Ályktanir aðalfundar 18. nóvember 2023

ÁLYKTUN

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember
2023 í Landbúnaðarháskóla Íslands telur þýðingarmikið að lög nr.
52/2005 um gæðamat á æðardúni haldi gildi sínu. Lögin hafa gegnt
veigamiklu hlutverki við sölu á æðardúni í yfir 50 ár eða allt frá 1970
þegar lögin voru fyrst sett. Lög um gæðamat á æðardúni hefur verið
hornsteinn þess að kaupendur æðardúns geti treyst að um fyrsta flokks
íslenskan æðardún sé að ræða hvort heldur sem um ræðir æðardún eða
vörur sem innihalda æðardún. Lögin hafa gegnt lykilhlutverki í að
tryggja sérstöðu íslensk æðardúns á heimsvísu.

ÁLYKTUN

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember 2023
í Landbúnaðarháskóla Íslands mælist til þess að stjórn félagsins fari í
viðræður við ráðuneytið um áframhaldandi skoðun á dúnmati og
framkvæmd þess skv. núgildandi lögum.

ÁLYKTUN

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember 2023
í Landbúnaðarháskóla Íslands mælist til þess að stjórn félagsins vinni
áfram með IDFL að staðli fyrir íslenskan æðardún.

ÁLYKTUN

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 18. nóvember 2023
í Landbúnaðarháskóla Íslands hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til
refa- og minkaveiða. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og
sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar
þessara dýra. Æðarræktarfélagið mælist til þess að sveitarfélög haldi
utan um tjón í æðarvörpum og tilkynni það til Umhverfisstofnunar. Eins
og segir til um í samningi þeirra við Umhverfisstofnun.

Ályktun stjórnar ÆÍ um kayakferðir í og við Breiðafjörð

Stjórn Æðarræktarfélag Íslands ásamt stjórnum deilda félagsins við Breiðafjörð sendu Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Umhverfisstofnun, Ferðamálastofu og MAST meðfylgjandi bréf. Athygli æðarbænda í og við Breiðafjörð er vakin á því að Hollenskir ferðaskipuleggjendur kayakaferða, að því er viriðst án samráðs við landeigendur, eru að bjóða upp á ferð um Breiðafjörð á friðlýsingartíma æðarvarps. Ferðin er 10 daga ferð dagana 4. – 13. júlí. Þá er athygli einnig vakin á því að kayakarnir sem ferðast er á eru innfluttir án þess að vera sótthreinsaðir og eru dregnir upp á land m.a. þar sem æðarvarp er stundað. Ekki er vitað hvaða mögulegt smit kayakar geta borið með sér í æðarvörp. Nú þegar fuglakólera hefur komið upp í æðarvarpi á Íslandi getur verið varhugavert að draga kayaka upp á land þar sem æðarrækt er stunduð á meðan ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaða smit þeir geta mögulega borið með sér. Þá er einnig vakin athygli æðarbænda og landeigenda í og við Breiðafjörð að öll óviðkomandi umferð er ekki leyfð í friðlýstum æðarvörpum. Ennfremur er vakin athygli á eftirfarandi grein í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013.
24. gr. Skipulegar hópferðir.
Þegar skipulagðar eru hópferðir um eignarlönd í byggð eða þar sem ónæði gæti valdið við nytjar skal hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans.
Eftir því sem við verður komið skal tjalda á skipulögðum tjaldsvæðum sé gert ráð fyrir að gista í tjöldum í slíkum ferðum.

Ályktun ÆÍ um kayakferðir í og við Breiðafjörð

Ályktun ÆÍ um frumvarp um breytingu á lögum um þjóðlendur

Stjórn Æðarræktarfélag Íslands ásamt stjórnum deilda félagsins við Breiðafjörð sendi frá sér meðfylgjandi ályktun varðandi frumvarp um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998. Frumvarpið varðar landsvæði utan strandlengju meginlandsins og á því í einhverjum tilfellum við landsvæði þar sem æðarrækt er stunduð.

Ályktun til allsherjarnefndar um þjóðlendulög

Ályktanir frá aðalfundi 2017

Tillögur/ályktanir

Fundarstjóri Salvar Baldursson las upp tillögur þær sem liggja fyrir fundinum. Hér eru þær settar fram eins og þær voru samþykktar.

