54. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2023

Aðalfundur ÆÍ 18. nóvember 2023 í Landbúnaðarháskóla Íslands

 

54. aðalfundur ÆÍ var haldinn i Landbúnaðarháskóla íslands 18. nóvember kl. 10:00. Fundurinn hófst á því að Áshildur bauð fólk velkomið í Landbúnaðarháskóla Íslands og lýsti ánægju sinn yfir því samstarfi sem verið hefur í gegnum tíðina við ÆÍ. Hún kynnti síðan fyrirkomulag fundarins og gaf Margréti Rögnvaldsdóttur formanni orðið.

Margrét bauð félagsmenn velkomna á aðalfund félagsins sem haldinn var bæði sem fjarfundur og staðfundur. Hún stakk upp á Páli Þórhallssyni sem fundarstjóra og Helgu Maríu Jóhannesdóttur sem fundarritara.Var það samþykkt. Mættir voru 46 félagsmenn á staðinn en 10 voru á fjarfundi.

 

Skýrsla stjórnar og reikningar

Margrét Rögnvaldsdóttir formaður kynnti skýrslu stjórnar.

Í stjórn félagsins eru Margrét Rögnvaldsdóttir formaður, Erla Friðriksdóttir varaformaður, Magnús Jónasson gjaldkeri, Helga María Jóhannesdóttir ritari en var áður meðstjórnandi. Stjórn skipti með sér verkum upp á nýtt en áður var Sigríður Magnúsdóttir ritari en er nú meðstjórnandi. Í varastjórn eru Pálmi Benediktsson og Hallur Þorsteinsson.

Tveir aðalfundir voru haldnir í mars árið 2022 fyrir árin 2020 og 2021 vegna þess að fresta hafði þurft fundum í covidinu. Aðalfundur fyrir árið 2022 var síðan haldinn í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum í ágúst. Gert er ráð fyrir að aðalfundur fyrir árið 2024 verði á Laxamýri við Laxá í Aðaldal, laugardaginn 28. september.

Á síðasta aðalfundi var tekin ákvörðun um að ÆÍ yrði áfram sjálfstætt félag en ekki búgreinadeild innan Bændasamtaka Íslands. Stjórn gerði síðan samning við BÍ um að aukaaðild að samtökunum en í því felst m.a. að þeir vakta samráðsgáttina ÆÍ að kostnaðarlausu en greiða þarf fyrir aðra þjónustu sem félagið gæti þurft á að halda. Í framhaldi af þessu þurfti að breyta lögum félagsins.

Covid hafði líka haft áhrif á starfið innan deilda félagsins sem margar hverjar höfðu ekki haldið aðalfund. Skoraði stjórn á þær að halda aðalfund innan deildanna áður en að þessum aðalfundi kæmi. Hafa margar deildir gert það. Haldinn var fundur með formönnum deilda á undan aðalfundi. Vargeyðing er mikið til umræðu innan þeirra og skortur á fjármagni til að sinna henni.

Mikill tími hefur farið á þessu starfsári í umræðu um nýtt dúnmat. Á síðasta aðalfundi fékk stjórn umboð til að halda áfram viðræðum við IDFL um þróun á nýju gæðamati eða staðli sem gæti mögulega komið í staðinn fyrir það gæðamat sem nú er í gildi. Haldnir hafa verið fjölmargir stjórnarfundir um þetta mál, einnig fundir með IDFL og síðan tveir kynningafundir fyrir þá sem eru að hreinsa og/eða selja dún eða vörur úr dún og dúnmatsmenn og að lokum var haldinn kynningarfundur fyrir alla félagsmenn. Skiptar skoðanir hafa verið um þetta mál en gögn og niðurstöður fundanna hafa verið send á alla félagsmenn.

Það nýjasta í þessu máli er að á yfirstandandi löggjafarþingi, þann 24. október s.l., var lagt fram þingmannafrumvarp þar sem lagt er til afnám laga um gæðamat á æðardúni og að lögin skuli þegar öðlast gildi. Þessu frumvarpi fylgir nánast samhljóða rökstuðningur eins og fylgdi drögum að frumvarpi því sem ráðherra setti í samráðsgátt stjórnvalda árið 2020 og núverandi frumvarp jafnframt lagt fram án nokkurs samráðs við hagsmunastamtök æðarbænda.

