50. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2019

Fundargerð aðalfundar ÆÍ, 31. ágúst 2019 í Kötlu 2, Bændahöllinni

Aðalfundarstörf:

Fundarsetning

Guðrún Gauksdóttir, formaður ÆÍ, flutti í upphafi fundar ávarp í tilefni af 50 ára afmæli félagsins. Hún rifjaði upp hverjir komu að stofnun félagsins fyrir 50 árum og voru á fyrsta fundinum þann 29. nóvmber 1969 en það voru þeir Gísli Kristjánsson sem var ritsjóri Freys, Sæmundur Stefánsson í Hrísey, Helgi þórarinsson í Æðey, Gísli Vagnsson, Mýrum og Jón Þorbergsson á Laxamýri. 30 félagar mættu á fyrsta fundinn en á fundinum hér í dag eru tveir félagar sem voru á þessum fundi. Það er Úlla Knudsen, ekkja Sæmundar Stefánssonar og móðir Sæmundar núverandi gjaldkera ÆÍ og Ingibjörg Eyþórsdóttir móðir Guðrúnar formanns ÆÍ.

Gísli Kristjánsson var fyrsti formaður ÆÍ, síðan var það Sæmundur Stefánsson, þá Ólafur E. Ólafsson frá Króksfjarðarnesi, Sigurlaug Bjarnadóttir frá Vigur, Davíð Gíslason Mýrum, og síðast Jónas Helgason Æðey á undan Guðrúnu Gauksdóttur, núverandi formanni.

Heiðursfélagar í gegnum árin hafa verið kjörnir Baldur Jónsson sá fyrsti, en hann var uppfinningamaður  og frumkvöðull að smíði dúnhreinsivélar, síðan formennirnir Gísli, Ólafur, Sigurlaug og Sæmundur. Starf ráðunauta hefur verið félaginu mjög mikilvægt og árið 1999 var Árni G. Pétusson, ráðunautur um 15 ára skeið, kosinn heiðursfélagi. Í dag á 50 ára afmælinu verða þeir Davíð Gíslason fyrrverandi formaður og Árni Snæbjörnsson,  hlunnindaráðunautur í 23 ár eða allt til ársins 2008, heiðraðir.

Guðrún gerði sveiflur í sölu á æðardúni að umtalsefni og talaði um að unnið verði að því hörðum höndum að útrýma þessum sveiflum. Hugsanlega lagast það við meiri fullframleiðslu á vörum úr æðardúni í landinu.

Guðrún minntist Eiríks Snæbjörnssonar bónda á Stað í Reykhólahreppi sem lést sl. vor en hann var um árabil í varastjórn ÆÍ og sat oft fundi búnaðarþings fyrir hönd félagsins.

Guðrún setti því næst aðalfundinn og tilnefndi fundarstjóra og fundarritara. Sólveig Bessa Magnúsdóttir tók að sér fundarstjórn og Sigríður Magnúsdóttir, ritari ÆÍ, var fundarritari.

Skýrsla formanns

Guðrún Gauksdóttir, formaður, flutti skýrslu stjórnar og fór yfir aðstæður æðarvarps á landinu í sumar. Veðurfar var með afbrigðum hagstætt dúntekju á sunnan- og vestanverðu landinu. En almennt kom fuglinn seinna í varp, sérstaklega norðan og austanlands og sums staðar mjög seint eða ekki.

Stjórnin fundaði nokkrum sinnum á Skype sl. vetur, en einnig var vinnufundur í Reykjavík 30. mars sl. Megináhersla hefur verið á skráningu varpjarða og undirbúning fyrir kortagrunn, umsókn um verndað afurðaheiti, eflingu deilda (búið að stofna suðvesturdeild) og samstarf til undirbúnings æðarræktar-sýningar, sem kynnt var á síðasta fundi. Margrét mun gera grein fyrir stöðunni í þessum verkefnum hér á eftir. Erla fer yfir sölu- og markaðsmál en nú er tímabíl sölutregðu. Vargnefndin er að störfum og verður kynnt áfangaskýrsla hér á eftir. Það eru mörg brýn verkefni sem bíða, t.d. endurskoðun dúnmatskerfis.

