hræ/æti því það megi ekki henda lífrænum úrgangi og það þurfi því ekki fleiri reglur þar að lútandi. Varpaði fram spurningunni hvort fuglasöngurinn yrði metinn til fjár. Telur að mörg gæði náttúrunnar verði ekki metin til fjár. Nefndi að ef Umhverfisstofnun treysti sér ekki til að meta fjárhagstjórn hvort ætti þá varpa því yfir á sveitafélögin. Telur að æðarræktarfélagið eigi að gera þær kröfur að á það fólk sé hlustað sem lifir og hrærist í þessu umhverfi þar sem þessi dýr (refurinn) valda ójafnvægi í náttúrunni. Matthías telur að bændur eigum að koma fram sem verndarar lífríkisins á Íslandi, snúa dæminu við, það eru þeir sem vilji verja og vernda líffræðilega fjölbreytni, óvinirnir eru Umhverfisstofnum og Náttúrufræðistofnun. Munurinn er svo augljós þar sem refur er veiddur. Telur ekki hægt að meta tjón sem ekki hefur orðið. Andstyggilegur misskilningur sem skín víða í gegn, er að veiðimenn hafi ánægju af veiðum. Hann er hrædd um að peningarnir fari í skriffinnsku. Friðland er öfugmæli. Þessa reglugerð má leggja til hliðar.
      Guðbrandur Bassastöðum tók undir orð Konráðs um að búa til kröftuga tillögu frá fundinum. Nefndi að minkur væri líka mikill skaðvaldur í lífríkinu og vill að landið verði hreinsað af mink. Leggur til að sett yrði nefnd á fundinum til að búa til tillögu.
      Sigríður Ólafsdóttir svaraði Matthíasi um að minkur væri friðaður fyrir ofan ákv. línu.
  3. Erindi

    1. Erla Friðriksdóttir/Thomas Holm Carlsen: Rannsóknir á æðarfugli.
      Erla Friðriksdóttir hljóp i skarðið fyrir Thomas Holm sem forfallaðist. Erla sagði að Thomas hefði fengið styrk til rannsóknarinnar en hún felst í að bera saman íslenskan og norskan dún. Dúnninn verður hreinsaður með sama hætt og síðan verða gerðar mælingar á eiginleika dúnsins með það að markmiði að finna út hvað valdi því að dúnninn sé svo góður sem talið er. Það sem rannsakað verður er fylling dúnsins varmaviðnám (einangrunargildi) og samloðun, einnig hvernig dúnninn er frábrugðinn öðrum dún. Niðurstöður verða kynntar síðar.
    2. Valgeir Benediktsson, Samfélag og hlunnindi á Ströndum.
      Valgeir sem er búsettur í Árneshreppi sagði frá búsetuþróun á svæðinu en hér var fjölbýlt á árum áður en fámennt væri hér nú. Nú eru 57 sem eiga lögheimili í Árneshreppi en á vetrum eru kannski 40 manns á svæðinu en margfaldast á sumrin, nú er búskapur á 9 bæjum. Samfélagið hefur flest það sem samfélag þarf, verslun, skóla, sundlaug og kirkjur. Mikil hlunnindi eru á svæðinu. Mikill rekaviður er á sumum jörðum en væri misskipt samt eftir legu jarða, selveiði væri á nokkrum jörðum og dúntekja einnig. Árneshreppsbúar hafa nýtt hlunnindin og reynt að halda þeim við eins og þeir geta. Valgeir var með skemmtilega frásagnir af æðarvörpum og æðarbændum.
    3. Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir: Niðurstöður samanburðarkönnunar á Íslandi og Noregi um æðarrækt. Hér verður þessu erindi ekki gerð frekari skil en sjá má skýrsluna í heild sinni inn hér „Íslensk-norsk könnun um æðarrækt“.

      Hádegisverðarhlé

    4. Erla Friðriksdóttir: Sölu- og markaðsmál
      Erla fór yfir útflutningstölur á æðardún frá 2008. Þar kom fram að síðustu fjögur ár hafa verið flutt út um 3 tonn á ári en á þessu ári er búið að flytja út um 400 kg. Útflutningsverð hefur farið frá kr. 107.714.- upp í kr. 193.049.- á kílóið frá 2008 til 2014. Útflutningsverðmæti voru 600 miljónir 2013. Mest var flutt til Japan 60% og Þýskalands 30% en einnig til fleiri landa og er löndunum að fjölga. Nú er t.d.Hong Kong í fyrsta sinn á listanum yfir útflutningslönd. Engar tölur sjást um útflutning á æðardúnssængum.
  4. Fréttir og tillögur frá deildum

    1. Elva Hauksdóttir, Æðarræktarfélag Vesturlands í Mýra- og Borgafjarðarsýslu sagði að það hefði verið frekar blautt á en þeir sem náðu dún í fyrra lagi sluppu betur. Margir ungar frá hverri kollu. Refur og minkur valda skaða auk þess svartbakur og hrafn.
    2. Ásgeir Gunnar Jónsson, Æðarræktarfélag Snæfellinga í Snæfells- og hnappadalssýslu tekur undir orð Elvu þakkar stjórn fyrir samstarf og hlunnindaráðgjafa fyrir sín störf.
    3. Karl Kristjánsson, Æðarvé í Dalasýslu og A- Barðastrandasýslu segirr dúntekju yfirleitt minn en undanfarin ár vorið gott nýting þó lakari en oft áður. Mest kvartað yfir erninum sem fjölgar og hendur manna bundnar hvað varðar að verjast honum. Eitthvað um hrafnager. Refavinnslu vel sinnt. Deildin á hlut í báta og hlunnindasýningu á Reykhólum hún gengur vel og stöðug aukning, kaffihús og upplýsingarmiðstöð. Líst vel á hugmyndir um skilti til að merkja æðarvörp.
    4. Salvar Baldursson, Dúnland í V- Barðastrandasýslu og Ísafjarðarsýslum segir misjafnt gengi, dreift svæði t.d. gott í Dýrafirði og Önundarfirði en verra í djúpinu. Refurinn og minkurinn að pirra fólk. Ekki búið að halda aðalfund, verður í haust
    5. Pétur Guðmundsson, Æðarverndarfélag Strandasýslu segir þau hafa haldið fund í vor allir mættu þ.e. fjögur. Minnkandi varp sérstaklega norðan til, vantar inn árganga. Góður árangur í minkavinnslu. Ber mikið núna á haferni hann veldur miklum skaða og fylgir honum fuglager þ.e. svartbakur og hrafn fylgja í kjölfarið. Sæmilega þurrt og gott a.m.k. fyrri hlutann.
    6. Helgi Pálsson, Æðarræktarfélaga Vestur Húnavatnssýslur í Vestur Húnavatnssýslu segir varp með ágætum. Refur í öllum landvörpur hrafn og minkur með minnsta móti, betur sé gengið um urðunarstaði. Varpið þurrt framan af, meira um fúlegg í hreiðrum. Varp eitthvað nálægt 20% minna en í fyrra. Núna vantar orðið marga árganga inní. Í júníbyrjun fórust margir æðarungar í brimverði. Aðalfundur haldinn 20 ágúst. Þakkaði stjórn fyrir sín störf.
    7. Sigurður Guðjónsson, Æðarverndarfélag N-Vesturlands í A-Húnavatnssýslu og Skagafirði sagði hafa verið bleytutíð en gekk annars vel. Tófugengd með eindæmum sem hefur valdið miklum skaða. Benti á nauðsyn þess að samræma refaveiðar. Ennþá sleppur minkur úr búrum spurning hvort hann verði ekki stærri og verri?
    8. Æðarræktarfélag Eyjafjarðar og Skjálfanda – Enginn mættur
    9. Æðarræktarfélag Norð- Austurlands – Enginn mættur
    10. Æðarræktarfélag Austurlands – Enginn mættur en bað fyrir kveðju
    11. Æðarræktarfélag Austur Skaftafellsýslu -Enginn mættur
  5. Kosningar