Lokið var við heimasíðugerð í samstarfi við Íslandsstofu og er félagið nú komið með varanlegt lén fyrir heimasíðuna. Hannað var vörumerk fyrir æðardún sem félagið á og er það í skráningu hjá Hugverkastofunni. Þrátt fyrir það vantar enn fjármagn til að fara í markaðssókn og kynna æðarfugl og æðardún betur. Áður gat ÆÍ sótt styrki til Framleiðnisjóðs til ýmissa verkefna en hann hefur nú verið lagður niður og í hans stað er kominn Matvælasjóður. Ekki er hægt að sækja styrki til hans þar sem æðarrækt hefur ekkert með matvöru að gera. Margrét og Erla fóru á fund matvælaráðherra 10. maí s.l. ásamt Kristni Björnssyni verkefnisstjóra og tengiliðs ÆÍ hjá Íslandsstofu og Pétri Óskarssyni framkvæmdastjóra Íslandsstofu þar sem óskað var eftir því að fá einhvern styrk frá Matvælastjóði til að halda áfram með verkefnið. Ekki var hægt að verða við þeirri beiðni en ráðherra sagði að von væri á breytingum á reglum sjóðsins. Ekki hefur enn borið á þeim breytingum en stjórn mun fylgja þessu eftir og halda áfram að leita leiða til að fá  styrki.

Boðið var upp á umræður um skýrslu stjórnar en enginn bað um orðið.

 

Reikningar

Magnús Helgi Jónasson, gjaldkeri, fór yfir ársreikninga félagsins en þeir voru unnir af KPMG og yfirfarnir af skoðunarmönnum reikninga ÆÍ.

Tap var á rekstri félagsins upp á 3,3 milljónir kr. Eigið fé félagsins nam 13,4 milljónum. Undir gjöld falla að langmestu leyti markaðsstarf og innra starf og eru samtals 6.276.826 kr. Þar af fóru 4 milljónir í gerð kynningarmyndbands vegna heimsíðunnar eiderdownoficeland.com sem unnin var með Íslandsstofu. Afkoma ársins var neikvæð um 3.281.080 kr. en var jákvæð fyrir árið 2021 um 532.471 kr. Stærstu eignir Æðarræktarfélagsins eru fjárfestingarverðbréf. Samtals eru eignir félagsins rúmar 14 milljónir.

Styrkir og endurgreiðslur til deilda voru tekinar af á síðasta ári. Árgjaldið í félagið hefur verið 7.000 kr. Lögð var fram tillaga um hækkun félagsgjalda úr 7.000 kr. í 10.000 kr. Tillagan var samþykkt, tveir voru á móti.

Umræður um reikninga. Í umræðum komu m.a. fram áhyggjur af því hvort hærra gjald myndi fæla fólk úr félaginu og þeim vanda sem deildirnar standa frammi fyrir þar sem þær fá ekki lengur hluta af félagsgjaldinu.

Að umræðum loknum voru reikningar bornir upp til samþykktar og voru þeir samþykktir samhljóða.

 

Kosningar

Kjósa átti formann en Margrét Rögnvaldsdóttir, núverandi formaður, var í framboði. Enginn bauð sig fram á móti henni og hún því endurkjörin.

Einnig átti að kjósa einn í varastjórn og einn skoðunarmann reikninga. Hallur Þorsteinsson sem var í núverandi varastjórn var kosinn áfram og Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði var endurkjörinn sem skoðunarmaður reikninga.

 

Markaðs- og sölumál

Elías Gíslason fór yfir stöðuna varðandi sölu- og markaðsmál.

Salan hefur gegið vel og engar eldri birgðir eru til af æðardúni í landinu í dag. Verð á æðardún hélst nokkuð stöðugt frá árinu 2019 til ársins 2022 en hefur síðan snarhækkað 2023. Langt er síðan verðið hefur verið svona hátt. Japan hefur alltaf verið stærsti kaupandinn á æðardún og Þýskaland komið rétt á hælana á þeim. Á árinu 2023 hefur hins vegar verið seldur mun meiri dúnn til Þýskalands heldur en Japan.

