49. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2018

49. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands

Radison Blu 10. nóvember 2018 kl. 10:00

68 mættir

Fundarsetning

Guðrún Gauksdóttir formaður setti 49. fund ÆÍ og bauð fólk velkomið. Minntist góðs fundar á síðasta ári á Raufarhöfn og þakkaði heimafólki þar fyrir gott skipulag. Minntist látins félaga Reynis Bergsveinssonar.

Guðrún gerði að tillögu sinni að Salvar Baldursson yrði fundastjóri og Sólveig Bessa Magnúsdóttir ritari og var það samþykkt.

Salvar tók við stjórn fundarins og gengið var til dagskrár.

Skýrsla stjórnar: Guðrún Gauksdóttir

Stjórn æðarræktarfélags skipa Guðrún Gauksdóttir, Erla Friðriksdóttir, Salvar Baldursson, Sólveig Bessa Magnúsdóttir og Sæmundur Sæmundsson, í varastjórn eru Margrét Rögnvaldsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir. Guðrún talaði um tíðarfar síðasta vor. Fremur svalt var í veðri í maí um landið suðvestanvert á meðan hlýtt var á Norðaustur- og Austurlandi. Mjög hlýir dagar voru í lok mánaðar á Norðuausturlandi. Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur, þá sérstaklega vestanlands. Ný mánaðarúrkomumet voru sett á nokkrum stöðvum í maí. Júnímánuður var óvenju þungbúinn um landið sunnan- og vestanvert. Sólskinsstundir í Reykjavík hafa ekki mælst eins fáar síðan árið 1914. Úrkoma var mikil í þessum landshlutum og veður fremur svalt. Á austanverðu landinu var aftur á móti hlýtt og sólríkt. Hiti fór þar margoft yfir 20 stig. Sunnan- og suðvestanáttir voru ríkjandi. Veðurfarið hafði víða slæm áhrif á dúntekju Vestanlands en heildardúntekja á landinu var ágæt þar sem vel viðraði austan og norðaustanlands. Nánar verður farið yfir það í fréttum frá deildum. Þá hefur dúnsala verið dræmari og heyrum við betur um það undir liðnum sölu- og markaðsmál.

Verkefni stjórnar voru margvísleg. Haldinn var vinnufundur s.l. vor þar sem unnið var úr ályktunum og hópavinnu frá aðalfundinum á Raufarhöfn. Á fundinum var ályktað um ágang vargs og möguleg áhrif þangskurðar og sjókvíaeldis á æðarfugl. Athugasemdum og tilmælum frá hópavinnu á aðalfundinum má skipta í fjóra flokka þ.e.; fullvinnslu og sýnileika,  að virkja deildir og efla samskipti félagsmanna, fræðslu um umhirðu varps og æðardúns og markaðsmál og markaðssetningu. Þessi viðmið hafa verið grunnur að þeim áhersluatriðum sem stjórn hefur unnið  að. Tilnefnt var í nefnd sem kölluð er vargnefnd þar sem hugmyndin er að fram komi tillögur og hugmyndir um heildarstefnumótun í þeim málum (sjá kynningu hér síðar). Hvað varðar tillögu um þangskurð og sjókvíaeldi er verið að ýta á stjórnvöld með rannsóknir á þessum málum. Að því er varðar þangskurð sérstaklega þá hefur stjórn unnið með æðarbændum sem hagsmuna hafa að gæta.  Hvað varðar tilmæli um sýnileiki og markaðssetning leiddi það til þess að leitað var  samstarfs við Listaháskóla íslands (sjá kynningu hér síðar). Þá er Í gangi átak að endurvekja deildir og efla samstarf en Margrét hefur haldið utan um það verkefni (sjá kynningu hér síðar). Þáttur í markaðssetningu og sýnileika er að sækja um að íslenskur æðardúnn verði verndað afurðaheiti (sjá kynningu hér síðar). Auk þess er verið að vinna að markaðsrannsóknum í Þýskalandi og tengslin við Japan. Átak í friðlýsingu æðarvarpa getur verið mikilvægur þáttur í sýnileika og að vekja athygli á mikilvægi fuglsins (sjá kynningu hér síðar). Önnur verkefni stjórnar snúa að dúnmati bæði reglum og framkvæmd en það eru ákveðnir erfiðleikar með vottorðin á fullunnum vörum. Í gangi er endurskoðun á lögum félagsins í samstarfi við lögfræðing bændasamtakanna en það er kjörið að nýta afmælisárið til að uppfæra lögin. Alltaf er áframhaldandi vinna í kringum heimasíðu en þar væri æskilegt að koma meiri upplýsingum inn t.d. varðandi söluaðila, en það kemur alltaf töluvert af fyrirspurnum um söluaðila/útflutningsaðila. ÆÍ er núna með lista með söluaðilum frá þeim sem eru í Samtökum atvinnulífsins – æðardúnshópsins. Vinna við miðlun fræðsluefnis eru í gangi og Sigríður heldur utan um það. Stefnan er að finna fróðleik um æðardún og vinnslu og fá heimild til að birta á heimasíðu. ÆÍ er með hugmyndir að faraí  kynnisferðir til Vega í Noregi og/eða Kanada og fljótlega verður sendur út póstur til að kanna áhuga á slíkri heimsókn. Auk þessa alls hefur ÆÍ veitt upplýsingar og ráðgjöf að fremsta megni til félagsmanna. Æðarræktarfélagið verður 50 ára á næsta ári og fyrirhugað er að halda upp á þann áfanga með ýmsum hætti. Ákveðið hefur verið að halda fundinn í Reykjavík 30.-31. ágúst og er m.a. fyrirhugað að heimsækja Bessastaði og fá að skoða varpið þar.