    1. Formaður. Guðrún Gauksdóttir gaf kost á sér engin önnur framboð komu svo hún var endurkjörin með lófataki.
    2. Skoðunarmaður reikninga. Davíð Gíslason gaf ekki kost á sér til endurkjörs, Ásgeir Gunnar Jónsson var kjörinn skoðunarmaður reikninga í hans stað
  6. Tillögur
    1. Ályktun um árgjald.
      Stjórn Æðarræktarfélags Íslands leggur til við aðalfund 2014 að árgjald fyrir árið 2015 verði kr. 3.800.
      Samþykkt samhljóða
    2. Ályktun um styrki til deilda
      Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2014 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrk. Einnig er stjórninni heimilt að veita styrk til einstakra æðarbænda á þeim svæðum þar sem ekki er starfandi æðarræktardeild. Stjórn ÆÍ er falið að ganga frá samningum við formenn deildanna um framkvæmd tillögunnar. Styrkir verða greiddir gegn afriti af reikningum
      Umræður sköpuðust vegna þess ákvæðis í ályktuninni að einstakir æðarbændur geti sótt um styrk án þess að fara í gegnum félag. Einhverjir töldu það jafnvel geta hamlað stofnun deilda. Nokkrir tóku til máls vegna þess en tillagan var þó samþykkt óbreytt.
      Samþykkt samhljóða
    3. Ályktun um refa og minkaveiðar
      Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2014 hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða og til að hætta skattlagningu veiðanna í formi virðisaukaskatts. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra.
      Aðalfundur 2014 felur stjórn Æðarræktarfélagsins í samráði við hlunnindaráðunaut, formenn deilda og sérstaka ráðgjafanefnd sem og með hliðsjón af sjónarmiðum sem fram koma á aðalfundi að rita umsögn um fyrirliggjandi drög að reglugerð um refa- og minkaveiðar fyrir hönd ÆÍ. Frestur til að skila inn umsögninni er til 12. september 2014.
      Greinargerð:
      Það er öllum ljóst að það þarf að halda fjölda refa og minka innan skynsamlegra marka ef ekki á illa að fara. Minkur er aðskotadýr í íslenskri náttúru og því ætti að stefna að því að fækka honum verulega, helst að útrýma honum. Ref hefur fjölgað mikið á síðasta áratug og er nú svo komið að vakta þarf flest landvörp um varptíma og er það mjög tímafrekt og kostnaðarsamt. Sveitarfélög eru líka mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við veiðarnar. Þess vegna er nauðsynlegt að samræma reglur þeirra og best væri ef hægt væri að koma því svo fyrir að ekki skipti máli í hvaða sveitarfélagi dýrin væru veidd. Til að hvetja til veiða á ref og mink er brýnt að virðisaukaskattur af veiðunum fáist endurgreiddur í stað þess að nota veiðarnar sem tekjustofn fyrir ríkissjóð eins og nú er gert.
      Erla kvað sér hljóðs stakk upp á að tilnefnd yrði nefnd til að vera stjórn til halds og trausts. Reynir nefndi að ómögulegt sé að samræma aðgerðir
      Upphaflegu tillögu var örlítið breytt m.t.t. þess að lagt var til að stjórn og ráðunautur hefði nefnd sér til aðstoðar við að semja umsögn um reglugerðina.
      Ályktunin var samþykkt með þorra greiddra atkvæða en þrír greiddu atkvæði á móti.
      Reynir Bergsveinsson gerði grein fyrir atkvæði sínu lýsti vanþóknun sinni á reglugerðinni og vildi að farið yrði fram á frestun á henni.
  7. Önnur mál

    Pétur Guðmundsson las upp bréf frá sem honum hafði borist um minnka og refaveiðar.
    Matthías Lýðsson hvað sér hljóðs um hrafnsmynd á vegg samkomuhússins hann vildi beina því til heimamanna að vel mætti vera hér mynd af geðþekkari fugli.
    Einar Óskarsson vildi bæta við um minnka og refaveiðar að í Borgarbyggð væri kvóti á veiðum.
    Guðmundur Wium nefndi að það þyrfti að samræma aðgerðir félaga og hagsmunaaðila í refa og minkaveiðum og vill að félagið taki á þessu af mikilli alvöru.
    Guðrún Gauks tók undir orða Guðmundar og taldi að nú þyrfti að vinna í málefnum minka og refaveiða af alvöru.
    Sigríður Ólafsdóttir sagði að það yrði talað við fleiri hagsmunaaðila.
    Guðbrandur talaði um hrafninn og sagði sögu af bónda í sveitinni.

Fundi slitið kl. 15:00

Skoðunarferð

Nú var komið að skoðunarferðinni sem allir biðu eftir. Lagt var á stað kl 15:20, á níunda tug mann voru í ferðinni, farið var á þremur rútukálfum og nokkrum jeppum. Ferðinni var heitið í Ingólfsfjörð og Ófeigsfjörð. Þessi tæplega 20 km. leið úr Trékyllisvík er seinfarin á vegum sem eru nánast troðningar eða jeppavegir. Heimamenn og staðkunnugir leiðsögðu í rútunum þeir Pétur Guðmundsson, Ásgeir Gunnar Jónsson og Valgeir Benediktsson. Ekið var beint í Ófeigsfjörð þar sem hópurinn naut gestrisni óðalsbænda þar, Péturs og Margrétar. Þar eiga þau sannkallaða sumarhöll reista úr rekaviði. Pétur fræddi gesti um staðinn og svaraði spurningum. Góðgjörðir voru fram bornar bæði í föstu formi og fljótandi m.a. lostalengjur frá Matthíasi Lýðssyni og Hafdísi Sturludóttur. Nú var haldið til baka til Ingólfsfjarðar þar sem stoppað var á Eyri, gömlu síldarsöltunarplássi. Þar sagði Ásgeir Gunnar frá sögu staðarins sem svo sannarlega er merk og má muna sinn fífil fegri er fjörðurinn var fullur af athafnafólki og söltun á fimm stöðum í þessum litla firði. Að lokum var svo haldið heim í Árnes aftur en þar beið kvöldverður.

Kvöldverður – kvöldvaka

Kvöldverður var framreiddur í Árnesi en Það var Eva í Djúpuvík ásamt sínu fólki sem sá um að enginn stóð svangur upp frá borðum. Súpa, lambalæri með tilheyrandi ásamt dýrindis gulrótarköku og kaffi.

Undir borðhaldi voru tveir dagskrárliðir:

Björk Pétursdóttir frá Hrauni í Fljótum sýndi vörur sem hún hannar og framleiðir undir vörumerkinu „Hrauna“. Sýndi hún m.a sjöl, trefla, húfur og sokka.

Sveinn Kristinsson frá Dröngum og fyrrum skólastjóri en nú formaður Rauða kross Íslands, flutti skemmtilegar frásagnir af Strandafólki í bland við annað léttmeti.

Fundarritari:  Sólveig Bessa Magnúsdóttir

 

43. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2012

43. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn á Hótel Sögu þann 10. nóvember 2012, kl. 10.