  1. Árgjald
    Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands árið 2017 ályktar að árgjald fyrir árið 2018 verði kr.5.000.
  2. Styrkir til deilda
    Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrki vegna tilgreindra, rökstuddra verkefna, s.s. vargeyðingar.
    Styrkir verða einungis greiddir gegn afriti af reikningum.
  3. Minka- og refaveiði
    Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra. Þá beinir aðalfundur því til stjórnar félagsins að hún beiti sér fyrir því að leitað verði nýrra leiða í baráttunni fyrir því að tryggja æðarvarp gegn ágangi minks, refs og flugvargs.
  4. Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni.
    Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 ályktar að í breytingum á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, sem varða öflun sjávargróðurs og taka gildi 1. janúar 2018, felist ólögmæt skerðing á eignarrétti eigenda jarða sem liggja að sjó og þessi hlunnindi tilheyra, þ. á m. æðarbænda. Stjórn ÆÍ er falið að vinna að lausn málsins ásamt þeim æðarbændum sem málið varðar.
  5. Sjókvíaeldi og æðarfugl
    Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 ályktar að brýn nauðsyn sé á því að rannsaka og vakta áhrif sjókvíaeldisstöðva og stækkunar þeirra á lífríki sjávar og þar með beina og óbeina hættu fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls.

Ályktanir frá aðalfundi

Árgjald

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands árið 2016 ályktar að árgjald fyrir árið 2017 verði kr. 4.000.

Styrkir til deilda

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2016 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrk. Einnig er stjórninni heimilt að veita styrk til einstakra æðarbænda á þeim svæðum þar sem ekki er starfandi æðarræktardeild. Stjórn ÆÍ er falið að ganga frá samningum við formenn deildanna um framkvæmd tillögunnar. Styrkir verða greiddir gegn afriti af reikningum.

Minka– og refaveiði

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2016 hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra.

Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands skorar á umhverfisráðherra, sjávarútvegsráðherra og sveitarstjórnir við Breiðafjörð að standa vörð um lífríki Breiðafjarðar og leggjast gegn áformum um stóraukna nýtingu á sjávargróðri án undangenginna rannsókna. Gerð er krafa til stjórnvalda um að virtar verði meginreglur stjórnsýslunnar, m.a.  andmælaréttur og meðalhófsregla. Jafnframt að virt verði stjórnarskrárvarin réttindi við töku ákvarðanna um gjaldtöku og nýtingu á lífríki Breiðafjarðar. Sérstaklega er þess krafist að fullt tillit verði tekið til grenndarsjónarmiða varðandi alla nýtingu.

Samþykkt á aðalfundi Æðarræktarfélags Íslands þann 12. nóvember 2016 vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni); 679. mál, lagafrumvarp, 145. löggjafarþing 2015–2016.

Greinargerð

Þang og þari, stundum nefndir regnskógar norðursins, eru undirstaða auðugs lífríkis í sjó og á landi við Breiðafjörð. Þang og þari eru afkastamiklir frumframleiðendur og uppspretta gríðarlegs magns lífræns efnis sem aðrir hlutar lífkeðjunnar eru háðir. Þang og þari eru auk þess allt í senn mikilvægt búsvæði fyrir fjölda lífvera, fæða fyrir ýmis dýr sem éta þá og þegar þeir brotna niður verða þeir fæða fyrir dýr sem sía sjó, svo sem krækling og hörpudisk. Æðarræktarfélag Íslands tekur undir ályktun Æðarræktarfélags Snæfellinga og Æðarvéa frá deildarfundum 2016 og skorar á stjórnvöld að leyfa ekki frekari þang- og þaraöflun án undangenginna rannsókna á lífríki Breiðafjarðar. Þá telur félagið að framlagt frumvarp sé aðför að hefðbundnum hlunnindum sjávarjarða og lífríki Breiðafjarðar.

Gjaldtaka og öflun hráefnis á einkalandi

Í frumvarpinu kemur fram: “Við 4. mgr. 9 gr. laganna bætis nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvarða skal veiðigjald fyrir sjávargróður sem hér segir: 500 kr. á hvert landað tonn klóþangs, hrossaþara og stórþara (blautvigt).”

Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að innheimta gjald af klóþangi sem vex í fjörum innan landareigna í einkaeign. Landeigendur eru þeir einu sem heimild hafa til að nýta þangið eða veita öðrum heimild til nýtingar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að eignarréttur landeigenda verði skertur með ólögmætri gjaldtöku ríkisins fyrir sjávargróður sem vex á eignarlandi. Æðarbændur eiga í flestum tilfellum landareignir sem liggja að sjó og mótmæla þessari gjaldtöku harðlega. Verði ekki fallið frá gjaldtökunni í frumvarpinu verður látið reyna á lögmæti hennar fyrir dómstólum. Slík gjaldtaka getur jafnframt haft fordæmisgildi fyrir annað sem landareignir geta gefið af sér s.s. hey, fjallagrös, ber, sveppi, lax, silung eða jafnvel æðardún.