Ársreikningar: Sæmundur Sæmundsson

Gjaldkeri fór yfir ársreikninga félagsins. Helstu tölur úr ársreikningi eru að tekjur voru kr. 1.218.171, gjöld kr. 1.691.112, því var rekstrarhalli upp á  kr. 472.941, að teknu tilliti til fjármunatekna og fjármagnsgjalda er niðurstaðan kr. 109.551 í mínus. Sæmundur nefnir að ljóst sé að niðurfelling búnaðargjalda séu að hafa þessi áhrif á tekjur félagsins og ljóst sé að hækka þarf félagsgjöld því þrátt fyrir að félagið búi að því að eiga ágæta sjóði gangi ekki að reka félagið með halla til lengri tíma. Efnahagsreikningur félagsins sýnir að eignir félagsins eru kr. 15.694.170.

Fyrirspurnir um skýrslu formanns og reikninga.

Helgi Pálsson spyr af hverju ekki sé lengur í reikningum sú upphæð sem sé ógreidd til deilda þ.e. þegar deildir séu ekki komnar með kennitölu og reikning til að fá greitt. Sæmundur svarar að þetta væri ekki lengur inn í reikningum því það væri hæpið að aðildarfélög gætu fengið félagsgjöld greidd aftur í tímann. Helgi spyr líka um liðinn bundið eigið fé. Sæmundur svarar að skv. lögum um ársreikninga á að meta fjármálagerninga á markaðsvirði. En mismunurinn á nafnverði og markaðsvirði  (matsbreytingin) á að vera færður á eiginfjárreikning sem bundið eigið fé þar sem ekki er heimilt að greiða út arð eða úthluta því úr eiginfjárreikningi félagsins. (37. og 38. gr.)Við sölu á bréfunum leysist þessi færsla upp.“

 

Starf innan deilda: Margrét Rögnvaldsdóttir

Margrét Rögnvaldsdóttir segir frá starfi sínu við innra starf deilda en hún hafði áhuga á að fá yfirsýn yfir hversu margar jarðir með æðarvarp væru á hennar svæði. Hún byrjaði að skrá jarðir í sinni deild. Bar saman varp 1940 og 2018 og notaði viðmið hvort dúnninn væri hirtur. Nú eru 32 jarðir með æðarvarp en voru 49 árið 1940, svæðið er Æðarræktarfélagið N-Austurlandi Kelduhverfi í Vopnafjörð að Hellisheiði. Nú stendur til að skrá þetta á sama hátt um allt land. Lengi vel hefur verið talið að varp sé á um 400 jörðum en tölur eru síðan 1940.  Þessi vinna er komin í ákveðinn farveg og verður unnin í samvinnu við félögin um allt land.  Margrét nefnir að  N-Austurland og Austurland séu komin með facebookarsíðu þar sem sé ýmis fræðsla og fl. og fólk getur haft samskipti innan deildarinnar. Deildir eru á öllu landinu nema Suðausturlandi en Margrét og stjórn ÆÍ eru að aðstoða fólk við að endurvekja deildir.  Flestar deildir eru komnar á skrá hjá ríkisskattstjóra og komnar með kennitölu og bankareikning til að fá sína hlutdeild í félagsgjöldum.

Nauðsynlegt að hafa yfirsýn yfir hvar og  hversu margir stunda æðarrækt því sem hópur er slagkrafturinn meiri til að vinna að sameiginlegum málum það ættu allir æðarðræktendur að vera félagsmenn. Margrét óskar eftir að fá sendar upplýsingar um æðarvörp.

