42. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2011

Aðalfundur Æðarræktarfélgs Íslands haldinn að Reykhólum þann 27. ágúst 2011, kl. 12.

Dagskrá fundarins:

  1. Fundarsetning. Guðrún Gauksdóttir starfandi formaður setti fundinn og bauð fundargersti velkomna. Þá minnst hún Jónasar Helgasonar formanns ÆÍ sem lést fyrr á árinu. Fundarmenn risu úr sætum og vottuðu Jónasi með því virðingu sína.
    Þá fór fram kjör starfsmanna fundarins; Guðni Ólafsson var kjörinn fundarstjóri, Pétur varafundarstjóri og Ásta F. Flosadóttir ritari fundarins.Hádegisverður í boði félagsins.
    Meðan á hádegisverðinum stóð voru flutt tvö erindi.a) Þorsteinn Tómasson frá Landbúnaðarráðuneytinu ávarpaði fundinn undir borðum. Hann kynnti nýja reglugerð um framkvæmd dúnmats. Einnig kynnti hann sýnishorn af vottorðum dúnmatsmanna.
    b) Gunnar Guðmundsson frá BÍ kynnti samstarfssamning BÍ og ÆÍ. BÍ er að gera samstarfssamninga sem þessa við öll fagfélög bænda. Verkaskipting milli BÍ og ÆÍ er skýrð í samningnum. Óvissa er um framtíðarstuðning ríkisvaldsins við ráðgjafa­þjónustu í landbúnaði. Til stendur að endurskoða ráðgjafaþjónustuna í heild sinni og verði drög að því skipulagi lögð fyrir búnaðarþing 2012.
  1. Skýrslur
  2. a) Skýrsla stjórnar. Fyrst flutti Guðrún Gauksdóttir starfandi formaður ÆÍ skýrslu stjórnar. Gefum Guðrúnu orðið:
    “Mig langar til að hefja fundinn á því að minnast Jónasar Helgasonar æðarbónda í Æðey og formanns Æðarræktarfélags Íslands sem lést fyrir aldur fram þann 20. janúar sl. Jónas átti sæti í stjórn félagsins frá 1984 og var formaður þess frá 1999 til dánardags. Jónas vann ötult starf í þágu félagsins og æðarræktar. Við skulum heiðra minningu Jónasar með því að rísa úr sætum.
    Eins og ráðið verður af dagskrá fundarins í dag þá þurfum við að halda vel á spöðunum og ræðumönnum nokkuð þröngur stakkur sniðinn tímalega séð. Ég mun því stikla á stóru í skýrslu minni. Um ýmislegt mun ég vísa til erindis Guðbjargar hér á eftir auk þess sem Erla fjallar um sölumál og útflutning.Stjórn og stjórnarfundir
    Frá því í lok febrúar hefur stjórnin skipt með sér verkum með þeim hætti að sú sem hér mælir, Guðrún Gauksdóttir Kaldaðarnesi hefur gegnt formennsku, Guðni Þór Ólafsson, Melstað er gjaldkeri og Ásta Flosadóttir, Höfða tók sæti í aðalstjórn og er ritari. Erla Friðriksdóttir situr í varastjórn. Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir hefur verið stjórninni ómetanlegur stuðningur og ötul í starfi sínu fyrir félagið og þakka ég henni framlagið.
    Þrír stjórnarfundir hafa verið haldnir á árinu. Stjórnarmenn nýta sér í síauknum mæli möguleika netsins til samráðs og eru fundir m.a. haldnir í gegnum internetið s.s. með Skype. Kemur það sér vel þegar stjórnarmenn eru búsettir víða um land og síðast en ekki síst sparar það kostnað fyrir félagiðHelstu verkefni stjórnar frá síðasta aðalfundi:
    Stjórnin hefur lagt áherslu á kynningar- og markaðsmál. Lógó félagsins er tilbúið (þið getið séð það á bréfsefni dagskrár sem er í möppunni). Það styttist í að nýr bæklingur og kynningarmynd verði tilbúin og að heimasíða félagsins verði opnuð (lénið icelandeider.is. Við höfðum vonast til að geta sýnt efnið hér á fundinum en vegna sumarleyfa hefur þetta dregist aðeins og náðist ekki að klára það fyrir aðalfund. Guðbjörg mun fara vel yfir kynningar og markaðsmálin hér á eftir.
    Þá hefur verið unnið að því að koma félagaskránni í aðgengilegt rafrænt form og innheimtu félagsgjalda í heimabanka – vonandi gengið að mestu stórslysalaust – þó hafa einhver nöfn fallið út . Biðjum við félagsmenn að virða okkur það til betri vegar meðan þessir byrjunarörðugleikar ganga yfir.Fjárveitingar/ styrkir
    Félagið fékk milljón af fjárlögum sem er hærri upphæð en verið hefur. Blikur eru á lofti með styrk á næsta ári, vegna breytinga hjá störfum og úthlutun hjá Fjárlaganefnd Alþingis. Þá fékk félagið styrk úr Framleiðnisjóði til markaðs- og kynningarmála að fjárhæð 1.000.000 kr.