Í dag selst dúnninn að mestu þveginn en áður var hann nánast seldur eingöngu óþveginn.

Gífurleg aukning hefur orðið á sölu á fullunninni vöru, þ.e. æðardúnssængum. Útflutningsverðmæti hefur að sama skapi aukist til muna. Árið 2020 var verðmæti útflutnings æðardúnssænga 7.4% af heildarverði ársins en árið 2022 var það komið upp í 28.35% af heildarverði ársins. Mest er nú selt af æðardúnsængum til Bretlands eða 47.3% en Bandaríkin eru næstir með 18.8% á árinu 2022.

 

Áhrif tófu og minks á dreifingu æðarhreiðra í Breiðafjarðareyjum – Jón Einar Jónsson

Jón Einar sagði frá rannsókn á áhrifum tófu og minks á dreifingu æðarhreiða sem gerð var hjá Háskólasetrinu á Snæfellsnesi. Nýlega birtist grein um efnið í vísindatímaritinu Ecology Letters.

Rannsóknin var gerð í eyjunum Brokey og Burkey á Breiðafirði. Í báðum eyjum eru heimamenn til skrafs og ráðgerðar, auk þess sem til eru margra ára skráningar á varptölum í báðum eyjunum. Eyjarnar voru lengi vel lausar við tófu og mink og til eru gögn um það hvenær það breyttist.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að áhrif minks á fjölda æðarhreiðra er gífurleg og er hann ríkjandi fyrirbæri í þessu vistkerfi, þ.e. hann hefur meiri áhrif á varp en hitastig. Hann á það jafnvel til að þurrka út allt æðarvarp í minni eyjum og þjappa því í stærri eyjarnar.

 

Kynning á Bjarmalandi og vinnu í kringum æðarvarp

Garðar Páll Jónsson formaður kynnti starf félagsins en þetta er félagsskapur atvinnuveiðimanna í kringum veiðar á mink og ref. Markmið þess er að minnka stofnstærð minks og refs með markvissum aðgerðum.

Bjarmaland hefur gefið út gjaldskrá fyrir refa- og minkaveiðar og hefur boðið ÆÍ upp á þjónustu utan þess sem þeir eru samningsbundnir við sveitarfélögin. Kostnaður er mikill vegna minkahunda og hafa sveitarfélög ekki verið að sinna þessu málefni nógu vel. Garðar telur mikilvægtr að þrýsta á sveitarfélögin að standa við það sem þeim ber að gera. Þá sagði hann að það væri ekki stórmál að halda niðri stofnstærð en það kostar vinnu og fjármagn.

Undir þessum lið kynnti Margrét formaður eyðublað/tjónablað sem stjórn hefur verið að vinna að. Æðarbændur geta notað blaðið til að tilkynna tjón sem þeir verða fyrir í sínu æðarvarpi. Lítið hefur verið um tilkynningar til Umhverfisstofnunar um tjón í æðarvörpum þrátt fyrir að tilkynna eigi slíkt skv. samningi á milli sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar. Blaðinu á að skila inn til sveitarfélaga. Er það von stjórnar að þetta blað muni auðvelda tilkynningar til sveitarfélaga og stuðla með því að bættri skráningu svo hægt sé að safna gögnum um þessi tjón.

 

Kynning á breytingum á jarðarlögum

Guðrún Gauksdóttir lögmaður kynnti breytingar á jarðarlögum sem tóku gildi 14. júlí 2022 en þar koma m.a. fram róttækar breytingar varðandi forkaupsrétt sameigenda að jörðum. Þessar breytingar ganga út á það að forkaupsréttur sameigenda að jörð gengur framar rétti maka, niðja, systkina og foreldra við sölu og erfðir. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir marga og er nú þegar farið að koma upp vandkvæði hjá sýslumanni við meðferð dánarbússkipta. Undanþága er frá þessu, þ.e. sameigendur geta fallið frá forkaupsrétti, ef vilji er fyrir hendi hjá öllum. Taldi hún að markmiðið með þessu lögum væri virðingarvert sem snýr að því að fækka eigendum að jörðum en of langt sé gengið varðandi forkaupsréttinn. Mikilvægt er fyrir æðarbændur sem eru sameigendur að jörð að kynna sér þessi nýju ákvæði.