 

Verndað afurðarheiti: Margrét Rögnvaldsdóttir

Æðarræktarfélagið er að vinna í umsókn um verndað afurðarheiti fyrir íslenskan æðardún. Það hefur sýnt sig að vörur sem hafa verndað afurðarheiti seljast betur og á hærra verði.  Kannanir í Evrópu hafa sýnt að neytendur eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir vörur sem bera landfræðilega merkingar og staðfesta uppruna vörunnar þannig að hann sé skýr og óyggjandi. Neytendur þurfa að vita hvaðan varan kemur og hvernig hún er unnin. Ef umsóknin verður samþykkt þá er fengin heimild til að nota auðkennismerki GI kerfisins hjá ESB sem er mjög þekkt og staðfestir sérstöðu og gæði. Ferlið tekur töluverðan tíma því umsóknin þarf að vera ítarleg og með staðfestingu í ýmis gögn og rannsóknir.  Helstu rök fyrir að sækja um verndað afurðarheiti eru: að fá formlega viðkenningu á sérstöðu íslenska æðardúnsins; að styrkja samkeppnisstöðu gagnvart öðrum dún; að skapa ný tækifæri á innlendum og erlendum mörkuðum; og að koma til móts við auknar kröfur neytenda um upplýsingar um uppruna afurða. ÆÍ vonast eftir að vera búið að fá verndað afurðarheitið Íslenskur æðardúnn – Icelandic Eiderdown á 50 ára afmæli félagins árið 2019.

Fyrirspurn frá Guðrúnu Sigurðardóttur um hvort umbúðirnar þurfi að vera vottaðar. Margrét átti von á að vottunin væri eingöngu á dúninn.

Varnir í æðarvörpum- vinnuhópur : Sólveig Bessa Magnúsdóttir

Stjórn ÆÍ ákvað á vinnufundi s.l. vor að kalla til menn  úr félaginu til að mynda vinnuhóp sem fjallað gæti um varnir í æðarvörpum í víðu samhengi. En þannig eru málin í vörnum æðarvarpa í dag að fjármagn frá opinberum aðilum hefur dregist verulega saman síðust ár og æðarbændur skortir bæði fjármagn og tíma til að verja vörp sín.  Nefndinni er ætlað að fjalla um varnir við ref, mink og flugvarg.

Sólveig Bessa tók að sér að koma hópmun saman. Fyrsti fundur hópsins var að morgni þessa fundardags þar var rætt um fyrirkomulag á nefndarstörfum og hlutverk nefndarinnar og þessir punktar komu fram: a. Kerfið og umhverfið sem við lifum – varnir – friðlönd. b. Jafningjafræðsla þ.e. kynna og/eða nýta þá þekkingu  sem til staðar er hjá æðarbændum og veiðimönnum. c. Safna saman upplýsingum um hvernig staðan í vargeyðingu er í dag.  Helgi Þorsteinsson tók að sér að verða formaður hópsins en aðrir í hópnum eru Ásgeir Gunnar Jónsson, Björgvin Sveinsson, Páll Þórhallsson, Helgi Pálsson, Sigurður Guðjónsson, Pétur Guðmundsson og Óðinn Logi Þórisson.

Ávörp gesta: Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtakanna

Sindri þakkaði fyrir boðið og fannst ánægjulegt að heyra mikinn hug æðarbænda fyrir að efla starfið. Nefndi að þetta væri annað umhverfi eftir að búnaðargjöldin lögðust af. Ræddi um breytingu á félagsgjöldum en það eru  u.þ.b. þriðjungur af þeim sem áður voru í BÍ sem ákváðu að vera með í Bændasamtölunum eftir breytingu. Aðildarfélög BÍ eru allt sjálfstæð félög og félögin standa og falla með félagsmönnum. BÍ hefur stofnað vinnuhóp til að skoða núverandi stöðu eftir breytingu. BÍ vill vera stóri bróðir eða hin mjúka hönd til að styðja og leiða aðildarfélögin. Sindri sagði að öll  séum við mikilvæg í samfélagi sveitanna hvað sem við búum við og hversu stórt og saman sköpum við þetta menningarsamfélag, m.a. með tilliti til ferðaþjónustu. Sindri ræddi um góðar landbúnaðarafurðir á Íslandi. Fór yfir helstu málefni sem BÍ er að vinna í um þessar mundir þar sem stærstu málin væru hrákjötsmálin, tollamál og umhverfismálin. Óskaði æðarbændum velfarnaðar í störfum og þakkaði samstarfið.