Frumvarpið nær einnig til þara sem vex á sjávarbotni og er víða innan netlaga. Hluti þarans heyrir því einnig undir landeigendur.

Áhrif á lífríki

Æðarbændur óttast mjög um lífríkið ef þang og þari verður nýttur í stórauknum mæli án undangenginna rannsókna, sem leitast ættu við að svara því hvaða afleiðingar slík viðbót gæti haft í för með sér fyrir lífríkið í heild. Ofnýting á sjávargróðri gæti haft langvarandi alvarleg og jafnvel óafturkræf áhrif á lífríkið. Það er skýlaus krafa æðarbænda að við ákvarðanatöku um frekari nýtingu verði gætt sjónarmiða allra hlutaðeigandi aðila, þ.á.m. þeirra sem nytja æðarvörp, hrognkelsi, þorsk, ígulker, hörpudisk og bláskel.

Æðarfugl er mikilvæg nytjategund sökum dúntekju og nýtur margs konar verndar skv. íslenskum lögum. Æðardúntekju stunda rúmlega 400 bændur hérlendis. Meðaltal útflutningsverðmætis æðardúns var um 375 milljónir kr. 2008–2013 og var árlegur heildarútflutningur að meðaltali 2,75 tonn af hreinsuðum dún. Tvö síðustu ár þessa tímabils voru í sérflokki. Árið 2012 voru flutt út 3,08 tonn og var heildarútflutningsverðmæti æðardúns tæpar 508 milljónir kr. það ár. Árið 2015 var verðmætið komið upp í tæpar 600 milljónir kr. fyrir 3,1 tonn. Æðarfugl er því án efa mesti nytjafugl landsins og er m.a. friðaður fyrir skotveiði vegna dúntekjunnar. Æðarfugl hefur notið einhvers konar verndar á Íslandi frá þjóðveldisöld og verið alfriðaður frá 1849. Bannað er að skjóta æðarfugl, leggja net nærri æðarvarpi eða trufla varp á annan hátt. Æðarbændur mega þó sinna dúntekju og taka egg svo framarlega sem skilin eru eftir fjögur egg í hreiðri, sbr. lög nr. 64/1994.

Æðarræktarfélag Íslands, Æðarræktarfélag Snæfellinga og Æðarvé taka heilshugar undir þær athugasemdir sem Náttúrustofa Vesturlands, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi og Breiðafjarðarnefnd gerðu við frumvarpið. Í athugasemd Rannsóknaseturs HÍ kemur m.a. fram að klóþangsbreiður eru ungauppeldisstöðvar fyrir æðarfugl. Litlir æðarungar éta nær eingöngu marflær sem lifa í klóþangi en ekki öðrum þangtegundum. Telja má víst að stóraukin nýting klóþangs geti dregið úr nýliðun í varpstofni æðarfugls í Breiðafirði. Varp æðarfugls er einn óvissuþátta við aukna nýtingu klóþangs sem þarf að taka tillit til við verndun og nýtingu Breiðafjarðar. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þeirra hlunninda sem æðarfugl veitir landeigendum. Ef frá eru taldir þörungarnir sjálfir, virðist ekki gert ráð fyrir rannsóknum á lífríkinu áður en nýting verður stóraukin, svo sem til að meta grunnástand lífríkisins fyrir töku sjávargróðurs. Án grunnrannsókna er ekki hægt að meta hvort nýting sjávargróðurs verði sjálfbær fyrir vistkerfið í heild, því það verður ekki gert eingöngu út frá vaxtarhraða þangs og þara.

Sjókvíaeldi og æðarfugl

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2016 ályktar að brýn nauðsyn sé á því að rannsaka og vakta áhrif sjókvíaeldisstöðva og stækkunar þeirra á lífríki sjávar og þar með beina og óbeina hættu fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls.

Greinargerð

Engar rannsóknir liggja fyrir á áhrifum sjókvíaeldis á lífríki sjávar á Íslandi og þar af leiðandi skortir forsendur til að meta hvort ákvörðun um að stórauka sjókvíaeldi geti falið í sér hættu fyrir lífríkið, þar á meðal fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls. Þá er brýn nauðsyn á vöktun núverandi starfsemi í þessu tilliti vegna skorts á þekkingu á áhrifum hennar á lífríkið. Í þessu sambandi má benda á skýrslu NINA (Norsk institutt for naturforskning) sem ber heitið Effekter av forstyrrelser fugl og paddedyr fra akvakulturanlegg í sjo – en litteraturtudie frá 2015. www.nina.no Í skýrslunni er bent á skort á rannsóknum á áhrifum sjókvíaeldis á fugla og dýr í Noregi.

