45. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2014

45. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn í Félagsheimilinu Árnesi, Trékyllisvík 23. ágúst 2014. 

Mættir 87 manns

  1. Fundarsetning

    Formaður félagsins, Guðrún Gauksdóttir setti fund og bauð fólk velkomið í Trékyllisvík. Þakkaði heimamönnum móttökurnar og lýsti ánægju yfir góðri mætingu sem sýnir hvaða hug fólk ber til Stranda. Guðrún stakk upp á Guðbjörgu Helgu sem fundarstjóra og Sólveigu Bessu sem fundarritara og var það samþykkt með lófataki. Guðrún sagði að hún mundi gefa kost á sér til formanns en óskaði eftir að heyra ef einhverjir ætluðu að gefa kost á sér til formanns.
    Guðbjörg tók við fundarstjórn og fór yfir dagskrá og praktísk atriði.

  2. Skýrslur og reikningar

    1. Skýrsla stjórnar
      Guðrún Gauksdóttir ræddi um að s.l. ár hafi verið aðeins rólegra hjá stjórn en árin áður vegna þess að búið væri að klára kynningarefnið sem töluverð vinna fór í síðastliðin ár. Hjá félaginu er hægt er að fá kynningarbæklingana á fjórum tungumálum og kynningarmyndin er einnig á fjórum tungumálum á sama diski, hún kostar 1250 kr. Heimasíðan er í vinnslu og endurskoðum, félagið hefur fengið Guðbjörg Helgu til að vinna í henni og koma í endanlegt form. Guðrún fór yfir hverjir væru í stjórn : Guðrún Gauksdóttir formaður, Björn Ingi gjaldkeri, Sólveig Bessa Magnúsdóttir ritari (var varamaður en komin inn fyrir Ástu sem hefur dregið sig í hlé), Erla Friðriksdóttir og Salvar Baldursson meðstjórnendur og Halla Steinólfsdóttir varamaður. Eiríkur Snæbjörnsson er búnaðarþingsfulltrúi.
      Helstu verkefni núna eru að dreifa kynningarefni og fylgjast með hvað er í gangi hverju sinni. Nú stendur yfir vinnsla við umsögn vegna reglugerðar um refa og minkaveiðar. Nýbúið er að taka á móti hóp frá Vega í Noregi sem kom hér í síðustu viku. Stefnt er að heimsækja Vega á næsta ári. Styrkur var veittur til rannsóknar á æðardúni. Einnig hefur félagið veitt styrki til æðarbænda v. vargeyðingar en fáar umsóknir hafa borist. Ítrekar að sækja þurfi um endurgreiðslu. Guðrún fór að lokum aðeins yfir veðurfar á landinu m.t.t. dúntekju og umhirðu æðarvarpa. Vorið var hagstætt og sumarið hlýtt, maí víðast góður en úrkoma var víða í júní sem hafði áhrif.
      Guðrún Gauksdóttir kynnti hugmynd Sigríðar Magnúsdóttur af skilti sem sýnir friðlýst æðarvarp en töluvert er um að ágangur fólks hafi truflandi áhrif í varplöndum.
    2. Reikningar
      Erla Friðriksdóttir lagði fram reikninga og greindi frá niðurstöðutölum ársreikninga tap ársins var 1.297.284og eigið fé 8.272.766. sjá ársreikning.Guðbjörg bar upp reikningana til samþykkis og voru þeir samþykktir. 
    3. Skýrsla hlunnindaráðgjafa
      Sigríður Ólafsdóttir hlunnindaráðgjafi flutti erindi um það sem hún hefur verið að vinna s.l. ár og kynnti reglugerð um refa og minkaveiðar. Verið er að endurskoða gæðavottunarskírteinið þar sem það þykir of stórt og ómeðfærilegt. Einnig er verið er að vinna að skilti til að nota þar sem vörp eru friðlýst. Sigríður er að safna hnitum vegna æðarvarpa fyrir Landhelgisgæsluna í þeim tilgangi að hægt sé að forðast að fljúga nálægt vörpum. Hún hvetur fólk til að senda sér eða gæslunni hnit. Sigríður fór í gegnum friðlýsingarferli á æðarvörpum en gögnum s.s. loftmynd eða teikningu er og komið til sýslumanns á hverju svæði og kostar friðlýsing 8.000. Sigríður fór í gegnum breytingar á reglugerð v. veiða á ref og mink sem voru send út til ýmissa aðila m.a. æðarræktarfélagsins til umsagnar.
      Orðið gefið laust um reglugerðina:
      Konráð Eggertsson taldi að þyrfti að skoða hana alvarlega og gera margar athugasemdir. Lagði til að tilnefna nefnd í málið.
      Guðrún Gauks kynnti tillögu stjórnar vegna aðkomu að þessum reglugerðarbreytingum, sjá hér síðar í fundargerð undir „tillögur“
      Pétur Guðmundsson sagði að sér sýnist að nú stefni í það að allir peningarnir fari í skriffinnsku. Hann taldi að þegar ætti að fara henda pening í að finn út hvað tófan æti væri allt komið í vitleysu. Páll Hersteinsson hefði bara átt eitt orð yfir þetta hún væri alæta. Nefndi að tófan æti allan smáfugl og erfitt sé því að meta tjónið eins og farið er fram á í reglugerðinni – hvað kostar smáfuglinn-. Talaði um að ferðamenn sæju muninn þar sem tófan er unnin hvað fuglalíf væri meira. Hann taldi að við (hagsmunaaðilar) þyrftum að stjórna ef við ættum að borga veiðarnar og að þá viljum við allan peninginn.
      Matthías Lýðsson, þakkaði stjórn skýrslu og framlagða reikninga, ánægður með hugmyndir um skiltagerð f. friðlýsingar. Benti á að gott væri að hafa stimpil lögreglustjóra á skiltum, það sýndi meiri þunga. Hvað varðar útburð á hræjum telur hann nú þegar óheimilt að bera út hræ/æti því það megi ekki henda lífrænum úrgangi og það þurfi því ekki fleiri reglur þar að lútandi. Varpaði fram spurningunni hvort fuglasöngurinn yrði metinn til fjár. Telur að mörg gæði náttúrunnar verði ekki metin til fjár. Nefndi að ef Umhverfisstofnun treysti sér ekki til að meta fjárhagstjórn hvort ætti þá varpa því yfir á sveitafélögin. Telur að æðarræktarfélagið eigi að gera þær kröfur að á það fólk sé hlustað sem lifir og hrærist í þessu umhverfi þar sem þessi dýr (refurinn) valda ójafnvægi í náttúrunni. Matthías telur að bændur eigum að koma fram sem verndarar lífríkisins á Íslandi, snúa dæminu við, það eru þeir sem vilji verja og vernda líffræðilega fjölbreytni, óvinirnir eru Umhverfisstofnum og Náttúrufræðistofnun. Munurinn er svo augljós þar sem refur er veiddur. Telur ekki hægt að meta tjón sem ekki hefur orðið. Andstyggilegur misskilningur sem skín víða í gegn, er að veiðimenn hafi ánægju af veiðum. Hann er hrædd um að peningarnir fari í skriffinnsku. Friðland er öfugmæli. Þessa reglugerð má leggja til hliðar.
      Guðbrandur Bassastöðum tók undir orð Konráðs um að búa til kröftuga tillögu frá fundinum. Nefndi að minkur væri líka mikill skaðvaldur í lífríkinu og vill að landið verði hreinsað af mink. Leggur til að sett yrði nefnd á fundinum til að búa til tillögu.
      Sigríður Ólafsdóttir svaraði Matthíasi um að minkur væri friðaður fyrir ofan ákv. línu.
  3. Erindi