Merete Rabölle spyr Sindra í hvað félagsgjöldin fari  og hvað bændasamtökin geri fyrir æðarbændur.  Sindri þakkar fyrir fyrirspurnina og svarar að hagsmunagæslan fari oft hljóðlega fram og komi ekki alltaf upp á yfirborðið. BÍ vinni að hagsmunum sveitanna á margvíslegan hátt, þau gæti hagsmuna gagnvart þingi oft í samstarfi við aðildarfélögin. BÍ sé í forsvari fyrir samninga sem gerðir eru við ríkið. Bændasamtökin hafi marga snertifleti. Margir starfsmenn vinna fyrir BÍ og landbúnaðinn í heild  og geta hjálpað aðildarfélögum að koma  sínum málum áleiðis.  BÍ á Hótel Sögu bændur geta fengið þar afslátt.

Landbúnaðarklasinn:  Tjörvi Bjarnason frá Bændasamtökunum

Tjörvi kynnti landbúnaðarklasann sem stofnaður var 2014 sem hefur verið að byggja upp starfsemi, en markmiðið er m.a. að gæta að sameiginlegum hagsmunum og deila þekkingu. Unnið er að fjölgun aðila og nýir aðilar hafa verið að koma inn í samstarfið og þar á meðal ÆÍ. Tjörvi fór yfir hvað klasi væri og klasa sambærilegra félaga. Klasa er ætlað að efla samkeppnishæfni og samstarf aðila án þess að sameinast. Við vaxandi kröfur er þetta leið til að dragast  ekki aftur úr, komast inn og á nýja markaði og efla sinn hag.  Landbúnaðarklasinn stefnir að því að standa fyrir  viðskiptahraðli þá gætu aðilar sótt um að taka þátt og einhver ákveðinn fjöldi verður svo  valinn úr þeim umsóknum.  Þetta gæti hugsanlega verið spennandi fyrir einhverja æðarbændur. Landbúnaðarklasinn í heild gæti snert um 12-20 þúsund manns þ.e. sem hafa einhvern hag af eða tengjast s.s. BÍ og aðildarfélög og fyrirtæki s.s. afurðarstöðvar og þjónustustofnanir.  Það sem hefur verið gert er t.d. gerð sjónvarpsþátta, samningur við sjávarklasann um aðstöðu fyrir nýsköpun og framleiðslu, stefnumótun milli frumkvöðla og fyrirtækja og ýmislegt fleira. þetta er heimasíða landbúnaðarklasans www.landbunadarklasinn.is

 

Hádegisverður

Tilraun II – æðardúnn: Hildur Steinþórsdóttir, Rúna Thors og Tinna Gunnarsdóttir frá Listaháskóla Íslands:

Hildur, Rúna og Tinna kynntu verkefni sem þær vinna að á vegum Listaháskóla Íslands í samvinnu við ÆÍ. Verkefnið er farandsýning með 12 verkum þar sem að æðardúnn er settur í nýtt óvænt samhengi í gegnum skapandi samtal listamanna, æðarbænda og fræðimanna.

Hildur er arkitekt og Rúna og Tinna eru vöruhönnuðir en þær byggja hugmynd sýna á  sýningu sem var í Hafnarborg „Tilraun –leir og fleira“ þar sem paraðir voru saman hönnuðir og listamenn.  Hugmyndin er að  halda sýningu sem mundi veita innsýn inn í ferlið og aðferðarfræðina. Þetta yrði opin tilraun þannig að eitthvað nýtt getur alltaf komið inn.  Hlutverkið er að horfa á umhverfið og leita að möguleikum. Þess vegna er gaman að tengja saman sem flesta aðila. Sýningin ætti að vera víða um land og möguleiki á að fara út fyrir landsteinana. Sýningin á að fræða horfandann um æðarfuglinn og umhverfi hans þar sem æðarræktarferlið  er einstætt ferli þar sem sambýli virðing, hugvit og nýtni eru einkennandi og einnig að samband manns og æðarfugls er einstakt. Spurt er m.a. hvert  hlutverk æðardúns sé í framtíðinni. Ekki er eitt markmið með sýningunni það, getur breyst og nýtt komið inn. Þær segja tilhneigingu í nútímanum til að aðgreina menningu frá efnum en þær vilja flétta saman menningu og efni og sýna gæði og gildi efnis. Sýningin mun samanstanda af 12 mismundandi verkum og sýningaraðilar hafa bakgrunn í myndlist, hönnun, arkitektúr, tónlist, sviðslist o.fl. Þær þurfa aðstoð æðarbænda og vilja að þeir taki þátt, þær gera ráð fyrir að ferðast um og hafa samband. Það vantar fjármagn í verkefnið og eru þær að sækja um styrki á ýmsum stöðum.  Upphaf verkefnisins var í maí 2018 og áætluð lok eru í nóvember 2019

Merete Rabölle var með fyrirspurn um hvort þetta væru 12 bændur. Þær útskýra betur að um sé að ræða 12 mismunandi listamenn.