Námskeið fyrir dúnmatsmenn og almennt námskeið um æðarrækt verður haldið hjá endurmenntun LBHÍ í vor. Það er ýmislegt sem þarf að huga að eins og æðarfugl á válista, áhrif loftlagsbreytinga, ganga loðnu og áhrif á búsvæði æðarfugls og fjármögnun félagsstarfsins svo eitthvað sé nefnt.

Reikningar

Sæmundur Sæmundsson, gjaldkeri, fór yfir ársreikninginn og gerði grein fyrir því að eftir að búnaðarfélagsgjaldið rennur ekki lengur til félagsins, er það erfiður róður að fyrir félagið að standa undir eigin rekstri án þess að ganga á sjóði félagsins. Hann stakk upp á því að árgjaldið yrði hækkað upp í 7000 kr. af þessu tilefni og var það samþykkt. Ársreikningurinn var einnig samþykktur.

Skráning æðarvarpa; Verndað afurðaheiti; Sýning um æðarfugl og æðarrækt

Margrét Rögnvaldsdóttir, stjórnarmaður, sagði frá átaki við skráningu æðarvarpa á landsvísu en þau voru samtals 376 á árinu 2018. Unnið verður að því að merkja þessa staði inn á kort af Íslandi og hafa aðgengilegt á heimasíðu félagsins. Á slíku korti mætti t.d. sjá hvar á landinu æðarvörpin eru staðsett og einnig hver þeirra eru friðlýst. Í öðru lagi gerði hún grein fyrir því að verið er að vinna að umsókn um verndað afurðaheiti fyrir íslenska æðardúninn. Það gerir dúninn verðmeiri og það er ljóst að viðskiptavinurinn treystir betur vöru sem hefur verið vottuð. Margrét hvatti eindregið til þess að allar æðardúnsængur væru framleiddar hér á landi. Hún benti líka á að skynsamlegt væri að hafa á heimasíðu ÆÍ ekki bara lista yfir þá sem selja æðardún úr landi, heldur einnig þá sem eru að selja fullunna vöru. Einnig væri hægt að hafa upplýsingar um þá aðila sem hreinsa t.d. æðardúnssængur hér á landi. Í þriðja lagi kynnti Margrét framgang verkefnisins sýning um æðarfugl og æðarrækt, Tilraun II – Æðardúnn, sem farið er af stað. Það verður athyglisvert að sjá hvernig listamennirnir sem koma að þessu verkefni frá LHÍ, sjá þetta fyrir sér. Tveir þeirra fóru sl. vor í heimsókn í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði til Sólveigar Bessu Magnúsdóttur æðarbónda þar til að kynna sér varpið.

Skýrsla varghóps

Skýrsla frá Óðni Loga Þórissyni, formanni hópsins, var lesin upp á fundinum þar sem Óðinn átti ekki heimangengt. Þar segir m.a. að rætt hafi verið við um 20 sveitarfélög víðsvegar um landið og fengust um 40 samningar sem hafa verið gerðir við grenjaskyttur. Í ljós kom við lestur samninganna að mismunandi er hvað sveitafélögin greiða fyrir hvert unnið dýr en sammerkt er með þeim öllum að kjör veiðimanna eru ekki í samræmi við þann kostnað og vinnu sem þeir leggja til verksins. Þetta leiðir til þess að vanir veiðimenn með mikla reynslu gefast upp og nýliðun er lítil. Það skal þó taka fram að sveitafélög standa sig misvel á þessu sviði. Ennfremur kemur fram að sameiginlegt með öllum varg er að þær eru ágengar tegundir sem skerða líffræðilega fjölbreyttni. Vargeyðsla er því fyrst og fremst umhverfismál. Að endingu segir Óðinn að fyrirhugað sé að endurskoða veiðilöggjöfina og ætlar hóðurinn að reyna að fá áheyrnarfulltrúa við það borð. Hann sendir að lokum afmælisóskir í tilefni 50 ára afmælis ÆÍ.

Skýrsla formanns og rekstrarreikningur voru borin undir atkvæði fundarins og samþykkt.

Ávarp

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands (BÍ) flutti ávarp frá samtökunum.

Sigurður byrjaði á því að færa fundinum kveðjur stjórnar og starfsfólks Bændasamtaka Íslands og þakkaði fyrir að fá að ávarpa fundinn. Formaður samtakanna, Guðrún Sigríður Tryggvadóttir í Svartárkoti, bað fyrir sérstakar kveðjur en hún var stödd í göngum í sínu heimahéraði og gat því ekki verið með á fundinum.

