Aðalfundir Æðarræktarfélags Íslands fyrir árin 2020 og 2021

Aðalfundir Æðarræktarfélags Íslands 2020 og 2021

Ágæti félagsmaður.

Aðalfundir Æðarræktarfélags Íslands fyrir árin 2020 og 2021 verða haldnir laugardaginn 6. nóvember 2021 í Nauthól, Nauthólsvegi 106, 101 Reykjavík. Fundahald hefst kl. 10.00 og lýkur kl. 15.00, sbr. meðfylgjandi dagskrá. Fundirnir verða aðgengilegir á Teams fyrir félagsmenn en ekki verður hægt að greiða atkvæði á netfundi (nánari upplýsingar verða sendar síðar).

Aðalfundirnir verða með óhefðbundnu sniði þar sem aðalfundir 2020 og 2021 fara fram samhliða og þá skal taka afstöðu til þess hvort Æðarræktarfélag Íslands sem slíkt verði lagt niður og sameinað Bændasamtökum Íslands sem búgreinadeild æðarræktar. Stjórn telur því ástæðu til að gera í aðalfundaboði ítarlega grein fyrir fyrirkomulagi fundanna. Lagt er til að á aðalfundi 2020 verði einungis ársreikningur tekinn til umræðu og afgreiðslu og öðrum liðum frestað til aðalfundar 2021.

Meginverkefni aðalfunda 2020 og 2021:

  • Afgreiðsla ársreikninga
  • Skrifleg atkvæðagreiðsla um sameiningu við Bændasamtök Íslands. Í 9. gr. laga ÆÍ þarf aukinn meirihluti fundarmanna að samþykkja breytingar á lögunum. Framhald fundarins ræðst af niðurstöðu kosninga um hvort Æðarræktarfélagið sameinist Bændasamtökunum sem búgreinadeild eða ekki.
    • Ef niðurstaða atkvæðagreiðslu er sú að sameinast Bændasamtökum Íslands sem búgreinadeild æðarræktar þá er lagt til að aðalfundi verði frestað og núverandi stjórn ÆÍ veitt umboð til að starfa fram að framhaldsaðalfundi og gera m.a. nauðsynlegar ráðstafanir til aðlögunar að kerfisbreytingunni. Á framhaldsaðalfundi yrði ný stjórn kjörin í samræmi við samþykktir Bændasamtaka Íslands
    • Ef niðurstaða kosninganna verður sú að af sameiningu við Bændasamtökin verði ekki þá verður gengið til kosninga um stjórn Æðarræktarfélagsins: Kjörinn verður nýr formaður félagsins, tveir stjórnarmenn og varamaður. Jafnframt verða kjörnir skoðunarmenn reikninga. Þá er lagt til að fundi verði frestað og lögð verði fyrir framhaldsaðalfund endurskoðuð lög Æðarræktarfélags Íslands.

Greiðslubeiðni vegna árgjalda hefur verið send í heimabanka félagsmanna.
Ekki verður tekið við greiðslu félagsgjalda á fundinum.
Fyrirspurnir og athugasemdir berist á netfangið info@icelandeider.is
Félagsmenn eru hvattir til að senda inn ný eða breytt heimilisföng, netföng og símanúmer á netfangið info@icelandeider.is

Vegna Covid19, veitinga og skipulags í fundarsal eru félagsmenn vinsamlega beðnir um að skrá þátttöku í síðasta lagi fimmtudaginn 4. nóvember á info@icelandeider.is eða í síma 867 0765 (Guðrún).

  1. október 2021.
    Fyrir hönd stjórnar ÆÍ,
    Guðrún Gauksdóttir, formaður

 

Aðalfundir Æðarræktarfélags Íslands 2020 og 2021
haldnir í
Nauhól, Nauthólsvegi 106, Reykjavík
6. nóvember 2021
kl. 10.00 – 15.00

Dagskrá

Kl. 10:0010:30
Fundarsetning. Aðalfundur 2020. Tilnefning fundarstjóra og fundarritara. Ársreikningur lagður fram til samþykktar. Fyrirspurnir og umræður. Öðrum liðum aðalfundar 2020 frestað til aðalfundar 2021.

Kl. 10.30-12.30
Aðalfundur 2021 settur. Skýrslur stjórnar. Ársreikningur. Sölu- og markaðsmál.
Kristinn Björnsson v erkefnastjóri kynnir samstarf Íslandsstofu og  ÆÍ.

Kl. 12:30 – 13.00 Léttur hádegisverður

Kl. 13:0015:00
Kynning, umræður og skrifleg atkvæðagreiðsla um sameiningu ÆÍ við BÍ

  • Ef niðurstaða atkvæðagreiðslu er sú að sameinast Bændasamtökum Íslands sem búgreinadeild æðarræktar þá er lagt til að aðalfundi verði frestað og núverandi stjórn ÆÍ veitt umboð til að starfa fram að framhaldsaðalfundi og gera m.a. nauðsynlegar ráðstafanir til aðlögunar að kerfisbreytingunni. Á framhaldsaðalfundi yrði ný stjórn kjörin í samræmi við samþykktir Bændasamtaka Íslands
  • Ef niðurstaða atkvæðagreiðslu er sú að af sameiningu við Bændasamtök Íslands verði ekki þá verður gengið til kosninga um stjórn Æðarræktarfélagsins: Kjörinn verður nýr formaður félagsins, tveir stjórnarmenn og varamaður. Jafnframt verða kjörnir skoðunarmenn reikninga. Þá er lagt til að fundi verði frestað og lögð verði fyrir framhaldsaðalfund endurskoðuð lög Æðarræktarfélags Íslands.

Kl. 15:00
Fundarslit

Aðalfundir ÆÍ 2020 og 2021

Ágæti félagsmaður.

Laugardaginn 6. nóvember n.k. verður haldinn aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands fyrir árin 2020 og 2021 og verður dagskrá ásamt fundarboði send út síðar.

Þar sem aðalfundi fyrir 2020 var frestað verður fyrirkomulag þannig að haldnir verða aðalfundir fyrir árin 2020 og 2021. Á fundinum verða, auk kosninga til formanns og tveggja stjórnarmanna og varamanns, afgreidd brýnustu mál. Skýrsla stjórnar verður kynnt. Ársreikningar verða lagðir fram til kynningar og samþykktar. Þá verður að lokinni kynningu og umræðu gengið til kosninga um sameiningu Æðarræktarfélagsins við Bændasamtök Íslands en á Búnaðarþingi í júní s.l. voru samþykktar breytingar á félagskerfi samtakanna.

Það er ljóst að hvor leiðin sem aðalfundur ÆÍ  velur, þ.e. að sameinast Bændasamtökunum sem búgreinadeild æðarræktar eða að standa utan þeirra sem sjálfstætt félag, mun hafa talsverðar breytingar í för með sér fyrir félagið.  Æðarræktarfélagið sem slíkt hefur frá stofnun þess verið aðili að Bændasamtökunum.  Í megindráttum felur sameining við Bændasamtökin í sér að Æðarræktarfélag Íslands sem slíkt verður lagt niður og í stað verður stofnuð búgreinadeild æðarræktar innan Bændasamtakanna. Æðarbændur skrá sig þá sem félagsmenn í Bændasamtökin og greiða félagsgjöld þangað beint. Það skal tekið fram að ef að sameiningu verður þá mun Æðarræktarfélagið halda núverandi sjóðum sínum sérgreindum á kenntiölu félagsins (eins konar skúffufélag) og renna þeir ekki til Bændasamtakanna. Ef aðalfundur ÆÍ velur að standa utan Bændasamtakanna þarf að gera tilteknar breytingar á samþykktum félagsins. Það verður því að líkindum hlutverk framhaldsaðalfundar að leggja fram nauðsynlegar breytingar á samþykktum félagsins í ljósi niðurstöðu kosninganna hvor leiðin sem valin verður.

Frekari upplýsingar verða sendar síðar og jafnframt geta félagsmenn beint fyrirspurnum til stjórnar á netfang info@icelandeider.is

Á aðalfundinum (2020 og 2021) hafa þeir atkvæðisrétt sem greitt hafa félagsgjöldin.

Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér samþykktir BÍ og áherslur Bændasamtaka Íslands.

Með kveðju,

Stjórn Æðarræktarfélags Íslands

Námskeið fyrir þá sem eru áhugafólk um æðarrækt – Fjarkennsla

Æðarrækt og æðardúnn
Námskeið fyrir þá sem eru áhugafólk um æðarrækt og vilja öðlast réttindi eða viðhalda réttindum sem dúnmatsmenn

Í samstarfi við Æðarræktarfélag Íslands og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stendur Endurmenntun LBHÍ fyrir námskeiði ætlað þeim sem vilja öðlast réttindi eða viðhalda réttindum sínum sem dúnmatsmenn skv. reglugerð um gæðamat á æðardúni nr. 350/2011. Námskeiðið hentar einnig þeim sem hafa almennan áhuga á æðarrækt og vilja kynna sér lifnaðarhætti og sérstöðu æðarfuglsins hér á landi.

Námskeiðið er ætlað öllu áhugafólki um æðarrækt, m.a. þeim sem hafa hugleitt að hefja æðarrækt og þeim sem starfað hafa á undanþágu frá ráðuneytinu.

Farið er yfir lifnaðarhætti, eiginleika og sérstöðu æðarfuglsins, hvernig eigi að koma upp varpi og ferilinn frá dúntekju til sölu dúnsins. Fjallað er um þær óskir og kröfur sem neytandinn gerir til æðardúns og hvernig þörfum er fullnægt og litið á þær kröfur sem gerðar eru til gæðamats á æðardúni og lagarammann sem búgreinin býr við.

Á námskeiðinu gefst tími til umræðna og fyrirspurna auk verklegrar þjálfunar við flokkun og gæðamat á æðardúni.

Tími: Lau. 10. apríl. Kl. 10:00-16:00
Staður: Vegna sóttvarnarreglna sem eru í gildi verður námskeiðið í fjarkennslu. Notast verður við Teams. Þeir sem vilja verða sér út um dúnmatsréttindi fá verklega kennslu í dúnmati í staðarnámi þriðjudaginn 20. apríl kl. 17-18 hjá LBHÍ á Keldnaholti í Reykjavík.

Kennsla: Ýmsir sérfræðingar
Verð: 29.000 kr. (fræðsla, kaffi og hádegismatur)

Nánari upplýsingar og dagskrá á vef Endurmenntunar LBHÍ

Aðalfundur 2021 – Breytt tíma- og staðsetning

Kæri félagi í Æðarræktarfélagi Íslands!

Af óviðráðanlegum orsökum verður ekki unnt að halda aðalfund félagsins í Skagafirði í lok ágúst eins og fyrirhugað var. Þess í stað verður aðalfundur ÆÍ 2020/2021 haldinn í Reykjavík laugardaginn 6. nóvember n.k. Nánari upplýsingar verða sendar út síðar.

Ef næg þátttaka næst er fyrirhugað annað námskeið um æðarrækt og æðardún laugardaginn 10. apríl n.k. Námskeiðið er m.a. ætlað þeim sem hafa í hyggju að sækja um eða endurnýja réttindi til að starfa sem dúnmatsmenni. Skilyrði til að öðlast slíkt leyfi er m.a. að hafa sótt námskeið um dúnmat hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Sjá nánar á vef LBHÍ https://endurmenntun.lbhi.is/aedardunn

Stjórnin

Aðalfundur 2021 í Skagafirði

Reykjavík, 26. febrúar 2021

Ágæti félagi í Æðarræktarfélagi Íslands!

