Aðalfundir ÆÍ 2020 og 2021
Ágæti félagsmaður.
Laugardaginn 6. nóvember n.k. verður haldinn aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands fyrir árin 2020 og 2021 og verður dagskrá ásamt fundarboði send út síðar.
Þar sem aðalfundi fyrir 2020 var frestað verður fyrirkomulag þannig að haldnir verða aðalfundir fyrir árin 2020 og 2021. Á fundinum verða, auk kosninga til formanns og tveggja stjórnarmanna og varamanns, afgreidd brýnustu mál. Skýrsla stjórnar verður kynnt. Ársreikningar verða lagðir fram til kynningar og samþykktar. Þá verður að lokinni kynningu og umræðu gengið til kosninga um sameiningu Æðarræktarfélagsins við Bændasamtök Íslands en á Búnaðarþingi í júní s.l. voru samþykktar breytingar á félagskerfi samtakanna.
Það er ljóst að hvor leiðin sem aðalfundur ÆÍ velur, þ.e. að sameinast Bændasamtökunum sem búgreinadeild æðarræktar eða að standa utan þeirra sem sjálfstætt félag, mun hafa talsverðar breytingar í för með sér fyrir félagið. Æðarræktarfélagið sem slíkt hefur frá stofnun þess verið aðili að Bændasamtökunum. Í megindráttum felur sameining við Bændasamtökin í sér að Æðarræktarfélag Íslands sem slíkt verður lagt niður og í stað verður stofnuð búgreinadeild æðarræktar innan Bændasamtakanna. Æðarbændur skrá sig þá sem félagsmenn í Bændasamtökin og greiða félagsgjöld þangað beint. Það skal tekið fram að ef að sameiningu verður þá mun Æðarræktarfélagið halda núverandi sjóðum sínum sérgreindum á kenntiölu félagsins (eins konar skúffufélag) og renna þeir ekki til Bændasamtakanna. Ef aðalfundur ÆÍ velur að standa utan Bændasamtakanna þarf að gera tilteknar breytingar á samþykktum félagsins. Það verður því að líkindum hlutverk framhaldsaðalfundar að leggja fram nauðsynlegar breytingar á samþykktum félagsins í ljósi niðurstöðu kosninganna hvor leiðin sem valin verður.
Frekari upplýsingar verða sendar síðar og jafnframt geta félagsmenn beint fyrirspurnum til stjórnar á netfang info@icelandeider.is
Á aðalfundinum (2020 og 2021) hafa þeir atkvæðisrétt sem greitt hafa félagsgjöldin.
Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér samþykktir BÍ og áherslur Bændasamtaka Íslands.
- Um hlutverk Bændasamtakanna sjá. https://www.bondi.is/um-bi/hlutverk/
- Samþykktir BÍ er að finna á slóðinni https://www.bondi.is/um-bi/samthykktir/
- Upplýsingar um félagsgjöld og aðild að BÍ sjá https://www.bondi.is/um-bi/felagsgjold/ Á þessari síðu er jafnframt að finna netfang/símanúmer hjá BÍ fyrir þá sem óska eftir upplýsingum um aðild að samtökunum.
Með kveðju,
Stjórn Æðarræktarfélags Íslands