Ályktanir frá aðalfundi ÆÍ 2025.
Ályktun
,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 1. nóvember 2025 í Landbúnaðarháskóla Íslands skorar á Náttúruverndarstofnun og stjórnvöld að hefja tafarlaust gerð stjórnunaráætlunar fyrir mink og ref“.
Ályktunin var samþykkt samhljóða.
Ályktun
,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 1. nóvember 2025 í Landbúnaðarháskóla Íslands skorar á stjórnvöld að setja fjármagn í vöktun á ref og mink svo hægt sé að vinna að því að fá yfirsýn yfir stofnstærð, útbreiðslu og tjón. Þá skora félagar í Æðarræktarfélagi Íslands á stjórnvöld að leggja fram áætlun um útrýmingu minks úr íslenskri náttúru í framhaldi af tilraunaverkefni þess efnis sem fram fór á Snæfellsnesi og í Eyjafirði á árunum 2007-2009“.
Mótmæli bárust úr sal um ályktunina og var ákveðið að kjósa um að fella hana niður. Var samþykkt að fella niður ályktunina, einn var á móti.
Ályktun
,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 1. nóvember 2025 í Landbúnaðarháskóla Íslands skorar á stjórnvöld að breyta 13. grein í lögum númer 64/1994 þar sem segir að ríkissjóður endurgreiði allt að helming kostnaðar við minkaveiðar. Félagar í ÆÍ skora á stjórnvöld að auka fjárframlög til minkaveiða með það að markmiði að eyða mink skipulega. Minkurinn er ágengt dýr og hefur neikvæð áhrif á fuglalíf og varphætti fugla um land allt“.
Ályktunin var samþykkt samhljóða.
Ályktun
,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 1. nóvember 2025 í Landbúnaðarháskóla Íslands telur þýðingarmikið að lög nr. 52/2005 um gæðamat á æðardúni haldi gildi sínu. Lögin hafa gegnt veigamiklu hlutverki við sölu á æðardúni í yfir 50 ár eða allt frá 1970 þegar lögin voru fyrst sett. Lög um gæðamat á æðardúni hefur verið hornsteinn þess að kaupendur æðardúns geti treyst að um fyrsta flokks íslenskan æðardún sé að ræða hvort heldur sem um ræðir æðardún eða vörur sem innihalda æðardún. Lögin hafa gegnt lykilhlutverki í að tryggja sérstöðu íslensks æðardúns á heimsvísu“.
Ályktunin var samþykkt samhljóða.