Dagskrá fundarins:

  1. Tillögur
  2. Kosningar
    Ásta og Salvar gefa kost á sér í stjórn til þriggja ára. Klappað fyrir því.
    Halla Steinsólfsdóttir gefur kost á sér í varastjórn. Klappað fyrir því.
    Skoðunarmaður reikninga, Davíð Gíslason gefur kost á sér áfram: klappað fyrir því.
    Aðalfulltrúi á Búnaðarþing: Eiríkur Snæbjörnsson á Stað. Klappað fyrir því.
    Varamaður á Búnaðarþing: Óðinn Sigþórsson. Klappað fyrir því.
  3. Sölu- og markaðsmál; Fulltrúi útflutningshóps æðardúns FA: Erla Friðriksdóttir.
    Fór yfir útflutningstölurnar frá Hagstofunni. 3,6 tonn flutt út 2010 og stefnir í 3 tonn í ár. Verðið hefur verið að hækka og er nú um 159 þús kr/kg.
    Tæplega 400 milljónir í útflutningstekjur árlega síðustu þrjú árin.
    Dúnninn fer langmest til Japan, um 30% fer til Þýskalands. Markaðirnir borga misvel, Japansmarkaður borgar best. Sviss, Taiwan, Austurríki og Noregur eru líka með en mjög lítið hlutfall.
    Tollskrárnúmer og útflutningur á sængum. Það hefur verið mikil vakning í vöruframleiðslu úr æðardúni og það hefur verið mikil eftirspurn eftir sængurverum. Hvetur þá sem eru að flytja út sængur að passa að þetta sé rétt skráð í tollinum. Eins og er eru ekki til tollskrárnúmer fyrir æðardúnsvörur og þær eru settar í flokka með gæsafiðri og ýmsu fleiru og því ómögulegt að sjá hversu mikið er flutt út af dúni. Hópurinn er að vinna í því að fá fleiri tollskrárnúmer; hreinsaður dúnn eða þveginn dúnn, æðarsængur fái líka tvö númer eftir því hvað er í þeim. Sama gildi um fatnað úr æðardún. Mikilvægt að vitað sé meira um dúninn sem fluttur er út.
    Umræður:
    Merette spyr hvort maður fái örugglega rétt númer frá tollinum, er hægt að sjá þessa skrá einhverstaðar? Erla: vonandi er tollurinn að gefa rétt númer, gallinn er að það er bara svo margt annað sem lendir í sömu flokkum.
    Jóhannes: spyr um uppboðsmarkað fyrir dún. Dúnninn er ekki allur eins, misjafnar hreinsunaraðferðir, er hægt að hafa hann allann undir einu merki? Er þetta eitthvað skoðað? Erla: Er ekki beint inn á verksviði stjórnar, þessi sölumál, hefur ekki verið rætt í útflutningshópnum. Hvetur þá sem hafa áhuga á þessari leið að prófa það. Getur ekki skilið það að það megi ekki. Jóhannes vill að þetta verði skoðað. Erla: það ætti ekki að skipta máli þó dúnninn sé ólíkur, þeir sem kaupa ættu að geta gert sér grein fyrir muninum á því. Pétur: eins og er þá má segja að markaðurinn virki eins og uppboðsmarkaður. Það fer mest eftir hreinsunarstöðvunum hvernig gæði dúnsins eru og líka hvernig er farið með hann eftir að hann er hirtur. Kaupendurnir úti vita nokkuð hvað þeir eru að gera með kaupunum og versla mest við sömu hreinsunarstöðvarnar.
  4. Fréttir og tillögur frá deildum
    Vesturland – Elva:
    Vorið þurrt og dúnninn góður. Tófa og minkur gerðu usla. Fuglinn færir sig frekar út í eyjar, fækkar í landi. Einn vargurinn er grásleppuveiðimenn og gengur illa að fá veiðilínuna færða utar. Guðmundur Helgason í Hvalseyjum er bæði æðarbóndi og grásleppuveiðimaður, hann er að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Flugvargur er mikið skotinn og hefur því eitthvað minkað en er alltaf til staðar. Þakkaði Guðrúnu og Guðbjörgu þeirra störf. Ánægð með Vegaferðina og formannafundinn.
    Snæfellsnes – Ásgeir Gunnar Jónsson.
    Vorið gott og starfsemi deildarinnar með svipuðu sniði. Ánægjulegt samstarf við rannsóknasetrið og eins við Æðarvé. Minkasíur hafa verið keyptar fyrir styrki frá ÆÍ og stöðugt minna veiðist í þær. Ræddi um varginn, sérstaklega tófuna, sem er eiginlega nýr vágestur. Snæfellsjökulsþjóðgarður er griðland og eldisstaður fyrir tófu og þar sést varla nokkur fugl lengur, tófan búin að útrýma þeim og svo streymir hún bara yfir á næstu svæði. Þessi friðlönd eru eldislönd, tófan er aðalplágan eins og er. Fannst tófugreni út í Brokey, fyrsta skipti í eyju svo vitað sé um. Hefur áhyggjur af því að lóunni verði útrýmt með þessu móti. Stjórnvöld hafa algjörlega dregið lappirnar og þjóðgarðarnir eru að verða aðalplágan. Tófan hreinsar upp ungana þegar kollan kemur með þá að landi úr eyjunum. Þakkar ÆÍ fyrir veitta ráðgjöf og aðstoð gegnum árin og fyrir að gera okkur kleyft að kaupa minkasíur sem hafa nærri hreinsað upp mink á svæðinu.
    Dalasýsla – Eiríkur Snæbjörnsson á Stað.
    Þakkaði öllum fyrir sem mættu á fundinn á Reykhólum og í fyrra. Starf deildarinnar var með hefbundnu móti. Búið að stofna eignarhaldsfélag utan um hlunnindasafnið á Reykhólum.
    Vestfirðir – Dúnland – Salvar Baldursson í Vigur
    Þakkar fyrir fróðleg erindi. Dúnland nær yfir báðar Ísafjarðarsýslurnar. Sagði frá endurlífgun Dúnlands og nú er öflugt starf í deildinni. Varpið gekk ágætlega. Leiðinda veður í maí og svo tóm dýrð eftir það. Á Vestfjörðum er fjöldaframleiddur refur í boði umhverfisráðuneytisins. Er ánægður með refafrumvarpið sem liggur fyrir þinginu. Óþolandi að fá ekki greitt fyrir refaveiðarnar. Melrakkasetrið var stofnað og átti að rannsaka refinn, en hvar eru rannsóknirnar á refnum? Lítið fer fyrir niðurstöðum og nú sjá menn jafnmikið af ref og rjúpu, rjúpnaveiðimenn veiða jafn mikið af tófu og rjúpu. Slógi er sturtað í sjóinn víða og þar er verið að ala upp flugvarg. Það virðist samt vera viðráðanlegra verkefni en refurinn, hann á sér öfluga talsmenn.
    Strandasýsla – Pétur Guðmundsson
    Þar var haldinn „fjölmennur“ deildarfundur í haust. Rukkar líka niðurstöðurnar úr öllum refarannsóknum og líka úr minkaverkefninu, við þurfum að krefjast þess að fá þessar niðurstöður. Peningunum í melrakkasetrið er illa varið, ekki hægt að láta fólk rannsaka refinn sem er farið að elska hann. Varpið var mjög gott, helmingi meiri dúnn en í fyrra og eru vörpin að ná sömu stærð og árið áður. Vargagangur angrar. Verið að setja minkasíur niður víða og þetta virkar. Flugvargur, einn örn er í sjálfu sér ekki svo heimtufrekur en bæði hrafnar og svartbakur koma í kjölfarið og hreinsa upp á eftir. Áætlar að helmingur hreiðra hafi verið rændur og lítið var af unga í sumar.
    V-Húnavatnssýslu – Helgi Pálsson
    Varp gekk vel. Nema þegar menn fengu í heimsókn frá hrafnahópum sem voru aldir á ruslahaugum sveitarfélagins yfir veturinn en fóru svo í vörpin þegar haugunum var lokað. Mikið drapst af hrafnsungum í kuldakastinu í maí, svo ekki var nú kuldinn alslæmur. Ca. 30 minkar eru drepnir í sýslunni og það er um 1/12 af því magni sem var 1998. Svo minknum hefur fækkað mikið. Það er vegna þess að vegasamband er betra á heiðunum og þar hefur verið ráðist á hann, það skilar sér niður í byggðunum. Gildruveiðar eru mikið stundaðar og virka vel.
    Ræddi um lágflug landhelgisgæslunar. Lágflug veldur styggð á varptíma og kollurnar afrækja hreiður í stórum stíl. Las tillögu frá deildinni varðandi þessi mál. Tillagan var svo tekin til atkvæða með öðrum tillögum fundarins.
    Þakkaði Guðbjörgu og stjórn ÆÍ fyrir góð störf.
    A-Hún. og Skagafjarðarsýsla – Merette á Hrauni.
    Sigurður Guðjónsson formaður veðurtepptur. Tíðarfar og varp var bara nokkuð gott, þrátt fyrir kuldakast. Tófan er alvarlegt vandamál á öllu svæðinu og þarf að berjast með kjafti og klóm við það. Þarf að fá skyttur nótt eftir nótt til að verja varpið. Skotin 5 dýr rétt við bæjardyrnar á Hraunum. Greni fannst 4 km frá Hrauni, bæði dýrin voru dauð, en þar var barnapía sem var skotin með 13 æðarunga í kjaftinum. Áríðandi að koma því til stjórnvalda að vinna að þessum málum. Haldinn fínn deildarfundur í vor, það var opinn fundur. Þakkaði fyrir stuðninginn frá ÆÍ við atvinnuvegasýninguna á Sauðárkróki, það gekk allt frábærlega vel. Hefur áhyggjur af því hvort auðlindagjald verði tekið af æðarbændum, hafði áhyggjur af því að silungsveiði var undanþegin en spurning með æðardúnstekjuna.
    Eyjafj. og Skjálfandi.
    Formaður veðurtepptur.
    Norðausturland
    Formaður veðurtepptur.
    Austurland – Ólafur Eggertsson
    Ládeyða í deildinni, nánast svefn síðustu þrjú árin. Félagsstarfið þarf að vera í sífeldri endurskoðun og þegar fækkar í sveitunum, því gæti þurft að stækka einingarnar svo starfsemin líði ekki fyrir fækkunina. Vegalengdir skipta orðið mun minna máli. Varpið gekk mjög vel og nýting á dúni góð í ár, síðustu árin hafa verið afspyrnuléleg svo kannski er þetta ekki sanngjarn samanburður. Biður um að stjórn ÆÍ hjálpi til við að lífga við deildina. Óskaði stjórn góð gengis sem og greininni allri.
    A-Skaftafellssýsla.
    Formaður komst ekki.
  5. Fjöldabreytingar æðarfugla á 20. öldinni:
    Jón Einar Jónsson, Rannsóknarsetri HÍ á Snæfellsnesi
    Rannsóknarsetrið er fuglarannsóknarsetur og fyrst og fremst sjávarfugla, þar er æðarfuglinn fremstur í flokki. Stofnað 2006. Stórgott samstarf við æðarbændur.
    Jón byrjaði að fjalla um fæðuval æðarfuglsins og sagði einnig frá fuglamerkingum.
    Fæða æðarfugls: sniglar vinsælastir, nökkvar (hópur lindýra) eru næstefstir á listanum, síðan fleiri lindýr og skrápdýr.
    Merkingar: Samstarf við Smára í Rifi hófst 2008 og hefur verið mjög mikið og gagnlegt. Smári í Rifi hefur verið að merkja kollur árum saman en hafði ekki komið þessum gögnum í vísindasamfélagið. Varpið á Rifi er í tveimur manngerðum hólmum. Annar í betra skjóli. Kollurnar prófuðu báða hólmana. Varpið hafði stækkað mjög mikið og þegar fjölgaði í varpinu vildu þær síður færa sig. Ef mikið vatn var í tjörninni á vorin þá vildu kollurnar í stóra hólmanum enn síður færa sig.
    Ungatalningar: 2007-2012, talið í júlí. Farið með Breiðafjarðarferjunni frá Sykkishólmi og yfir Breiðafjörð, keyrt inn Barðaströndina og sem leið liggur út Snæfellsnes. Kollur og ungar taldir. Slæmt ástand 2011 en mjög gott í ár.
    Stofnstærð: langtíma rannsóknarverkefni. Ákveðið vandamál að nota hreiður sem talningu er að sumar kollur koma ekki öll ár í varp, sleppiár eru þekkt víða í heiminum og líka hér. En þrátt fyrir sleppiárin þá er þetta auðveldasta leiðin til að telja stofninn. Mjög erfitt að ætla að telja fuglinn á veturna, þyrfti að telja í flugvél og það er of dýrt. Því er valið að telja hreiður og safna upplýsingum frá bændum um hreiðurfjölda aftur í tímann. Talningar úr 41 varpi. Flestir byrjuðu að telja upp úr 2000. Flestir eru á Vesturlandi. Stendur til að birta grein um niðurstöðurnar.
    Áhrif veðurs á æður: breytileiki í veðri hefur ekki mikil áhrif á fjölda hreiðra, en hefur áhrif á ástand fuglanna. Viljum fá kollurnar snemma í maí, eftir miðjan maí eru þær horaðri, færri egg og afrækja frekar. Aukin stormtíðni á veturna fer ekki vel í fuglinn.
    En er munur á þessum vörpum? Vörpin eru ólík og sveiflast ólíkt. Lítið er um að stofninn sveiflist í takt, getur fækkað á einum stað en fjölgað á öðrum. Meira að segja vörp sem eru nálæg sveiflast ekki eins. Jón Einar fór að bera saman bækur við fjöldatalningar á lunda í Vestmannaeyjum (tölur frá Erpi Snæ Hansen um fjölda lunda í Hálsey) og einnig að tengja við sveiflur í hitastigi í Atlandshafi. Æðarfugli snarfjölgar frá 1980 til 1992 allstaðar á landinu. Síðan er fækkun eftir 2002. Þegar er hlýindaskeið þá fækkar í stofninum, en á kuldaskeiðum fjölgar í stofninum. Æðarfuglinn er þó lengi að taka við sér á kuldaskeiðum. Lundinn haga sér eins nema er fljótari að taka við sér og hrynur líka hraðar.
    Greinileg fylgni við loðnuveiðar, þ.e. þegar er mikil veiði þá er æðarfuglinum að fjölga. Einnig er spurning hvort eitthvað af Grænlenska stofninum hafi flutt hingað á hafísárunum.
    Hvað er að gerast? Það er að fækka í stofninum síðan 1995 en er ekki enn komið niður fyrir fjöldann eins og hann var 1980. Erfitt er að segja til um það hvort fuglunum fer fjölgandi eða fækkandi næstu 10 árin.Fyrirspurnir:
    Pétur Guðmundsson spyr um aðrar fiskitegundir, t.d. makríl og skötusel, koma þessir stofnar ekki frekar á hlýindaskeiðum? Jón: hlýnunin þýðir að t.d. loðnan hopar og það fjölgar óæskilegum tegundum, s.s. áðurnefndum tegundum. Það er ekkert grín fyrir vistkerfin í sjónum að fá svona rándýr eins og skötusel og makríl. Þetta er ekki góð viðbót.
    Guðmundur Jóhannesson spyr um æðarvörp á Norðurlandi voru þau með? Jón: erum með tölur frá Heggstaðanesi og úr Eyjafirði (Hrísey) og til Atla á Laxamýri. Austfirðirnir eru óplægður akur.
    Salvar Baldursson: eru gerfihnattasendar á fugli? Hvert fer hann, fer hann á milli svæða? Jón: Danir settu gerfihnattasenda á fugla við A-Grænland, þeir komu til Íslands (9 fuglar af 10). Er dýrt, en sendarnir hafa neikvæð áhrif á fuglinn, sérstaklega á hæfnina til að kafa. Fuglinn blandast sennilega mjög mikið á vetrarstöðvunum.
    Hafsteinn Guðmundsson: þessi fæða er bara sýnishorn af fæðunni (úr grásleppunetunum) því fæðuvalið er árstíðabundið. Stofnstærðin sýnir fylgni við loðnuna (vetrarfæðið), þar er mjög örugg tenging. Jón: þarna var tækifæri til að nota fugla til upplýsinga sem voru dauðir (í netum), en það er rétt að þetta er ekki þverskurður af fæði fuglsins, eingöngu hvað þessir fuglar voru að éta á þessum stað og tíma.
    Þorsteinn: spyr um það afhverju blikinn er svona jafnréttissinnaður? Sækist fugl í vörp í löndum þar sem veiðar eru leyfðar? Jón: fuglinn sækist frekar eftir að vera í vörpum, en ekki allir. Æðarkóngurinn verpir aftur á móti dreift og þar er erfitt að safna dún.
    Hallur Þorsteinsson: Eru grásleppuhrogn á fæðulistanum? Jón: já, allt að 10% fæðunar í Noregi. Hefur fundist hér líka, en í litlum mæli.
  6. Erindi:
    Bjargráðasjóður –Kynning á réttindum sjóðfélaga:
    Árni Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs. Bjargráðasjóður er tryggingasjóður og hefur tekjur sínar af búnaðargjaldi. Er í eigu ríkisins og Bændasamtakanna. Hefur verið starfandi síðan 1913. Bætir tjón vegna náttúruhamfara sem tryggingar bæta ekki. Árni fór yfir tekjuöflun Bjargráðasjóðs og hvaða tjón sjóðurinn bætir. Girðingar, tún, hey, uppskerubrestur vegna þurrka eða kals er bætt úr A-deild. Sú deild er óháð búgreinum. B-deild bætir tekjutap vegna afurða búfjár og uppskerutjón. Hér er bætt tjón vegna áfalla í varpi og það tjón sem friðaðir fuglar valda.
    Árni fór einnig yfir það í hvað búnaðargjaldið fer, hvernig skiptingin er milli búgreina. Ekki má veita út úr sjóðnum meira en búgreinin á inni og einungis þeir sem hafa greitt búnaðargjald eiga rétt á bótum úr sjóðnum. Æðarræktin á núna inni rúmar 2 miljónir í B-deild. Bjargráðasjóður hefur oft greitt út til æðarbænda vegna tjóns sem þeir hafa orðið fyrir.
    Spurt hvort Bjargráðasjóður bæti tjón vegna mannskepnunar. Árni taldi svo geta verið en það þyrfti þá að rökstyðja það vel.Kl. 12:00 – 12:45 Léttur hádegisverður í boði félagsins
    Meðan á hádegisverðinum stóð var kynningarmynd ÆÍ sýnd.
  7. Ávörp gesta
    Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands.
    Þakkaði samstarfið við formann ÆÍ, stjórn og ráðunaut.
    Lagði áherslu á að bændur séu gæslumenn náttúrunnar. Það þarf að berjast fyrir vargeyðingu, erfitt er að fá náttúruverndarfólk til að skilja hvað bændur eru að eiga við. Þetta er eilíf barátta og virðist miða eilítið aftur á bak í því. Ef ekkert má þá verður nýting landsins erfið. Þetta er sameiginleg barátta allra aðildarfélaga Bí og stjórn BÍ heldur áfram að vinna að þessum málum.
    Fór yfir lauslega breytingar í nýjum búnaðarlagasamningi og breytingar á leiðbeiningarþjónustunni. Nú um áramótin verður stofnuð „leiðbeiningaþjónusta landbúnaðarins“ og þar með er ráðgjafaþjónustan klofin frá BÍ, en fyrirtækið verður í eigu BÍ. Það er verið að aðskilja hagsmunagæsluna og faglega ráðgjafahlutverkið. Þá verður Framleiðnisjóður endurreistur.
    Hlunnindi og ræktun eru einar af grunnstoðum landbúnaðarins og það á að horfa á bújörðina sem atvinnutæki bóndans. Óskaði ÆÍ alls hins besta.Þorsteinn Tómasson frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
    Þakkaði fyrir boð á fundinn. Finnst það sem ÆÍ er að gera vera mjög spennandi. Færir fundinum kveðju ráðherra og mun gefa ráðherra skýrslu eftir fundinn.
    Fór yfir breytingar á stjórnarráðinu og hvernig nýtt atvinnuvegaráðuneyti er uppbyggt og sagði frá þeim skipuritum sem eru í gangi. Ráðuneytið ætti vegna þessa að vera betur í stakk búið til að þjónusta félög eins og ÆÍ.
    Ræddi um vottun afurða og aðkomu ráðuneytisins að því.
    Ræddi um samstarf þeirra þjóða sem eru við norðurheimskautið. Ísland verður með formennsku í norðurlandasamstarfinu 2014 og þar hefur Þorsteinn áhuga á að „græna hagkerfið“ verði áherslumál Íslands.
    Óskaði ÆÍ að endingu velfarnaðar.Hermann Ottóson frá Íslandsstofu
    Þakkaði fyrir góða ferð til Vega, varð alveg heillaður af atvinnugreininni í þessari ferð og finnst æðarbændur vera stórskemmtilegt fólk. Eins er saga atvinnugreinarinnar alveg einstök. Velti því fyrir sér hvort norsku landnemarnir hafi tekið með sér æðarræktina á sínum tíma.
    Sagði frá Íslandsstofu (sem er samvinnuverkefni fyrirtækja og stjórnvalda) og áframhaldandi samstarfi við ÆÍ. Guðbjörg mun kynna æðarræktina fyrir starfsfólki Íslandsstofu, þannig að starfsfólk Íslandsstofu verði betur tengt við æðarræktina. Eins verður skoðað námskeiðahald og frekara kynningarstarf. Hér er eitthvað sem hægt er að kynna sem séríslenskt. Langar mikið að fara í ferð til Kanada með æðarbændum.
    Vonast eftir löngu og farsælu samstarfi og vonandi gengur ÆÍ allt í haginn.Eftir ávörp gesta hélt áðurnefnd Ásdís áfram að gagnrýna Guðbjörgu og forsetahjónin. Hún reyndist ekki vera í félaginu og vék á endanum af fundi eftir að fundarstjóri hafði ítrekað áminnt hana um að virða fundarsköp.
  8. Skýrslur
    Skýrsla stjórnar; Guðrún Gauksdóttir
    Guðrún flutti skýrslu stjórnar sem var svohljóðandi:
