Vel sóttur aðalfundur ÆÍ á Raufarhöfn
Aðalfundur ÆÍ árið 2017 var haldinn á Raufarhöfn að þessu sinni. Vel vær mætt á fundinn.
Að venju var rætt um varptímann s.l. vor og kom fram í skýrslu stjórnar að mikil úrkoma og bleyta hefði verið víða um land en í þannig árferði væri mikilvægt að þurrka dúninn fljótt. Hreinsunaraðilar brugðust hratt við veðurfarinu og tóku á móti dúni snemma til að geta þurrkað auk þess sem bændur eru sjálfir margir hverjir með góða aðstöðu til þurrkunar. Niðurfelling búnaðargjalda var fyrirferðamikið málefni í störfum stjórnar s.l. ár auk þess sem aðstoð við félagsmenn og svör við fyrirspurnum kaupenda um seljendur á æðardúni er hluti af stjórnarstörfum. Verið að vinna að samræmdu friðlýsingarskilti. Á dagskrá fundarins var að fara yfir framtíðarhlutverk ÆÍ auk þess sem fjallað var um sölumál. Árið 2016 fór mikið af dún út eða 3.382 kg. og að útflutningsverð hafi verið um 205 þúsund kr. á kg. Í maí á þessu ári fóru 27 kg. og útflutningsverðið var um 190 þúsund en ekkert var flutt út í júní. Niðursveifla á verði er merkjanlegt í íslenskum krónum en verðið er hið sama í erlendri mynt. Kosningar fóru fram og gáfu Guðrún Gauksdóttir formaður og Pétur Guðmundsson stjórnarmaður kost á sér áfram til stjórnarsetu. Stjórnin er því óbreytt á milli aðalfunda. Farið var í skoðunarferðir og höfðu fundarmenn á orði að gaman hefði verið að upplifa einstaka gestrisni heimafólks.
Auk ályktana um árgjalds og styrki til deilda voru eftirfarandi ályktanir samþykktar:
Minka- og refaveiði
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra. Þá beinir aðalfundur því til stjórnar félagsins að hún beiti sér fyrir því að leitað verði nýrra leiða í baráttunni fyrir því að tryggja æðarvarp gegn ágangi minks, refs og flugvargs.
Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni.
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 ályktar að í breytingum á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, sem varða öflun sjávargróðurs og taka gildi 1. janúar 2018, felist ólögmæt skerðing á eignarrétti eigenda jarða sem liggja að sjó og þessi hlunnindi tilheyra, þ. á m. æðarbænda. Stjórn ÆÍ er falið að vinna að lausn málsins ásamt þeim æðarbændum sem málið varðar.
Sjókvíaeldi og æðarfugl
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 ályktar að brýn nauðsyn sé á því að rannsaka og vakta áhrif sjókvíaeldisstöðva og stækkunar þeirra á lífríki sjávar og þar með beina og óbeina hættu fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls.