Lög Æðarræktarfélags Íslands[1]
1.gr.
Heiti og heimili
Félagið heitir Æðarræktarfélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Fullgild félagaskrá skal ávallt liggja fyrir á hverjum aðalfundi félagsins.
2. gr.
Deildir
Félagssvæði Æðarræktarfélags Íslands er allt landið, sem skiptist í deildir samkvæmt samþykkt aðalfunda félagsins. Deildir setja sér samþykktir, skipa stjórn og hafa sjálfstæðan fjárhag, þ.m.t. ákvörðun um félagsgjöld. Leggist starfsemi deildar niður skulu gerðarbækur deildarinnar ásamt öðrum eignum deildarinnar varðveitast hjá Æðarræktarfélaginu. Hafi niðurlögð deild átt fjárhagsleg verðmæti skulu þau varðveitt á aðgreindum reikningum félagsins í fjögur ár nema ný deild sé stofnuð á sama svæði innan þeirra tímamarka. Þá rennur féð til hennar. Að þeim tímamörkum liðnum er stjórn félagsins heimilt að ráðstafa fénu eins og öðru lausafé félagsins í starfsemi sinni.
3. gr.
Félagsaðild
Félagar, einstaklingar og lögaðilar, geta allir orðið sem njóta hlunninda af æðarvarpi eða hafa áhuga fyrir æðarrækt og stofnun nýrra varpstöðva.
4. gr.
Markmið og tilgangur
Markmið félagsins er að stuðla að vernd æðarfugls og varpsvæða hans á Íslandi með sjálfbæra æðarrækt að leiðarljósi. Ennfremur að auka þekkingu á æðarrækt og menningarsögulegri þýðingu hennar.
Hlutverk félagsins er að vinna að hagsmunum æðarræktar og efla æðarvarp í landinu. Það felst fyrst og fremst í því að leita leiða til að verja varplönd fyrir hvers konar ágangi sem æðarfugli og varpi stafar hætta af. Einnig skal unnið að eflingu hlunninda á viðeigandi hátt að öðru leyti svo sem að auka verðmæti dúns með flokkun og mati á honum á grundvelli viðeigandi gæðakerfis. Ennfremur verði leiðbeiningaþjónusta á verkefnaskrá félagsins. Félagið skal fylgjast með sölu á æðardún og styðja við markaðssetningu eftir því sem í þess valdi stendur.
5. gr.
Tekjur
Á aðalfundi eru félagsgjöld fyrir einstaklinga og lögaðila ákveðin frá ári til árs. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
6.gr.
Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda árlega á þeim tíma, sem best þykir henta samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar. Aðalfundur skal boðaður með rafrænum hætti með minnst 14 daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina hvar og hvenær fundurinn verður haldinn. Tillögur um lagabreytingar og meiriháttar framkvæmdaáætlanir skulu tilkynntar með fundarboði. Tekið skal fram í fundarboði eigi félagsmenn rétt á að taka þátt í fundinum á rafrænan hátt. Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt. Á milli aðalfunda skal halda aukafundi eftir því sem stjórn félagsins telur þörf á og einnig ef meirihluti félagsmanna óskar þess.
Atkvæðisrétt á aðalfundi og öðrum fundum hafa þeir einir sem eru skráðir félagar og greitt hafa árgjald yfirstandandi árs. Stjórn er heimilt að boða til rafrænna kosninga í aðkallandi málum þegar sérstaklega stendur á.
7. gr.
Dagskrá aðalfundar
Störf aðalfundar eru eftirfarandi:
a. Skýrsla stjórnar um störf og verkefni á liðnu ári.
b. Kynning endurskoðaðra ársreikninga.
c. Starfsáætlun fyrir næsta ár.
d. Liðir a.-c. bornir undir atkvæði aðalfundar
e. Lagabreytingar ef einhverjar eru.
f. Ákvörðun um árgjald.
g. Tillögur til ályktana fundarins
h. Sala og markaðsmál
i. Fréttir frá deildum.
j. Kosningar.
k. Önnur mál
8. gr.
Ákvarðanir aðalfundar
Ákvarðanir á aðalfundi skulu teknar með einföldum meirihluta atkvæða fundarmanna nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna og þar sem mættur er minnst 10% kjörgengra félagsmanna. Mæti of fáir, skal boða til framhaldsfundar og öðlast þá tillögur til lagabreytinga gildi ef 3/4 hlutar fundarmanna samþykkja þær, án tillits til fundarsóknar. Lagabreytingar sem félagsmenn vilja leggja fram, skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en 3 vikum fyrir boðaðan aðalfund.
9. gr.
Stjórn og stjórnarfundir
Stjórn félagsins skal skipuð fimm stjórnarmönnum, formanni og fjórum meðstjórnendum. Kjörgengir eru einstaklingar sem hafa náð 18 ára aldri og hafa greitt félagsgjald á yfirstandandi ári. Stjórnin skal kosin á aðalfundi til þriggja ára í senn. Stjórnarmenn ganga úr stjórninni þannig: Formaður eftir þrjú ár, tveir meðstjórnendur eftir eitt ár og tveir meðstjórnendur eftir tvö ár og heldur röðin þannig áfram. Stjórnin skiptir með sér verkum. Kjósa skal tvo varamenn til þriggja ára. Á aðalfundum skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga til tveggja ára í senn.
Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir. Skylt er að boða fund ef þrír stjórnarmanna óska þess. Ritari gegnir ritarastörfum og heldur rafræna gerðabók. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins. Að öðru leyti ákveður stjórn hverju sinni um skiptingu verkefna milli stjórnarmanna.
10. gr.
Slit félagsins
Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi. Við slit félagsins skal eigum þess ráðstafað í samræmi við tillögu stjórnar. Samþykki 3/4 félagsmanna þarf til slita á félaginu. Ef slíta skal félaginu, verður það einungis gert á fundi, þar sem mættir eru minnst 3/4 hlutar félagsmanna, og verður það aðeins gert, að 2/3 hlutar fundarmanna greiði því atkvæði. Að öðrum kosti skal boða til nýs fundar og verður þá félaginu slitið á löglegan hátt ef 3/4 hlutar fundarmanna greiða því atkvæði, án tillit til þess, hve margir eru mættir á fundinum.
[1] Lögin eftir breytingar á aðalfundi ÆÍ 12. ágúst 1983, 31. ágúst 1996, 11. nóvember 2000, 2. september 2006, 27. ágúst 2011 og 27. ágúst 2022.