Félagsgjöld til Bændasamtaka Íslands.

Til félagsmanna í Æðarræktarfélagi Íslands.

Reikningur vegna félagsgjalda til Bændasamtaka Íslands er kominn inn í heimabanka félagsmanna. Farin eru út kynningarbréf auk gíróseðils frá BÍ. Greiðsla félagsgjaldsins er valfrjáls. Félagsgjald til ÆÍ er óbreytt og er óháð félagsgjaldi til Bændasamtakanna.

Stjórn ÆÍ er að fara yfir möguleg áhrif þessara breytinga á starf félagsins, aðild félagsins að Bændasamtökunum og þýðingu breytinganna fyrir félagsmenn. Greinargerð þessi verður send út fyrir næsta aðalfund þar sem hún verður tekin til umræðu og farið yfir þau sjónarmið sem ráða afstöðu til félagsaðildar að Bændasamtökunum. Einstakir félagsmenn taka á þeim grundvelli ákvörðun um hvort þeir kjósi að gerast aðilar að Bændasamtökunum eða ekki. Jafnframt mun á þessum tíma liggja fyrir upplýsingar um hversu margir félagsmenn hafa greitt félagsgjald til BÍ.

Með lögum nr. 126/2016 var búnaðargjald fellt niður frá og með 1. janúar 2017 en fram að því var æðarbændum skylt að greiða búnaðargjald. Búnaðargjald var lagt á alla þá sem stunduðu virðisaukaskattsskylda búvöruframleiðslu sem féll undir ákveðin atvinnugreinanúmer. Gjaldstofn til búnaðargjalds var velta búvöru og tengdrar þjónustu hjá gjaldskyldum búvöruframleiðendum. Álagning búnaðargjalds fór fram með álagningu opinberra gjalda. Gjaldskyldir búvöruframleiðendur skiluðu framtali til ríkisskattstjóra þar sem gjaldskyldar fjárhæðir voru tilgreindar eftir búgreinum innan framtalsfrests. Æðarbændur geta borið saman hvað þeir hafa greitt í búnaðargjald árlega við fjárhæð félagsgjalds til Bændasamtaka Íslands. Það fer eftir veltu hjá hverjum og einum hvort félagsgjaldið erhærra eða lægra en fjárhæð búnaðargjalds hefur verið.

Búnaðargjaldinu var svo ráðstafað eftir tilteknum hlutföllum milli Bændasamtakanna, búnaðarsambanda, búgreinafélaga og Bjargráðasjóðs. Hlutur ÆÍ í búnaðargjaldi hefur verið helsti tekjustofn félagsins fram til þessa, t.d. kr. 2.150.279 á árinu 2015. Til samanburðar voru tekjur af félagsgjöldum kr. 702.218 en helmingur af þeirri upphæð fer til deilda félagsins.

Á heimasíðu Bændasamtakanna www.bondi.is er að finna uplýsingar um félagsgjaldið og þá þjónustu sem samtökin veita. Þar segir m.a.


Þessa dagana eru greiðsluseðlar að berast bændum vegna félagsgjalda Bændasamtakanna fyrir árið 2017. Með því að greiða gjaldið verða bændur áfram félagsmenn í samtökunum og njóta allra þeirra réttinda sem aðild færir þeim.
Með niðurlagningu búnaðargjalds var sú ákvörðun tekin innan BÍ að innheimta félagsgjöld þess í stað. Félagsgjaldið verður nýtt til þess að gæta hagsmuna bænda og reka öflug Bændasamtök. Breytingarnar hafa verið kynntar á síðustu mánuðum, meðal annars í Bændablaðinu, á Netinu og í bændafundarferð í janúar. Hér á bondi.is er að finna ítarlegar upplýsingar um félagsaðildina.
Skilyrði fyrir félagsaðild að BÍ er að aðili sé að minnsta kosti í einu aðildarfélagi samtakanna. Þau eru búnaðarsambönd, búgreinafélög og Samtök ungra bænda. Félagatöl aðildarfélaganna eru grunnurinn að félagatali Bændasamtakanna og þar með innheimtu félagsgjaldanna.
Greiða þarf greiðsluseðil sem sendur er út árlega til að staðfesta félagsaðild að Bændasamtökum Íslands. Aðeins félagsmenn munu njóta félagslegra réttinda, afsláttarkjara og aðgengis að allri þjónustu samtakanna.
Hver er ávinningur minn að vera í Bændasamtökunum?

  • Bændasamtökin vinna að hagsmunum allra bænda og eru málsvari stéttarinnar · Þú ert þátttakandi í samtökum bænda og getur haft áhrif á félagsstarfið
  • Þín aðild eflir kynningar- og ímyndarmál landbúnaðarins
  • Þú nýtur ráðgjafar um réttindi og um málefni sem snerta bændur
  • BÍ koma fram fyrir þína hönd gagnvart ríkisvaldinu og gera samninga fyrir bændur
  • Þú nýtur 30% afsláttar af vissum forritum BÍ
  • Aðild tryggir þér sérkjör á gistingu á Hótel Sögu
  • Þú getur leigt orlofsíbúð á höfuðborgarsvæðinu og orlofshús á Hólum í Hjaltadal
  • Sem félagsmaður getur þú sótt um stuðning í starfsmenntasjóð
  • Samtakamáttur heildarinnar er mikill og verður meiri eftir því sem fleiri taka þátt

Félagsgjöld Bændasamtakanna fyrir árið 2017

Félagsgjald A
Grunngjald fyrir aðild að BÍ er 42.000 kr. fyrir árið 2017. Því fylgir aðild með fullum félagslegum réttindum fyrir tvo einstaklinga sem standa saman að búrekstri.
Félagsgjald B
Ef fleiri en tveir einstaklingar standa fyrir búi greiðir hver félagsmaður umfram tvo, að auki 12.000 kr. Aðild þessi veitir ekki afslátt af virðisaukaskattsskyldri þjónustu hjá BÍ.
Félagsgjald C
Aðilar sem standa fyrir rekstri sem telst minniháttar og eru með veltu undir 1.200.000 kr., geta að fengnum meðmælum viðkomandi aðildarfélags sótt um að greiða kr. 12.000 á ári en njóta fullra réttinda. Fylla þarf út umsókn þar að lútandi, sem er að finna á bondi.is, og senda til BÍ. Bændasamtökin óska sjálf eftir meðmælum frá viðkomandi aðildarfélagi.

Ert þú með spurningar vegna félagsgjaldanna?
Ef leiðréttinga er þörf á félagsaðild eða ef óskað er eftir að skipta félagsgjaldinu í tvær greiðslur eru bændur hvattir til að hafa samband við skrifstofu BÍ svo hægt sé að bregðast við því. Upplýsingar eru góðfúslega veittar í síma 563 0300, í gegnum Bændatorgið eða í netfangið bondi@bondi.is.