Sigurður rakti sögu félagsins, aðdraganda og formlega stofnun ÆÍ 1969, en árið 1917 skrifaði séra Sigurður Stefánsson í Vigur merka grein um æðarræktina í Búnaðarritið sem fór víða og fleiri dæmi má finna frá fyrri hluta 20. aldarinnar. Það var þó ekki fyrr en 1947 sem fyrsti ráðunauturinn í æðarrækt var ráðinn til Búnaðarfélags Íslands, en það var Ólafur Sigurðsson á Hellulandi í Skagafirði. Fyrstu árin var ráðgjöf hans einkum fólgin í að heimsækja bændur, leiðbeina um dúnhreinsun og útvega tæki til hennar.  Hlé varð þó á þessari vinnu um miðjan sjötta áratuginn þar sem fjármuni þraut.

Þetta breyttist síðan aftur við stofnun æðarræktarfélagsins fyrir 50 árum. Stofnun félagsins var í miklu og góðu samstarfi við Búnaðarfélag Íslands og strax í kjölfar stofnunarinnar var Árna G. Péturssyni heitnum, þá sauðfjárræktarráðunaut falið að annast málefni æðarræktarinnar. Það gerði hann allt til starfsloka árið 1985 þegar Árni Snæbjörnsson tók við þeim og sinnti þeim til 2008. Ýmsar breytingar hafa síðan orðið en núna er verkefnið á borði Sigríðar Ólafsdóttur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML).  Æðarræktarfélagið og heildarsamtök bænda hafa því alla tíð unnið vel saman og ég vona að svo verði áfram. Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvað þeir fái fyrir það að vera í BÍ ekki síst í félagi eins og Æðarræktarfélaginu. Bændasamtökin vinna að hagsmunum allra bænda og eru málsvari stéttarinnar. Aðild eflir kynningar- og ímyndarmál landbúnaðarins. Félagsmenn njóta ráðgjafar um réttindi og um málefni sem snerta alla bændur. Eiinig koma BÍ fram fyrir hönd bænda gagnvart ríkisvaldinu og gera samninga fyrir bændur. Félagsmenn njóta 30% afsláttar af flestum forritum BÍ og fá sérkjör á gistingu á Hótel Sögu. Félagsmenn geta leigt orlofsíbúð á höfuðborgarsvæðinu og sem félagsmaður er hægt að sækja um stuðning í starfsmenntasjóð og nýjan velferðarsjóð.

En meginatriðið er og verður að samtakamáttur heildarinnar er mikill og verður meiri eftir því sem fleiri taka þátt, sagði Sigurður. Slagkraftur fjöldans skiptir öllu máli. Sameinaðir stöndum vér sundraðir föllum vér eins og ávallt. Ég hvet alla til að vera félagar í BÍ en að sjálfsögðu er það val hvers og eins eins og áður hefur komið fram.

Sigurður kom einnig inn á fleiri þætti sem snerta starfsemi BÍ en einnig alla landsmenn eins og loftslagsmál, fæðuöryggi og lýðheilsa. Hann sagði að í ljósi þeirrar stöðu sem landbúnaðurinn er í um þessar mundir er mikilvægara en nokkru sinni að við snúum bökum saman, allir íslenskir bændur, burtséð frá búgreinum, landshlutum, stjórnmálaskoðunum eða öðru því sem kann að greina okkur að. Að lokum óskaði hann fundinum velfarnaðar í störfum.

Fræðsluerindi

Eyrún Gyða Gunnlaugsdóttir sagði frá BS rannsókn sem hún gerði á Hvanneyri á breytileika á varptíma æðarfugla innan Íslands. Í ágripi að verkefninu segir m.a. Það færist í aukana að breytingar á varptíma og stofnstærðabreytingar fugla og dýra séu tengdar við loftslagsbreytingar. Því er mikilvægt að fylgjast með þeim breytingum og skrásetja þær upplýsingar. Varptími æðarfugla getur gefið ýmsar vísbendingar um afkomu þeirra. Þegar æðarkollur eru ekki í nógu góðu næringarástandi verpa þær seint eða ekki, þær verpa jafnvel fyrr ef fituforði þeirra er sérlega góður. Því getur varptími þeirra stjórnast af ástandi fæðustofna á vetrarstöðvum en hann getur einnig stjórnast af öðrum lífrænum og ólífrænum þáttum eins og veðurfari, stærð æðarvarps og afræningjum, sem nánar verður fjallað um í þessu riti. Hér er varptími æðarfugla kortlagður yfir landið í heild, en þetta er í fyrsta skiptið sem slíkar upplýsingar eru teknar saman yfir allt landið. Leitast var við að sjá hvort munur væri á varptíma æðarfugla á milli landshluta og hvort breytileiki á varptíma væri til staðar innan landshluta. BS verkefni Eyrúnar er aðgengilegt á skemman.is á vef Háskóla Íslands. Hér er slóðin: https://skemman.is/bitstream/1946/33478/1/BS_Breytileiki_i_varptima_aedarfugla_Eyrun_Gyda.pdf

Markaðsmál

Erla Friðriksdóttir í Stykkishólmi, varaformaður ÆÍ, gerði því næst grein fyrir sölu- og markaðsmálum. Frá 2008 til dagsins í dag hefur salan verið í kringum 3 tonn árlega, en eftir 2017 hefur heldur hallað undan fæti og árið 2018 var útflutningur um 2 tonn. Tæp 800 kg eru farin út á þessu ári 2019. Verð á dún hefur sveiflast nokkuð. Árið 2008 var kílóverðið 107 þúsund krónur, það lækkaði aðeins 2009 en hefur svo stigvaxið til 2016 en þá var það hæst 205 þúsund krónur á kíló. Síðan þá hefur verðið lækkað og salan úr landi minnkað. Útflutningsverðmæti æðardúnsins er í samræmi við þessar tölur sem hér eru skráðar. Stærstu kaupendur æðardúns eru í Japan og Þýskalandi, en æðardúnn hefur einnig verið seldur til Danmerkur, Noregs, Sviss, Kína og Tævan en í miklu minna magni en til Þýskalands og sérstaklega Japan sem er langstærsti kaupandinn. Í fyrra fór í fyrsta skipti æðardúnn til Póllands. Síðan gerði Erla grein fyrir fjölda kílóa seldu til útlanda á þessu ári og verði á hverju kílói skv. tölum frá Hagstofunni. Allir útflutningsaðilar á æðardúni á landinu eru með birgðir frá í fyrra, segir Erla. Fyrirspurn úr sal kom um það hvort þessar tölur ættu bæði við um hreinan dún og unna vöru eins og sængur. En Erla svaraði þvi að þessar tölur miðuðust við útflutning á æðardún en ekki á unninni vöru. Glærur Erlu

Tillögur að ályktunum fundarins

Fjórar ályktanir voru bornar upp og allar samþykktar. Þær eru:

  1. Árgjald. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands árið 2019 ályktar að árgjald fyrir árið 2020 verði kr. 7.000.
  2. Styrkir til deilda. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2019 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrki vegna tilgreindra, rökstuddra verkefna, s.s. vargeyðingar. Styrkir verða einungis greiddir gegn afriti af reikningum.
  3. Sjókvíaeldi og æðarfugl. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2019 ítrekar fyrri ályktanir sínar um að brýn nauðsyn sé á því að rannsaka og vakta áhrif sjókvíaeldisstöðva og stækkunar þeirra á lífríki sjávar og þar með beina og óbeina hættu fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls.
  4. Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2019 ítrekar ályktun sína frá aðalfundum 2017 og 2018 að í breytingum á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og lögum nr. 74/2012 um veiðigjald, sem varða öflun sjávargróðurs, felist ólögmæt skerðing á eignarrétti eigenda jarða sem liggja að sjó og þessi hlunnindi tilheyra, þ. á m. æðarbænda. Stjórn ÆÍ er falið að vinna að lausn málsins ásamt þeim æðarbændum sem málið varðar. Stjórn ÆÍ er falið að leita eftir upplýsingum um það hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum öflunar sjávargróðurs á vistkerfi æðafugls fyrir og eftir að lögin tóku gildi og jafnframt hvernig ráðstöfun auðlindagjalds fyrir auðlindina er háttað.