Margrét Rögnvaldsdóttir tekur til máls og nefnir hversu spennandi þetta verkefni sé og  að æðarbændur væru glaðir að fá þær í heimsókn og í samvinnu.

Æðardúnn og æðarrannsóknir: Jón Einar Jónsson, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Jón Einar sagði frá  starfsemi  Rannsóknarseturs HÍ á Snæfellsnesi í rannsóknum á æðarfugli.

Rannsóknir eru m.a. í muninum á formbyggingu dúns æðarfugls og  grágæsar. Búið að gefa út skýrslu á ensku og til er samdráttur á íslensku.

Rannsóknarsetrið fylgist með 30 kollum á hverju ári og taka starfsmenn dún og ætla að fylgjast með hvort verða breytingar á dúninum  með aldri. Þeir eru einnig farnir að merkja unga.

Páll Þórhallsson spurði um litarmun á dún. Jón Einar sagði að skýringar væru mismunandi og ýmsar getgátur væru i gangi en engin vissa s.s.  væri spurning hvort dúnn upplitist í sól, hvort kollur séu að verpa í gamalt gæsahreiður, hvort það séu gamlar kollur sem eru ljósari. Spurning úr sal um úlpurnar frá Canada goouse  hvaða dúnn þetta sé. Jón segir að flest allur dúnn  komi frá Kína og hann geti ekki svarað þessu. Pétur Guðmundsson  spyr hvort eitthvað sé um albinóa. Jón segir eitthvað um það. Sigríður Magnúsdóttir spyr hvort kolla og gæs reyti báðar dún ef þær eru að verpa í sama hreiður.  Jón svarar að það verði samkeppni um hreiðrið á meðan þær eru að verpa en svo nær önnur yfirhöndinni og þá sé varla komin dúnn.

Kynning á stöðu sérfræðings í hlunnindanýtingu með áherslu á æðarrækt: Bjarni Jónsson hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra

Bjarni Kynnti hugmyndir um nýtt sérsvið náttúrustofu á norðurlandi vestra í hlunnindanýtingu

Bjarni er forstöðumaður og staðsettur á Sauðarkróki.  Hann segir að það vanti upp á að sinna ráðunautastarfi fyrir okkar  hóp og taldi þetta vera svið sem þyrfti að koma að.

Sigríður Magnúsdóttir spyr hvað komið hafi út úr rannsóknum á fugladauða á Hrauni á Skaga. Bjarni svarar að þetta hafi verið fuglakólera sem varð ekki útbreidd en er bráðsmitandi.

Salvar hvetur æðarbændur og aðra hlunnindabændur til að ýta þessa þjónustu sem þeir hyggjast koma á fót hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra

Friðlýsing æðarvarps – kynning á skiltum:  Sigríður Magnúsdóttir

Sigríður kynnir friðlýsingu æðarvarpa og skilti sem stjórn ÆÍ hefur látið hanna og gefa út. Hugmyndin er að koma í veg fyrir óæskilega umferð í æðarvörpum. Tímabilið sem skiltin eru virk er frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert. Bæjarnafnið kemur fram á skiltinu og á því er lögð áhersla á það að öll óviðkomandi umferð um varplandið sé óheimil á þessum tiltekna tíma. Yfirlit friðlýsinga í gildi liggja frammi hjá sýslumönnum. Hægt er að panta skiltin í gegnum heimasíðu ÆÍ, þau eru í tveimur stærðum og kosta kr. 6.200 og 8.060.