    Dúnmat
    Í hádeginu var farið yfir dúnmatsmálin og ný vottorð og vísa ég til kynningar Þorsteins í þeim efnum

    Tíðarfar
    Eins og kunnugt er þá var tíðarfar víðast hvar slæmt í vor og æðarvarp fór illa – jafnvel 30-50 % samdráttur og sums staðar meira. Heyrum nánar um það í fréttum frá einstökum deildum.

    Ályktanir síðasta aðalfundar
    Á aðalfundinum í fyrra var samþykkt tillaga um styrki til deilda. Styrkurinn nú er nokkru lægri en síðasta ár og er skýringin sú að talsverðu fé hefur verið veitt í gerð kynningarefnis.
    Að því er varðar ályktun um framlög til refaveiða, framhald á verkefni til útrýmingar á mink og skipun nefndar um endurskoðun laga um vernd og friðun villtra fugla og spendýra þá var ritað bréf til ráðherra til að fylgja eftir ályktun fundarins. Jónas og Guðbjörg áttu í kjölfarið fund með ráðherra en um engin frekari viðbrögð hefur verið að ræða. Guðbjörg sótti fund sem hlunnindaráðgjafi ásamt fulltrúum Bændasamtaka Íslands með villidýranefndinni og kom athugasemdum á framfæri sem snúa að æðarbændum. Tillagan um að ÆÍ beiti sér fyrir því að æðarfuglinn verði þjóðarfugl var frestað þar til markaðsefni verður tilbúið og við getum notað markaðsefnið til kynningar ef vel verður tekið í þetta mál að velja þjóðarfugl.

    Deildir
    Það ber að fagna auknu starfi deilda. Guðbjörg og ég fórum á nokkra fundi í maí og í júní. Fleiri deildir hafa haldið fundi eða fundir eru fyrirhugaðir.

    Sölumál
    Árið 2010 var metár í sölu– heildarmagn útflutts dúns 3333. kg. sem er annað stærsta ár í magni og metár í krónum talið. Fyrstu sex mánuði þessa árs var áfram mikið selt á erlenda markaði. Það er gleðilegt að sjá að Japan er ennþá inni í myndinni þrátt fyrir náttúruhamfarir fyrr á árinu og spár um djúpa efnahagslægð þar í kjölfarið. Erla Friðriksd. mun gera grein fyrir sölumálum hér á eftir.
    Síðast en ekki síst vil ég nefna að einkaframtak æðarbænda hefur aukist. Nefni sem dæmi Hlunnindasýninguna hér á Reykhólum, Æðarsetur í Stykkishólmi, og einstakir bændur framleiða og selja í auknum mæli fullunna vöru.”

    Guðrún minnti einnig fundarmenn á að friðlýsa vörp sín, það þarf að endurnýja friðlýsingu á 10 ára fresti.