Ekki varð af aðalfundi ÆÍ vegna Covid-19 faraldursins eins og kom fram í bréfi frá stjórn þann 5. nóvember s.l. Aðalfundur félagsins verður haldinn í Skagafirði helgina 28. – 29. ágúst n.k. (sameinaður aðalfundur áranna 2020 og 2021) nema sóttvarnarreglur standi því í vegi.
Stjórnin hefur unnið að hinum ýmsu verkefnum sem liggja fyrir og munum við upplýsa félagsmenn eftir því sem þeim vindur fram.

Gagnvirkur kortagrunnur yfir æðarvarp á Íslandi er nú tilbúinn, sjá slóðina http://map.is/aedur/
Stjórnin hvetur félagsmenn til að kynna sér grunninn og senda athugasemdir sínar á info@icelandeider.is eða hafa samband við verkefnisstjóra kortagrunnsins, Margréti Rögnvaldsdóttur í síma 699 6571.

Dúnmatsnámskeiðinu sem var frestað í haust verður haldið 6 .mars n.k. https://endurmenntun.lbhi.is/aedardunn/

Árgjald til félagsins er óbreytt fyrir 2021 kr. 7000 og verður stofnuð krafa í heimabanka félagsmanna fljótlega.

Stjórnin

Aðalfundur ÆÍ 2020 – Frestun

Ágæti félagsmaður.

Í ljósi hertra sóttvarnarreglna ákvað stjórn Æðarræktarfélags Íslands að fresta fyrirhuguðum aðalfundi félagsins. Boðað verður til aðalfundar um leið og reglur veita nægjanlegt svigrúm til fundarhalds.  Stjórnin hefur ótrauð haldið áfram að vinna að þeim verkefnum sem ákveðið var að setja í forgang á síðasta vinnufundi hennar, en félagsmenn fengu ítarlegt yfirlit yfir þau verkefni í bréfi í júni sl.

Það ber helst til tíðinda að Æðarræktarfélagið er komið í samstarf við Íslandsstofu um markaðssetningu á æðardúni og telur stjórn þetta samstarf þýðingarmikið til að leita leiða til að vekja athygli á þessari einstöku afurð og til að tryggja stöðugleika á markaði. Íslandsstofa undibýr vinnufundi m.a. með seljendum og útflutningsaðilum æðardúns sem og formönnum deilda ÆÍ. Þau verkefni sem stjórn hefur verið að vinna að eru mikilvæg fyrir þetta samstarf. Hér er fyrst og fremst um að ræða gagnvirka kortagrunninn sem er að komast í gagnið. Einnig  umsóknin um verndað afurðaheiti en hafið er  lokaátak við að koma henni til afgreiðslu. Þá er í gangi vinna við endurskoðun á vottunarkerfi æðardúns í samráði við Atvinnuvegaráðuneytið, Staðlaráð Íslands og Icert. Þá má að lokum nefna uppfærslu á heimasíðu og kynningarefni félagsins í samræmi við ábendingar Íslandsstofu.

Vinsamlegast sendið fyrirspurnir á info@icelandeider.is eða hafið samband í síma 8670765.

Stjórn Æðarræktarfélags Íslands

Æðarrækt og Kríur

Árið 2019 vann Eliza-Jane Morin, rannsókn á áhrifum athafna og viðhorfa æðarbanda á varp- og varpárangur kría. Rannsóknina gerði Eliza sem hluta af meistararitgerð sinni í haf- og strandsvæðastjórnun hjá Háskólasetri Vestfjarða, undir enska heitinu Farming for Conservation: How Eiderdown Farmers’ Practices and Perspectives Impact Breeding Arctic Terns in Iceland, sem hún og varði í maí 2020.

Leiðbeinendur Elizu voru þær Freydís Vigfúsdóttir, Háskóla Íslands og Catherine Chambers, Háskólasetri Vestfjarða. Við rannsóknina fékk Eliza hjálp frá Æðaræktarfélagi Íslands, sem m.a sendi út spurningakönnun hennar á félagsmenn sína.

Vorið 2020, fengu Háskóli Íslands og Háskólasetur Vestfjarða styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna til að halda áfram rannsóknum á tengslum kría og æðarvarpa undir heitinu Gildi kríuvarpa fyrir æðabændur og æðadúnsrækt. Til verksins fengu leiðbeinendurnir Freydís og Catherine nemendurna, Sigurlaugu Sigurðardóttur og Hjörleif Finnsson til liðs við sig. Sigurlaug, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, tók að sér líffræðilega þátt verkefnisins en Hjörleifur Finnsson, meistaranemi í haf og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, vann við félagsfræðilega hluta rannsóknarinnar.

Hér má lesa skýrslu Sigurlaugar og Hjörleifs.

 

Aðalfundur ÆÍ 2020

Í ljósi óvissu um framvindu Covid – 19 hefur stjórn Æðarræktarfélags Íslands ákveðið að fresta aðalfundi félagsins fram í nóvember og verður fundurinn haldinn í Reykjavík. Þess í stað er aðalfundur, í samráði við fyrirsvarsmann Æðarræktarfélags Norðvesturlands, fyrirhugaður í Skagafirði árið 2021. Nánari upplýsingar verða sendar út til félagsmanna síðar.

Drög að frumvarpi

150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal x — x. mál.
Stjórnarfrumvarp.

 

Frumvarp til laga

um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og villtra spendýra.

Frá umhverfis– og auðlindaráðherra.

 

I. KAFLI

Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

  1. gr.

Markmið.

Markmið laga þessara eru eftirfarandi:

  1. Stuðla að því að villtir fuglar og villt spendýr fái að þróast eftir forsendum náttúrunnar.
  2. Tryggja friðun, verndun, viðgang og velferð villtra fugla og villtra spendýra.
  3. Tryggja að ekki sé gengið á búsvæði villtra fugla og villtra spendýra í þeim mæli að það ógni viðgangi þeirra og líffræðilegri fjölbreytni.
  4. Tryggja að verndarstöðu villtra fugla og villtra spendýra sé ekki spillt með umsvifum manna eða framandi lífvera sem ógnað gætu viðgangi þeirra.
  5. Tryggja að veiðar og önnur nýting á villtum dýrum sé sjálfbær og byggi á vísindalegum, faglegum og haldbærum upplýsingum um stofnstærð, náttúruleg afföll, veiðiþol og veiði viðkomandi tegundar eða stofns.
  6. Tryggja veiðieftirlit og virka stýringu á veiðum þeirra villtu fugla og villtu spendýra sem lög þessi taka til.

 

  1. gr.

Gildissvið.

Ákvæði laga þessara taka til allra villtra fugla og villtra spendýra á íslensku landssvæði, í íslenskri landhelgi og innan efnahagslögsögu Íslands, (nema hvala og sela.)

 

  1. gr.

Skilgreiningar.

Merking orða og hugtaka í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim er sem hér segir:

