Æðardúnn verðmætari en nokkru sinni fyrr

IMG_9367

Útflutningstekjur árið 2013 nærri 600 milljónir.
Ekkert lát er á sölu íslensks æðardúns til erlendra sængurframleiðenda. Verðið hefur tvöfaldast á fjórum árum en útflutningstekjur 2013 voru um 600 milljónir kr. Þessi arfur náttúrunnar er dýrasta landbúnaðarafurð landsins en kílóið kostar um 200.000 kr. Það er fyrir áræðni æðarbænda og söluaðila sem þessi náttúruauðlind skapar verðmæti, en ótíndur dúnn verður vindi og veðri að bráð. Möguleiki er á að margfalda verðmæti æðardúns með fullvinnslu.

Æðardúnn tvöfaldast í verði á fjórum árum
Útflutningstekjur af íslenskum æðardúni námu 599.148.104 kr árið 2013, en það þótti mikill sigur að ná 500 milljóna kr markmiðinu árið 2012. Ári síðar hafa söluaðilar gert enn betur og slógu næstum 600 milljóna markið. Útflutningur hefur gengið mjög vel undanfarin ár og virðist ekkert lát á vinsældum hans. Meðalverð á seldu kílói af íslenskum æðardúni var 192.652 kr í fyrra,  sem er tæplega tvöföldun meðalverðs frá 2009 sem var 97.887 kr. á verðlagi þess árs. Talsverðar sveiflur geta verið á verði eftir gengisþróun og milli markaðssvæða og því getur verð rokkað innan sölutímabila. Vöntun hefur verið á æðardúni síðustu ár hjá mörgum söluaðilum sem hefðu getað selt töluvert meira magn en raunin varð. Því hefur verð hækkað hratt. Æðardúnn er takmörkuð náttúruauðlind, en framleiðslan takmarkast við það magn sem fellur til ár hvert í hreiðrum æðarkolla og tíndur er af landeigendum. Ísland er með 70-80% heimsmarkaðshlutdeild með sölu upp á rúm 3 tonn af hreinsuðum æðardúni síðustu ár sem er ársframleiðslan.Stærstu sölusvæði æðardúns eru Japan og Þýskaland sem nota dúninn sem fyllingu í sængur. Algengt verð á æðardúnsængum erlendis er um 1200-1500 þúsund króna en einnig eru til bæði ódýrari og dýrari sængur eftir magni í sæng og hreinleika vörunnar.

Framboð annar ekki eftirspurn
Árið 2013 nam útflutningur æðardúns 3110 kílóum.  Það er því fjórða árið í röð sem salan fer yfir 3000 kg sem er algert einsdæmi í útflutningssögu œðardúns og virðist ekkert lát á eftirspurn. Margir söluaðilar hafa þegar gert framvirka saminga um sölu þess æðardúns sem bændur safna saman úr hreiðrum þessar vikurnar.  Það virðist því liðin tíð að æðardúnbirgðir safnist upp milli ára.

Veðurfar hliðhollt æðarfuglinum
Í vor og það sem af er sumri hefur veðurfar verið hagstætt æðarbændum. Það er helst á Austurlandi sem úrkoma hefur verið yfir meðallagi og einhverjir tekið upp votan dún sem er þá þurrkaður um leið og í hús er komið. Það ætti því ekki að koma að sök hvað lokaafurð snertir.

Fullvinnsla æðardúns mikilvæg
Íslenskur æðardúnn er aðallega notaður sem fylling í æðardúnsængur. Fullframleiðsla fer að mestu fram erlendis þar sem dúnninn er aðallega seldur sem hráefni frá landinu. Það er ekki að ástæðulausu sem verð hefur hækkað síðustu ár. Atvinnuvegaráðuneytið hefur uppfært gæðavottorðin, sem nú eru númeruð og með íslenska skjaldarmerkinu á. Ráðuneytið í samstarfi við Æðarræktarfélag Íslands, Félag atvinnurekenda og Bændasamtökin leita stöðugt leiða til að betrumbæta vottunarkerfið. Útflutningsaðilar hafa unnið ötult markaðsstarf eins og sölutölur sýna glögglega, auk þess sem  Æðarræktarfélag Íslands hefurútbúið almennt kynningaefni um íslenskan æðardún á fjórum tungumálum, íslensku, ensku, þýsku og japönsku. Um er að ræða kynningarmynd, bækling auk þess sem þessi vefsíða er í þróun. Það er skemmtilegt safn rekið á Reykhólum í A-Barðarstrandasýslu auk þess sem verið er að byggja húsnæði í Stykkishólmi sem mun verða framtíðarheimili Æðarseturs Íslands. Síðast en ekki síst er aukning á útflutningi þvegins æðardúns, en áður fyrr var eingöngu fluttur út hreinsaður æðardúnn. Hreinsunin fer fram án kemískra efna, en mestallur dúnn er þveginn erlendis áður en hann fer í sængurnar og því ánægjulegt að ná þeim viðskiptum hingað heim. Íslendingar geta gert betur og sótt á markaði með fullunnar vörur og kynnt æðarfuglinn fyrir Íslendingum og ferðamönnum. Með sölu á fullunnum afurðum er hægt að margfalda verðmætin.

Umhirða æðarvarpa skilar árangri.
Samvinna æðarfuglsins og mannsins líkist vinasambandi og endurspeglar náttúruna í sinni fallegustu mynd.  Æðarbændur undirbúa varpsvæði

á vorin í þeirri von að æðarfuglinn velji landið þeirra. Margir æðarbændur vaka yfir varpinu og veita vernd gegn rándýrum og ránfuglum. Þeir fá vinnuna ríkulega launaða með æðardúni sem losnar af bringum æðarkolla og þær umlykja hreiður sín með. Æðardúnninn er svo aftur hreinsaður fyrir sölu og er mikilvægur tekjustofn æðarbænda.

IMG_9524

Sólveig Bessa Magnúsdóttir og Björgvin Sveinsson á Innri-Hjarðardal í Öndundarfirði eru með æðarvarp rétt við bæjarstæðið. “Veðrið hefur verið milt og þurrt eftir að fuglinn settist upp. Hann hefur aðeins seinkað sér í varp eftir hrakfarir síðustu ára en það hefur fennt yfir varpið síðustu ár, svo rétt hausinn á kollunni hefur staðið upp úr snævi þaktri jörðinni”, segir Sólveig Bessa Magnúsdóttir. “Ég ákvað að gefa fuglinum sem mestan frið í ár fyrst viðraði svona vel og fór ekki í fyrstu dúntínslu fyrr en um Hvítasunnuhelgina. Þá var komið töluvert af ungum og æðar-kollur byrjaðar að leiða út”, segir Sólveig Bessa ennfrekar. Töluverð aukning hefur orðið á fugli síðustu ár hjá þeim hjónum enda hugsa þau vel um æðarfuglinn. Sólveig Bessa segist sannfærð um að vöktunin skili þessari fjölgun. Margir aðrir æðarbændur hafa tjáð sig um fjölgun hreiðra á samfélagsmiðlum um þessar mundir, svo líkur eru á góðu dúnári. Mun salan ná 650 milljónum árið 2014? Það verður gaman að sjá.

Þessi frétt var birt í Bændablaðinu 19. júní 2014.
Sjá nánar: http://www.bbl.is/files/pdf/bbl-12.-tbl.-2014-web.pdf