    Fjöldi félagsmanna ÆÍ var í gær 207 og einhverjir hafa bæst við í dag, svo félagið er í vexti.

    b) Skýrsla hlunnindaráðgjafa. Guðbjörg Helga Jónsdóttir flutti skýrslu hlunnindaráðgjafa og sagði hana í styttra lagi í ár vegna mikillar dagskrár og kosninga. Stjórnsýsluleg verkefni á árinu snéru að laga- og reglugerðarbreytingum á gæðamati á æðardúni. Töluverð rýnivinna var um þróun vottunarferlisins og reglugerðir þar að lútandi. Bændasamtökin tóku við sölu á vottorðum sem framvegis verða seld og eru í þríriti og númeruð. BÍ sér um utanumhald útgefinna vottorða fyrir hönd ráðuneytisins. Einnig var hún þátttakandi í undirbúningi og skipulagi á æðardúnnámskeiði í samstarfi við LBHÍ og ráðuneytið. Talsverð hagsmunagæsla snéri að æðarrækt og vargi, ESB og netalögum.
    Hún fór yfir möguleika æðardúns sem gæðavöru hér heima og erlendis, sótti fjóra deildarfundi, heimsótti fjölmarga æðarbændur heim og var í samskiptum við erlenda dúnbændur í Noregi, Færeyjum og Grænlandi. Ennfremur vann Guðbjörg ötullega í undirbúningi kynningarefnis fyrir íslenskan æðardún.

    c) Reikningar félagsins. Gjaldkeri skýrði og lagði fram reikninga félagsins.

    d) Sölumál. Erla Friðriksdóttir fulltrúi útflutningshóps dúnsala, fór yfir gengi í sölumálum æðardúns á erlendum mörkuðum.
    Útflutt magn skv. upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur aukist á þessu og síðasta ári frá árunum þar á undan þ.e. 2008 og 2009.

    Útflutt kg
    2008 2.012 kg
    2009 1.602 kg
    2010 3.333 kg
    2011 (jan-jún) 1.140 kg

    Meðalverð á hvert útflutt kg hefur einnig farið hækkandi á þessu og síðasta ári frá árunum 2008 og 2009.

    Meðalverð á hvert útflutt kg:
    2008 107.714 kr.
    2009 97.887 kr.
    2010 107.217 kr.
    2011 (jan-jún) 112.895 kr.

    Útflutningsverðmæti æðardúns nam:
    2008 216.720.720 kr.
    2009 156.814.200 kr.
    2010 357.353.883 kr.
    2011 (jan-jún) 128.700.582 kr.

    Stærstu markaðssvæði fyrir íslenskan æðardún eru Þýskaland og Japan. Frá janúar til júní 2011 hafa 528 kg farið til Þýskalands, 326 kg til Japan, 156 kg til Austrríkis, 112 kg til Sviss og 18 kg til Danmerkur.