    1. Erla Friðriksdóttir/Thomas Holm Carlsen: Rannsóknir á æðarfugli.
      Erla Friðriksdóttir hljóp i skarðið fyrir Thomas Holm sem forfallaðist. Erla sagði að Thomas hefði fengið styrk til rannsóknarinnar en hún felst í að bera saman íslenskan og norskan dún. Dúnninn verður hreinsaður með sama hætt og síðan verða gerðar mælingar á eiginleika dúnsins með það að markmiði að finna út hvað valdi því að dúnninn sé svo góður sem talið er. Það sem rannsakað verður er fylling dúnsins varmaviðnám (einangrunargildi) og samloðun, einnig hvernig dúnninn er frábrugðinn öðrum dún. Niðurstöður verða kynntar síðar.
    2. Valgeir Benediktsson, Samfélag og hlunnindi á Ströndum.
      Valgeir sem er búsettur í Árneshreppi sagði frá búsetuþróun á svæðinu en hér var fjölbýlt á árum áður en fámennt væri hér nú. Nú eru 57 sem eiga lögheimili í Árneshreppi en á vetrum eru kannski 40 manns á svæðinu en margfaldast á sumrin, nú er búskapur á 9 bæjum. Samfélagið hefur flest það sem samfélag þarf, verslun, skóla, sundlaug og kirkjur. Mikil hlunnindi eru á svæðinu. Mikill rekaviður er á sumum jörðum en væri misskipt samt eftir legu jarða, selveiði væri á nokkrum jörðum og dúntekja einnig. Árneshreppsbúar hafa nýtt hlunnindin og reynt að halda þeim við eins og þeir geta. Valgeir var með skemmtilega frásagnir af æðarvörpum og æðarbændum.
    3. Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir: Niðurstöður samanburðarkönnunar á Íslandi og Noregi um æðarrækt. Hér verður þessu erindi ekki gerð frekari skil en sjá má skýrsluna í heild sinni inn hér „Íslensk-norsk könnun um æðarrækt“.

      Hádegisverðarhlé

    4. Erla Friðriksdóttir: Sölu- og markaðsmál
      Erla fór yfir útflutningstölur á æðardún frá 2008. Þar kom fram að síðustu fjögur ár hafa verið flutt út um 3 tonn á ári en á þessu ári er búið að flytja út um 400 kg. Útflutningsverð hefur farið frá kr. 107.714.- upp í kr. 193.049.- á kílóið frá 2008 til 2014. Útflutningsverðmæti voru 600 miljónir 2013. Mest var flutt til Japan 60% og Þýskalands 30% en einnig til fleiri landa og er löndunum að fjölga. Nú er t.d.Hong Kong í fyrsta sinn á listanum yfir útflutningslönd. Engar tölur sjást um útflutning á æðardúnssængum.
  4. Fréttir og tillögur frá deildum

    1. Elva Hauksdóttir, Æðarræktarfélag Vesturlands í Mýra- og Borgafjarðarsýslu sagði að það hefði verið frekar blautt á en þeir sem náðu dún í fyrra lagi sluppu betur. Margir ungar frá hverri kollu. Refur og minkur valda skaða auk þess svartbakur og hrafn.
    2. Ásgeir Gunnar Jónsson, Æðarræktarfélag Snæfellinga í Snæfells- og hnappadalssýslu tekur undir orð Elvu þakkar stjórn fyrir samstarf og hlunnindaráðgjafa fyrir sín störf.
    3. Karl Kristjánsson, Æðarvé í Dalasýslu og A- Barðastrandasýslu segirr dúntekju yfirleitt minn en undanfarin ár vorið gott nýting þó lakari en oft áður. Mest kvartað yfir erninum sem fjölgar og hendur manna bundnar hvað varðar að verjast honum. Eitthvað um hrafnager. Refavinnslu vel sinnt. Deildin á hlut í báta og hlunnindasýningu á Reykhólum hún gengur vel og stöðug aukning, kaffihús og upplýsingarmiðstöð. Líst vel á hugmyndir um skilti til að merkja æðarvörp.
    4. Salvar Baldursson, Dúnland í V- Barðastrandasýslu og Ísafjarðarsýslum segir misjafnt gengi, dreift svæði t.d. gott í Dýrafirði og Önundarfirði en verra í djúpinu. Refurinn og minkurinn að pirra fólk. Ekki búið að halda aðalfund, verður í haust
    5. Pétur Guðmundsson, Æðarverndarfélag Strandasýslu segir þau hafa haldið fund í vor allir mættu þ.e. fjögur. Minnkandi varp sérstaklega norðan til, vantar inn árganga. Góður árangur í minkavinnslu. Ber mikið núna á haferni hann veldur miklum skaða og fylgir honum fuglager þ.e. svartbakur og hrafn fylgja í kjölfarið. Sæmilega þurrt og gott a.m.k. fyrri hlutann.
    6. Helgi Pálsson, Æðarræktarfélaga Vestur Húnavatnssýslur í Vestur Húnavatnssýslu segir varp með ágætum. Refur í öllum landvörpur hrafn og minkur með minnsta móti, betur sé gengið um urðunarstaði. Varpið þurrt framan af, meira um fúlegg í hreiðrum. Varp eitthvað nálægt 20% minna en í fyrra. Núna vantar orðið marga árganga inní. Í júníbyrjun fórust margir æðarungar í brimverði. Aðalfundur haldinn 20 ágúst. Þakkaði stjórn fyrir sín störf.
    7. Sigurður Guðjónsson, Æðarverndarfélag N-Vesturlands í A-Húnavatnssýslu og Skagafirði sagði hafa verið bleytutíð en gekk annars vel. Tófugengd með eindæmum sem hefur valdið miklum skaða. Benti á nauðsyn þess að samræma refaveiðar. Ennþá sleppur minkur úr búrum spurning hvort hann verði ekki stærri og verri?
    8. Æðarræktarfélag Eyjafjarðar og Skjálfanda – Enginn mættur
    9. Æðarræktarfélag Norð- Austurlands – Enginn mættur
    10. Æðarræktarfélag Austurlands – Enginn mættur en bað fyrir kveðju
    11. Æðarræktarfélag Austur Skaftafellsýslu -Enginn mættur
  5. Kosningar

