Reglur varðandi notkun friðlýsingarskilta

  1. Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hefur látið útbúa skilti sem heimilt er að nota til að auðkenna friðlýst æðarvörp í samræmi við reglugerð nr. 252/1996 um friðlýsingu æðavarps o.fl., sbr. lög nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í reglugerðinni segir að friðlýst æðarvörp skuli auðkenna með áberandi hætti, þar sem því verður við komið. Í óbyggðum eyjum og hólmum á þetta ekki við.
  2. Félagar í ÆÍ, sem jafnframt eru forráðamenn friðlýstra æðarvarpa, geta fengið gegn greiðslu eitt eða fleiri skilti til að merkja vörp sín og er heiti jarðarinnar, þar sem hið friðlýsta varp er staðsett, skráð á skiltið. Stjórn ÆÍ staðfestir að um friðlýst æðarvarp sé að ræða skv. auglýsingu sýslumanns. Heimilt er að nota skiltin á meðan friðlýsing er í gildi.
  3. Friðlýsing æðarvarps gildir á tímabilinu frá 15. apríl til og með 14. júlí ár hvert. Friðlýsingin felur það í sér að öll skot eru bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km, nema brýna nauðsyn beri til. Á sama tíma má eigi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli. Jafnframt felur friðlýsingin í sér að innan friðlýstra svæða er öll óviðkomandi umferð og röskun bönnuð, svo og óþarfa hávaði af völdum manna og véla, nema með leyfi varpeiganda. Friðlýsingu þarf að endurnýja á 10 ára fresti.
  4. Umsókn um skilti er hægt að fylla út hér!