    Fyrirspurnir og umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
    – Þorsteinn Tómasson, spyr Gunnar Guðmundsson um áhrif ESB aðildar á æðarfuglinn, þar sem hann er ekki friðaður í ESB.
    – Jóhannes Gíslason vill réttann lit á gogginn á blikanum í logoinu.
    – Jón Sveinsson kom í pontu, hann telur sig lifa í allt öðrum heimi en ÆÍ. Honum finnst félagið vera huggulegt kaffisamsæti eldri borgara. Gagnrýndi harkalega sölumál og markaðsmál æðardúns. Segir að heildsalar séu of margir og birgðasöfun sé of mikil á löngu árabili. Vill að dúnninn fari á uppboð sambærilegt við skinnauppboð loðdýra í Danmörku og svipað og fiskur smábátasjómanna hér á Íslandi. Verð á dúni í erlendri mynt hefur ekki hækkað í 20 ár, meðan hefur verð á vörum úr dúni hækkað um 60%. Finnst heildsalarnir vera óþarfa milliliðir og vill losna við þá. Jón vill að ÆÍ einbeiti sér að því koma æðardúni á uppboðsmarkað í stað þess að eyða tíma í að útbúa kynningarefni.
    – Guðbjörg svaraði Jóni Sveinssyni og bauð honum að skoða prófskírteinin sín. Hún vill selja dúninn fullunninn, við Íslendingar erum aðalframleiðendur æðardúns í heiminum og getum því ráðið verðinu, það er önnur staða en loðdýrabændur eru í.   Æðarbændur eiga að selja vöruna fullunna og fullunnin vara fer ekki á uppboðsmarkað. Guðbjörg svaraði líka fyrir litinn á gogginum á blikanum, þetta er teikning en ekki ljósmynd, það þurfti að velja lit sem væri sterkur og myndrænn.
    – Matthías Sævar Lýðsson, svarar Jóni Sveinssyni. Hann hefur verið í verri félagsskap en kaffisamsæti eldri borgara. Og þakkar fyrir orð hans um það hversu lítið vit hann hafi á markaðsmálum og það hvað hann er fátækur og smár. Þakkar stjórn og ráðunaut fyrir unnin störf í markaðsmálum og líka Jóni fyrir að vekja athygli á því sem þarf alltaf að ræða, það hvernig sölumálum eigi að vera háttað. Jón Sveinson greip ítrekað fram í fyrir Matthíasi þrátt fyrir áminningar fundarstjóra.

    Ávörp gesta
    a) Gunnar Guðmundsson frá BÍ ávarpar fundinn í fjarveru Haraldar Benediktssonar sem er fjarverandi vegna veikinda. Gunnar ræddi um þá umræðu sem verið hefur gagnvart bændum og varnarlínum þeim sem BÍ hefur sett sér fyrir viðræður við ESB. BÍ hefur vaktað og varið hagsmuni landbúnaðarins. Í samningaviðræðum við ESB hafa bændasamtökin sett fram varnarlínur landbúnaðarins. Hann fór yfir varnarlínu 6 sem snertir æðarræktina. Þar er rætt um vernd og nýtingu viltra dýra og eyðingu rándýra og meindýrum. Stjórnvöld þurfa að hafa heimild til að vinna á þeim dýrum sem valda tjóni. Aðild að ESB má ekki hafa áhrif á eðlilega og hefðbundna nýtingu náttúruauðlinda, s.s. dún- og eggjatekju. Það hefur ekki verið sérstaklega metið hver áhrif aðildar að ESB væru á æðarræktina. Hvetur alla til að kynna sér varnarlínurnar sem komu fram í síðasta bændablaði. Eins fór Gunnar yfir störf BÍ sem snerta ÆÍ og það sem er á döfinni hjá BÍ. Heildarstefnumörkun fyrir landbúnaðinn er í bígerð.

 

  1. Fræðsluerindi
    Sigurður Steingrímsson frá Impru Akureyri flutti erindi sem hann kallaði
    – Verðmyndun vara, sérstaða og gæði –
    Sagði aðeins frá nýsköpunarmiðstöð Íslands, hver verkefni hennar eru.
    Aðalmálið er að vinna að nýsköpun og atvinnuþróun út á landsbyggðinni.
    Fór yfir grunnhugtök í markaðsfræðum. Hvað er verð? Það er það sem viðskiptavinurinn er tilbúin að borga fyrir vöruna. Gæði eru skilgreiningaratriði og verðið tengist gæðunum. Það þarf að meta hvað fólk er tilbúið til að borga fyrir vöruna óháð hvað það kostar að framleiða vöruna. Hvað getum við talið markaðinum trú um að hann þurfi. Hann sér ýmsa þætti við æðardúninn sem skapa verðmæti; s.s. sérstöðu æðardúns, hreinleika, svæðistengingu, sögu, rekjanleika og ímynd.Gera þarf lista yfir allann kostnað, bæði fastan og breytilegan og staðsetja vöruna miðað við aðrar vörur.

    1. fyrir hvaða markað?
    2. búa til sérstöðu og ímynd
    3. taka saman allan kostnað
    4. skipta kostnaði í fastan og breytilegan
    5. finna út kostnað á einingu
    6. kanna verð á hliðstæðum vörum
    7. verðleggið vöruna miðað við þetta allt.Impra er tilbúin að aðstoða annað hvort bændur eða félagið við markaðssetningu og verðlagningu dúnsins.
  2. Kosningar, samþykktir og tillögura) breytingar á samþykktum ÆÍ – Guðrún
    Stjórn ÆÍ leggur fram breytingu á lögum félagsins að því er varðar fjölgun stjórnarmanna í ÆÍ úr þremur í fimm. Breyting þessi var kynnt með aðalfundarboði skv. 8. gr. laga ÆÍ. Rök fyrir breytingartillögunni eru þau að samkvæmt fyrir­huguðum verka­skiptasamningi milli Bændasamtaka Íslands annars vegar og ÆÍ hins vegar mun stjórn þurfa að sinna störfum sem ráðgjafi hefur gert hingað til. Þá stuðlar fjölgun stjórnarmanna að því að fulltrúar frá öllum landshlutum eigi sæti í stjórn. Gert er ráð fyrir að stjórnina skipi auk formanns, varaformaður, ritari, gjaldkeri og vefstjóri.Ákvæði 6. gr. hljóðar svo:
    Stjórn félagsins skipa þrír menn, formaður og tveir meðstjórnendur. Skuli þeir kosnir á aðalfundi til þriggja ára í senn. Ganga þeir úr stjórn þannig, að formaður gengur úr eftir 1 ár, annar meðstjórnandi eftir tvö ár með hlutkesti, hinn þriðji eftir þrjú ár og helst röðin þannig áfram.
    Enginn atkvæðisbær félagsmaður getur skorast undan endurkosningu, nema sérstök vandamál hamli eða hann hafi verið í stjórn í þrjú ár. Kjósa skal tvo varamenn og tvo skoðunarmenn reikninga til tveggja ár í senn, þannig að annar gangi úr eftir árið, með hlutkesti í fyrsta sinn og síðan sitt árið hvor. Velja má sérstakan framkvæmdastjóra , ef þurfa þykir, ella hafi stjórnin á hendi allar framkvæmdir milli aðalfunda.Tillaga stjórnar að breyttri 6. gr. hljóðar svo:
    Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum, formanni og fjórum meðstjórnendum. Stjórnarmenn skulu eiga aðild að félaginu. Stjórnin skal kosin á aðalfundi til þriggja ára í senn. Stjórnarmenn ganga úr stjórninni þannig: Formaður eftir þrjú ár, tveir meðstjórnendur eftir eitt ár og tveir meðstjórnendur eftir tvö ár og heldur röðin þannig áfram. Stjórnin skiptir með sér verkum.
    Enginn atkvæðisbær maður getur skorast undan kosningu, nema sérstök forföll hamli eða hann hafi verið í stjórn í 3 ár. Kjósa skal tvo varamenn til þriggja ára. Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga til tveggja ára í senn.

    Bráðabirgðaákvæði:Ákvæði þetta er sett til bráðabirgða og gildir um kosningu á aðalfundum 2011, 2012 og 2013 þegar stjórnarmönnum er fjölgað úr þremur í fimm. Á aðalfundi 2011 er kosið um tvo nýja meðstjórnendur. Hlutkesti ræður hvor hinna nýju meðstjórnenda situr eitt ár eða tvö ár. Á aðalfundi 2012 er kosið um tvo meðstjórnendur, þ.e. annan frá eldra kerfi og hinn sem fyrst hlaut kosningu á aðalfundi 2011. Á aðalfundi 2013 er einnig kosið um tvo meðstjórnendur, þ.e. annan úr eldra kerfi og hinn sem fyrst hlaut kosningu á aðalfundi 2011. Síðan heldur sama röð áfram. Eftir aðalfund 2013 fellur þetta bráðabirgðaákvæði því úr gildi.

