Á Hrauni á Skaga hefur borið á því s.l. 2 ár að skyndilegur fugladauði í æðarvarpinu á jörðinni hefur komið upp. Rannsóknir sýna að um fulglakóleru er að ræða en ekki fuglaflensu.

Greinin í bændablaðinu 2018

 


Stjórn Æí hefur í samráði við sérfræðinga tekið saman leiðbeiningar um forvarnir og viðbrögð æðarbænda þegar grunur vaknar um fuglakóleru eða annan smitsjúkdóm í æðarfugli. Það er fyrst og fremst óvenjulegur fugladauði sem gefur slíkt til kynna.

Forvarnir gegn og viðbrögð við fuglakóleru og öðrum smitsjúkdómum í æðarfugli

Leiðbeiningar til æðarbænda

Fuglakólera er smitsjúkdómur í fuglum, bæði villtum fuglum og alifuglum. Smitið berst ekki í fólk en það getur aftur á móti dreift smitinu ef ekki er gætt ítrustu varúðar. Fuglakólera hefur svo vitað  sé einungis greinst í æðarfugli á einni jörð á landinu en það var á Norðurlandi árin 2018 og 2019. Æðarræktarfélag Íslands hefur í samráði við Brigitte Brugger, sérgreinadýralækni hjá Matvælastofnun og Jón Einar Jónsson, forstöðumann Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, tekið saman stuttar leiðbeiningar til æðarbænda um forvarnir gegn og viðbrögð við fuglakóleru. Matvælastofnun fer með yfirstjórn á aðgerðum og viðbrögðum þegar grunur vaknar um fuglakóleru eða annan smitsjúkdóm í æðarvarpi.

Markmið með þessum leiðbeiningum eru eftirfarandi:

 1. Æðarbændur og aðrir þekki til forvarna gegn fuglakóleru og öðrum smitsjúkdómum í æðarfugli og hvernig bregðast skuli við þegar slíkir sjúkdómar koma upp.
 2. Æðarbændur geri sér grein fyrir að fuglakólera og aðrir smitsjúkdómar geti komið upp á nýjum varpstöðvum.
 3. Æðarbændur þekki einkenni fuglakóleru og þekki til smitvarna og hvernig skuli forðast að bera smit með dauðum hlutum (fomites)
 4. Æðarbændur viti hverja á að hafa samband við þegar grunur vaknar um smitsjúkdóm í æðarvarpi

Leiðbeiningar

Forvarnir

 • Forvarnir gegn smitsjúkdómum felast fyrst og fremst í að gæta fyllsta hreinlætis í umgengni við æðarfuglinn.
 • Tryggja skal að óhreinindi berist ekki mill æðarvarps og búfénaðar þeim báðum til varnar. Því er aðgæsla brýn þegar æðarbændur umgangast jafnframt annað búfé sér í lagi alifugla.
 • Gæta þarf handþvottar og notkun hanska.
 • Varúðarráðstafanir geta m.a. falist í að nota sérstaka galla / föt, stígvél og einnota hanska. Jafnframt að nota sérstaka poka, áhöld og tæki í æðarvarpinu.  Að öðrum kosti getur  þvottur og sótthreinsun á fötum og búnaði tryggt hreinlæti .
 • Þörf er sérstakrar aðgæslu þegar um er að ræða gestkomandi í varpi,  bæði innlenda og erlenda gesti eða  farandverkafólk og við heimsóknir á milli æðarvarpa, ekki síst frá varplandi þar sem sýking hefur komið upp.
 • Veiðimenn sem sinna vargeyðingu og fara á milli varpa verða að sýna sérstaka aðgæslu.
 • Aðilar sem taka að sér hreinsun dúns þurfa að gæta sérstaklega að því að sótthreinsa poka eða senda ekki poka á milli æðarvarpa.

Viðbrögð þegar grunur vaknar um fuglakóleru eða annan smitsjúkdóm í æðarfugli

 • Þegar æðarbóndi verður var við óvenjulega mikil afföll fugla í varpi skal hann safna saman hræjum og geyma tryggilega. Tryggja þarf að smit berist ekki í aðra fugla.
 • Safna skal fuglshræjum beint í sterka eða tvöfalda plastpoka með því að taka þau upp á hausnum svo ekki leki vökvi úr goggnum. Þetta er mikilvægt til að forða því að smit dreifist.  Merkja skal pokana með með nafni finnanda, fundarstað og dagsetningu. Æskilegt er að nota öryggisbúnað svo sem hanska.
 • Tafarlaust skal hafa samband við héraðsdýralækni, fulltrúa hans eða Matvælastofnun. Sjá upplýsingar um símanúmer https://www.mast.is/is/um-mast/starfsemi/skrifstofur-umdaemi
 • Matvælastofnun fer með yfirstjórn á viðbrögðum og aðgerðum í samræmi við viðbragðsáætlun stofnunarinnar og ráðleggingar taka mið af aðstæðum í hverju tilviki.