    1. Formaður. Guðrún Gauksdóttir gaf kost á sér engin önnur framboð komu svo hún var endurkjörin með lófataki.
    2. Skoðunarmaður reikninga. Davíð Gíslason gaf ekki kost á sér til endurkjörs, Ásgeir Gunnar Jónsson var kjörinn skoðunarmaður reikninga í hans stað
  6. Tillögur
    1. Ályktun um árgjald.
      Stjórn Æðarræktarfélags Íslands leggur til við aðalfund 2014 að árgjald fyrir árið 2015 verði kr. 3.800.
      Samþykkt samhljóða
    2. Ályktun um styrki til deilda
      Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2014 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrk. Einnig er stjórninni heimilt að veita styrk til einstakra æðarbænda á þeim svæðum þar sem ekki er starfandi æðarræktardeild. Stjórn ÆÍ er falið að ganga frá samningum við formenn deildanna um framkvæmd tillögunnar. Styrkir verða greiddir gegn afriti af reikningum
      Umræður sköpuðust vegna þess ákvæðis í ályktuninni að einstakir æðarbændur geti sótt um styrk án þess að fara í gegnum félag. Einhverjir töldu það jafnvel geta hamlað stofnun deilda. Nokkrir tóku til máls vegna þess en tillagan var þó samþykkt óbreytt.
      Samþykkt samhljóða
    3. Ályktun um refa og minkaveiðar
      Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2014 hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða og til að hætta skattlagningu veiðanna í formi virðisaukaskatts. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra.
      Aðalfundur 2014 felur stjórn Æðarræktarfélagsins í samráði við hlunnindaráðunaut, formenn deilda og sérstaka ráðgjafanefnd sem og með hliðsjón af sjónarmiðum sem fram koma á aðalfundi að rita umsögn um fyrirliggjandi drög að reglugerð um refa- og minkaveiðar fyrir hönd ÆÍ. Frestur til að skila inn umsögninni er til 12. september 2014.
      Greinargerð:
      Það er öllum ljóst að það þarf að halda fjölda refa og minka innan skynsamlegra marka ef ekki á illa að fara. Minkur er aðskotadýr í íslenskri náttúru og því ætti að stefna að því að fækka honum verulega, helst að útrýma honum. Ref hefur fjölgað mikið á síðasta áratug og er nú svo komið að vakta þarf flest landvörp um varptíma og er það mjög tímafrekt og kostnaðarsamt. Sveitarfélög eru líka mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við veiðarnar. Þess vegna er nauðsynlegt að samræma reglur þeirra og best væri ef hægt væri að koma því svo fyrir að ekki skipti máli í hvaða sveitarfélagi dýrin væru veidd. Til að hvetja til veiða á ref og mink er brýnt að virðisaukaskattur af veiðunum fáist endurgreiddur í stað þess að nota veiðarnar sem tekjustofn fyrir ríkissjóð eins og nú er gert.
      Erla kvað sér hljóðs stakk upp á að tilnefnd yrði nefnd til að vera stjórn til halds og trausts. Reynir nefndi að ómögulegt sé að samræma aðgerðir
      Upphaflegu tillögu var örlítið breytt m.t.t. þess að lagt var til að stjórn og ráðunautur hefði nefnd sér til aðstoðar við að semja umsögn um reglugerðina.
      Ályktunin var samþykkt með þorra greiddra atkvæða en þrír greiddu atkvæði á móti.
      Reynir Bergsveinsson gerði grein fyrir atkvæði sínu lýsti vanþóknun sinni á reglugerðinni og vildi að farið yrði fram á frestun á henni.
  7. Önnur mál