    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt einróma.

    b) Kosningar

    Formannskosning. Guðrún Gauksdóttir er tilnefnd sem formaður ÆÍ. Jón Sveinsson gefur kost á sér. Kosið var milli þeirra tveggja og var Guðrún kjörin með 56 atk. Jón Sveinsson fékk 7 atk. og auðir seðlar voru 2.
    Kosnir tveir meðstjórnendur í aðalstjórn. Erla Friðriksdóttir og Salvar Baldursson voru ein tilnefnd og því sjálfkjörin í stjórn.
    Kosnir voru tveir varamenn í stjórn. Tilnefnd Solveig Bessa Magnúsdóttir Innri-Hjarðardal og Halla Steinsólfsdóttir Ytri-Fagradal. Ekki voru aðrir tilnefndir eða gáfu kost á sér, þær því sjálfkjörnar.
    Kosinn einn skoðunarmaður reikninga. Pétur Guðmundsson sjálfkjörin skoðunarmaður.
    Kosinn varamaður búnaðarþingsfulltrúa. Tilnefndur er Óðinn Sigþórsson og er hann sjálfkjörinn.
    Reikningar félagsins og ársreikningur bornir undir atkvæði. Báðir samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

    c) Fréttir og tillögur frá félagsdeildum

    (10) Svanur Steinarsson frá Æðarræktarfélagi Vesturlands. Skárra veður en í öðrum landshlutum og fengu bændur þokkalegan dún. Minna af eggjum og ungum, mikið af vargi flæðir um. Stærsti skaðinn er þó vegna grásleppuveiðanna í Faxaflóanum, veiðin byrjar núna 10. mars. Mikið hefur komið af kollu í netin, dæmi um fleiri hundruð í lagnir hjá einum bát. Óskar þess eindregið að fundurinn álykti um veiðarnar.
    (11) Ásgeir Gunnar Jónsson frá Æðarræktarfélagi Snæfellinga. Tekur undir öll orð fyrri ræðumanns. Sæmileg nýting dúns, þó varpið hafi farið hægt af stað. Minkasíur Reynis hafa nýst mjög vel, hvetur menn til að koma sér upp svoleiðis græjum. Æðarsetur komið í Stykkishólmi, Erla Friðriksdóttir og Friðrik Jónsson stóðu fyrir því. Þar er fræðsla og seldir ýmsir munir tengdir æðarfuglinum.
    (12) Karl Kristjánsson Kambi frá Æðarvé. Bauð alla velkomna að Reykhólum, ánægjulegt að sjá hversu margir eru mættir. Varpið var seinna á ferð og dúntekja víðast hvar minni. Vorhret og kuldatíðin hafði neikvæð áhrif, gekk í bleytubyl og kulda. Dúninn samt góður. Mikið hér af ref, þrátt fyrir að veiðunum sé vel sinnt. Sérstaklega gelddýr sem fara mikið um og valda miklum skaða.   Hlunnindasýning hefur verið opnuð hér á Reykhólum og þar á að auka vægi æðarfuglsins. Deildin vill vinna áfram að eflingu þess.
    Salvar Baldursson Vigur frá Dúnlandi. Félagið var endurvakið á vordögum, starfið hefur verið í dvala um árabil. Varpið stóð mjög lengi, leit illa út með veður en virðist hafa sloppið. Dúnninn eitthvað minni og eitthvað verri en hefði getað farið mun verr. Baráttan við refinn er sleitulaus, mikil vinna við að vakta vörpin. Fjöldi dýra orðin ótæpilegur. Hafa sent sveitarstjórn og þingmönnum bréf þess eðlis að efla vargeyðingu. Þarf að fá sveitarstjórnirnar til að samræma aðgerðir, sumir standa sig vel en aðrar afleitlega.
    Pétur Guðmundsson frá Ströndum. Þar er stjórn félagsins skipuð en ekki kosinn. Skítaveðurfar, kalt, blautt og frost á nóttunni. Mikið færri kollur í vörpum, sumstaðar rétt 1/3 af venjulegu ári. Mink hefur tekist að halda niðri. Það er vel hægt að útrýma minknum fyrst það var hægt á Tjörnesi. Brýnir menn í baráttunni, það þarf ekkert óskaplega marga menn til að hreinsa landið.
    Guðni Ólafsson segir frá Húnavatnssýslu. Helgi formaður á Heggstöðum komst ekki til fundar. Eitt orð dugar yfir ástandið í sýslunni, þar var varpið algjör hörmung. Tvö sláturhús eru á svæðinu og þau standa illa að urðun sláturúrgangs og þá eru þetta uppeldisstöðvar flugvargs yfir veturinn. Holunum lokað á vorin og þá fer fuglinn beint í vörpin.
    Kveðja frá A-hún og Skagafirði. Formaður kemst ekki.
    Kristinn Ásmunsson Höfða II, frá Eyjafirði og Skjálfanda. Vorið fór vel af stað, en svo brast á. Eyjafjörðurinn slapp þokkalega bara kuldi en ekki mikill snjór, en vont á Skálfandanum, bæði snjór, krapi og svo vargur. Mun minni minkur en refur hefur verið mikið í vörpum.
    N-þing, N-múl. Og S-múl. Enginn mættur
    A-Skaft. Olgeir Jóhannesson á Höfn í Hornafirði, varpið er lélegt og verður fundað í haust.