Nokkur umræða varð um merkin og hvort þau væru nógu áberandi eða hefðu nægan fælingarmátt, nokkrir nefndu að bannmerkið  hefði þurft að vera meira áberandi  og að þetta skilti muni e.t.v. frekar laða fólk að. Einnig kom ábending um að það hefði þurft að vera á fleiri tungumálum. Guðrún, Bessa og fleiri úr stjórn svara þessu þannig að mikil umræða hafi verið í stjórn við gerð skiltanna og einmitt þessi sjónarmið hafi komið fram en haft var að leiðarljósi  við hönnun skiltanna að koma í veg fyrir óæskilega umgengni um varplöndin en í sátt við umhverfið og mannlíf einnig að skiltin væru ekki mjög áberandi hvorki í lit eða skilaboðum  og væru þannig ekki sjónmengun. Þau gæfu til kynna að þarna væri æðarvarp í gangi og væru vinsamleg ábending til fólks að það virti þennan viðkvæma tíma fuglanna. Umhverfisstofnun kom inn í hönnun skiltanna. Bændum væri svo frjálst að hafa auk þess áberandi bannmerki með þessum ef þess þyrfti.

Ingunn kom með ábendingu um að hægt væri að hafa  QR kóða á skiltunum þannig að hægt væri að kalla fram fleiri tungumál í gegnum síma eða tölvu.

Æðarfugl á válista : Jón Einar Jónsson, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Jón Einar fór yfir nýlegar upplýsingar frá Náttúrustofu Íslands þar sem fram kemur að æðarfugl er kominn á válista, sjá glærur. Margar ástæður geta legið til þess að fuglinn sé kominn á válista en eins og staðan er nú er vonandi ekki ástæða til að hafa áhyggjur af stofnstærðinni nema eitthvað komi uppá í náttúrunni. Hægt er að fara inn á válista IUCN (alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna) á netinu: https://www.iucn.org/resources/conservation-tools/iucn-red-list-threatened-species og inn á Náttúrufræðistofnun til að sjá fugla á íslandi á válista: http://ni.is/midlun/utgafa/valistar

Jón Einar taldi margt geta haft áhrif á fækkun æðarfugls s.s. veðurfar, súrnun sjávar, og minkur, refur og hitastig sjávar.

Sölu – og markaðsmál: Erla Friðriksdóttir

Erla fór yfir útflutningstölur síðustu 10 ára.

Sjá töflu að neðan um magn hrádúns í útflutningi, útflutningsverðmæti og meðalverð æðardúns. Ath. að tölur fyrir árið 2018 eiga ekki við allt árið

 

Eins og þessar töflur sýna fór útflutningur á æðardúni   í fyrsta sinn síðan 2009 undir tvö tonn.

Þessar tölur sýna líka að magn í útflutningi og verð er að lækka. Dúnninn er eins og áður mest fluttur til Japan og Þýskalands en einnig til annarra landa í minna mæli.

Merete Rabölle spyr Erlu hvort hún haldi að það hafi hrif á markaðinn að æðarfuglinn sé kominn á válista. Erla svarar að það sé agalegt að æðarfuglinn sé kominn á válista en hún geri sér ekki grein fyrir hvaða þýðingu það hafi fyrir tínslu á dún. Þetta sé kannski meira varðarráðstöfun núna og hún hafi ekki áhyggjur af því viðskiptalega. Hún nefnir að margir viðskiptavinir hennar hafi  áhyggjur af því að enginn taki við að týna æðardúninn af yngri kynslóðunum. Merete spyr hvaða ógn hún telji vera í viðskiptum með dún, hvort rússneskur dúnn  sé  ógn eða önnur samkeppni.  Erla veit ekki til þess  og heldur að það sé engin bein ógn bara spurning um framboð og eftirspurn.

Spurning úr sal um hvernig  salan sé innanlands og  eftirspurnin á innanlandsmarkaði. Erla getur bara svarað fyrir sig þar sem hún er að framleiða smávörur á innanlandsmarkað að hennar reynsla er að þessar vörur seljast bæði til Íslendinga og útlendinga en Íslendingar kaupa samt ekki sængur af henni. En það er ekki til tölur um innanlandssölu.

Pétur Guðmundsson tók til máls og talaði um að sennilega væri hluti ástæðunnar fyrir sölutregðu núna ákveðið framboð á æðardún  frá Rússlandi á lágu verði,það sé notað til að pína verðið niður.