  1. Afréttur: Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé, sbr. lög nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda þjóðlendna og afrétta.
  2. Almenningur í stöðuvatni:Sá hluti stöðuvatns sem er fyrir utan 115 m breitt vatnsbelti (netlög) eignarlands þeirra sem að vatninu liggja.
  3. Ábyrgðartegund: Tegund sem Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á vegna þess að um eða yfir fimmtungur stofnsins á Evrópu- eða heimsvísu heldur hér til að staðaldri eða hluta úr ári.
  4. Ágangssvæði:nánar skilgreint svæði þar sem ágangur hreindýra er svipaður á öllu svæðinu.
  5. Ágeng framandi lífvera: Framandi lífvera sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytnia. með því að fækka eða útrýma náttúrulegum tegundum með samkeppni, afráni, sýkingum og breytingum á staðbundnum vistkerfum og virkni þeirra.
  6. Búsvæði:svæði þar sem tegund eða stofn getur þrifist svo sem varplönd og fæðusvæði eða   farleið.
  7. Dýravernd villtra dýra: Verndun villtra dýra gegn þjáningu sem orsakast af mannlegum athöfnum.
  8. Eggjataka: Þegar menn taka egg úr hreiðrum til átu eða söfnunar.
  9. Eignarland: Jörð eða annað landsvæði sem er háð beinum eignarrétti einstaklings eða lögaðila, þar með talið sveitarfélag eða ríki, þannig að eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
  10. Fartími fugla: Sá tími að vori eða hausti þegar fuglar eru á leið milli varp- og vetrarheimkynna, að meðtöldum þeim tíma sem þeir dvelja á viðkomustöðum til að byggja upp forða.
  11. Framandi lífvera: Tegund, undirtegund eða lægri flokkunareining, svo sem afbrigði, kyn eða stofn, þ.m.t. lífhlutar, kynfrumur, fræ, egg eða dreifingarform sem geta lifað af og fjölgað sér, sem menn hafa flutt vísvitandi eða óvitandi út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði.
  12. Friðun:Bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr viðkomu dýra af tiltekinni tegund eða stofni. Friðun tekur einnig til eggja og hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar, nema annað sé tekið fram og eftir því sem við á til tilgreindra búsvæða eða lykilbúsvæða viðkomandi tegundar.
  13. Friðlýst svæði: Þjóðgarðar, friðlönd, náttúruvé, náttúruvætti, landslagsverndarsvæði, fólkvangar, óbyggð víðerni eða verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda á grundvelli náttúruverndarlaga eða önnur svæði sem njóta sambærilegrar verndar eða friðlýsingar á grundvelli sérlaga.
  14. Fuglabjarg: Sjófuglabyggð í sjávarhömrum, einkum byggðir svartfugla og ritu en einnig varpstöðvar súlu, fýls og máfa.
  15. Fuglabyggð: Staður þar sem fuglar verpa þétt og oft margir saman.
  16. Fuglar í sárum: Fuglar sem fellt hafa flugfjaðrir sínar og eru ófleygir meðan nýjar fjaðrir vaxa.
  17. Föngun: Að ná villtu dýri lifandi.
  18. Grenjatími:tímabilið 1. maí til 31. júlí.
  19. Hefðbundin hlunnindi: Hlunnindi sem landeigendur eða veiðirétthafar tiltekinna jarða eða landssvæða hafa haft af veiðum á villtum fuglum eða villtum spendýrum eða villtum fuglum eða nýtingu á dúni þeirra eða eggjum fyrir gildistöku laga nr. 64/1994 og hafa verið nýtt síðan.
  20. Hlunnindi af villtum dýrum: Æðardúntekja, eggjatekja, lundaveiðar í háf á varptíma og kópaveiðar.
  21. Hreiður: Blettur þar sem fugl verpir eggjum sínum, m.a. á bera jörð, í skál í hvers kyns undirlag, holur og glufur, þar á meðal í mannvirkjum, eða misjafnlega vandaða körfu úr ýmsum efnum.
  22. Hreiðurstæði: Varpstaðir fuglategunda er verpa á hefðbundnum stöðum og geta verið nýttir kynslóð fram af kynslóð, jafnvel í hundruð ára.
  23. Hreiðurstæði arna: Allir þeir staðir sem hafernir hafa orpið á.
  24. Landeigandi: Sá sem fer með beinan eignarrétt yfir eignarlandi. Hafi tiltekinn réttur landeiganda verið framseldur öðrum, t.d. ábúanda samkvæmt ábúðarlögum, eða veiðiréttur samkvæmt lögum þessum, telst sá aðili landeigandi samkvæmt lögum þessum.
  25. Líffræðileg fjölbreytni: Breytileiki meðal lifandi vera á öllum skipulagsstigum lífs, þar á meðal í vistkerfum á landi, í sjó og í ferskvatni. Hugtakið tekur til vistfræðilegra tengsla milli vistkerfa og nær til fjölbreytni innan tegunda og milli tegunda og vistkerfa.
  26. Lífveiðar: Að handsama villt dýr án þess að deyða það, s.s. vegna aðhlynningar, í rannsóknarskyni eða vegna merkinga.
  27. Lykilbúsvæði: Afmörkuð búsvæði sem geta verið breytileg í tíma og rúmi, og eru sérstaklega mikilvæg villtum dýrum. Búsvæði eru lykilbúsvæði ef a) finna má meiri þéttleika einstaklinga ákveðinnar tegundar eða stofns en gerist að jafnaði á öðrum búsvæðum eða ef b) líkamsástand, æxlunarárangur og/eða lífslíkur einstaklinga af tilteknum stofni tegundar, sem nýtir búsvæðið til varps og/eða viðhalds, er betri en þeirra einstaklinga af sama stofni sem nýta önnur búsvæði að jafnaði.
  28. Lykilstaðir: Afmörkuð svæði, t.d. tilteknar leirur og votlendi, þar sem reglulega má finna meira en 1% af skilgreindum stofni tegundar eða undirtegundar.
  29. Netlög:Hafsvæði 115 m út frá stórstraumsfjörumáli eignarlands eða 115 m út frá bakka stöðuvatns sem eignarland liggur að. Netlög fylgja einnig eyjum, hólmum og skerjum í sjó og stöðuvötnum.
  30. Nytjaveiðar: Að veiðibráð sé nýtt til átu eða afurðir hennar séu nýttar á annan hátt.
  31. Refagreni: Hefðbundnir staðir, notaðir árum, áratugum eða öldum saman af refum til að gjóta og ala upp yrðlinga, refagreni geta verið nokkrir tugir eða hundruð fermetra að flatarmáli
  32. Selalátur: Staðir þar sem selir kæpa og halda til með kópa sína.
  33. Sjálfbærar veiðar: Veiðar teljast sjálfbærar ef nýliðun stendur undir veiðum þannig að stofn nær að endurnýja sig reglulega og viðhalda þeirri stofnstærð og útbreiðslu sem náttúruleg takmörk setja.
  34. Stjórnunar- og verndaráætlun: Heildstæð áætlun sem unnin er um einstakar tegundir villtra fugla og villtra spendýra. Verndarhluti áætlunarinnar fjallar um og skilgreinir viðmiðunarstofnstærðir fyrir einstakar tegundir eða stofna villtra dýra. Áætlanirnar skulu m.a. byggðar á mati á stofnstærð, stofnþróun, ákjósanlegri verndarstöðu, útbreiðslu og viðkomu hlutaðeigandi tegundar eða stofns. Í stjórnunarhluta áætlunarinnar sem byggist á verndarhluta hennar, skal m.a. leggja til nauðsynlegar verndar- og stjórnunarlegar aðgerðir byggðar á verndaráætlun til að stuðla að ákjósanlegri verndarstöðu, ásamt tillögum um hvernig standa beri að nýtingu eða veiðum ef það á við og aðgerðum til þess að bregðast við tjóni.
  35. Stofn: Hópur lífvera sömu tegundar sem finnast á tilteknum stað og tíma og eru líklegri til að æxlast innbyrðis en með einstaklingum úr öðrum hópum.
  36. Stýring á stofnum villtra dýra:aðgerðir af opinberri hálfu er miða að því að hafa áhrif á útbreiðslu eða stærð tiltekins stofns villtra dýra.
  37. Tjón af völdum villtra dýra:fjárhagslegt tjón sem einstaklingar, lögaðilar eða aðrir verða fyrir, heilsufarslegt tjón fólks eða búfénaðar, ógnun við öryggi t.d. flugs eða tjón á náttúru landsins þegar um er að ræða framandi tegund.
  38. Varptími fugla: Tíminn frá því að fuglar búa sig undir varp með því að dvelja við varpstöðvar sínar, hefja tilhugalíf og huga að hreiðurgerð, þar til ungar verða fleygir og að öðru leyti sjálfbjarga.
  39. Válisti: Skrár yfir tegundir sem eiga undir högg að sækja eða eru taldar vera í útrýmingarhættu í tilteknu landi eða svæði.
  40. Veiðar:Að drepa villt dýr eða handsama það til að deyða. Þegar um er að ræða fuglaveiðar er einnig átt við eggjatöku.
  41. Veiðistjórnun: Kerfi sem felur í sér og samþættir a) opinbera stefnumótun, b) rannsóknir tengdar veiðistofnum, c) mat á veiðiþoli, d) veiðiráðgjöf, e) umsjón með og skipulagningu, stjórn og skráningu á veiðum, f) almenningsfræðslu og g) eftirlit.
  42. Verndun:Aðgerðir sem stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni tegunda og stofna þannig að þeir viðhaldist á náttúrulegum útbreiðslusvæðum sínum til langs tíma litið. Verndin felur í sér að veiðar eða aðrar aðgerðir, þar með talin skerðing á búsvæðum, lykilbúsvæðum eða lykilstöðum, sem haft geta áhrif á viðkomu eða vanhöld dýra af tiltekinni tegund eða stofni, sé hagað á þann hátt að þeim sé ekki stefnt í hættu.
  43. Villingur: Allir fuglar og spendýr sem fæðst hafa í haldi eða eru afkomendur slíkra dýra og framfleyta sér og æxlast í villtri eða hálfvilltri náttúru með eða án aðkomu mannsins. Til villinga teljast einungis þau dýr sem enginn getur sannað eignarrétt sinn á. Dæmi um villinga eru minkur, kanína og villiköttur.
  44. Villt dýr:Allir fuglar og spendýr, önnur en gæludýr og bústofn. Villingar teljast einnig til villtra dýra. Villt dýr, sem er handsamað og haft í haldi, telst áfram villt dýr
  45. Vistgerðir: Staðir eða svæði með ákveðnum einkennum, t.d. hvað varðar gróður- og dýralíf, jarðveg og loftslag.
  46. Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi, sbr. lög nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda þjóðlendna og afrétta.

II. KAFLI

Stjórnsýsla.

 

  1. gr.

Yfirstjórn.

Ráðherra fer með stefnumörkun og yfirstjórn mála er varða verndun, velferð og veiðar á villtum spendýrum og villtum fuglum samkvæmt lögum þessum.

 

  1. gr.

Stofnanir og hlutverk þeirra.

Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu vera ráðherra til ráðgjafar um framkvæmd laganna og gera tillögur varðandi verndun, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eftir því sem lög þessi mæla fyrir um eða ráðherra óskar sérstaklega eftir, auk þeirra verkefna sem þeim eru sérstaklega falin samkvæmt lögum þessum.

 

  1. gr.

Náttúrufræðistofnun Íslands.

Náttúrufræðistofnun Íslands rannsakar villta fugla og villt spendýr, vakta ástand þeirra, metur verndarstöðu og verndarþörf tegunda og gerir í framhaldi tillögur um friðun og verndun einstakra stofna, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Stofnunin setur upp vöktunaráætlanir fyrir fugla og spendýr í samvinnu við aðra vöktunaraðila, sér til þess að vöktun sé viðhaldið, tekur reglulega saman niðurstöður vöktunar og birtir.

Náttúrufræðistofnun Ísland vinnur válista yfir villta fugla og villt spendýr sem heyra undir lög þessi. Stofnunin uppfærir og birtir auk þess lista yfir ábyrgðartegundir villtra fugla og villtra spendýra sem Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á skv. alþjóðlegum samningum

Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur verndarhluta af heildstæðri stjórnunar- og verndaráætlun vegna einstakra tegunda eða stofna, sbr. 16. gr. laga þessara.

Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt að vinna að verkefnum samkvæmt þessari grein í samstarfi eða í samráði við náttúrustofur, háskóla eða rannsóknaraðila á hlutaðeigandi sviðum.

 

  1. gr.

Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun hefur umsjón og eftirlit með framkvæmd laga þessara. Umhverfisstofnun stjórnar aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á verndun tegunda, stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra og aðgerðum til að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum.

Umhverfisstofnun vinnur stjórnunarhluta stjórnunar- og verndaráætlana, sbr. 16. gr. laga þessara og hefur jafnframt umsjón með gerð og vinnslu áætlunarinnar í heild fyrir þær tegundir sem heyra undir lög þessi.

Umhverfisstofnun fer með veiðistjórnun, hefur umsjón með veiðum á villtum dýrum og villtum fuglum, sér um framkvæmd námskeiða og hæfnisprófa til undirbúnings veiðum á villtum fuglum og villtum spendýrum, veitir fræðslu og leiðbeiningar vegna nytjaveiða og aðgerða til varnar tjóni, sér um útgáfu veiðikorta og veiðileyfa og veitir tímabundnar undanþágur til veiða í því skyni að varna tjóni.

Umhverfisstofnun hefur með höndum eftirlit með framkvæmd veiða, sér um að taka saman veiðitölur, ásamt annarri söfnun upplýsinga um veiðar samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.

 

  1. gr.

Samráð við hagsmunaaðila.

Um stefnumótandi mál um friðun, verndun, og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum skal eftir því sem við á haft samráð við Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, hreindýraráð og áhuga- og hagsmunasamtök um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, svo sem Fuglavernd og Skotveiðifélag Íslands eða aðra aðila sem hagsmuni kunna að hafa í málinu.

 

III. KAFLI

Vernd og velferð villtra fugla og villtra spendýra.

  1. gr.

Friðun.

Villtir fuglar og villt spendýr, þar með talin þau sem koma reglulega eða kunna að berast til landsins af sjálfsdáðum, ásamt eggjum fugla og hreiðrum þeirra, eru friðuð nema friðun hafi verið aflétt á grundvelli laga þessara eða reglugerða settum með stoð í þeim.

Ráðherra er heimilt að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, að kveða á um aukna vernd eða sértæka friðun ákveðinna villtra fugla og villtra spendýra ef ástæða er til.

Ráðherra er jafnframt heimilt að kveða á um að strangari reglur skuli gilda um búsvæði eða vistgerðir ef sýnt þykir að ákveðin tegund eða tegundir séu í hættu og stafi sérstök ógn af mannaferðum eða umferð eða sé sérstaklega viðkvæm fyrir raski.

 

  1. gr.

Önnur vernd villtra dýra og villtra fugla og búsvæða þeirra.

Við skipulag, landnotkun og ferð um náttúruna skal eins og kostur er taka tillit til villtra fugla og villtra spendýra og búsvæða þeirra, sbr. lög um náttúruvernd og skipulagslög.

Forðast skal alla óþarfa truflun og röskun á búsvæðum, lykilbúsvæðum, eða lykilstöðum. Eigendum eða ábyrgðaraðilum hunda og katta ber að virða friðhelgi fugla á slíkum svæðum um varptímann og gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að forða tjóni og röskun af þeirra völdum.