    d) Tillögur frá stjórn ÆÍ
    Tillögurnar voru samþykktar svona:

    1. Ályktun um árgjald
      Stjórn Æí leggur til við aðalfund að árgjald 2011 verði hækkað í kr. 3.000.
      Tillagan samþykkt samhljóða
    2. Ályktun um styrki til deilda
      Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn á Reykhólum 27. ágúst 2011 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrk. Einnig er stjórninni heimilt að veita styrk til einstakra æðarbænda á þeim svæðum þar sem ekki er starfandi æðarræktardeild. Stjórn ÆÍ er falið að ganga frá samningum við formenn deildanna um framkvæmd tillögunnar. Styrkir verða greiddir gegn afriti af reikningum.
      Tillagan samþykkt samhljóða.
    3. Ályktun um refaveiðar
      Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn á Reykhólum 27. ágúst 2011 beinir því til stjórnar ÆÍ að þrýsta á stjórnvöld og sveitarfélög að leggja meiri fjármuni til refaveiða í því skyni að draga úr tjóni af völdum refs. Ennfremur að fyrirkomulag refaveiða verði endurskoðað og fjárveitingar til veiðanna tryggðar til frambúðar. Einnig að öll lífdýr í loðdýrabúum verði örmerkt.Umræður um tillöguna:
      Pétur Guðmundsson: Vill láta örmerkja lífdýrin (ref) og það verði settur skattur á þau kvikindi sem sleppa út.
      Matthías Lýðsson í Húsavík ræddi um velsæmismörk á stofnstærð refs. Sammála Pétri um að örmerkja ætti öll loðdýr sem menn búa með, það sé æ ríkari krafa að búfénaður sé örmerktur og þetta er bara í þeim anda. Finnst að þeir sem gera rannsóknir séu oft ekki í nógu góðum tengslum við náttúruna. Það vill oft gleymast að það er ráðist á lifibrauð æðarbænda. Við höfum þær skyldur sem þjóð að varðveita fuglastofna sem hér eru. Mófuglar eru nærri horfnir á stórum svæðum. Spyr hvort það sé raunverulega vilji stjórnvalda að leyfa tófunni að éta alla þessa fugla? Við höfum skrifað undir alþjóðlega sáttmála um verndun fuglastofna og berum siðferðilegar skyldur í þessum efnum. Vill að stjórn hafi ráðstefnu þar sem menn móta saman almennilega stefnu í vargeyðingarmálum landsins. Heilbrigðiseftirlitið, MAST og villidýranefnd, m.a. ættu fulltrúa á þessari ráðstefnu. Er ekki orðið tímabært að menn fari að tala sama tungumálið?
      Pétur kemur með breytingartillögu við tillögu stjórnar og var tillagan samþykkt einróma eins og hún stendur hér að ofan.
    4. Ályktun um minkaveiðar
