51. & 52. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2022

Fundargerð aðalfunda ÆÍ, fyrir árin 2020 og 2021, 26. mars 2022.

Aðalfundarstörf fyrir árið 2020

Fundarsetning: Guðrún Gauksdóttir, formaður ÆÍ, flutti ávarp:

„Kæru félagar í ÆÍ!

Það var viðbúið að færri félagar mæti til aðalfundar nú en ella, vegna Covid faraldursins og þess að fundurinn er ekki á hefðbundnum tíma. Afboðanir hafa verið að berast frá félögum og stjórnin hefur ekki farið varhluta sjálf af veirunni.

Það er í fyrsta skipti sem hægt er að fylgjast með aðalfundi ÆÍ  í gegnum fjarfundarbúnað á TEAMS og geri ég ráð fyrir að svo verði í framtíðinni. Það eru því tímamót í ýmsum skilningi hjá félaginu. Við munum á næstunni kjósa um það hvort félagið verði hluti Bændasamtaka Íslands sem búgreinadeild æðarræktar eða haldi áfram sem sjálfstætt félag.

Hjá mér eru tímamót því ég mun ekki gefa aftur kost á mér sem formaður. Ég hef setið í stjórn ÆÍ frá aðalfundi 2003 og tók við sem formaður félagsins árið 2010. Ég hef reyndar syndgað upp á náðina síðastliðin 2 ár. Á tímamótum er tækifæri til að horfa um öxl.

Á þeim árum sem ég hef setið í stjórn og síðar gegnt formennsku hafa orðið umtalsverðar breytingar á starfi og högum félagsins, fyrst og fremst vegna afnáms búnaðargjalds og í kjölfar þess breytinga á félagskerfi Bændasamtaka Íslands. Æðarræktafélag Íslands hefur verið aðildarfélag Bændasamtaka Íslands frá stofnun félagsins árið 1969 og því hafa þessar breytingar haft bein áhrif á starfsemi ÆÍ, m.a. á hlutverk og störf stjórnar og auk þess höggvið skarð í tekjur félagsins okkar.

Áður en búnaðargjald var afnumið var það megintekjustofn félagsins eins og grein hefur verið gerð fyrir í bréfi til félaga. Þeim hluta gjaldsins sem rann til Bændasamtakanna var m.a. varið til þjónustu hlunnindaráðgjafa við ÆÍ. Á þeim tíma sem ég sat í stjórn voru það Árni Snæbjörnsson og síðar Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir sem voru hlunnindaráðgjafar. Þekking þeirra og framlag til æðarræktar er ómetanlegt og þau lögðu grunn að mörgum þeim viðfangsefnum sem félagið er að fást við í dag.

Við brotthvarf hlunnindaráðgjafa í kjölfar afnáms búnaðargjalds varð stjórn ÆÍ að feta nýja stigu. Það eru margir félagar ÆÍ sem sakna heimsókna og þeirrar aðstoðar og hvatningar sem Árni og Guðbjörg miðluðu af þekkingu sinni. Eftir að búnaðargjald var afnumið og aðstoðar hlunnindaráðgjafa naut ekki lengur við þá voru góð ráð dýr og stjórn ÆÍ hefur leitað leiða til að halda uppi starfi félagsins. Fyrst og fremst  hefur verið um sjálfboðavinnu að ræða af hálfu stjórnarmanna en félagið einnig keypt þjónustu í einstök verkefni. Félagsmenn hafa sýnt umburðarlyndi þegar hnökrar hafa komið upp í starfinu og kann ég þeim þakkir fyrir. Í forgrunni hefur verið að gæta eins og kostur er sjóða félagsins. Með sama hætti hafa Bændasamtökin og önnur búgreinafélög þurft að leita leiða til að mæta þeim áskorunum sem fylgdu afnámi búnaðargjalds og þeim breytingum sem það hafði á félagskerfi Bændasamtakanna. Á sömu vegferð er Æðarræktarfélag Íslands nú.

Áherslur stjórnar ÆÍ hafa byggst á þeim verkefnum, sem félaginu eru falin í lögum félagsins, og stjórn vinnur hverju sinni að í umboði aðalfunda. Jafnframt byggja áherslur stjórnar á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið að æðarrækt frá því að félagið var stofnað fyrir rúmum 50 árum en tekst jafnframt á við nýjar áskoranir.

