Samþykktar ályktanir á Aðalfundi 2014

Ályktun um árgjald.
Stjórn Æðarræktarfélags Íslands leggur til við aðalfund 2014 að árgjald fyrir árið 2015 verði kr. 3.800.

Ályktun um styrki til deilda
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2014 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrk. Einnig er stjórninni heimilt að veita styrk til einstakra æðarbænda á þeim svæðum þar sem ekki er starfandi æðarræktardeild. Stjórn ÆÍ er falið að ganga frá samningum við formenn deildanna um framkvæmd tillögunnar. Styrkir verða greiddir gegn afriti af reikningum

Ályktun um refa- og minkaveiðar
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2014 hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða og til að hætta skattlagningu veiðanna í formi virðisaukaskatts. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra.

Aðalfundur 2014 felur stjórn Æðarræktarfélagsins í samráði við hlunnindaráðunaut, formenn deilda og sérstaka ráðgjafanefnd sem og með hliðsjón af sjónarmiðum sem fram koma á aðalfundi að rita umsögn um fyrirliggjandi drög að reglugerð um refa- og minkaveiðar fyrir hönd ÆÍ. Frestur til að skila inn umsögninni er til 12. september 2014.

Greinargerð:
Það er öllum ljóst að það þarf að halda fjölda refa og minka innan skynsamlegra marka ef ekki á illa að fara. Minkur er aðskotadýr í íslenskri náttúru og því ætti að stefna að því að fækka honum verulega, helst að útrýma honum. Ref hefur fjölgað mikið á síðasta áratug og er nú svo komið að vakta þarf flest landvörp um varptíma og er það mjög mjög tímafrekt og kostnaðarsamt. Sveitarfélög eru líka mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við veiðarnar. Þess vegna er nauðsynlegt að samræma reglur þeirra og best væri ef hægt væri að koma því svo fyrir að ekki skipti máli í hvaða sveitarfélagi dýrin væru veidd. Til að hvetja til veiða á ref og mink er brýnt að virðisaukaskattur af veiðunum fáist endurgreiddur í stað þess að nota veiðarnar sem tekjustofn fyrir ríkissjóð eins og nú er gert.