      Aðalfundur Æðaræktarfélags Íslands haldinn á Reykhólum 27. ágúst 2011 ítrekar áskorun sína til umhverfisráðherra að halda áfram því verkefni að útrýma mink á Íslandi.Greinargerð: Árangur tilraunaverkefnis í minkaveiðum á Snæfellsnesi og í Eyjafirði gefur fullt tilefni til að álíta útrýmingu villilminks vel mögulega. Eins er mikilvægt að tryggja að búrminkur sleppi ekki úr búrum sínum. Það eru miklir hagsmunir æðarbænda og íslenskrar náttúru að þetta innflutta aðskotadýr hverfi af landinu.
      Tillagan samþykkt samhljóða.
    5. Ályktun um grásleppuveiðar
      Aðalfundur Æðaræktarfélags Íslands haldinn á Reykhólum 27. ágúst 2011 skorar á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að heimila ekki, innan tiltekinnar línu, grásleppuveiðar á Faxaflóa fyrr en eftir 15. maí ár hvert.Greinargerð: Um er að ræða línu sem dregin er úr Tómasarflögu í Hvalfjarðar­strandar­hreppi, utan við Þormóðssker, utan og vestur fyrir Hvalseyjar og í Skarfasker, Vestan við Akraós. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir æðarrækt á svæðinu.
      Horft er til þeirrar sáttar á milli grásleppuveiðimanna og æðarbænda og þess góða árangurs sem náðst hefur í Breiðafirði.Umræður:
      Matthías Lýðsson spyr hvort Jón Bjarnason ætlaði ekki að skylda alla til að koma með allann afla að landi?
      Kristinn Ásmundsson veltir því fyrir sér hvort línan er ekki of nærri fjörunni.
      Ekki komu fram breytingartillögur og var tillagan samþykk samhljóða.

e) Önnur mál
Guðbjörg Helga ræðir þau áhrif sem ESB aðild gæti haft á æðarræktina. Í fyrsta lagi þá eru ÖLL fuglahreiður friðuð og því má ekki koma nálægt hreiðrum fyrr en í fyrsta lagi eftir að fuglinn er farinn. Æðarfugl er ekki friðaður í ESB en mikið af varginum er friðaður, t.d. refurinn og hrafninn. Eins yrðu minkasíurnar ólöglegar. Guðbjörg hefur óskað eftir því að fá lögin þýdd, eins hefur hún komið viðhorfum ÆÍ á framfæri við landbúnaðarráðuneytið.
Ræddi líka um vargeyðingu og fjölgun vargs á landinu. Guðbjörg benti á sýnishornið sitt, þar eru ýmsir munir sem hún hefur verið að tína saman. Stjórn ÆÍ er með til sölu minkaveiðidisk og einnig nokkur eintök af stóru æðarræktarbókinni.

Fundarstjóri fór yfir nokkur praktísk atriði fyrir fundarmenn og Guðrún Gauksdóttir formaður ÆÍ, þakkaði fundarmönnum fyrir fundinn og heimamönnum gestrisnina. Guðrún sleit fundi kl.16.40.

Þá var lagt af stað í skoðunarferð um þörungarverksmiðjuna á Reykhólum, í heimsókn til Eiríks Snæbjörnssonar á Stað og í hlunnindasafnið á Reykhólum. Kvöldinu lauk svo með kvöldverði sem heimamenn stóðu fyrir.

Ásta F. Flosadóttir ritaði fundargerð.