Breytingar á fjármögnun BÍ

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2016 felur stjórn ÆÍ að gæta hagsmuna félagsmanna sinna vegna fyrirhugaðra breytinga á fjármögnun Bændasamtaka Íslands vegna afnáms búnaðargjalds frá næstu áramótum. Stjórn ÆÍ er falið að taka saman greinargerð um það hvaða afleiðingar niðurfelling búnaðargjalds og nýr háttur á fjármögnun samtakanna hefur fyrir ÆÍ og félagsmenn þess og jafnframt með hvaða hætti skuli bregðast við þeim.

Greinargerð Bændasamtakanna

Aukabúnaðarþing fær nú til umfjöllunar mikilvægt mál sem leggur grunninn að starfsemi BÍ og varðar sjálfa fjármögnun samtakanna. Breyta þarf samþykktum svo hægt sé að leggja á fast félagsgjald í stað veltutengds gjalds. Með samþykktabreytingunum er ekki verið að hrófla við uppbyggingu samtakanna, heldur er verið að leysa vandamál sem kom upp við útfærslu félagsgjaldsins.

Á Búnaðarþingi 2015 var með samþykktabreytingum tekin var sú stefna að BÍ ætlaði að innheimta veltutengt félagsgjald, en aðildarfélögunum var látið eftir að ákveða hvert fyrir sig hvaða aðferð þau vildu nota. Þessar breytingar voru gerðar í kjölfar vinnu milliþinganefndar sem fjallaði um málið.

Nú í haust var ráðinn verkefnisstjóri til að innleiða nýtt innheimtukerfi fyrir samtökin og halda utan um þetta mikilvæga mál. Við  útfærslu samþykktanna komu fram vankantar sem erfitt var að sjá fyrir. Stærsti gallinn var að þær upplýsingar sem byggja átti innheimtuna á eru ekki eins aðgengilegar og talið var. Við því varð að bregðast og skoða fleiri leiðir til innheimtu félagsgjalda, eins og sjá má í meðfylgjandi minnisblaði.

Til að bregðast við þessum breyttu aðstæðum og að undangenginni greiningu skipaði stjórn Bændasamtakanna starfshóp til að undirbúa nýja tillögu um innheimtu félagsgjalda til BÍ. Í starfshópnum störfuðu stjórnarmennirnir Einar Ófeigur Björnsson og Eiríkur Blöndal ásamt Guðbjörgu Jónsdóttur, verkefnisstjóra í innleiðingu félagsgjalda BÍ.

Á stjórnarfundi BÍ þann 24. okt. sl. var tillaga starfshópsins um félagsgjald samþykkt og stjórnin gerði hana að sinni. Þar var lagt til að tillagan yrði lögð fyrir formannafund sem var síðan haldinn 7. nóv. Ljóst var að breytingarnar samkvæmt tillögunni þýddu að boða yrði til aukabúnaðarþings til að fjalla um nauðsynlegar samþykktabreytingar.  Mjög góðar umræður voru á formannafundinum og í kjölfar hans hefur nú verið boðað til aukabúnaðarþings, samkvæmt ákvæðum samþykkta BÍ. Haustfundaferð BÍ hefur verið færð að þessum sökum þar til eftir aukabúnaðarþingið.

Tillagan, sem nú er lögð fram, byggir ekki lengur á veltutengdu félagsgjaldi heldur föstu gjaldi á hvert bú. Tillaga er um að það verði 3.500 kr. á mánuði og því fylgi full aðild fyrir tvo einstaklinga. Vilji fleiri sem standa að búinu fá full réttindi þarf að greiða aukagjald. Gert er ráð fyrir lægra gjaldi fyrir lítil bú.

Eins og í fyrri tillögu verður áfram hægt að gerast aukafélagi án réttinda og mögulegt verður að semja um aðild fyrir félög í landbúnaði, án þess þó að þau fái atkvæðisrétt sem slík.

Nánar er gerð grein fyrir tillögunum í samantektinni hér á eftir.

Lagt var fjárhagslegt mat á útfærsluna og ljóst er að almenn þátttaka er forsenda fyrir því að upphæð félagsgjalda samkvæmt þessu sé nægileg. Hér að neðan er lögð fram ein af þeim útfærslum á tillögu stjórnarinnar sem skoðuð var í undirbúningsferlinu og sýnir m.a. hvað þátttakan er mikilvæg.