    Það er vel rúmt ár frá því funduðum síðast á Reykhólum. Fundurinn var vel sóttur – rúmlega 100 manns. Félagar í ÆÍ eru nú tæplega 230 talsins.
    Það má segja að árferði hafi verið almennt hagstætt æðarbændum þó blikur hafi verið á lofti á norðanverðu landinu um tíma þar sem snjóaði nokkuð í kuldakastinu maí.
    Maímánuður var mjög kaflaskiptur. Hlýtt var fyrstu tvo dagana en síðan gerði kuldakast sem stóð nær samfellt fram til 21. Þá hlýnaði og síðustu vikuna var mjög hlýtt um meginhluta landsins. Hiti komst m.a. yfir 20 stig sex daga í röð, 25. til 30. Suma þessa daga var kalt allra austast á landinu. Sérlega sólríkt var í Reykjavík og á Akureyri. Úrkoma var einnig undir meðallagi víða á Vestur- og Norðurlandi.
    Útflutningur dúns hefur gengið vel það sem af er ári og gæti farið yfir 3 tonn þriðja árið í röð. Þá ber að fagna því að æðarfuglinn er að verða sýnilegri fyrir tilstilli æðarbænda víðsvegar um land – Æðarsetrið í Stykkishólmi – hlunnindasafnið á Reykhólum – Æðarverndarfélag NV-lands tók þátt í Atvinnulífssýningu á Sauðárkróki – og svo framlag einstakra bænda. Ef við erum samhent þá verður vegur æðarfuglsins meiri. Frumkvæði og frumleiki að leiðarljósi.
    Að vanda fer formaður yfir helstu viðfangsefni stjórnar á sl. ári og þá mun ég nefna nokkur önnur atriði. Um ýmislegt mun ég vísa til erindis Guðbjargar hlunnindara ðarbændum mhingað. að. eiddir n. Bæklingurinn áðgjafaa ðarbændum mhingað. að. eiddir n. Bæklingurinn áðgjafa hér á eftir auk þess sem Erla Friðriksdóttir fjallar um sölumál og útflutning.
    Stjórn og stjórnarfundir
    Stjórnin hefur haldið 8 fundi frá því á síðasta aðalfundi auk óformlegs samráðs á milli funda.
    Eins og kunnugt er voru samþykktar breytingar á lögum félagsins á síðasta aðalfundi og sitja nú fimm stjórnarmenn í aðalstjórn í stað þriggja áður. Stjórnin hefur skipt með sér verkum með þeim hætti að Ásta Flosadóttir Höfða, er ritari, Erla Friðríksdóttir Stykkishólmi, er varaformaður, Guðni Þór Ólafsson Melstað, er gjaldkeri og Salvar Baldursson Vigur, vefstjóri. Í varastjórn eru Sólveig Bessa Magnúsdóttir Innri Hjarðardal og Halla Steinólfsdóttir Ytri Fagradal.Helstu verkefni stjórnar frá síðasta aðalfundi:
    Félagaskráin er komin á rafrænt form og innheimta félagsgjalda fer nú fyrst og fremst í gegnum heimabanka. Einhverjir hnökrar hafa þó verið í framkvæmdinni eins og við var að búast.
    Aðaláhersla stjórnar hefur verið lögð á að fullgera kynningar- og markaðsefni. Af ýmsum orsökum hefur það tafist nokkuð. Kynningarbæklingurinn á íslensku er tilbúinn og fengu félagsmenn sent eintak í sumar. Þeir sem vilja fleiri eintök geta fengið þau eftir fundinn. Bæklingurinn á ensku og þýsku er kominn í umbrot og er væntanlegur innan tíðar. Þá er þýðing hans yfir á japönsku í vinnslu. Kynningarmyndin er svo til tilbúin en mistök í innlestri á ensku uppgötvuðust á síðustu metrunum og verið er að leiðrétta þau. Myndin verður sýnd hér á eftir. Tölvupóstfang félagsins hefur verið virkjað en einhver bið verður á að heimasíðan komist í loftið. Stjórnin leggur áherslu á að allt kynningarefni verði sem vandaðast.
    Vegaferð – kynnisferð var farin til Vega í Noregi. Ánægja með ferðina. Mikill áhugi – stefnt að annarri ferð. Norðmenn koma hingað. Guðbjörg mun segja okkur frá ferðinni.
    Fjárveitingar/ styrkir ÆÍ hefur fengið styrki til gerðar kynningarefnis og stjórn fundið fyrir velvilja í garð félagsins. Þá veitti ÆÍ styrk í doktorsverkefni um æðarfuglinn.Ályktanir síðasta aðalfundar
    Á aðalfundinum í fyrra var samþykkt tillaga um styrki til deilda og voru nokkrir styrkir greiddir út. Aðalfundur ályktaði um að hvetja stjórnvöld og sveitarfélög til að leggja meiri fjármuni í refaveiðar og að fyrirkomulag veiðanna yrði endurskoðað. Einnig var samþykkt áskorun um útrýmingu á villtum mink á Íslandi og eflingu eftirlits með starfsemi loðdýrabúa. Þá var samþykkt ályktun varðandi friðunarlínu vegna grásleppuveiða í Faxaflóa.
    Stjórnin sendi bréf til landbúnaðarráðherra, umhverfisráðherra og sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem ályktunum fundarins var komið á framfæri.
    Að því er varðar grásleppuveiðina var línan ekki tekin inn í reglugerð fyrir veiðitímabilið og ályktun þar með hafnað. Hagmunaaðilar munu halda áfram baráttu sinni fyrir umræddri línu. Þetta verður nánar tekið fyrir þegar tillögur stjórnar verða lagðar fyrir fundinn.
    Stjórnin sendi inn umsögn um drög umhverfisráðherra að frumvarpi til breytinga á lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og varðar breytingar á hlunnindaákvæðum laganna.Starfsemi deilda
    Nokkrir deildarfundir hafa verið haldnir, nú síðast á Núpum, Reykhólum, Stykkishólmi, Borgarnesi og Hólmavík. Á þessa fundi hefur einhver úr stjórninni mætt ásamt Guðbjörgu hlunnindaráðgjafa. Það er stefna stjórnar að einhver úr hennar röðum mæti á fundi hjá deildum.
    Stjórn ÆÍ hefur fundað með formönnum deilda en stefnt er að því að virkja betur starf deildanna, en þær eru mjög misvirkar, og efla samstarf stjórnar ÆÍ og stjórna deilda.
    Að endingu skal minnt á friðlýsingu varpa og þakkað ánægjulegt samstarf þetta árið.Skýrsla hlunnindaráðgjafa BÍ; Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir
    Guðbjörg fór yfir það sem hún hefur verið að gera sl. ár. Þetta hefur verið ár hagsmunagæslu, mikið af nýjum lögum sem verið er að setja fram, m.a. til að aðlaga okkar löggjöf að ESB. Málefni varðandi svartfugl og lunda voru tímafrek. Það þarf að vera vel á vaktinni gagnvart þessum málum og BÍ berst fyrir því að réttindi bænda verði ekki af þeim tekin. Mikil samskipti hafa verið við þingmenn vegna þessara mála. Mikið um fundi vegna ESB-mála, þar sem m.a. refurinn er friðaður og en leyfilegt er að skjóta æðarfugl.
    Mikill tími farið í upplýsingagjöf til fjölmiðla og til erlendra þáttagerðarmanna. Mikill áhugi á kynningarmyndbandi ÆÍ og mun kynningarmyndin okkar örugglega fara í sýningu í Þýskalandi. Fyrirspurnir frá ferðaskrifstofum hafa verið miklar og nauðsynlegt er að koma heimasíðunni í gagnið til að miðla upplýsingum. Lítið fæst upp á netinu þegar reynt er að “gúggla” æðardún. Beðið hefur verið um fyrirlestra handa leiðsögumönnum. Þeir geta vel orðið góðir sölumenn ef þeir hafa upplýsingar til að miðla.
    Guðbjörg tók á móti erlendum gestum, m.a. frá Noregi og fór með gesti í heimsókn í vörp. Guðbjörg hefur mikinn áhuga á því að efla tengsli við Kanadamarkað og æðarbændur þar. Enn mikið verk óunnið að koma æðarfuglinum betur á kortið. Æðarfuglinn ætti að vera þjóðarfugl Íslands, enda verið nýttur hér frá örófi alda.
    Ferð til Vega var farin í ágúst, en það fóru 20 manns í þá ferð og 10 eru nú á biðlista. Vegafólk hefur áhuga á því að koma hingað til Íslands næsta haust.
    Guðbjörg hvetur menn til að vinna saman og deila hugmyndum, við erum sterkari sem heild. Því sýnilegri sem fuglinn og afturðirnar eru því betra fyrir alla. Tenglamyndun er mjög mikilvæg og verða menn að vinna vel í því. Verið að skoða með Hermanni frá Íslandsstofu samstarf og möguleika á t.d. námskeiðahaldi fyrir æðarbændur.
    Guðbjörg og Tómas sögðu frá könnun meðal æðarbænda á Íslandi og Noregi. Þar verður þróun varpa könnuð,dúntekja, meðferð dúns, nýting dúns og ýmislegt fleira. Annað hvort verður hún send með tölvupósti eða það verður hringt út.
    Formannafundur var haldinn í gær með stjórn. Fyrsti formannafundurinn í sögu ÆÍ. Þar var farið yfir uppbyggingu deilda og leiðir til að efla félagsskapinn. Það var mjög góður fundur. 8 deildir af 11 eru orðnar vel virkar í dag. Nauðsynlegt er að virkja deildirnar enn betur.
    Guðbjörg sýndi glæru um útflutning dúns, stefnir í 3,1 – 3,3 tonn í ár. Sumir útflutningsaðilar urðu að segja nei við sölu, því allt kláraðist. Þriðja árið í röð þar sem útflutningur fer yfir 3 tonn. Meðalverð nálgaðist 160 þús./kg í ár. Umræðan þarf að vera jákvæð og Guðbjörg hefur reynt að styðja við það með blaðagreinum.
    Guðbjörg fjallaði um fullvinnslu aðila og þar er mikið að gerast og mikil gróska í þeim geira. Fór mikið af stað eftir aðalfundinn 2010. Hlunnindasýningin á Reykhólum hefur verið sett í stærra húsnæði, mjög lifandi og flott safn, eins var æðarsetrið í Stykkishólmi opnað í fyrra og þar er hægt að fá ýmsa gjafavöru með æðarfuglinum.
    Taldi upp ýmsa aðila og sagði frá því hvað þeir eru að gera (Gallerý Hrauna í Fljótum, Vigur með ferðaþjónustu, Dóróthea er líka að útbúa ýmsa smávöru, Hafnir hafa verið að útbúa kerrupoka, Jón Sveinson hefur verið með kápur. Svo mætti lengi telja) Sagði frá atvinnuvegasýningunni á Sauðárkróki og flotta aðkomu æðarbænda að henna.
    Guðbjörg sýndi bæklinginn sem félagið lét gera og hvatti menn til að dreifa honum. Sýndi líka dæmi um listaverk sem tengjast fuglinum og dúnvinnslunni. Svítan á Hótelinu í Flatey er með æðarsængum. Guðbjörg hvatti fólk til að skoða kirkjuloftið í Flatey.
    Guðbjörg sagði frá kynningarefninu og hvatti fólk til að nýta sér kynningarefnið. Sagði frá kynningarmynd ÆÍ, en myndin var svo sýnd í matarhléinu. Mikið hefur verið spurt um myndir af kynslóðum að sinna varpi og dúnvinnslu. Heimasíðan er í vinnslu, en gott færi að fá efni til að setja þar inn. Þar verður upplýsingamiðstöð fyrir íslenskan æðardún og svo læst svæði fyrir félagsmenn og deildirnar. Slóðin á heimasíðuna er www.icelandeider.is.
    Um að gera ef eitthvað er að gerast í héraði þá að fá efni frá félaginu og kynningarefnið. Atvinnuvegasýningin á Sauðárkróki var vel heppnuð og þar var bás félagsmanna ÆÍ mjög vel sóttur.
    Áfram þarf að passa upp á hagsmunagæsluna og vinna í kynningarefninu.
    Stefnt er að kynningarfundum þegar kynningarefnið er tilbúið. Hönnunarmiðstöð Íslands og Íslandsstofa verða með okkur í því. Markmiðið ætti að vera að ná inn 400 félagsmönnum í ÆÍ. Útbúin verði kynningarpakki fyrir nýja félaga.
    Reikningar félagsins; gjaldkeri ÆÍ Guðni Þór Ólafsson
    Guðni skýrði reikninga félagsins og lagði þá fram.Fyrirspurnir og umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
    Hermann frá Íslandsstofu: kannaðist ekki við að hafa ráðið Ásdísi Arthúrsdóttir frá Vopnafirði til Íslandsstofu, en hún hélt því fram undir ræðu Guðbjargar að hún væri starfsmaður Íslandsstofu.
    Ásdís þessi gerði miklar athugasemdir við málflutning Guðbjargar varðandi ESB, fannst málflutningur hennar makalaus.
    Nokkur umræða var um logo félagsins, sumum finnst skrítið að kollan sé ekki í merkinu af því að þaðan kemur dúnninn.
    Guðbjörg svaraði Ásdísi og þótti hennar athugasemdir vera undarlegar, þar sem Guðbjörg hefur setið marga fundi á vegum BÍ í samningaviðræðum vegna umsóknar við ESB og sé þess vegna vel kunnug þessum málum. Ásdís hélt framíköllum áfram.
    Guðbjörg svaraði líka fyrir logo félagsins; kollan er erfiðari í logó, fíngerð og líkist öðrum kollum, blikinn er myndrænni. Merkið þarf að vera einfalt og stílhreint. Því var þetta niðurstaðan. Enda við hæfi að hafa blikann þar sem án hans væru engir ungar.Guðni bar reikninga ÆÍ undir atkvæði. Reikningarnir samþykkir samhljóða.
  9. Fundarsetning. Guðrún Gauksdóttir starfandi formaður setti fundinn og bauð fundargesti velkomna. Þá fór fram kjör starfsmanna fundarins; Guðni Þór Ólafsson var kjörinn fundarstjóri, Pétur Guðmundsson varafundarstjóri og Ásta F. Flosadóttir ritari fundarins.
    1. Ályktun um árgjald
      Stjórn Æí leggur til við aðalfund 2012 að árgjald fyrir árið 2013 verði óbreytt kr. 3.000.
      Umræður: Helgi Pálsson. Leggur til að þessi 3.000 kr. hækki með verðbólgunni. Nærri einu föstu tekjur deildanna og þetta gjald er of lágt. Aldrei verið vinsælt að hækka í stökkum. Leggur til að árgjaldið verði í ár 3.200 kr.
      Fundurinn samþykkti tillögu Helga einróma.
    2. Ályktun um styrki til deilda
      Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn í Reykjavík 10. nóvember 2012 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrk. Einnig er stjórninni heimilt að veita styrk til einstakra æðarbænda á þeim svæðum þar sem ekki er starfandi æðarræktardeild. Stjórn ÆÍ er falið að ganga frá samningum við formenn deildanna um framkvæmd tillögunnar. Styrkir verða greiddir gegn afriti af reikningum.
      Tillagan samþykkt samhljóða.
    3. Ályktun um refaveiðar
      Aðalfundur Æðarræktarfélag Íslands haldinn í Reykjavík laugardaginn 10. nóvember 2012 fagnar þingsályktunartillögu um breytta skipan refaveiða á Íslandi. Þingsályktunartillagan stuðlar að því að halda refastofninum innan eðlilegra marka og draga þannig úr tjóni af völdum refs. Æðarræktarfélag Íslands leggur þunga áherslu á að þingsályktunartillagan verði samþykkt og umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að breyta skipan refaveiða á Íslandi.
      Umræður:
      Salvar. Álítur að best sé að styðja þessa tillögu sem er komin inn á borð hjá Alþingi.
      Tillagan samþykkt samhljóða.
    4. Ályktun um minkaveiðar
      Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn í Reykjavík laugardaginn 10. nóvember 2012 skorar á stjórnvöld að leggja fram sambærilega tillögu um breytta skipan minkaveiða á Íslandi og lögð hefur verið fram um breytta skipan refaveiða á Íslandi. Tillagan miði að því að stuðla að útrýmingu villts minks á Íslandi. Tryggja verður að reglur um minkabú og eftirfylgni með þeim séu með þeim hætti að minkar sleppi ekki með nokkru móti úr búrum og húsum minkabúa út í náttúruna. Ennfremur að minkabú taki þátt í kostnaði við útrýmingu minks á meðan minkar finnast á landinu og taki þar með að hluta þátt í að bæta það tjón sem leiðir af starfseminni. Sem lið í virku eftirliti með loðdýrabúum og starfsemi verði séð til þess að öll lífdýr í loðdýrabúum verði örmerkt í framtíðinni. Það eru miklir hagsmunir æðarbænda og íslenskrar náttúru að þetta innflutta aðskotadýr hverfi af landinu.
      Tillagan samþykkt samhljóða.
    5. Ályktun um endurgreiðslu virðisaukaskatts af refa- og minkaveiðum
      Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn í Reykjavík laugardaginn 10. nóvember 2012 skorar á Alþingi að samþykkja frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum. Til að hvetja til veiða á ref og mink er brýnt að virðisaukaskattur af veiðunum fáist endurgreiddur í stað þess að nota veiðarnar sem tekjustofn fyrir ríkissjóð eins og nú er gert.
      Tillagan samþykkt samhljóða.
    6. Ályktun um grásleppuveiðar
      Aðalfundur Æðaræktarfélags Íslands haldinn í Reykjavík 10. nóvember 2012 skorar á atvinnuvegaráðherra að heimila ekki, innan tiltekinnar línu, grásleppuveiðar á Faxaflóa fyrr en eftir 15. maí ár hvert.
      Greinargerð: Um er að ræða línu sem dregin er úr Tómasarflögu í Hvalfjarðarstrandarsveit, utan við Þormóðssker, utan og vestur fyrir Hvalseyjar og utan við Skarfasker, vestan við Akraós. Línan verði þá skv. meðfylgjandi korti.
      Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir æðarrækt á svæðinu að friðunarlína þessi verði sett í reglugerð um hrognkelsaveiðar þar sem það hefur ekki náð tilætluðum árangri að beina tilmælum til grásleppuveiðimanna á grundvelli samkomulags milli Landsambands smábátaeigenda og Æðarræktarfélags Íslands frá 6. mars 2009.
      Einnig er horft til þeirrar sáttar og góða árangurs sem náðist milli grásleppuveiðimanna og æðarbænda með friðunarlínu í Breiðafirði.
      Umræður: Guðmundur Helgason í Hvalseyjum. Vill gera orðalagsbreytingu á greinargerðinni. Er með erindi í ráðuneytinu um sama efni. Greinargerðinni var breytt og stendur nú eins og hún er hér að ofan.
      Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
    7. Tillaga frá A-Hún. til stjórnar ÆÍ. Helgi Pálsson flutti tillöguna.
      Aðalfundur ÆÍ beinir því til stjórnar ÆÍ að safnað verði saman GPS – punktum af öllum æðarvörpum á landinu og stjórnin komi þessum punktum til Landhelgisgæslunnar.
      Greinargerð: Það hefur margoft komið fyrir á undanförnum árum að Landhelgisgæslan hefur flogið yfir æðarvörp á varptíma, þegar fluglinn er hvað viðkvæmastur fyrir öllu raski. Þyrluflugi fylgir mikill hávaði sem fuglinn er mjög hræddur við. Þessi flug hafa oft valdið skaða í vörpum. Síðastliðið vor flaug þyrla yfir varpið á Illugastöðum á Vatnsnesi. Haft var samband við landhelgisgæsluna og talað við flugstjóra þessa flugs. Óskaði hann eftir því að ÆÍ sendu landhelgisgæslunni GPS punkta af vörpunum svo þeir gætu forðast að fljúga yfir þau á varptímum.
      Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
  10. Önnur mál
    Jóhannes Geir Gíslason í Skáleyjum
    Ræddi um Vegaferðina. Þar var margt athyglisvert. Viðveran í varpinu þar var álitin mjög mikilvæg, þar var miklu meiri viðvera en er víða hérlendis. Jóhannes er sammála því. Dúntekjan í Skáleyjum jókst eftir að búsetan festist aftur, vill vekja athygli á þessu vegna þess að viðvera í varplöndum er mun minni núna en áður var. Ólíklegt að það hafi verið til bóta.
    Fáfræði í gangi með refinn, sumir halda að það sé bara málefni bænda að halda refnum niðri, öðrum komi það ekki við. En er það bændanna mál að stuðla að almennilegu fuglalífi í landinu?Guðbjörg Helga:
    Sagði frá ferðinni til Vega og sýndi myndir úr ferðinni. Til stendur að klippa saman videó úr ferðinni. Og eins mun Guðbjörg skrifa grein um ferðina í Bændablaðið.Jón Einar:
    Sýndi kort þar sem sást útbreiðsla æðarfugls við landið og hvar vörpin eru sem hann fékk upplýsingar um. Sýndi líka fróðlegt kort þar sem sást hvernig kollur með gerfihnattasendi fóru frá Grænlandi til Íslands og dreifðust um landið.
    Hann hefur líka sinnt almenningsfræðslu og frætt t.a.m. dúnkaupmenn erlenda og finnst það frábært. Hafa fengið góða styrki frá ÆÍ sem þakka má fyrir.