Óheimilt er að þeyta flautur, fljúga þyrlum, flygildum eða flugvélum, sigla hljóðmiklum skipum eða bátum eða vera með annan hávaða að óþörfu í grennd við þau fuglabjörg, fuglabyggðir og selalátur sem tilgreind eru í reglugerð samkvæmt 54. gr. laganna. Enn fremur er óheimilt að hleypa af skoti á landi nær sömu stöðum en 200 m og á sjó nær en 2000 m. Aldrei má skjóta fugl í fuglabjörgum, steypa undan fuglum eða ryðja fuglabjörg.

Óheimilt er að veiða fugla í sárum eða ófleyga unga. Lifandi ósærða fugla sem lenda í neti við veiðar skal ávallt greiða úr netinu og sleppa.

 

  1. gr.

Velferð villtra dýra og villtra fugla.

Skylt er að sýna villtum fuglum og villtum spendýrum hvar sem er á landinu, nærgætni og tillitssemi og forðast óþarfa truflun, röskun eða meðhöndlun

Við alla nauðsynlega meðhöndlun, afskipti eða veiðar villtra fugla og villtra spendýra skal þess gætt eins og kostur er að meðferð þeirra sé réttlætanleg og að þau verði ekki fyrir óþarfa sárauka, þjáningu, hræðslu eða óþægindum.

Veiðar eða aflífun villtra fugla og villtra spendýra skulu vera mannúðlegar og skal ávallt reyna að tryggja skjótan og sársaukalausan dauðadaga.

Óheimilt er að fanga og halda villt dýr nema í því skyni að veita því tímabundna neyðaraðstoð eða sérstök heimild hafi fengist til þess samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum. Við föngun villtra dýra er óheimilt að beita aðferðum sem valda limlestingum eða kvölum.

Skylt er að koma sjúku, særðu eða bjargarlausu villtu dýri til bjargar ef þess er nokkur kostur eða tilkynna slík atvik til lögreglu. Heimilt er að aflífa slík dýr með skjótum og sem sárauka minnstum hætti ef sýnt þykir að ekki sé unnt að veita því viðunandi bjargir.

 

  1. gr.

Sértæk friðun og verndun hreiðurstæða arna.

Óheimilt er frá 15. mars til 15. ágúst að koma nær arnarhreiðrum en 500 m nema brýna nauðsyn beri til, svo sem vegna lögmætra nytja sem ekki er hægt að stunda á öðrum árstíma, enda sýni menn ýtrustu varfærni og forðist alla óþarfa truflun. Þessi takmörkun á umferð gildir bæði þar sem ernir eru að búa sig undir varp og við þau hreiður sem orpið hefur verið í og eru með eggjum eða ungum.

Óheimilt er að hrófla við hreiðrum og hreiðurstæðum arna og svæði sem takmarkast af 100 m radíus umhverfis, hvort sem er á varptíma eða utan hans. Einnig er óheimilt að koma fyrir hvers kyns búnaði í þeim tilgangi að fæla fugla frá hreiðurstæðum eða reyna að hindra þá í að verpa þar.

Heimilt er þó að stugga við örnum sem halda til eða sjást í friðlýstum æðarvörpum, svo fremi sem fuglunum sjálfum, hreiðrum þeirra, eggjum og ungum er ekki hætta búin. Þó er óheimilt að stugga við hreiðurörnum innan 2 km frá arnarvarpstað.

Ráðherra getur veitt undanþágu frá banni skv. 1. og 2. mgr. í sérstökum tilvikum, svo sem vegna lagningar þjóðvega eða annarrar mannvirkjagerðar í almannaþágu, á grundvelli niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Náttúrufræðistofnun Íslands skal halda skrá yfir hreiðurstæði arna og veita Umhverfisstofnun aðgang að henni. Ákvæði upplýsingalaga taka ekki til skrárinnar. Heimilt er þó að veita landeiganda upplýsingar um arnarhreiður á eignarlandi hans og öðrum sem er nauðsynlegt að fá slíkar upplýsingar, t.d. vegna mannvirkjagerðar í almannaþágu.

 

  1. gr.

Sértæk friðun og verndun hreiðurstæða annarra sjaldgæfra villtra fugla.

Ef nauðsyn ber til er ráðherra heimilt í reglugerð, sbr. 54. gr. laga þessara, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, að veita hreiðurstæðum tiltekinna annarra sjaldgæfra og viðkvæmra fuglategunda, eins og t.d. fálka, sambærilega eða svipaða vernd og mælt er fyrir um í 12. gr.

 

  1. gr.

Málefni hvítabjarna.

Hvítabirnir eru friðaðir samkvæmt lögum þessum á landi, hafís og á sundi, sbr. þó 2. mgr.

Sjáist hvítabjörn við ströndina eða á landi skal tafarlaust tilkynna það til lögreglu eða Umhverfisstofnunar. Þrátt fyrir friðun er lögreglu í hlutaðeigandi lögregluumdæmi heimilt að taka ákvörðun um að fella hvítabjörn sem fólki getur stafað hætta af. Hafa skal samráð við Umhverfisstofnun áður en hvítabjörn er felldur ef tími vinnst til.

Sé það mat lögreglu að ekki þurfi tafarlaust að grípa til úrræða skv. 2. mgr., vegna komu hvítabjarnar er Umhverfisstofnun heimilt að láta fanga björninn og flytja hann á stað þar sem ekki stafar hætta af honum.

Hafi hvítabjörn verið felldur skv. 2. mgr. skal það þegar tilkynnt ráðherra og getur hann þá krafist þess að björninn verði afhentur Náttúrufræðistofnun Íslands til athugunar og ráðstöfunar, enda greiði ríkissjóður áfallinn kostnað.

 

IV. KAFLI

Válistar, stjórnunar- og verndaráætlanir.

  1. gr.

Válistar.

Náttúrufræðistofnun Íslands skal taka saman og birta á vefsetri sínu sérstaka válista um villta fugla og villt spendýr samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum og leiðbeiningum um gerð slíkra lista.  Slíka válista skal endurmeta á fimm ára fresti eða oftar ef þörf er talin á.

Séu tilteknar tegundir dýra eða fugla skilgreindar á válistum í hættu, í yfirvofandi hættu eða í bráðri hættu, skal eins og unnt er veita slíkum tegundum og búsvæðum þeirra viðeigandi vernd við framkvæmd laga þessara.

 

  1. gr.

Stjórnunar- og verndaráætlanir.

Umhverfisstofnun skal að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnun Íslands, sbr. 2. mgr., taka saman og leggja fyrir ráðherra til samþykktar og birtingar  heildstæðar stjórnunar- og verndaráætlanir einstakra tegunda villtra fugla og villtra spendýra sem falla undir lög þessi.

Náttúrufræðistofnun Íslands skal í verndarhluta áætlunarinnar skilgreina og leggja til viðmiðunarstofnstærðir fyrir einstakar tegundir eða stofna villtra dýra. Áætlanirnar skulu m.a. byggðar á mati stofnunarinnar á stofnstærð, stofnþróun, ákjósanlegri verndarstöðu, útbreiðslu og viðkomu hlutaðeigandi tegundar eða stofns og breytingar þar á.

Umhverfisstofnun skal í stjórnunarhluta áætlunarinnar m.a. leggja til nauðsynlegar verndar- og stjórnunarlegar aðgerðir byggðar á verndaráætlun til að stuðla að ákjósanlegri verndarstöðu, ásamt tillögum um hvernig standa beri að nýtingu eða veiðum ef það á við og aðgerðum til þess að bregðast við tjóni.

Umhverfisstofnun skal leggja fyrir ráðherra endurskoðaða stjórnunar- og verndaráætlun einstakra tegunda eða stofna á fimm ára fresti, eða oftar eftir því sem þurfa þykir, með hliðsjón af sérstöðu og eiginleikum einstakra tegunda og stofnþróunar þeirra.

 

V. KAFLI

Aflétting friðunar villtra fugla og villtra spendýra.

  1. gr.

Almenn skilyrði fyrir afléttingu friðunar vegna nytjaveiða.

Ráðherra er heimilt að aflétta friðun villtra fugla og villtra spendýra skv. lögum þessum vegna nytjaveiða, enda njóti umræddur stofn eða tegund ekki aukinnar eða sértækrar friðunar samkvæmt þeim.

Skilyrði fyrir afléttingu friðunar vegna nytjaveiða eru eftirfarandi:

  1. Fyrir liggi stjórnunar- og verndaráætlun hlutaðeigandi stofns eða tegundar.
  2. Ákvörðun sé byggð á sjálfbærni stofns eða tegundar þannig að viðkoma verði nægileg til þess að vega upp á móti afföllum við afléttingu friðunar, nema stjórnunar- og verndaráætlun geri ráð fyrir að fækka í stofninum.
  3. Ákvörðun um afléttingu friðunar vegna veiða skal byggjast á að veiðibráð sé þess eðlis að hún sé veidd til

 

  1. gr.

Aflétting friðunar vegna tjóns af völdum villtra fugla og villtra spendýra.

Ráðherra er heimilt að aflétta friðun villtra fugla og villtra spendýra, sem ekki njóta aukinnar eða sértækrar friðunar, sé talið í stjórnunar- og verndaráætlun að hætta sé á að tegundin geti valdið skilgreindu og sannanlegu tjóni á heilsu fólks eða búfénaðar eða hún geti valdið ógnun við öryggi, verulegu fjárhagslegu tjóni, eða tjóni á náttúru landsins og líffræðilegri fjölbreytni þess, sbr. XI kafla laga þessara.

Í stjórnunar- og verndaráætlunum einstakra tegunda villtra dýra eða villtra spendýra sem talin eru líkleg til að valda tjóni skal lagt mat á tegund tjóns, hversu mikil hætta sé á tjóni, umfang líklegs tjóns og hvort hægt sé að bregðast við hættu á tjóni með öðrum aðferðum en veiðum.

Sé í stjórnunar- og verndaráætlun lagt til að tjón eða áhætta á tjóni geti verið þess eðlis að það réttlæti veiðar í ákveðnum tilvikum, s.s. við friðlýst æðarvörp, skal gera grein fyrir því í hvaða tilvikum eða við hvaða aðstæður slíkar veiðar komi til greina.

Þótt almennri friðun hafi ekki verið aflétt á einstökum tegundum á grundvelli þessarar greinar er Umhverfisstofnun heimilt að veita tímabundnar undanþágur frá friðunarákvæðum laga þessarar skv. 43. gr. enda séu undanþágurnar í samræmi við samþykkta stjórnunar- og verndaráætlun.

 

  1. gr.

Aflétting friðunar eða undanþága frá friðunarákvæðum vegna annarra atvika.

Ráðherra er heimilt að aflétta friðun á framandi tegundum villtra dýra eða villinga, sem flust hafa til Íslands af mannavöldum, til að halda stofnum niðri eða útrýma úr náttúru Íslands, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar eða á grundvelli stjórnunar- og verndaráætlunar hafi hún verið gerð vegna tegundarinnar.

Ráðherra getur að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, veitt tímabundna undanþágu frá banni við veiðum á friðlýstum svæðum þar sem friðlýsingarskilmálar mæla fyrir um veiðibann, eða svæðum sem njóta verndar skv. 10. gr.,  á tegundum sem valda tjóni skv. 18. gr., eða vegna veiða á framandi lífverum og villingum.

Umhverfisstofnun getur að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágu frá friðunar og verndarákvæðum tímabundið og í einstökum tilvikum svo sem vegna myndatöku, rannsókna eða fyrir dýragarða, enda sé sótt um hana fyrir fram. Stofnunin skal við undanþáguna setja umsækjanda þau skilyrði sem hún metur nauðsynleg til að friðun eða verndun verði ekki raskað meira en þörf er á.

 

VI. KAFLI

Veiðar.

  1. gr.

Sjálfbær nýting.

Allar veiðar og nytjar villtra fugla og villtra dýra, þ.m.t. hefðbundin nýting hlunninda, skulu vera sjálfbærar, nema um sé að ræða veiðar á grundvelli 18. gr. eða 1. mgr. 19. gr. laga þessara.

 

  1. gr.

Veiðistjórnun.

Veiðar villtra fugla og villtra dýra skulu háðar veiðistjórnun. Veiðistjórnun og ákvarðanir stjórnvalda er varða hana skulu byggjast á bestu vísindalegri þekkingu á hverjum tíma á verndarstöðu og stofnstærð tegunda, útbreiðslu og verndarstöðu búsvæðis. Sama gildir einnig um áætlanagerð stjórnvalda, sveitarfélaga og aðila á þeirra vegum.

Í þeim tilgangi að framfylgja stjórnunar- og verndunaráætlun er Umhverfisstofnun heimilt að grípa til aðgerða í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og eftir atvikum aðrar fagstofnanir. Aðgerðir geta m.a. falið í sér bann við veiðum á tilteknum tegundum eða á tilteknum svæðum. Sömuleiðis geta aðgerðir falið í sér veiðar eða útrýmingu framandi tegunda sem taldar eru líklegar til að ógna eða hafa veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni.

 

  1. gr.

Heimild til veiða.

Þeir sem eru íslenskir ríkisborgarar svo og þeir sem hafa lögheimili hér á landi eru veiðar heimilar samkvæmt lögum þessum í þjóðlendum og í efnahagslögsögunni utan netlaga eignarlanda. Á eignarlöndum eru veiðar háðar leyfi landeiganda.

Leyfi til hreindýraveiða, sbr. 38. gr. laganna, veitir þó öllum rétt til að stunda slíkar veiðar á hefðbundnum veiðisvæðum hreindýra hvort sem er á þjóðlendum eða innan eignarlanda hafi landeigandi eignarlands heimilað hreindýraveiðar innan þess.

Á friðlýstum svæðum eru veiðar heimilar nema friðlýsingarskilmálar svæðisins mæli fyrir um annað.

Allir sem stunda veiðar skulu hafa til þess gilt veiðikort ásamt veiðileyfi ef það er áskilið til veiðanna samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.

 

  1. gr.

Réttur til veiða á eignarlandi.

Villt dýr er hluti af náttúru landsins og ekki háð eignarrétti nema það hafi verið veitt. Landeigendur hafa rétt til veiða og ráðstöfun veiðiréttar á eignarlandi sínu nema lög mæli öðruvísi fyrir. Eignarréttur á landi þar sem hreindýr halda sig veitir þó ekki rétt til veiða á hreindýrum.

Eigi má skilja rétt til veiða að nokkru eða öllu leyti frá eignarlandi fyrir fullt og allt. En leyfilegt skal að skilja rétt til veiða frá eignarlandi um tiltekið tímabil er eigi má vera lengra en 10 ár í senn.

Sé eignarland í sameign skipt eftir merkjum og afnota- eða eignarskiptingu á hver sameigandi rétt til dýraveiða á og fyrir sínum landshluta eða afnotasvæði, nema samkomulag hafi orðið um aðra lögmæta skipan.

Sé eignarland í óskiptri sameign er öllum landeigendum dýraveiðar jafnheimilar á eignarlandinu í réttu hlutfalli við afnotarétt lands nema samkomulag verði um aðra skipan.

Þar sem stöðuvötn, firðir, vogar eða sund, sem ekki ná 230 m á breidd, skipta eignarlandi eiga eigendur veiðirétt út að miðlínu, svo og í ám og lækjum. Í stöðuvötnum, sem eru breiðari en 230 m, er landeigendum, sem land eiga að vatninu, einum heimilar veiðar í almenningi þess og eru þær þeim öllum jafnheimilar. Sé forn venja til þess að réttur til dýraveiða í almenningi stöðuvatns fylgi tilteknu eignarlandi eða tilteknum eignarlöndum skal sú venja gilda eftirleiðis.

 

  1. gr.

Veiðiaðferðir.

Við veiðar má eingöngu nota skotvopn sem úr má skjóta fríhendis frá öxl með þeim undantekningum sem upp eru taldar í liðum 4, 7 og 17 hér á eftir og nánar er kveðið á um í reglugerð. Við fuglaveiðar er óheimilt að nota haglabyssu með hlaupvídd stærri en nr. 12.

Við veiðar er m.a. óheimilt að nota:

  1. Eitur eða svefnlyf, nema útrýmingarefni til músa- og rottuveiða í samræmi við ákvæði efnalaga.
  2. Sprengiefni, bensín eða önnur efni til þess að svæla með gasi eða reyk.
  3. Steina, barefli, eggvopn, skutla, stunguvopn eða áþekka hluti.
  4. Net, nema háf til lundaveiða.
  5. Öngla eða önnur tól sem komið er fyrir í æti.
  6. Snörur og snörufleka.
  7. Gildrur, nema til músa-, rottu- og minkaveiða. Gerðir gildra skulu hafa hlotið samþykki Umhverfisstofnunar.
  8. Rafbúnað sem getur drepið eða rotað.
  9. Segulbandstæki og aðra rafknúna hljóðgjafa.
  10. Fastan ljósgjafa, nema til refa- og minkaveiða.
  11. Búnað til að lýsa upp skotmörk, t.d. ljósbúnað festan við byssu.
  12. Spegla eða annan búnað sem blindar.
  13. Búnað til þess að miða í myrkri með rafeindatækjum er stækka eða breyta ímyndinni. Undanskilið er þó rafeindapunktur eða upplýstur kross í sjónauka.
  14. Sjálfvirk skotvopn, svo og handhlaðnar fjölskotabyssur og hálfsjálfvirk skotvopn, með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki.
  15. Hljóðdeyfa, nema á stóra riffla sem nota miðkveikt skot og uppfylla skilyrði vopnalaga.
  16. Lifandi dýr sem bandingja eða til þjálfunar veiðihunda.
  17. Hunda til þess að hlaupa uppi bráð, nema við minkaveiðar.

Óheimilt er að nota loftför, flygildi eða önnur vélknúin farartæki við veiðar, nema báta á sjó til fuglaveiða enda gangi þeir ekki hraðar en níu sjómílur meðan á veiði stendur. Til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum á landi er einungis heimilt að nota götuskráð vélknúin farartæki og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Skotvopn skulu vera óhlaðin meðan á akstri stendur. Þau skulu einnig vera óhlaðin nær vélknúnu farartæki á landi en 250 m.

Umhverfisstofnun er heimilt að veita fötluðum veiðimönnum, sem varanlega eru bundnir við hjólastól, sérstaka undanþágu frá ákvæðum 3. mgr. til að skjóta frá kyrrstæðu vélknúnu farartæki á vegum eða merktum vegaslóðum, enda  hafi veiðimaður í för með sér aðstoðarmann eða hund til að sækja bráð. Séu skilyrði náttúruverndarlaga um akstur á snævi þakinni og frosinni jörð utan vega uppfyllt er honum heimilt að víkja frá vegum eða merktum vegaslóðum við veiðar enda sé ekki hætta á náttúruspjöllum.  Heimild samkvæmt þessari grein skal getið í veiðikorti hlutaðeigandi veiðimanns, sbr. 27. gr. laganna.

 

  1. gr.

Skyldur veiðimanna.

Við veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er það frumskylda veiðimanns að valda veiðidýri sem minnstri þjáningu og að aflífa þau með skjótum og sem sársauka minnstum hætti.

Særi veiðimaður dýr ber honum að elta það strax uppi og aflífa ef þess er nokkur kostur. Ákvæði þetta gildir einnig þótt sært dýr fari inn á eignarland sem veiðimaður hefur ekki leyfi til að veiða á og er þá bráð, önnur en hreindýr, eign landeiganda.

Veiðimanni er skylt að hirða bráð sína.

 

VII. KAFLI

Veiðikort og hæfni til veiða.

  1. gr.

Hæfnispróf veiðimanna.

Þeir sem stunda veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum skulu hafa staðist próf um villt dýr og umhverfi þeirra og í hæfni til veiða í samræmi við lög þessi og reglur settar samkvæmt þeim.

Umhverfisstofnun semur námskrá, setur mörk og viðmið um fullnægjandi árangur á prófi og heldur námskeið til undirbúnings hæfnisprófum. Umhverfisstofnun er heimilt að fela aðilum, sem hafa til þess þekkingu og reynslu að mati stofnunarinnar, að halda slík námskeið í sínu umboði.

Umhverfisstofnun er heimilt að veita þeim sem óskar eftir veiðikorti, sem eingöngu gildir til töku eggja eða til annarra veiða en skotveiða, undanþágu frá hæfnisprófum veiðimanna skv. 1. og 2. mgr.

 

  1. gr.

Útgáfa veiðikorta.

Allir sem stunda veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eða eggjatöku villtra fugla, skulu hafa til þess gilt veiðikort sem Umhverfisstofnun gefur út til eins árs í senn. Umhverfisstofnun er heimilt að gefa veiðikort út með rafrænum hætti.

Veiðikorthafar skulu hafa náð 20 ára aldri en heimilt er að veita þeim sem orðnir eru 16 ára veiðikort sem einungis gildir til töku eggja og annarra veiða en skotveiða.

Á veiðikorti skal getið nafns handhafa, gildistímabils og þeirra tegunda sem viðkomandi hefur heimild til að veiða, rétt til nýtingu ákveðinna hlunninda eða eggjatökuheimild. Korthafi skal ætíð bera kortið á sér á veiðum, við nýtingu hlunninda eða við eggjatöku og skal framvísa því ef óskað er.

Veiðikort þarf ekki til músaveiða innandyra og rottuveiða.

 

  1. gr.

Veiðiskýrslur.

Eigi síðar en 1. apríl ár hvert skal veiðikortshafi skrá og skila þar til gerðri skýrslu um undangengið veiðiár sem telst frá 1. janúar til 31. desember. Veiðiskýrslu skal einnig skila vegna eggjatöku þar sem fram skal koma fjöldi og tegund eggja og á hvaða landssvæði eða jörð þau voru týnd. Hafi villtir fuglar drepist við netaveiðar skal skila inn þar til gerðri skýrslu um fjölda og tegundir þeirra.

Ef veiðiskýrslu frá fyrra veiðitímabili hefur ekki verið skilað er útgáfa nýs veiðikorts óheimil næsta veiðitímabil. Ef veiðiskýrsla berst eftir lögmæltan skiladag hækkar gjald í ríkissjóð fyrir útgáfu nýs veiðikorts um 40%.

 

VIII. kafli

Fuglaveiðar.

  1. gr.

Nytjaveiðar á fuglum.

Ráðherra er heimilt að aflétta friðun eftirtalinna fuglategunda, sbr. 17. gr., innan þeirra tímamarka sem hér segir:

  1. Frá 20. ágúst til 31. mars: grágæs, heiðagæs.
  2. Frá 1. september til 31. mars: dílaskarfur, toppskarfur, súla, blesgæs, helsingi, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, duggönd, skúfönd, hávella, toppönd, rita.
  3. Frá 1. september til 10. maí: álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi.
  4. Frá 15. október til 22. desember: Rjúpa.
  5. Frá 1. júlí til 15. ágúst: Hlunnindaveiðar lunda í háf skv. 34. gr.

Heimilt er að takmarka veiðar á tegund við ákveðna daga innan þeirra tímamarka sem fram koma í 1. mgr. og við ákveðinn tíma sólarhrings eða tiltekin landsvæði.

Nú hefur ráðherra ákveðið að aflétta friðun skv. 1. mgr. og getur hann þá að ósk Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, sveitarstjórnar eða annarra aðila ákveðið að friðun gildi áfram í tiltekinn tíma á ákveðnum svæðum þar sem veiði er talin óæskileg.

 

  1. gr.

Merking á villtum dýrum.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur ein heimild til að láta merkja villt dýr á Íslandi með hefðbundnu fugla- eða dýramerki, eða rafrænum sendi, en getur veitt öðrum heimild til slíkra til merkinga samkvæmt reglum sem hún setur.

Hverjum þeim sem finnur eða handsamar merktan fugl eða merkt spendýr ber að senda merkið eða sendinn, hvort sem það er íslenskt eða erlent, til Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt nánari upplýsingum um fundinn.

 

IX. KAFLI

Hefðbundin hlunnindi.

  1. gr.

Nýting hefðbundinna hlunninda.

Til hefðbundinna hlunninda telst réttur landeiganda til tiltekinna veiða á villtum dýrum eða fuglum, eða nýtingu á dún þeirra eða eggjum og söguleg hefð nytja er fyrir hendi. Nýting hefðbundinna hlunninda skal byggjast á því að viðkomandi tegund eða stofn sé sjálfbær og standi undir nýtingu.

Sá sem telur sig eiga rétt til hefðbundinnar nýtingar hlunninda samkvæmt þessari grein, annarrar en dúntekju, skal afla staðfestingar viðkomandi sveitarstjórnar og sýslumanns á slíkum rétti enda liggi slík staðfesting ekki þegar fyrir. Sé uppi ágreiningur um rétt þennan sker ráðherra úr ágreiningnum.

Sá sem rétt hefur til nýtingar hlunninda á landi sínu skal hafa til þess gilt veiðikort ætli hann að nýta önnur hlunnindi jarðarinnar en dúntekju. Í veiðikortinu skal tilgreindur sá réttur sem hann hefur til nýtingar hlunninda skv. 1. og 2. mgr. og svæðisbundin mörk hans.  Réttur til hlunnindaveiði gildir fyrir handhafa veiðikortsins.

 

  1. gr.

Æðarvarp.

Landeiganda eða umráðamanni æðarvarps er heimilt að fara fram á sérstaka friðlýsingu æðarvarpsins og nánasta umhverfis þess.

Sýslumaður í því umdæmi sem æðarvarpið er í skal annast friðlýsingu þess og skal hún gilda í 10 ár frá birtingu ákvörðunar í Lögbirtingarblaði. Skal í umsókn um friðlýsingu tilgreina staðsetningu og mörk varpsins og sýna svæðið skýrt á viðurkenndu korti eða loftmynd. Umsækjandi ber kostnað vegna friðlýsingarinnar.

Uppfærð skrá um friðlýst æðarvörp í umdæminu skal liggja frammi á skrifstofu sýslumanns og á heimasíðu embættisins og skal sýslumaður jafnframt tilkynna allar breytingar á skránni til hlutaðeigandi sveitarstjórnar, Umhverfisstofnunar og Bændasamtaka Íslands.

Frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert eru öll skot bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km nema brýna nauðsyn beri til að mati landeiganda eða umráðamanns æðarvarpsins. Bannsvæðið skal þó ekki ná lengra en 1 km inn á eignarlönd annarra.

Frá 1. apríl til 14. júlí ár hvert má eigi án leyfis landeiganda eða umráðamanns æðarvarps  leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli. Á sama tímabili er öll óviðkomandi umferð bönnuð um friðlýst æðarvarp nema með heimild landeiganda eða umráðamanns æðarvarps.

Ráðherra skal í reglugerð á grundvelli 54. mæla fyrir um heimildir sem landeiganda eða umráðamaður friðlýsts æðarvarps hefur til að verjast tjóni villtra fugla og villtra spendýra innan marka æðarvarpsins.

 

  1. gr.

Eggjataka.

Landeiganda er heimil eggjataka samkvæmt lögum þessum til neyslu, enda sé eggjatakan ekki talin hafa neikvæð áhrif á stofnstærð hlutaðeigandi fuglategundar og að truflun vegna eggjatökunnar sé haldið í lágmarki.

Í varpi kríu, fýls, ritu, álku, langvíu, stuttnefju, silfurmáfs, hvítmáfs og hettumáfs er landeiganda heimilt að taka egg úr hreiðrum þessara fugla til neyslu.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem hefðbundið andarvarp er mikið, skal landeiganda heimilt að taka egg frá eftirtöldum andartegundum: æðarfugli, stokkönd, rauðhöfðaönd, urtönd, duggönd, skúfönd, hávellu, húsönd og toppönd. Við slíka eggjatöku skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri. Heimilt er landeiganda að taka grágæsar- og heiðagæsaregg, en þá skulu eigi færri en tvö egg skilin eftir í hreiðri.

Ráðherra er heimilt að friða tímabundið einstakar tegundir eða stofna fyrir eggjatöku samkvæmt þessari grein, eða setja henni sérstök skilyrði, enda sé talið að eggjatakan hafi neikvæð áhrif á stofnstærð hlutaðeigandi fuglategundar eða stofns samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun.

 

  1. gr.

Lundaveiði í háf

Á takmörkuðum svæðum, þar sem veiði fullvaxinna lunda í háf hefur talist til hefðbundinna hlunninda, skal landeiganda heimil slík veiði samkvæmt þeim venjum sem gilt hafa, enda hafi friðun verið aflétt skv. 29. gr.

 

X. KAFLI

Hreindýraveiðar.

  1. gr.

Stjórnun veiða.

Hafi friðun verið aflétt skv. 17. gr. laga þessara getur ráðherra heimilað veiðar úr hreindýrastofninum.

Umhverfisstofnun gerir tillögu til ráðherra um árlegan veiðikvóta og um skiptingu hans milli veiðisvæða og tilhögun veiða að fengnum tillögum Náttúrustofu Austurlands og hreindýraráðs þar að lútandi.

Ráðherra ákveður árlega fjölda þeirra dýra sem fella má, eftir aldri, kyni og veiðisvæðum og tilhögun veiða og birtir með auglýsingu að jafnaði eigi síðar en 15. janúar ár hvert.

 

  1. gr.

Hreindýraráð.

Ráðherra skipar fjóra menn í hreindýraráð. Hlutverk ráðsins er að vera Umhverfisstofnun og til ráðgjafar um vernd, veiðar og nýtingu hreindýrastofnsins.

Ráðið skal ár hvert gera tillögu til Umhverfisstofnunar um skilgreiningu ágangssvæða hreindýra og veita stofnuninni umsögn um tillögur Náttúrustofu Austurlands um árlegan veiðikvóta, skiptingu hans milli veiðisvæða og tilhögun veiða.

Formaður ráðsins er skipaður án tilnefningar,  Búnaðarsamband Austurlands og Búnaðar-samband Austur-Skaftafellssýslu tilnefna einn fulltrúa hvort og sveitarfélög á veiðisvæði hreindýra einn fulltrúa. Fulltrúar Náttúrustofu Austurlands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Félag hreindýraleiðsögumanna og Skotveiðifélags Íslands er heimilt að sitja fundi hreindýraráðs og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

Verði atkvæði jöfn á fundum ráðsins ræður atkvæði formanns.

 

  1. gr.

Náttúrustofa Austurlands.

Náttúrustofa Austurlands annast vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum og mat á veiðiþoli samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Náttúrustofan gerir tillögur til Umhverfisstofnunar um árlegan veiðikvóta, skiptingu hans eftir veiðisvæðum og tilhögun veiða.

Náttúrustofa Austurlands gerir Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands grein fyrir niðurstöðu skv. 1. mgr., sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.

 

  1. gr.

Heimild til veiða á hreindýrum.

Umhverfisstofnun auglýsir, úthlutar og gefur út leyfi til hreindýraveiða til veiðimanna sem hafa gilt veiðikort og skotvopnaleyfi með B-réttindum, skv. lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.

Allir sem stunda hreindýraveiðar skulu vera í fylgd með leiðsögumanni sem fengið hefur til þess leyfi Umhverfisstofnunar.

 

  1. gr.

Verklegt skotpróf.

Áður en veiðimaður fer til hreindýraveiða skal hann hafa staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum sem Umhverfisstofnun skal halda fyrir hreindýraveiðimenn og leiðsögumenn. Umhverfisstofnun er heimilt að fela öðrum hæfum aðilum framkvæmd verklegra skotprófa svo sem rekstraraðilum skotvalla eða skotfélögum.

Staðfestingu á að veiðimaður hafi lokið og staðist verklegt skotpróf skal skila til Umhverfisstofnunar a.m.k. viku fyrir veiðidag.

 

  1. gr.

Leiðsögumenn.

Enginn getur tekið að sér leiðsögn með hreindýraveiðum nema hann hafi til þess leyfi Umhverfisstofnunar.  Leyfi skal veitt til allt að fjögurra ára í senn og miðast við tiltekin veiðisvæði.

Til að geta hlotið leyfi sem leiðsögumaður þarf leiðsögumaður að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Hafa skotvopnaleyfi með B-réttindum og veiðikort.
  2. Hafa staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum.
  3. Hafa þekkingu og reynslu af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra.
  4. Hafa tvisvar á sama veiðitímabili leiðsagt með hreindýraveiðum undir handleiðslu starfandi leiðsögumanns sem valinn er af Umhverfisstofnun.
  5. Hafa sótt skyndihjálparnámskeið á síðustu tveimur árum.
  6. Hafa sótt námskeið á vegum Umhverfisstofnunar fyrir leiðsögumenn og lokið prófi í því með fullnægjandi árangri.

Umhverfisstofnun semur námskrá og heldur námskeið til undirbúnings leyfi fyrir verðandi leiðsögumenn. Umhverfisstofnun eða annar hæfur aðili í umboði hennar skal halda námskeiðið í samráði við hreindýraráð. Umhverfisstofnun skal tryggja með slíkum námskeiðum að eðlileg nýliðun verði í hópi leiðsögumanna á öllum veiðisvæðum hreindýra.

 

  1. gr.

Hlutverk og skyldur leiðsögumanna.

Hlutverk leiðsögumanna með hreindýraveiðum er að fylgja veiðimanni um veiðisvæði, hjálpa honum að þekkja þau dýr sem hann má veiða, sjá til þess að veiðimaður fari rétt að við veiðarnar, skrái þær upplýsingar í veiðiskýrslur sem krafist er og skili inn rétt útfylltum veiðiskýrslum. Leiðsögumaður ber að sjá til þess að veiðar séu í samræmi við lög og reglur.

Særi veiðimaður dýr og ekki eru yfirgnæfandi líkur á því að mati leiðsögumanns að hann nái að fella það svo fljótt sem auðið er, skal leiðsögumanni sjálfum skylt að aðstoða veiðimann við að koma skoti á hið særða dýr. Leiðsögumaður skal einnig fella önnur illa særð dýr sem verða á vegi hans á veiðislóð og ekki eru talin eiga sér lífsvon. Tilkynna skal slík tilvik til Umhverfisstofnunar sem fær eignarráð dýrsins og tekur ákvörðun um förgun þess eða aðra ráðstöfun.

Leiðsögumanni með hreindýraveiðum er í undantekningarvilvikum heimilt að nota vélknúið farartæki til að sækja hreindýr sem fellt hefur verið fjarri vegum eða vegaslóðum, enda sé ekki talin hætta á náttúruspjöllum samkvæmt leiðbeinandi reglum sem Umhverfistofnun skal gefa út á grundvelli þessa ákvæðis. Tilkynna skal Umhverfisstofnun um slíka för áður en bráð er sótt.

Brjóti leiðsögumaður gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, skotvopnalögum eða lögum um velferð dýra,  getur Umhverfisstofnun veitt honum áminningu eða svipt hann leyfi til leiðsagnar, enda séu sakir alvarlegar eða ítrekaðar. Hafi leiðsögumaður verið sviptur leyfi til leiðsagnar er honum heimilt að sækja um slíkt leyfi að nýju, að liðnum 4 árum frá sviptingu leyfis, enda sæki hann að nýju og ljúki prófi, skv. 6. tl. 40. gr. laga þessara.

 

XI. KAFLI

Veiðar til varnar tjóni.

  1. gr.

Aðgerðir til varnar tjóni. Tilkynning á tjóni.

Umhverfisstofnun veitir fræðslu, leiðbeiningar og ráðleggingar varðandi aðgerðir til varnar tjóni af völdum villtra fugla og villtra spendýra.

Umhverfisstofnun skal á heimasíðu sinni taka á móti og skrá tilkynningar sem stofnuninni berast frá almenningi eða lögaðilum um tjón sem hlutaðeigandi telja sig hafa orðið fyrir vegna villtra fugla og villtra dýra.

 

  1. gr.

Undanþága frá friðunarákvæðum.

Umhverfisstofnun er heimilt að veita tímabundna og skilyrta undanþágu til veiða á tiltekinni tegund villtra fugla og villtra dýra,  sem ekki njóta aukinnar eða sértækrar friðunar, enda sé sýnt fram á skilgreinda og sannanlega hættu á tjóni af þeirra völdum í ákveðnum tilvikum, á tilteknum stöðum eða svæðum, enda sé undanþágan í samræmi við samþykkta stjórnunar- og verndaráætlun hlutaðeigandi tegundar.

Rottur, svo og mýs í húsum inni eru undanþegin friðunar- og verndarákvæðum laga þessara, en við aflífun þeirra skal reyna að tryggja skjótan og sársaukalausan dauða.

 

  1. gr.

Refir.

Í stjórnunar- og verndaráætlun vegna refa skal lagt mat á stofnstærð, stofnþróun, verndarstöðu, útbreiðslu og viðkomu íslenska refastofnsins og stöðu hans í lífríki og líffræðilegri fjölbreytni landsins. Gera skal grein fyrir því tjóni sem refir kunna að valda,  tegund tjóns, hversu mikil hætta sé á tjóni, umfang líklegs tjóns og hvernig best sé að bregðast við hættu á tjóni.

Sé talið að refir valdi skilgreindu og sannanlegu tjóni á ákveðnum stöðum eða svæðum getur Umhverfisstofnun lagt til í stjórnunar- og verndaráætlun til ráðherra að friðun refa verði aflétt á tilteknum svæðum landsins auk tillagna um það hvernig haga beri veiðum á ref til að takmarka tjón af völdum hans og um forgangsröðun svæða landsins á grundvelli þess.

Á þeim svæðum þar sem refaveiðar eru taldar nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón, sbr. 2. mgr. þessarar greinar,  er sveitarstjórn skylt að ráða skotmenn með kunnáttu til refaveiða. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með framkvæmd veiða á grundvelli 2. og 3. mgr. þessarar greinar. Að fengnum árlegum skýrslum um veiðarnar er stofnuninni heimilt að endurgreiða sveitarfélögum allt að helmings kostnaðar við veiðarnar eftir reglum sem ráðherra setur skv. 54. gr. og eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.

 

  1. gr.

Refagreni.

Sveitarstjórnir skulu halda skrá yfir öll þekkt greni í sínu umdæmi ásamt lýsingu á þeim og skulu afrit af skránum varðveitt hjá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Ákvæði upplýsingalaga taka ekki til skrárinnar.

Þeim sem ráðnir hafa verið til veiða á ref skv. 44. gr. og þeim sem fá heimild til veiða á ref skv. 43. gr. er óheimilt að skilja eftir æti eða agn við refagreni eða öðrum veiðistöðum að veiðum loknum. Ekki má láta hunda hlaupa um á greni á grenjatímanum né hafa þar óþarfa umgang.

Óheimilt er að eyðileggja greni.

 

XII. kafli

Framandi lífverur, ágengar framandi lífverur og villingar.

  1. gr.

Vöktun og eftirlit.

Umhverfisstofnun sér um vöktun, eftirlit með innflutningsleiðum og útbreiðslu framandi lífvera og villinga sem heyra undir lög þessi og leggur til við ráðherra aðgerðir til þess að hefta útbreiðslu þeirra.

Umhverfisstofnun getur að fengnu áliti Náttúrufræðistofnunar Íslands lagt til við ráðherra, eða í stjórnunar- og verndaráætlun, að framandi lífverum, ágengum framandi lífverum og villingum sé útrýmt, annað hvort á landsvísu eða á tilteknum svæðum.

Umhverfisstofnun skal skipuleggja aðgerðir sem teknar eru á grundvelli 2. mgr. 46. gr. í samvinnu við sveitarfélög landsins.

 

  1. gr.

Minkar.

Í stjórnunar- og verndaráætlun vegna minka skal lagt mat á þau svæði landsins þar sem lífríki og tegundum dýra stafar hætta af tjóni af völdum minka. Á grundvelli þess skal Umhverfisstofnun í stjórnunaráætlun sinni til ráðherra leggja fram tillögur um hvernig nauðsynlegt er að haga veiðum á mink til að takmarka tjón af völdum hans og um forgangsröðun svæða landsins á grundvelli þess.

Á þeim svæðum þar sem minkaveiðar eru taldar nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón, sbr. 2. mgr. þessarar greinar,  er sveitarstjórn skylt að ráða skotmenn með kunnáttu til minkaveiða.

Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með framkvæmd veiða á grundvelli 2. og 3. mgr. þessarar greinar. Að fengnum árlegum skýrslum um veiðarnar er stofnuninni heimilt að endurgreiða sveitarfélögum allt að helmings kostnaðar við veiðarnar eftir reglum sem ráðherra setur skv. 54. gr. og eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.

Minkar njóta ekki friðunar eða verndar samkvæmt lögum þessum. Veiðar á mink eru öllum heimilar sem hafa veiðikort.

 

XIII. kafli

Bann við sölu á veiðifangi og eggjum. Starfsemi hamskera.

  1. gr.

Sala á veiðibráð eða öðrum afurðum villtra dýra.

Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja veiðibráð, dýraafurðir, (þ.m.t. uppstoppuð dýr og fugla) eða egg dýra sem falla undir lög þessi. Sama gildir um fugla sem drepast í netum við veiðar. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi eða vöruskiptum.

Sölubann 1. mgr. gildir þó ekki um dún sem aflað er með lögmætum hætti samkvæmt lögum þessum, né um innflutta fugla og dýraafurðir þeirra tegunda sem bannið tekur til, enda sé ekki um að ræða fugla eða dýraafurðir á alþjóðlegum válistum. Innflytjanda og seljanda ber að tryggja að innfluttar fuglategundir og dýraafurðir séu þannig merktar að fram komi í hvaða landi þær eru upprunnar.

Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá sölubanni skv. 1. mgr. ef um er að ræða stofn sem þolir veiðar og sölu slíkra afurða á sjálfbæran hátt samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun.

 

  1. gr.

Starfsemi hamskera.

Einungis er heimilt að setja upp villt dýr og villta fugla sem ekki hafa verið drepin af mannvöldum og dýr sem eru löglega veidd skv. lögum þessum.

Þeir aðilar sem stunda hamskurð dýra skulu skrá starfsemi sína hjá Umhverfisstofnun.

Hamskerar skulu skrá öll villt dýr sem þeir setja upp og geta hvar og hvernig dýrið fannst eða var veitt, frá hverjum það er og hver varðveitir það og afhenda Umhverfisstofnun slíka skrá þegar eftir því er leitað.

Ráðherra er heimilt í rannsóknarskyni, sbr. 54. gr.,  að mæla fyrir um tilkynningu og skil á ákveðnum tegundum friðaðra villtra fugla og villtra dýra sem finnast dauð eða ósjálfbjarga. Afhenda má finnanda slíkt dýr eftir rannsóknir á því, til uppsetningar og varðveislu, ef í ljós kemur að það hefur ekki verið drepið af mannvöldum eða hið ósjálfbjarga dýr drepst í haldi.

Ráðherra er einnig heimilt, sbr. 54. gr.,  að mæla fyrir um skyldu til örmerkingar á hömum sjaldgæfra friðaðra tegunda eða tegunda sem eru í hættu.

 

XIV. kafli

Eftirlit og framkvæmd eftirlits.

  1. gr.

Eftirlit.

Umhverfisstofnun annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

Umhverfisstofnun getur með samningi falið náttúrustofum og öðrum stjórnvöldum einstaka þætti eftirlits samkvæmt lögum þessum. Í þeim tilvikum sem Umhverfisstofnun hefur gert samning um framkvæmd eftirlits hefur viðkomandi sömu heimildir til skoðunar og eftirlits og Umhverfisstofnun skv. þessum kafla laganna.

Veiðiverðir Umhverfisstofnunar starfa með samræmdum hætti á landinu öllu. Veiðiverðir annast eftirlit með veiðum og annarri framkvæmd laga þessara og starfa í samræmi við eftirlitsáætlun skv. 51. gr.

 

  1. gr.

Eftirlitsáætlun.

Til að tryggja yfirsýn með framkvæmd laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim skal Umhverfisstofnun útbúa eftirlitsáætlun til þriggja ára í senn fyrir eftirlit með veiðum og annarri framkvæmd laga þessara og gæta sérstaklega hagkvæmni í eftirliti.

Ákvæði upplýsingalaga taka ekki til eftirlitsáætlunar fyrr en að loknum gildistíma hennar.

 

  1. gr.

Heimildir Umhverfisstofnunar og upplýsingaskylda.