Fréttir frá deildum

 • Vesturland – Svanur Steinarsson
  Mikil rigning en flestir náð þokkalegum dún. Þrátt fyrir ágætan dún náði kollan að koma upp ungum. Refurinn er mikið vandamál og ekki nóg sem sveitafélagið kemur að þessu. Vill nefna að honum finnst að eigendur eigi að fá leyfi til að brenna sinu en það er mikið ferli.
 • Æðarræktarfélag Snæfellinga -Ásgeir Gunnar Jónson
  Tekur undir með Svani með að veður var blautt. Áhyggjuefni á hans svæði er ásókn í þangskurð t.d. erlendir aðilar en það verður borin upp tillaga á fundinum um þangskurð. Ásgeir vill nota tækifærið hér og nefna að hann hefur verið að meta dún í smásölu en vottorðin eru stór og ljót og í óumhverfisvænum plastvasa. Hann kemur með tillögu um að fá einhverja í lið með sér til að framleiða nett falleg vottorð.
 • Dalasýsla og A- barðastrandasýsla – Helga María Jóhannesdóttir
  Æðarvarpið fór vel af stað gott veður í apríl en maí og júní úrkomusamir auk þess var svalt í verðri þetta hægði á varpinu. Þrátt fyrir það var góð dúntekja. Töluvert samt af yfirgefnum hreiðrum vegna bleytu og sérstaklega á fastalandinu en misjafnt eftir stöðum. Þau hafa fengið mann til að eyða vargi sem fór víða annars sinnir fólk þessu sjálft. Glíma við flugvarg í eyjunum en tófan og fleira í landi. Deila áhyggjum af auknum þangskurði og vilja að það verði rannsakað hvaða áhrif það hefur á æðarfuglinn og lífríkið.
 • Dúnland Ísafjarðarsýslur og V-Barðastrandasýsla – Salvar Baldursson
  Varpið gekk ágætlega en blautt vor, svæðið er stórt svo það var misjafnt. Sama baráttan við refinn sem er skæður og minkinn líka. Annars allt í svipuðu formi og vanalega.
 • Strandasýsla – Pétur Guðmundsson
  Allt betra en í fyrra, þokkaleg tíð. Mikið af fugli sem ekki varp og skilaði ekki í hreiður. Hefur dregið 619 unga úr minkagreni.
 • Varpland Húnavatnssýslu Helgi Pálsson
  Tíðarfar til dúnhirðu var slaklegt í vor, rigning og því þurfti að fara oft til að taka dún.
  Mikið um ref og mink og svo er hrafninn farinn  að valda miklum búsifjum. Uppeldi er á haugunum á Blönduósi. Deildin er loksins komin með kennitölu og heitir í dag Varpland. Varp fór snemma af stað einnig verpti eitthvað af fugli eftir Jónsmessu. Mikið af æðarungum komst upp í vor.
 • Norðvesturland – Sigurður Guðjónsson
  Voraði vel í Skagafirði en svæðið nær yfir fleira en eitt veðurfarssvæði. Fengu ekkert hret og viðraði ágætlega. Fengu samt flóð í Héraðsvötnum en þar er varp í hólmum. Óútskýrður fugladauði á Hrauni á Skaga sem sennilega hefur verið fuglakólera en dreifðist ekki út til annarra varpa en varð verulegt tjón á Hrauni. Upplifði sölutregðu, finnst hún vera orðin pínulítið löng hverju sem er um að kenna. Lítur ekki bara á æðarrækt sem atvinnumál heldur menningarmál – strandmenningu. Hafa sótt um í sjóð og fengið  styrk í sýningu og líka frá ÆÍ.
  Ekki mikið svigrúm til að standa í sýningum. Hættur að fá styrki frá félaginu en hefur fengið styrki eftir öðrum leiðum. Svartbak hefur fækkað kannski vegna þess að búið er að loka fyrir aðgang að úrgangi. Refurinn er búinn að granda tveimur vörpum í Skagafirði og er kominn vel á veg með það þriðja. Fólk hefur ekki bolmagn í litlum vörpum til að vaka yfir vörpum í einn og hálfan mánuð.
 • Æðarræktarfélag Norðausturlands – Margrét Rögnvaldsdóttir
  Héldu aðalfund og 39 mættu. Reyna að hafa fræðslu og Helgi sýndi hvernig hann ver varpið sitt. Einmuna tíð í vor og sumar og fólk almennt mjög ánægt með varpið og mikið komist upp af unga. Mikið um mink, ref og flugvarg. Annars allir mjög kátir með þetta sumar.
 • Skaftafellssýsla – Gísli Karl
  Gísli kominn til að kynna sér starf æðarbænda. Kemur sem fulltrúi Skaftafellssýslu en þar eru menn að reyn að koma starfi í gang og endurvekja félagið.

Tillögur/ályktanir

Fundarstjóri Salvar Baldursson las upp tillögur þær sem liggja fyrir fundinum. Hér eru þær settar fram eins og þær voru samþykktar.

I. Árgjald.
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands árið 2018 ályktar að árgjald fyrir árið 2019 verði kr. 6.000.

II. Styrkir til deilda. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2018 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrki vegna tilgreindra, rökstuddra verkefna, s.s. vargeyðingar. Styrkir verða einungis greiddir gegn afriti af reikningum.