    Pétur Guðmundsson las upp bréf frá sem honum hafði borist um minnka og refaveiðar.
    Matthías Lýðsson hvað sér hljóðs um hrafnsmynd á vegg samkomuhússins hann vildi beina því til heimamanna að vel mætti vera hér mynd af geðþekkari fugli.
    Einar Óskarsson vildi bæta við um minnka og refaveiðar að í Borgarbyggð væri kvóti á veiðum.
    Guðmundur Wium nefndi að það þyrfti að samræma aðgerðir félaga og hagsmunaaðila í refa og minkaveiðum og vill að félagið taki á þessu af mikilli alvöru.
    Guðrún Gauks tók undir orða Guðmundar og taldi að nú þyrfti að vinna í málefnum minka og refaveiða af alvöru.
    Sigríður Ólafsdóttir sagði að það yrði talað við fleiri hagsmunaaðila.
    Guðbrandur talaði um hrafninn og sagði sögu af bónda í sveitinni.

Fundi slitið kl. 15:00

Skoðunarferð

Nú var komið að skoðunarferðinni sem allir biðu eftir. Lagt var á stað kl 15:20, á níunda tug mann voru í ferðinni, farið var á þremur rútukálfum og nokkrum jeppum. Ferðinni var heitið í Ingólfsfjörð og Ófeigsfjörð. Þessi tæplega 20 km. leið úr Trékyllisvík er seinfarin á vegum sem eru nánast troðningar eða jeppavegir. Heimamenn og staðkunnugir leiðsögðu í rútunum þeir Pétur Guðmundsson, Ásgeir Gunnar Jónsson og Valgeir Benediktsson. Ekið var beint í Ófeigsfjörð þar sem hópurinn naut gestrisni óðalsbænda þar, Péturs og Margrétar. Þar eiga þau sannkallaða sumarhöll reista úr rekaviði. Pétur fræddi gesti um staðinn og svaraði spurningum. Góðgjörðir voru fram bornar bæði í föstu formi og fljótandi m.a. lostalengjur frá Matthíasi Lýðssyni og Hafdísi Sturludóttur. Nú var haldið til baka til Ingólfsfjarðar þar sem stoppað var á Eyri, gömlu síldarsöltunarplássi. Þar sagði Ásgeir Gunnar frá sögu staðarins sem svo sannarlega er merk og má muna sinn fífil fegri er fjörðurinn var fullur af athafnafólki og söltun á fimm stöðum í þessum litla firði. Að lokum var svo haldið heim í Árnes aftur en þar beið kvöldverður.

Kvöldverður – kvöldvaka

Kvöldverður var framreiddur í Árnesi en Það var Eva í Djúpuvík ásamt sínu fólki sem sá um að enginn stóð svangur upp frá borðum. Súpa, lambalæri með tilheyrandi ásamt dýrindis gulrótarköku og kaffi.

Undir borðhaldi voru tveir dagskrárliðir:

Björk Pétursdóttir frá Hrauni í Fljótum sýndi vörur sem hún hannar og framleiðir undir vörumerkinu „Hrauna“. Sýndi hún m.a sjöl, trefla, húfur og sokka.

Sveinn Kristinsson frá Dröngum og fyrrum skólastjóri en nú formaður Rauða kross Íslands, flutti skemmtilegar frásagnir af Strandafólki í bland við annað léttmeti.

Fundarritari:  Sólveig Bessa Magnúsdóttir