Aðalfundur ÆÍ 2020 – Frestun
Ágæti félagsmaður.
Í ljósi hertra sóttvarnarreglna ákvað stjórn Æðarræktarfélags Íslands að fresta fyrirhuguðum aðalfundi félagsins. Boðað verður til aðalfundar um leið og reglur veita nægjanlegt svigrúm til fundarhalds. Stjórnin hefur ótrauð haldið áfram að vinna að þeim verkefnum sem ákveðið var að setja í forgang á síðasta vinnufundi hennar, en félagsmenn fengu ítarlegt yfirlit yfir þau verkefni í bréfi í júni sl.
Það ber helst til tíðinda að Æðarræktarfélagið er komið í samstarf við Íslandsstofu um markaðssetningu á æðardúni og telur stjórn þetta samstarf þýðingarmikið til að leita leiða til að vekja athygli á þessari einstöku afurð og til að tryggja stöðugleika á markaði. Íslandsstofa undibýr vinnufundi m.a. með seljendum og útflutningsaðilum æðardúns sem og formönnum deilda ÆÍ. Þau verkefni sem stjórn hefur verið að vinna að eru mikilvæg fyrir þetta samstarf. Hér er fyrst og fremst um að ræða gagnvirka kortagrunninn sem er að komast í gagnið. Einnig umsóknin um verndað afurðaheiti en hafið er lokaátak við að koma henni til afgreiðslu. Þá er í gangi vinna við endurskoðun á vottunarkerfi æðardúns í samráði við Atvinnuvegaráðuneytið, Staðlaráð Íslands og Icert. Þá má að lokum nefna uppfærslu á heimasíðu og kynningarefni félagsins í samræmi við ábendingar Íslandsstofu.
Vinsamlegast sendið fyrirspurnir á info@icelandeider.is eða hafið samband í síma 8670765.
Stjórn Æðarræktarfélags Íslands