Sérstaklega auðkenndum veiðivörðum Umhverfisstofnunar er heimilt að hafa afskipti af veiðimönnum á veiðislóð í þeim tilgangi að hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og krefjast þess að þeir segi til nafns síns og kennitölu, framvísi veiðikorti og skotvopnaleyfi.

Við skoðun og eftirlit skulu veiðimenn veita allar umbeðnar upplýsingar sem hafa þýðingu við eftirlitið.

Umhverfisstofnun er heimilt að kæra til lögreglu eða leita eftir aðstoð lögreglu telji hún að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga þessara eða það er talið nauðsynlegt til að framfylgja heimildum samkvæmt þessarar grein.

 

XV. KAFLI

Réttarfar, refsingar og viðurlög.

  1. gr.

Um refsingar.

Hver sem brýtur gegn ákvæðum laga þessara skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef:

  1. friðun og vernd arna eða hreiðurstæða þeirra er raskað,
  2. friðun og vernd fuglabjarga er raskað,
  3. friðun og vernd grenja er raskað,
  4. valdið er ólögmætri eða tilefnislausri truflun eða röskun á mikilvægum búsvæðum einstakra dýrategunda,
  5. veiddar eru tegundir eða týnd eru egg tegunda sem njóta friðunar skv. lögum þessum,
  6. veiðir eða eggjataka eru stunduð utan þess tíma sem veiði eða eggjataka er heimil,
  7. veiðar eru stundaðar á svæðum sem eru friðuð fyrir veiðum skv. lögum þessum,
  8. veiðar eru stundaðar á svæðum sem eru friðlýst vegna dýralífs eða á öðrum friðlýstum svæðum þar sem friðlýsingarskilmálar eða sérlög mæla fyrir um veiðibann,
  9. stundaðar eru veiðar samkvæmt lögum þessum án þess að fyrir hendi sé gilt veiðikort eða veiðileyfi,
  10. notaðar eru veiðiaðferðir sem andstæðar eru 24. gr. laga þessara,
  11. veiðimaður veldur veiðidýri tilefnislausri, óheimilli og óþarfri þjáningu eða brýtur með öðrum hætti gegn skyldum sínum sem veiðimanns skv. lögum þessum eða hirðir vísvitandi ekki upp veiðibráð sína,
  12. brotið er gegn ákvæðum laga þessara um útflutning eða sölu á veiðibráð, eggjum eða öðrum dýraafurðum og um starfsemi hamskera,
  13. hann hefur undir höndum ólöglega veidd friðuð dýr eða fugla samkvæmt lögum þessum eða friðaða villta fugla og villt dýr sem skylt er að tilkynna um skv. 4. mgr. 49. gr.,
  14. veiðimaður hafni að gefa sérstaklega auðkenndum veiðivörðum samkvæmt lögum þessum upp nafn sitt, framvísa veiðikorti, veiðileyfi, eða sýna skotvopnaleyfi.

Refsing getur einnig falið í sér sviptingu veiðikorts, skotvopna- og veiðileyfis.

Virða skal það refsingu til þyngingar ef  brot er stórfellt eða um ásetningsbrot er að ræða. Sama gildir ef brot beinist gegn sjaldgæfum eða fágætum fugla- eða dýrategundum, mikilvægum nytjategundum eins og æðarfugli eða svæðum sem njóta sérstakrar verndar eða friðunar samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum.

Gera má lögaðila sekt fyrir brot gegn 48. gr. Um refsiábyrgðina fer eftir II. kafla A almennra hegningarlaga.

Tilraun til brota gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar eru á grundvelli þeirra, varða refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Hið sama gildir um hlutdeild í brotum.

Gera má upptækt til ríkissjóðs: Ólöglegt veiðifang, egg eða eggjaskurn, friðaða villta fugla og villt dýr sem skylt er að tilkynna um, en ekki hefur verið gert, sbr. 4. mgr. 49. gr., skotvopn, veiðitæki og annan ólögmætan búnað sem notaður hefur verið við framkvæmd brots, veiðifang sem boðið er til sölu eða selt í bága við sölubann 48. gr. svo og hagnað af ólöglegri veiði og sölu framangreindra verðmæta. Ekki er það upptöku til fyrirstöðu þótt annar sé eigandi veiðitækis eða annars sem upptaka er heimil á en sá sem sekur hefur reynst um brot á lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra. Að öðru leyti skal fara um eignaupptöku samkvæmt ákvæðum 69. gr. laga nr. 19/1940.

 

XVI. kafli

Reglugerðarheimildir, gjaldtökuákvæði og úthlutun arðs af hreindýraveiðum.

  1. gr.

Setning reglugerða.

Ráðherra skal heimilt í reglugerð að mæla fyrir um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:

  1. aukna vernd eða sértæka friðun ákveðinna dýra eða búsvæða þeirra skv. 9. gr.,
  2. tilgreiningu mikilvægra fuglabjarga, fuglabyggða og selalátra skv. 10. gr.,
  3. hjálparskyldu vegna villtra dýra og greiðslu kostnaðar vegna hennar skv. 11. gr.,
  4. stjórnunar- og verndaráætlanir skv. 16. gr.,
  5. ákvörðun um að aflétta friðun einstakra tegunda skv. 17. gr.,
  6. veiðar sem þykja nauðsynlegar til að varna tjóni 18. gr.,
  7. vöktun og nytjaveiðar á fuglum skv. 29. gr.,
  8. friðlýsingu æðarvarps og heimild landeiganda eða umráðamanns til að verjast tjóni skv. 32. gr.,
  9. eggjatöku skv. 33. gr.,
  10. stjórn hreindýraveiða og skiptingu arðs af hreindýraveiðum, skv. X. kafla,
  11. veiðar á ref og greiðslu kostnaðar vegna þess, sbr. 44. gr.,
  12. veiðar á mink og greiðslu kostnaðar vegna þess, sbr. 47. gr.,
  13. bann við sölu á veiðifangi og eggjum og um starfsemi hamskera skv. XIII. kafla.

 

  1. gr.

Gjaldtaka.

Í reglugerðum skv. 54. gr. laganna má ákveða að tekið sé gjald fyrir eftirfarandi veitta þjónustu eða leyfi:

  1. Fyrir útgefið veiðikort fyrir hvert veiðiár. Gjaldið skal nema (5.500 kr.) og rennur það í ríkissjóð. Innheimtuaðili gjaldsins skal í upphafi nýs veiðiárs breyta fjárhæð þess til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa á vísitölu neysluverðs frá fyrra veiðiári.
  2. Vegna hæfnisprófa veiðimanna og fyrir námskeið til undirbúnings þeirra, sbr. 26. gr.
  3. Verkleg skotpróf vegna hreindýraveiða, sbr. 39. gr.
  4. Útgáfu eða endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum, 40. gr.
  5. Af hverju felldu hreindýri, sbr. 38. gr.

Gjöld samkvæmt 2.-4.  tl. skulu renna til Umhverfistofnunar og innheimt skv. gjaldskrá sem ráðherra setur að tillögu hennar. Gjöldin skulu ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu vegna námsskeiða, prófa og leyfa.

Gjald samkvæmt 5. tl. skal innheimt af Umhverfisstofnun og taka mið af kostnaði við vöktun hreindýrastofnsins, eftirlit og stjórn hreindýraveiða auk arðgreiðslna til landeigenda á hreindýrasvæðum sbr. 56. gr.

Ráðherra ákvarðar fjárveitingu til Umhverfisstofnunar á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum til rannsókna, vöktunar, veiðieftirlits og stýringar á stofnum villtra dýra og útgáfu veiðikorta. Ráðherra úthlutar fé til rannsókna af fjárveitingu skv. 1. málsl. að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar.

 

  1. gr.

Úthlutun arðs af hreindýraveiðum.

Umhverfisstofnun skiptir arði af sölu veiðileyfa og afurða felldra dýra milli landeigenda sem heimila hreindýraveiðar á landi sínu að fengnum tillögum hreindýraráðs.

Landeigandi skal fyrir 1. júlí ár hvert tilkynna til Umhverfisstofnunar hvort hann heimili veiðar á landi sínu eður eigi. Landeigandi þarf þó ekki að tilkynna afstöðu sína árlega hafi hann gert það einu sinni og ekki orðið breyting á afstöðu hans. Umhverfisstofnun er heimilt að miða við afstöðu landeiganda frá fyrri veiðitímabilum hafi hann ekki tilkynnt um afstöðu sína fyrir 1. júlí.

Aðeins er heimilt að úthluta arði af hreindýraveiðum til þeirra landeigenda sem heimila hreindýraveiðar á landi sínu allt veiðitímabilið.

 

XVII. kafli

Gildistaka.

  1. gr.

Gildistaka og brottfallin lög.

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.

Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum nema 1. mgr. 8. gr. laganna, sem mun halda gildi sínu á þeim svæðum landsins þar sem ekki hefur endanlega verið skorið úr mörkum eignarlands og þjóðlenda, skv. lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Reglugerðir og aðrar stjórnvaldsákvarðanir sem settar voru með stoð í l. nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, og voru í gildi við setningu laga þessara, halda gildi sínu þar til nýjar reglur hafa verið settar, enda brjóti þær ekki í bága við lögin.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu innan tveggja ára frá samþykki frumvarps þessa hafa lokið gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir þær tegundir eða stofna sem hingað til hafa sætt hafa tiltekinni nýtingu eða veiðum eða eru líklegar til að valda tjóni.

Ráðherra er heimilt, þar til stjórnunar- og verndaráætlanir liggja fyrir, að aflétta friðun og heimila nytjaveiðar eða veiðar til varnar tjóni á tegundum eða stofnum villtra dýra á grundvelli laga þessara að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar.

 

 

 

Greinargerð.

 

Nytsömust íslenzkra anda – Nýleg fræðigrein um æðarfuglinn.

Nýlega kom út tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands Ritið þar sem vaktar eru upp aðkallandi spurningar er varða loftslagsbreytingar, fækkun dýrategunda, umhverfissiðfræði og sjálfbærni. Þeir þverfaglegu textar og listaverk sem birtast í Ritinu eiga það sameiginlegt að fela í sér nýstárleg sjónarhorn á viðfangsefni sem áður voru gegnsýrð hugmyndafræði mannmiðjunar. Tekin eru til gagnrýninnar umfjöllunar gamalgróin viðhorf um aðgreiningu manna og dýra og er efnið tímabært framlag til pósthúmanískrar umræðu á Íslandi. Höfundar takast hér á við flóknar sameiginlegar áskoranir og viðfangsefni sem blasa við nú á tímum mannaldar – þvert á landamæri og (dýra)tegundir. Þá er einnig fjallað um birtingarmyndir dýra í sjónrænu efni og framsetningu þeirra á söfnum og sýningum. Dýr í sínum margvíslegu myndum hafa löngum haft sterkt aðdráttarafl og heillað manninn frá upphafi vega. Þá hafa þau jafnframt valdið manneskjunni margvíslegum heilabrotum, sem vara enn um sinn, eins og dæmin í þessu hefti sýna glöggt. Á meðal efnis í Ritinu er grein um æðarfuglinn eftir Eddu R.H. Waage og Karl Benediktsson og ber heitið: „Nytsömust íslenzkra anda“. Æðarfuglinn, friðun hans og aðdragandi fyrstu fuglafriðunarlaganna. Hægt er að nálgast greinina hér.