    Merette:
    Finnst myndin frábær og mikilvægt að við stöndum saman að henni, en veit til þess að sumir útflytjendur vilji nota myndina vegna þess að Erla sést í henni og hún er svo þekkt í Japan.
    Þakkar að öðru leiti fyrir starf stjórnar og finnst myndin vera mjög góð en þykir leitt ef sumir geti ekki nýtt hana.

    Hafsteinn:
    Vísar í DNA rannsókn frá Akureyri þar sem í ljós kom að ungar í hreiðri áttu marga feður (2-4 feður), svo það er ljóst að kollan vill tryggja sig með því að veðja á fleiri feður. Finnst galli að allir séu hættir að nýta eggin, ungarnir eiga meiri möguleika ef þeir eru færri úr hverju hreiðri. Vildi gera tilraun að fækka um helming í hreiðrunum og kanna hvort ungarnir lifa betur. Hér áður voru skilin eftir 2-3 egg í hreiðri en það kom ekki að sök.

    Þórdís Þórhallsdóttir í Höfða:
    Spyr eftir stóru æðarræktarbókinni. Reyndi að kaupa bókina í sumar og ætlaði að gefa hana, en fékk hana hvergi í bókabúðum. Þykir bókin flott og fín til gjafa.
    Jón Einar: bókaforlagið Skrudda (Steingrímur Sigurðsson) er að selja þessa bók og eins kemur hún stundum á bókamarkaði í Perlunni. Bókaforlagið er líka með vefverslun á www.skrudda.is.

