Í sátt við náttúruna

Íslenskur æðardúnn er verðmæt og fágæt náttúruafurð. Hann er eftirsótt fylling í dúnvörur fyrir þá kröfuhörðustu vegna einstakra eiginleika sinna; mýktar, léttleika og mikils einangrunargildis.

Æðarrækt á Íslandi

Íslenski æðarfuglinn er staðfugl og lifir á sjónum umhverfis landið. Kvenfuglinn nefnist æðarkolla en karlfuglinn bliki.

Æðarrækt og vinnsla æðardúns er byggð á aldagömlum hefðum sem hafa byggst upp kynslóð fram af kynslóð. Íslenski æðarfuglinn og æðarbændur hafa þróað einstakt samband sín á milli byggt á vináttu og gagnkvæmu trausti. Villtur æðarfuglinn hefur lært að bændur veita honum vernd fyrir rándýrum en margir þeirra standa vakt um æðarvarpið allan sólarhringinn á varptíma. Á vorin er búið í haginn fyrir komu æðarfuglsins með því að hreinsa varpsvæðið og girða það af þar sem því er við komið. Vinsælt er að nota útvarp og litríka hluti sem laða fuglinn að.

Þegar álega hefst losnar dúnninn af bringu æðarkollunnar. Hún hylur eggin með dúninum til einangrunar og verndar. Þegar æðardúnninn hefur gegnt hlutverki sínu safnar æðarbóndinn dúninum úr hreiðrunum. Sé það ekki gert fer æðardúnninn forgörðum. Þegar ungarnir eru skriðnir úr eggjunum fer æðarkollan með þá út á sjó þar sem hún elur þá upp. Ungarnir hefja varp tveimur til þremur árum síðar og leita þá gjarnan á æskuslóðir.

Einstök náttúruafurð

Æðardúnn er náttúrulegt undraefni sem á sér enga hliðstæðu. Eiginleikar æðardúns  eru einstakir því hann er þakinn örfínum og vart sjáanlegum mjúkum, króklaga þráðum sem valda samloðun hans. Hann er loftmikill sem veldur undraverðum léttleika, háu einangrunargildi og góðri öndun.

Íslenskir æðarbændur leggja mikinn metnað í framleiðslu æðardúnvara. Til að mæta þörfum kaupenda eru í boði sérsaumaðar æðardúnsængur í mörgum stærðum og gerðum með mismikilli fyllingu, jafnt fyrir ungabörn sem fullorðna. Ýmsar vörur eru framleiddar, s.s. kerrupokar og fatnaður með 100% íslenskum æðardúni. Auk þess eru til fjölbreytilegir minjagripir sem tengjast æðarfugli og æðardúni.

Árlega falla til um 3.000 kg af hreinsuðum íslenskum æðardúni. Hvert kíló samanstendur af dúni úr 60-80 hreiðrum. Framboð æðardúns er háð náttúrulegum skilyrðum ár hvert.

Hreinsun æðardúns

Hreinsun á æðardúni krefst mikillar nákvæmni og vandvirkni. Fyrst er æðardúnninn þurrkaður og grófhreinsaður í höndum. Þá er hann hitaður í 120°C og því næst fínhreinsaður og fjaðratíndur í sérhönnuðum íslenskum vélum. Að lokum er dúnninn yfirfarinn í höndum og síðustu fjaðrirnar fjarlægðar.

Hér lýkur hreinsun æðardúns án kemískra hreinsiefna. Margir æðarbændur bjóða að auki dúnþvott en þá er æðardúnninn meðhöndlaður með sérvöldum hreinsiefnum.

Vélhreinsun æðardúns byggir á hugmyndaog aðferðafræði forfeðra okkar. Listin að hreinsa dún krefst mikillar nákvæmni og þekkingar. Með vélvæðingunni hefur tekist að auka gæði æðardúnsins og bæta nýtingu hans.

Gæðavottun

Gæðavottun löggiltra dúnmatsmanna tryggir kaupendum íslensks æðardúns hágæðavöru. Við vottun er hreinleiki hans, lykt, litur og samloðun metin og þyngd staðfest. Vottorð er fyllt út, stimplað og innsiglað við vöruna til staðfestingar á þyngd og gæðamati. Samkvæmt lögum má eingöngu selja íslenskan æðardún sem staðist hefur gæðamat.

Æður og maður

Saga dúntekju er nátengd sögu þjóðarinnar en æðar-fuglinn hefur lifað með Íslendingum síðan land byggðist á ofanverðri níundu öld. Árið 1847 var æðarfuglinn alfriðaður á Íslandi og hefur verið allar götur síðan. Ríkar hefðir tengjast nýtingu æðardúns og allri menningu sem tengist búgreininni. Settar hafa verið upp fræðslusýningar um æðarfuglinn og rannsóknir gerðar á atferli hans.