Við teljum að hér sé um að ræða leið sem sé einföld og gagnsæ og til þess fallin að tryggja áfram almenna þátttöku bænda í heildarsamtökum okkar. Vart þarf að fjölyrða um að Bændasamtök Íslands eru hinn viðurkenndi samtalsaðili þegar kemur að opinberri umræðu eða samningum um landbúnað.  Ennfremur má segja að afnám búnaðargjalds feli í sér veigamikilar breytingar á hlutverki BÍ. Aðgerðin á sér rætur í úrskurðum mannréttindadómstóls Evrópu og varðar félagafrelsi. Sú meginbreyting er í farvatninu að framvegis geta bændur valið hvort þeir taki þátt í sameiginlegri hagsmunagæslu og vilji njóta þeirra réttinda sem aðild að BÍ felur í sér. . Val bænda til að standa utan heildarsamtakanna er raunverulegt. Þetta er áskorun en jafnframt tækifæri. Það er örugglega tímanna tákn að nú verður fjármögnun samtaka bænda án aðkomu ríkisins.   Þetta felur í sér að Bændasamtökin geta tekið afgerandi afstöðu með félagsmönnum sínum í málefnum sem varða samskipti við ríkið eða einstaka framleiðendur búvara.

Það varðar samtökin og flesta bændur miklu að samstaða verði um þessar óumflýjanlegu breytingar. Eftir því sem betur tekst til, þess meiri verður slagkraftur okkar.

 

 

 

 

Ályktanir frá aðalfundi

Ályktun um árgjald

Stjórn Æðarræktarfélags Íslands leggur til við aðalfund 2015  að árgjald fyrir árið 2016 verði kr. 3.800.

 

Ályktun um styrki til deilda

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2015 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrk. Einnig er stjórninni heimilt að veita styrk til einstakra æðarbænda á þeim svæðum þar sem ekki er starfandi æðarræktardeild. Stjórn ÆÍ er falið að ganga frá samningum við formenn deildanna um framkvæmd tillögunnar. Styrkir verða greiddir gegn afriti af reikningum.

 

Ályktun um refa- og minkaveiðar

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2015 hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra.

 

Ályktun um þang- og þaravinnslu

Í ljósi þeirra frétta sem nú eru komnar um aukna þang- og þaravinnslu í Breiðafirði og tilkomu nýrra verksmiðja, beinir aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2015 því til stjórnar að hún beiti sér fyrir því að lífríki Breiðafjarðar verði rannsakað til að hægt sé að meta afkastagetu fjarðarins án þess að gengið sé of nærri mikilvægu lífríki hans

Samþykktar ályktanir á Aðalfundi 2014

Ályktun um árgjald.
Stjórn Æðarræktarfélags Íslands leggur til við aðalfund 2014 að árgjald fyrir árið 2015 verði kr. 3.800.

Ályktun um styrki til deilda
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2014 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrk. Einnig er stjórninni heimilt að veita styrk til einstakra æðarbænda á þeim svæðum þar sem ekki er starfandi æðarræktardeild. Stjórn ÆÍ er falið að ganga frá samningum við formenn deildanna um framkvæmd tillögunnar. Styrkir verða greiddir gegn afriti af reikningum

Ályktun um refa- og minkaveiðar
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2014 hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða og til að hætta skattlagningu veiðanna í formi virðisaukaskatts. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra.

Aðalfundur 2014 felur stjórn Æðarræktarfélagsins í samráði við hlunnindaráðunaut, formenn deilda og sérstaka ráðgjafanefnd sem og með hliðsjón af sjónarmiðum sem fram koma á aðalfundi að rita umsögn um fyrirliggjandi drög að reglugerð um refa- og minkaveiðar fyrir hönd ÆÍ. Frestur til að skila inn umsögninni er til 12. september 2014.

Greinargerð:
Það er öllum ljóst að það þarf að halda fjölda refa og minka innan skynsamlegra marka ef ekki á illa að fara. Minkur er aðskotadýr í íslenskri náttúru og því ætti að stefna að því að fækka honum verulega, helst að útrýma honum. Ref hefur fjölgað mikið á síðasta áratug og er nú svo komið að vakta þarf flest landvörp um varptíma og er það mjög mjög tímafrekt og kostnaðarsamt. Sveitarfélög eru líka mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við veiðarnar. Þess vegna er nauðsynlegt að samræma reglur þeirra og best væri ef hægt væri að koma því svo fyrir að ekki skipti máli í hvaða sveitarfélagi dýrin væru veidd. Til að hvetja til veiða á ref og mink er brýnt að virðisaukaskattur af veiðunum fáist endurgreiddur í stað þess að nota veiðarnar sem tekjustofn fyrir ríkissjóð eins og nú er gert.