Kosningar

Kjósa þarf bæði í aðalstjórn og varastjórn, tvo stjórnarmenn, varamann, og skoðunarmann reikninga. Erla Friðriksdóttir varaformaður og Sæmundur Sæmundsson gjaldkeri ganga út. Erla gaf kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, en Sæmundur gaf ekki kost á sér áfram. Páll Þórhallsson var kosinn inn í aðalstjórn en hann var varamaður. Magnús Helgi Jónasson var kosinn áfram til þriggja ára í varastjórn og nýr í varastjórn með honum er Pálmi Benediktsson. Skoðunarmenn reikninga verða áfram þeir Pétur Guðmundsson og Ásgeir Gunnar Jónsson. Engin ný framboð komu fram á fundinum.

Önnur mál

Steinn Rögnvaldsson, bóndi á Hrauni á Skaga, kvaddi sér hljóðs og sagði frá dauða hátt í eitt þúsund æðarkolla í sumar og fyrrasumar. Tekin voru sýni úr dauðum fuglum og einnig úr jarðvegi og vatni á staðnum þar sem fuglarnir drápust. Sýnin úr fuglunum hafa verið rannsökuð og niðurstaðan sú að sennilega sé þetta fuglakólera, en sýni úr vatni og jarðvegi hafa ekki verið rannsökuð. Ástæðan er hugsanlega sú að æðarrækt er ekki hefðbundin búgrein og þar af leiðandi ekki til nein viðbragðsáætlun við svona miklum fugladauða eins og þarna varð, álítur Steinn.

Davíð Gíslason benti mönnum á að skoða upplýsingar um fuglakóleru á netinu en þar segir m.a. að smit sé í driti fuglanna og að ráðlegt sé að snerta ekki dauða fugla. Lesa má frétt í Bændablaðinu frá 2018 um þetta á eftirfarandi krækju: https://www.bbl.is/frettir/frettir/fuglakolera-drepur-aedarkollur-og-villta-fugla/20149/

Sæmundur Sæmundsson, fyrrverandi gjaldkeri, stóð upp og þakkaði fyrir samstarfið en hann lætur af störfum sem stjórnarmaður í stjórn ÆÍ.

Fundarslit

Formaðurinn, Guðrún Gauksdóttir, þakkaði æðarbændum fyrir velsóttan fund (85 manns) og bauð nýja stjórn og varamenn velkomna til starfa. Hún benti á mikilvægi þess að í stjórn sitji fólk frá sem flestum landsvæðum eins og nú er raunin. Guðrún þakkaði einnig Sigurði Eyþórssyni framkvæmdastjóra BÍ fyrir ávarp hans og sagði BÍ mikilvægan bakhjarl ÆÍ og tók undir orð Sigurðar um samtakamátt fjöldans. Hún þakkaði Eyrúnu Gyðu Gunnlaugsdóttur fyrir hennar erindi og kvað ÆÍ alla tíð hafa lagt áherslu á fræðslu til félagsmanna og að samstarf við vísindamenn væri æðarbændum þýðingarmikið. Guðrún þakkaði einnig Margréti Rögnvaldsdóttur í stjórn ÆÍ fyrir skráningu á vörpum og öflun nýrra félaga. Guðrún sagði að stjórn myndi bregðast hratt við erindi Steins Rögnvaldssonar, bónda á Hrauni á Skaga vegna alvarlegrar fuglakóleru sem hann sagði frá undir liðnum Önnur mál. Hátt í þúsund æðarkollur drápust af þessum sökum í sumar og í fyrrasumar á bænum. Ákveðið að Sigríður setji inn upplýsingar um fuglakóleru á heimasíðu félagsins. Að þessu sögðu sleit Guðrún þessum 50. afmælisaðalfundi félagsins og bauð gestum til hádegisverðar.

Aðalfundur ÆÍ 2020 verður haldinn Í Skagafirði að ári.

Fundarritari

Sigríður Magnúsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ný stjórn kosin á aðalfundi ÆÍ 31. ágúst 2019. Guðrún Gauksdóttir, formaður, Erla Friðriksdóttir varaformaður, Páll Þórhallsson gjaldkeri, Sigríður Magnúsdóttir ritari og Margrét Rögnvaldsdóttir meðstjórnandi. Í varstjórn eru Magnús Helgi Jónasson og Pálmi Benediktsson. Á myndina vantar Pál Þórhallsson, gjaldkera.