Boðið var upp á umræður um erindið.

 

Hádegishlé

Þá var gert hlé á fundinum á meðan boðið var upp á hádegisverð, súpu og brauð, sem fundarmenn gerðu góð skil.

 

Kynning á mögulegri vottun á æðardún

Dagskrárbreyting

Elías Kristjánsson lagði fram bréf frá Æðardúnshópi Félags atvinnurekanda þar sem mótmælt er niðurfellingu á lögum nr. 52/2005 um gæðamat á æðardúni.

 

Forsagan – Erla Friðriksdóttir

Erla fór yfir forsöguna og rakti meðal annars sögu gæðamats á æðardúni sem rekja má til ársins 1970. Fram til ársins 1970 giltu engar reglur um viðskipti með íslenskan æðardún og hafði það áhrif á traust í viðskiptum með afurðina og þar með hvaða verð fékkst fyrir dúninn. Æðarardúnn var seldur í misjöfnu ástandi, sem leiddi til þess að þeir sem ekki vönduðu síg við hreinsun á dúninum eyðilögðu orðspor hans og æðarbænda í viðskiptum.

Fyrsta baráttumál nýstofnaðs Æðarræktarfélags Íslandsárið 1969 var að sett yrðu lög um gæðamat á æðardúni sem legðu grundvöll að virðisaukningu fyrir þessa einstöku afurð. Lög um gæðamat á æðardúni tóku gildi árið 1970 og gæðamatskerfið hefur verið hornsteinn í viðskiptum með æðardún upp frá því. Íslenskur æðardúnn er seldur á hærra verði en annar æðardúnn, s.s. æðardúnn frá Kanada enda geta kaupendur treyst að um gæðavöru er að ræða þar sem lögin kveða á um að allur æðardúnn skuli metinn og eingöngu er heimilt að selja fyrsta flokks æðardún hvort heldur er í hrávöru eða í fullunnum vörum.

Árið 2005 voru lögin og reglugerðin endurskoðuð og svo aftur 2011. Í febrúar 2020 fær stjórn ÆÍ tilkynningu um að búið væri að leggja fram frumvarp á Alþingi um að fella niður lög um gæðamat á æðardúni. Var þetta gert án nokkurs samráðs og kom æðarbændum og stjórn ÆÍ mjög á óvart. Stjórn ÆÍ fór þá á fund ráðherra og mótmælti þessari ákvörðun og var frumvarpið í kjölfarið dregið til baka og ÆÍ gefið tækifæri til að skoða mögulega kosti sem tekið gætu við af lögunum. Í framhaldi af þessu leitaði ÆÍ til Staðlaráðs, iCert og IDFL til að kanna mögulega vottun á æðardúni. Leitað er eftir kerfi sem er jafn gott eða betra en lög um gæðamat á æðardúni. Enn sem komið er hefur slíkt kerfi ekki fundist.

 

Tillaga að mögulegri vottun – Margrét Rögnvaldsdóttir

Margrét rakti þá atburði sem urðu til þess að viðræður hófust við IDFL um mögulega vottun. Í framhaldi af því sem fram kom í erindi Erlu hafði IDFL sjálft frumkvæði af því að vinna áfram í þessu máli og þróa staðal fyrir íslenskan æðardún. Einhverjir æðarbændur hafa nú þegar nýtt sér þjónustu IDFL. Í kjölfar fundar með ráðuneytinu í apríl 2022 sem IDFL hafði frumkvæði af óskaði ráðuneytið eftir afstöðu ÆÍ til IDFL. ÆÍ hélt þá tvo fundi með þeim félagsmönnum sem hreinsa og/eða selja dún eða vörur úr dún og dúnmatsmönnum eins og fram kom í skýrslu stjórnar. Stjórnin sjálf tekur ekki afstöðu í þessu máli en ákveðið var að tekin yrði afstaða til málsins á aðalfundi og niðurstaða kynnt ráðuneytinu.