Ég þakka félögum Æðarræktarfélags Íslands það traust sem þeir hafa sýnt mér á síðastliðnum tæpum 20 árum og fyrir að fela mér forystu í félaginu. Ég þakka samstarsfólki í stjórnum hverju sinni og hlunnindaráðgjöfum okkar fyrir farsælt og gott samstarf.

Ég óska nýjum formanni, sem verður kosinn hér á eftir, stjórn og félaginu heilla í því starfi sem framundan er. Það eru tímamót í sögu félagsins hvort sem fyrir valinu verður að sameinast Bændasamtökum Íslands sem búgreinadeild æðarræktar eða að starfa á sjálfstæðum grundvelli. Æðarrækt á engan sinn líka og áhersla verður lögð á vöxt og viðgang búgreinarinnar hvor vettvangurinn sem fyrir valinu verður. Mikilvægast er að æðarbændur haldi hópinn í baráttu sinni.

Við fögnuðum síðast þegar við hittumst – fyrir tæpum þremur árum síðan – hálfrar aldar afmæli félagsins, m.a. með heimsókn á Bessastaði. Aðalfundirnir í dag eru með óhefðbundnu sniði sem skýrist af ýmsu og margir sakna fastra liða eins og frétta frá deildum og erinda frá fræðimönnum.

Nú lýsi ég 51. og síðan 52. aðalfund félagsins setta. Sæmundur Sæmundsson fer með fundarstjórn og Sigríður Magnúsdóttir, ritari félagsins skráir fundargerð“.

 

Fundarsókn var þokkaleg, 29 manns sátu fundinn í húsnæði Landbúnaðarháskóla Ísands í Keldnaholti, Árleyni 22, en 14 til viðbótar voru á TEAMS. Þetta er í fyrsta skipti sem félagar taka þátt í aðalfundi á netinu.

Fundarstjóri, Sæmundur Sæmundsson, bar upp ársreikninga félagsins fyrir árið 2019 og voru þeir samþykktir.

 

Aðalfundarstörf fyrir árið 2021

Fundarsetning og skýrsla stjórnar:

 

Guðrún Gauksdóttir flutti skýrslu stjórnar:

„Áherslur stjórnar ÆÍ hafa byggst á þeim verkefnum sem félaginu eru falin í lögum félagsins  og stjórn vinnur að hverju sinni  í umboði aðalfunda. Jafnframt byggja áherslur stjórnar á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið að  æðarrækt frá því að félagið var stofnað fyrir rúmum 50 árum en tekst jafnframt á við nýjar áskoranir.

 

Vottun íslensks æðardúns

Lögskipað vottunarkerfi íslensks æðardúns hefur mikla sérstöðu. Ári eftir að ÆÍ var stofnað var lögfest kerfi gæðamats á æðardúni og hefur það frá upphafi verið grundvöllur trausts í viðskiptum með æðardún og þekkt og viðurkennt á meðal hráefniskaupenda. Þegar gæðamatskerfinu var breytt og það var jafnframt látið taka til fullunninnar vöru komu í ljós ágallar á kerfinu og vinnur stjórn nú að tillögum að breytingum á reglukerfinu í samráði við Landbúnaðarráðuneytið. Þá má nefna að miklar breytingar og nýungar hafa almennt orðið í vottunarkerfum á síðustu árum og stjórn því kannað möguleika á notkun annarra vottunarkerfa samhliða eða sem gætu komið í stað þess kerfis sem nú er í gildi. Landbúnaðarráðuneytið lagði árið 2020 til að vottunarkerfi æðardúns yrði afnumið en eftir andmæli stjórnar ÆÍ og viðræður við fulltrúa ráðuneytisins voru þær tillögur dregnar tilbaka. Það liggur þó fyrir að þetta er og verður þýðingarmikið verkefni hjá ÆÍ að vinna að endurskoðun vottunarkerfisins og nauðsynlegt að gefa sér rúman tíma og athuga þá kosti sem í boði eru gaumgæfilega.

Fulltrúar úr stjórn ÆÍ hafa m.a. fundað með Staðlaráði Íslands, ICERT og International Down and Feather Labaratory. Þá mun vottun íslensks æðardúns sem verndaðs afurðaheitis m.a. skipta miklu máli, en sú umsókn er í undirbúningi. Þá eru þeir félagsmenn sem eru í hreinsun, sölu og útflutningi æðardúns hvattir til að leita leiða fyrir sín fyrirtæki að því er varðar þær fjölbreyttu vottanir sem í boði eru í dag. ÆÍ hefur staðið fyrir grunnkerfi um vottun á æðardúni og ver af öllu afli og hefur mótað að breyttum aðstæðum.

 

Markaðssetning æðardúns og samstarf við Íslandsstofu

Æðardúnn er afar takmörkuð auðlind og meginmarkmið ÆÍ hefur verið að draga úr sveiflum í eftirspurn og verði á æðardúni. Aukin fullframleiðsla á vöru úr æðardúni beint til kaupanda dregur úr sveiflum og skilar mestu verðmæti til æðarbænda. ÆÍ hefur leitað ýmissa leiða í þessum efnum og  kynningarefni var endurnýjað árið 2012, gefnir út bæklingar og kynningarmynd á fjórum tungumálum og hefur það efni staðið fyrir sínu.

Mikil þróun hefur aftur á móti orðið í leiðum í markaðsetningu og því er það ómetanlegt fyrir ÆÍ að vera nú komið í samstarf við Íslandsstofu og njóta sérfræðiþekkingar og leiðsagnar fagfólks þar. Í ljósi þeirrar þýðingar sem stjórn ÆÍ telur að sú samvinna hafi fyrir æðarrækt hefur verið ákveðið að verja fjárhæð af sjóði félagsins til að hrinda markaðssetningunni af stað og er undirbúningur að nýjum söluvef æðardúns vel á veg kominn. Gert er ráð fyrir að vefurinn verði opnaður seinnipart sumars eða í haust. Þá ætlar Íslandsstofa að skipuleggja myndatökur á nokkrum stöðum á landinu fyrir vefsíðuna í vor. Ljóst er að framvinda markaðsátaksins í samvinnu við Íslandsstofu ræðst af því hvernig gengur að afla styrkja til þeirra verkefna sem framundan eru. Stjórn hefur óskað eftir fundi með landbúnaðarráðherra til að kynna þýðingu markaðsverkefnisins fyrir æðarrækt í landinu og hvort opinberir styrkir séu í boði. Framleiðnisjóður sem hefur verið aðalstyrktaraðili í átaksverkefnum ÆÍ var lagður niður í fyrra og í stað hans stofnaður Matvælasjóður, þar sem verkefni tengd æðardúni eru ekki styrkhæf.

Það er ÆÍ mikils virði að vera komð í samstarf við Íslandsstofu. Félagsmenn geta kynnt sér vef Íslandsstofu www.inspiredbyiceland.com og upplýsingar um starfsemi hennar www.islandsstofa.is

Að því er varðar markaðsstarf þá felst hluti af kynningu og markaðssetningu æðardúns  einnig í veitingu upplýsinga og stuðningi við þá sem sem vilja kynnast æðarrækt hvort sem um er að ræða einstaklinga, kvikmyndagerðarmenn og fleiri aðila og félaginu berst fjöldi slíkra fyrirspurna. Félagsmenn sem eru seljendur/útflytjendur æðardúns eru hvattir til að senda tengiliðaupplýsingar á netfang félagsins, yfirfara þær eða uppfæra.

 

Bandaríkjamarkaður nú opinn fyrir vörur úr æðardúni

Íslandsstofa hefur unnið að því að opna leiðir fyrir æðardún og vörur úr æðardúni á Bandaríkjamarkað í samráði við sendiráð Íslands í Bandaríkjunum og nú hillir undir langþráðar breytingar í þeim efnum. Þegar er búið að opna fyrir  innflutning á vörum úr æðardúni frá Íslandi til Bandaríkjanna. Félagsmenn eru hvattir til að láta stjórn vita ef þeir lenda í einhverjum erfiðleikum í útflutningi til Bandaríkjana en minnisblaði hér að lútandi hefur verið dreift á tollhafnir í Bandaríkjunum. Að því er varðar innflutning æðardúns (hráefnis) á Bandaríkjamarkað þá er einhver bið á að opnað verði fyrir hann, líklega u.þ.b. 2 ár.

 

Sölumál

Glærur sem Erla Friðriksdóttir, varaformaður ÆÍ, hafði tekið saman og voru kynntar á fundinum og má sækja með þessari krækju. http://icelandeider.is/wp-content/uploads/2022/04/20220326.Solumal.SENT_.pdf

 

Vargeyðing

Mál tengd vargeyðingu eru eitt af meginverkefnum ÆÍ samkvæmt lögum félagsins. Fram að afnámi búnaðargjalds gátu deildir félagsins sótt um styrk til ÆÍ til vargeyðingar en eftir að þessi stærsta tekjulind félagsins hvarf var ákveðið að hætta að greiða slíka styrki. Þegar mál tengd vargeyðingu hafa verið til umfjöllunar hjá stjórnvöldum hefur ÆÍ lagt áherslu á að koma að sjónarmiðum æðarbænda. Nú síðast átti fulltrúi úr stjórn ÆÍ sæti í nefnd þeirri sem skipuð var til að endurskoða lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum en þeirri vinnu er ekki lokið.

 

Gagnvirkur kortagrunnur yfir æðarvarp á Íslandi

Margrét Rögnvaldsdóttir hefur stýrt uppfærslu á gagnvirkum kortagrunni yfir æðarvarp á Íslandi í samvinnu við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og er hann aðgengilegur á vef félagsins. Það er mikill áfangi að hafa uppfærðar upplýsingar um fjölda og staðsetningu æðarvarpa á Íslandi og slíkur grunnur felur í sér ýmis tækifæri.

 

Námskeið

Endurmenntun Landbúnaðarháskólans hélt í samráði við stjórn ÆÍ dúnmatsnámskeið í haust og var þátttaka mjög góð. Um næstu helgi, er fyrirhugað námskeið um æðarrækt með áherslu á ungauppeldi og vargeyðingu.

 

Tilraun 2 æðarrækt

Fyrirhugað er að sýningin um æðarrækt og æðardún, sem unnin er í samvinnu við Listaháskóla Íslands, verði opnuð 7. maí í Norræna húsinu en nánari upplýsingar verða sendar félagsmönnum síðar.

 

Önnur verkefni

Að frátöldum framangreindum meginverkefnum tekst ÆÍ og stjórn á við margvísleg önnur viðfangsefni og sum þeirra eru ný af nálinni. Starfsemi sem felur í sér  mögulega ógn við búsvæði æðarfugls hefur færst í vöxt, t.d. sjókvíaeldi og nýting þangs og þara. ÆÍ hefur lagt áherslu á rannsóknir á þessu sviði.  Einnig má nefna sjúkdóma sem herja á æðarfugl, t.d. fuglakóleru.  ÆÍ telur samvinnu við þá sem stunda rannsóknir á æðarfugli og búsvæðum hans og þeirri margvíslegu vá sem að fuglinum steðjar mikilvæga og staðið fyrir kynningu á þeim málefnum á aðalfundum félagsins. Þá má nefna átak í friðlýsingarmálum og hönnun sérstaks skiltis sem eigendur friðlýstra æðarvarpa geta fengið keypt. Nánari upplýsingar eru á vefsíðu félagsins.

 

Breytingar á félagskerfi Bændasamtaka Íslands (BÍ)

Eins og félagsmönnum er kunnugt þá hafa orðið breytingar á félagskerfi BÍ og mun í tengslum við aðalfund verða kosið um hvort ÆÍ sameinist BÍ. Hafa félagsmönnum verið sendir póstar með upplýsingum um hvað sameining felur í sér. Fundur með formanni Bændasamtakanna var haldinn í janúar eins og kemur fram í pósti sem sendur var á félaga ÆÍ. Á fundinum gafst félagsmönnum tækifæri til að spyrja út í þær breytingar sem felast í sameiningu við Bændasamtökin. Siðar á fundinum verður lögð fram tillaga að bráðabirgðaákvæði við lög ÆÍ þar sem lagt er til að rafræn kosning fari fram um sameiningu ÆÍ við Bændasamtökin“.

Tillöguna má sjá hér að neðan, en allir nema einn fundarmaður samþykktu tillöguna.

 

Tillaga að ákvæði til bráðabirgða í lög Æðarræktarfélag Íslands vegna kosninga um sameiningu félagsins við Bændasamtök Íslands

Tillaga að ákvæði til bráðabirgða hljóðar svo:

Stjórn Æðarræktarfélags Íslands er heimilt að efna til rafrænnar atkvæðagreiðslu á meðal kjörgengra félagsmanna í framhaldi af aðalfundi áranna 2020 og 2021, sem haldinn er þann 26. mars árið 2022, um það hvort félagið verði sameinað Bændasamtökum Íslands. Niðurstaða þeirra kosninga er bindandi með sama hætti og ef þær hefðu farið fram á aðalfundinum sjálfum. Jafnframt er stjórn falið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til aðlögunar samþykkta félagsins í samræmi við niðurstöður kosninganna og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir tilefni þeirra.

Greinargerð

Æðarræktarfélag Íslands hefur verið eitt af aðildarfélögum að Bændasamtökum Íslands.  Nú hafa  orðið breytingar á félagskerfi samtakanna og aðildarfélögin hafa eitt af öðru kosið um sameiningu við Bændasamtökin sem deildir búgreina. Félagar ÆÍ eiga eftir að kjósa um sameiningu. Stjórn ÆÍ telur almenna þátttöku í kosningum mikilvæga og að sem flestir félagsmenn eigi kost á þátttöku í kosningunum hvort sem þeir komast á aðalfund eða ekki. Í kjölfar kynningarfundar með BÍ þann 27. janúar s.l. gekkst stjórn ÆÍ fyrir skoðanakönnun meðal félagsmanna um hug þeirra til sameiningar. Í könnuninni tóku þátt 122 og voru 52 samþykkir sameiningu við Bændasamtökin en 70 mótfallnir.

Til að tryggja sem almennasta þátttöku í kosningu um þetta mikilvæga mál leggur stjórn ÆÍ til að bráðabirgðaákvæði verði samþykkt við lög félagsins sem heimili rafræna atkvæðagreislu um þetta tiltekna mál. Með ákvörðun um rafræna atkvæðagreiðslu í kjölfar aðalfundar gefst flestum félagsmönnum kostur á að greiða atkvæði óháð því hvort þeir geti sótt aðalfund eða ekki.

Félagar í ÆÍ eru búsettir í öllum landshlutum og eiga ekki allir heimangengt til aðalfundar og einnig koma hér til áhrif af Covid en fjöldi sýkinga er enn mikill. Eingöngu er lögð til þessi afmarkaða tillaga að bráðabirgðaákvæði við lögin. Ljóst er að endurskoðun á lögum félagsins þarf að fara fram fyrir næsta aðalfund hver sem niðurstaða kosnnganna verður. Bráðabirgðaákvæðið fellur niður þegar rafræn kosning er afstaðin.

 

Ársreikningur: Sæmundur Sæmundsson, fundarstjóri, fór yfir ársreikninginn fyrir árið 2020 og bar hann upp til samþykktar. Ársreikningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Íslandsstofa og ÆÍ: Kristinn Björnsson verkefnastjóri átti að kynna samstarf Íslandsstofu og Æðarræktarfélagsins, en komst ekki til fundarins. Hann sendi glærurnar sínar til fundarins og Margrét Rögnvaldsdóttir fór yfir þær með fundarmönnum og sýndi nýja vefinn sem enn er verið að vinna með Íslandsstofu. Það á að fara í myndartökur í vor í samstarfi við æðarbændur.  Meðal annars á að gera áhrifamyndband. Vefurinn verður vistaður og í umsjá Íslandsstofu án kostnaðar fyrir ÆÍ.  Það er áætlað að þessi vefur fari í loftið síðsumars.

Kosningar: Fyrst var kjörinn formaður ÆÍ til eins árs. Einn var í framboði, Margrét Rögnvaldsdóttir, og var hún einróma kjörin sem nýr formaður ÆÍ. Í aðalstjórn voru þrír í framboði um tvö sæti, Árni Rúnar Örvarsson, Magnús Jónasson og Sigríður Magnúsdóttir. Hér þurfti að kjósa og atkvæðaseðlum dreift. Niðurstaðan varð sú að Sigríður og Magnús voru kosin í stjórn. Í varastjórn voru líka þrír í framboði um tvö sæti, Pálmi Benediktsson, Óðinn Logi Þórisson og Hallur Þorsteinsson. Aftur var atkvæðaseðlum dreift og kosið. Niðurstaðan hér var að þeir Pálmi og Hallur voru kosnir í varastjórn.

Skoðunarmenn reikninga verða áfram þeir Pétur Guðmundsson og Ásgeir Gunnar Jónsson.

Önnur mál: Umræður um aðild ÆÍ að Bændasamtökunum. Þeir sem lögðu fram spurningar og tóku þátt í umræðunum voru m.a. þau Merete Rabölle, Hallur Þorsteinsson, Valgeir Jónasson, Gunnþór Kristjánsson, Margrét Rögnvaldsdóttir.

Fundarslit: Guðrúnu Gauksdóttur fyrrum formanni voru þökkuð vel unnin störf í þágu Æðarræktarfélagsins og árnað heilla í framtíðinni. Guðrún þakkaði falleg orð í sinn garð. Að því búnu var fundi slitið og fundarmönnum boðið kaffi og meðlæti.

Fundarritari var Sigríður Magnúsdóttir.