    Guðrún svaraði Merette. Stjórn ÆÍ lagði mikið í þessa mynd, mikilvægt að þeir sem birtast í myndinni séu starfandi í greininni. Rétt er að útflutningsaðilar koma fram í myndinni og leitt að heyra ef einhverjir treysti sér ekki til að nota myndina. Gott væri að heyra ef óánægja er í félaginu með myndina, þetta er kynningarmynd æðarbænda og við viljum að æðarbændur séu sáttir. Ljóst að endurgerð myndarinnar muni kosta mikið og þá með keyptum leikurum. Guðbjörg tók það fram að útflytjendur eru ekki að leggja peninga í þessa mynd. Það verði þá að taka út líka bændurna á Stað og í Norðurkoti, finnst það persónulega mjög skrítið að þarna sé bara einn útflytjandi (Erla) tekin sérstaklega fyrir. Engin er nafngreindur í myndinni. Guðbjörg leggur til að aðalfundurinn samþykki eða hafni myndinni.Sigtryggur:
    Þakkar fyrir góðan fund og fróðlegann. Er í hópi æðardúnsútflytjenda. Tekur undir með Merette um að það sé ekki nógu gott að Erla sé í myndinni.
    Hrósar stjórn og Guðbjörgu fyrir dugnað, en finnst hún stundum fara offari og hvetur Guðbjörgu til þess að tala varlega um hátt verð á æðarsængum það er ekki alltaf sanngjarnt því stundum sé verið utan um sængurnar rándýr, t.d. silki. Áréttar að þetta sé ábending og óskar stjórn góðs gengis.

    Merette:
    Þykir leitt ef hennar ábending verður að einhverri sprengju. Er ekki að gagnrýna störf Erlu eða hana sem manneskju. Finnst bara slæmt ef myndin verður einhver auglýsing fyrir Erlu sérstaklega, finnst skrítið það þarf að endurgera myndina vegna tveggja sena. Finnst myndin að öðru leyti mjög góð.

    Guðbjörg svaraði Merrete og endurtók að útflutningsaðilarnir sem koma fram í myndinni séu þrír og það verði þá að taka þá alla út. Stærsti hlutinn er tekin í Norðurkoti. Myndin er ekki fyrir útflytjendur heldur fyrir æðarbændur. Ítrekaði að fundurinn ætti að taka afstöðu til myndarinnar.

    Salvar:
    Spyr hvort hann ætti að vera móðgaður vegna þess að ekki sést nein kolla frá honum í myndinni og hann sést ekkert sjálfur. Það skiptir engu máli hver er í myndinni. Það er bara verið að sýna hvernig þetta er gert. Það stendur ekkert utan á Erlu að hún sé einhver útflutningsaðili, hún er bara kona í myndinni, rétt eins og Eiríkur á Stað er bara karl. Þetta er fyrst og fremst kynningarmyndband okkar en ekki söluaðilana.

    Svanur Steinarsson í Borgarnesi,
    selur sængur og treystir sér vel til að láta þessa mynd ganga við hliðina á sængunum.

    Pétur Guðmundsson
    er útflytjandi og finnst að Erla prýði myndina
    Pétur lagði myndina undir fundinn til atkvæða, þ.e. hvort félagsmenn vildu nota þessa mynd eða gera nýja.
    Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að nota myndina.

Að þessu loknu þakkaði Guðrún Gauksdóttir fundarmönnum fyrir fundinn og sleit fundi.