Eftir að fundirnir voru haldnir var óskað var eftir skriflegum athugasemdum um kosti og galla núverandi dúnmats og IDFL staðalinn. Margrét hefur tekið saman þær athugasemdir sem bárust og kynnti hún þær á fundinum. Einnig kynnti hún uppkast af samningi eða staðli sem IDFL hefur unnið að og hefur þegar verið sendur á félagsmenn. IDFL skoðar ekki allan dún heldur tekur út dúnhreinsistöðvar og aðila sem búa til vörur úr dún. Síðan er tekin stykkprufa, um 10%, hjá æðarbændum sjálfum.

Eftir kynningu Erlu og Margrétar var boðið upp á umræður og tóku margir til máls. Voru skiptar skoðanir um málefnið og mismunandi þarfir sem komu fram varðandi dúnmat.

 

Kosningar um ályktanir

Eftirfarandi ályktanir voru bornar upp á fundinum til samþykktar:

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember 2023 í Landbúnaðarháskóla Íslands telur þýðingarmikið að lög nr. 52/2005 um gæðamat á æðardúni haldi gildi sínu. Lögin hafa gegnt veigamiklu hlutverki við sölu á æðardúni í yfir 50 ár eða allt frá 1970 þegar lögin voru fyrst sett. Lög um gæðamat á æðardúni hafa verið hornsteinn þess að kaupendur æðardúns geti treyst að um fyrsta flokks íslenskan æðardún sé að ræða hvort heldur sem um ræðir æðardún eða vörur sem innihalda æðardún. Lögin hafa gegnt lykilhlutverki í að tryggja sérstöðu íslensks æðardúns á heimsvísu“.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

 

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember 2023 í Landbúnaðarháskóla Íslands mælist til þess að stjórn félagsins fari í viðræður við ráðuneytið um áframhaldandi skoðun á dúnmati og framkvæmd þess skv. núgildandi lögum“.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

 

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember 2023 í Landbúnaðarháskóla Íslands mælist til þess að stjórn félagsins vinni áfram með IDFL að staðli fyrir íslenskan æðardún“.

24 kusu með ályktuninn, 19 voru á móti. Ályktunin var því samþykkt.

 

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember 2023 í Landbúnaðarháskóla Íslands hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitafélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra. Æðarræktarfélagið mælist til þess að sveitarfélög haldi utan um tjón í æðarvörpum og tilkynni þau til Umhverfisstofnunar. Eins og segir til um í samningi þeirra við Umhverfisstofnu“.

Ályktunin var samþykkt, einn var á móti.

 

Eftirfarandi áskorun frá Æðardúnshópi Félags atvinnurekenda var lesin upp á fundinum og borin upp til samþykktar:

,,Æðardúnshópur í Félagi atvinnurekenda skorar eindregið á Æðarræktarfélag Íslands að leggjast hart gegn því við matvælaráðherra að lög nr. 52/2005  um gæðamat verði felld úr gildi. Lögin hafa allar götur frá því þau voru sett árið 1970 gegnt mikilvægu hlutverki fyrir útflutning á æðardúni og vörum sem innihada íslenskan æðardún. Lögin hafa fyrir löngu sannað mikilvægi sitt og standast enn fyllilega tímans tönn. Það getur haft slæmar afleiðngar fyrir seljendur og kaupendur á æðaradúni sem hafa reytt sig á lögin í um 53 ár verði þau felld úr gildi. Þá munu opnast möguleikar fyrir sölu á æðaradúni sem ekki stenst þær gæðakröfur sem nú eru gerðar til íslensks æðardúns en íslenskur æðardúnn nýtur nú algjörrar sérstöðu á heimsvísu“.

Áskorunin var samþykkt samhljóða.

 

Í lok fundar var Guðrún Gauksdóttir fyrrverandi formaður ÆÍ gerð að heiðursfélaga fyrir störf sín í þágu félagsins og æðarræktar á Íslandi.

Fundi slitið.

 

Helga María Jóhannesdóttir

ritari