III. Sjókvíaeldi og æðarfugl. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2018 ítrekar fyrri ályktanir sínar um að brýn nauðsyn sé á því að rannsaka og vakta áhrif sjókvíaeldisstöðva og stækkunar þeirra á lífríki sjávar og þar með beina og óbeina hættu fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls.

IV. Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2018 ítrekar ályktun sína frá aðalfundi 2017 að í breytingum á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og lögum nr. 74/2012 um veiðigjald, sem varða öflun sjávargróðurs, felist ólögmæt skerðing á eignarrétti eigenda jarða sem liggja að sjó og þessi hlunnindi tilheyra, þ. á m. æðarbænda. Stjórn ÆÍ er falið að vinna að lausn málsins ásamt þeim æðarbændum sem málið varðar.

Umræður um tillögurnar

 • Sjókvíaeldi og æðarfugl: Helgi Páll segir frá sinni reynslu af sjókvíðaeldi og jákvæðum áhrifum þess á æðarvarpið að Hlaðseyri við Patreksfjörð, nú er búið að taka laxahringina og færa utar í fjörðinn.
 • Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni: Ásgeri Gunnar segir að þetta mál brenni á bændum í þeirra félagi lítið annað hafi verið rætt á aðalfundi deildarinnar.
  Erla Friðriksdóttir segir að með nýjum lögum sé verið að ganga á eignarétt landeigenda verið sé að innheimta auðlindagjald eða skatt af landareign.
  Kristinn segir að grundvöllurinn að þessu gjaldi sem fiskistofa ætlar að taka er sá að rannsaka þurfi þang hann telur að búin sé að rannsaka þang í mörg ár og þeim sem hafa slegið þang hafi veri gert að skila skýrslum, hann spyr hvað  ætlar fiskistofa að fara að rannsaka sem ekki er búið að gera nú þegar, stutt sé í að tekið verið gjald af rúllunum og kollunum.
  Helgi Pálsson talar um hnignun vistkerfa, talar um að þari og þang sé horfið.
  Greinargerð með þessari tillögu lá fyrir fundinum og var send út í tölvupósti til félagsmanna.
  Atli sér ekki annað en að félagið þurfi að vinna að þessu stóra máli í samvinnu við aðra hagsmunaaðila.

Kosningar

Kosið var um tvo menn í stjórn og tvo í varastjórn. Salvar og Sólveig Bessa gáfu ekki kost á sér til endurkjörs í aðalstjórn. Sigríður Magnúsdóttir og Margrét Rögnvaldsdóttir gáfu kost á sér í aðalstjórn, ekki komu önnur framboð og þær samþykktar með lófataki. Tvö framboð lágu fyrir í varastjórn. Það voru þeir Páll Þórhallsson og Magnús Helgi Jónasson, voru þeir samþykktir með lófataki. Páll er kosinn til  þriggja ára og Magnús til eins árs. Þá var Guðrún Gauksdóttir formaður kosinn búnaðarþingsfulltrúi og varaformaður Erla Friðriksdóttir til vara. Ásgeri Gunnar kosinn sem skoðunarmaður reikninga til tveggja ára.

Önnur mál

Guðmundur á Hvammstanga kveður sér hljóðs til að tala um félagsgjöldin, vill vekja athygli á að félagaskráin sem gengið hefur um salinn sé eitthvað gölluð það sé búið a henda út af skránni. Sæmundur svarar og segir að stjórn viti nú þegar af þessu og  ein ástæða sé að kerfið hafi eitthvað  klikkað, það sé ekki verið að henda fólki vitsvitandi út en tekið var vel til í skránni fyrir tveimur árum en þetta þarf að athuga vel og farið verður yfir hvað raunverulega hefur gerst.

Sigríður spyr hvernig farið sé að því að stofna deild. Margrét ætlar að vinna að þessum málefnum og aðstoða við að stofna deildir.

Formaður slítur fundi

Guðrún þakkar gestum fundarins og fundarmönnum góða fundarsókn. Þakkar Bessu og Salvari fyrir samstarfið og framlag þeirra til ÆÍ á liðnum árum og býður nýtt fólk velkomið í stjórn.

Hún segir að stjórnin taki vel við ábendingum og vinni eftir þeim.

Guðrún nefnir að halda eigi upp á  50 ára afmæli að ári og hún hvetur félaga til að hafa samband með hugmyndir fyrir afmælishátíð.

Fundi slitið kl. 16:00

Fundarritari

Sólveig Bessa Magnúsdóttir