55. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2025

Aðalfundur ÆÍ 1. nóvember 2025 Landbúnaðarháskóla Íslands að Keldum

55. aðalfundur ÆÍ haldinn í Landbúnaðarháskólanum, 1. nóvember kl. 10:00. Töluverðar tafir urðu á því að fundur gæti hafist vegna tæknilegra örðugleika og hófst fundurinn því ekki fyrr en löngu seinna en áætlað var.

Margrét Rögnvaldsdóttir formaður setti fundinn og bauð félagsmenn velkomna á aðalfund félagsins sem haldinn var bæði sem fjarfundur og staðfundur. Hún bað fundarmenn afsökunar á þeim töfum sem orðið höfðu og stakk upp á Páli G. Þórhallssyni sem fundarstjóra og Helgu Maríu Jóhannesdóttur sem fundarritara.Var það samþykkt. Mættir voru 37 félagsmenn en 14 voru á fjarfundi.

Páll þakkaði það traust sem honum var sýnt og bauð fundargesti velkomna á aðalfund.

Að því loknu hófst dagsskrá fundarins sem var eftirfarandi:

Kl. 10:00  Fundarsetning.  Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Kl. 10:10  Skýrslur og reikningar.
Kl. 10:40  Kosningar

Kl. 10:55  Markaðs- og sölumál.
Kl. 11:15  Íslandsstofa og ÆÍ.
Kl  11:45  Gagnasöfnun í varpi.
Kl. 12:15  Refur og minkur.
Kl. 12:30  Hádegishlé.
Kl. 13:15  Æðarfugl, velferð og heilbrigði.
Kl. 13:30  Kosningar um tillögur og ályktanir.
Kl. 13:55  Fundarlok.

Skýrsla og reikningar

Skýrsla stjórnar

Margrét Rögnvaldsdóttir formaður kynnti skýrslu stjórnar.

Margrét byrjaði í á því að kynna stjórn. Í stjórn félagsins eru Margrét Rögnvaldsdóttir formaður, Erla Friðriksdóttir varaformaður, Magnús Jónasson gjaldkeri, Helga María Jóhannesdóttir ritari og Ragna Óskarsdóttir meðstjórnandi. Í varastjórn eru Hallur Þorsteinsson og Herdís Steinsdóttir.

Aðalfundur var síðast haldinn að Laxamýri, í október 2024. Óvíst er hvar hann verður haldinn að ári en það verður á landsbyggðinni.

Stjórn er dreifð um landið og hefur haldið nokkra stjórnarfundi á árinu í gegnum fjarfundarbúnað. Stjórn hefur haft að leiðarljósi við starf sitt þær ályktanir sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi í nóvember í fyrra, m.a. í sambandi við dúnmatið.

Félagatalið

Ekki hefur gengið sem skildi að halda utan um félagatalið og útskýrði Margrét í hverju vandmálið fælist. Af þeim sökum hefur fólk m.a. verið að fá rukkanir þrátt fyrir að hafa verið búið að skrá sig úr félaginu og einnig hafa félagar dottið út af félagaskránni án þess að hafa beðið um það. Helga Björk Jónsdóttir var fengin til að fara yfir félagatalið og hafði hún samband við flesta skráða félagsmenn áður en reikningar voru sendir út í ár en það dugði ekki til. Það kerfi sem notast hefur verið við er ekki að ganga upp og er niðurstaðan sú að það verður að halda utan um það í Excelskjali. Leitað verður allra leiða til að laga þetta.

Margrét sagði frá því að félagið hafi greitt fyrir að láta texta myndband um æðarrækt og æðardún á kínversku en myndbandið er til talsett á íslensku, ensku og japönsku.

Sala á æðardúni til Bandaríkjanna

Á síðasta starfsári fékkst loks leyfi til að selja fullunna vöru til Bandaríkjanna en ekki hefur enn fengist leyfi til að selja þangað hrádún þar sem æðarfuglinn er friðaður.

Ragnhildur Arnórsdóttir hjá sendiráði Íslands í USA er enn að vinna í þessu máli í Bandaríkjunum í samstarfi við samstarfsaðili okkar hjá Fish&Wildlife Service og frá State. Gov. USA.

Stjórn ÆÍ fékk Guðrúnu Gauksdóttur til að aðstoða við að semja bréf til yfirvalda í Bandaríkjunum til að vinna að því að innflutingur á æðardúni verði einnig leyfður. Áður en sá texti var sendur til skoðunar í Bandaríkjunum þá taldi stjórn ÆÍ nauðsynlegt að fá samþykki íslenskra yfirvalda fyrir því að textinn væri eitthvað sem þau gætu staðfest.  Haldinn var fundur með fulltrúum Matvælaráðuneytis, Ásu Þórhildi Þórðardóttur og Elísabetu Önnu Jónsdóttur. Á fundinn mættu einnig Hafsteinn Hafsteinsson og Ragnar G. Kristjánsson fyrir Umhverfisráðuneytið, Kristinn fyrir Íslandsstofu og Ragnhildur fyrir sendiráðið í USA.  Margrét, Erla og Guðrún mættu fyrir hönd ÆÍ.

Í stuttu máli voru allir ánægðir með textan sem Guðrún Gauksdóttir stillti upp fyrir félagið.  Þessir aðilar frá ráðuneytinu fullyrtu að þeir gæti staðfest textann ef það kæmi ósk um það frá opinberum aðilum í Bandaríkjunum. Þetta var mjög mikilvægt fyrir ÆÍ. Í textanum kemur fram að íslensk stjórnvöld geti staðfest að æðardúnstínsla fari fram á löglegan/lögmætan hátt, þrátt fyrir að ekki gildi nein lög um tínslu æðardúns.  Með þessu eru stjórnvöld á Íslandi einnig að samþykkja að það sé í þeirra hlutverki að halda utan um þetta málefni.

Dúnmat  – staða

Ályktun aðalfundur ÆÍ 2024 var send í Matvælaráðuneytið og var óskað eftir fundi sem ekki hefur enn fengist. Málið er komið á málefnaskrá. Stefnt er að því að fá fund fyrir lok 2025 og koma þannig málinu í farveg. Bjarkey Olsen, fyrrverandi matvælaráðherra, sýndi málinu mikinn áhuga þegar formaður hitti hana á Raufarhöfn í september 2024 en hún datt út úr ríkisstjórn eftir síðustu kosningar.

Hluti stjórnar fundaði með Ólafi Adolfssyni alþingismanni sem er í forsvari fyrir þingmannafrumvarpið um brottfall laga um gæðamat á æðardúni nr. 52/2005. Afstaða félagsmanna ÆÍ var kynnt, þar sem m.a. kom fram að ekki væri hægt að fella niður lögin og matið fyrr en búið væri að koma fram með betra eða jafn gott mat í staðinn. Samþykkti hann að ekkert yrði gert á síðasta þingi og stóð hann við það. Til að fylgja þessu eftir hefur formaður sent honum tölvupóst og óskað eftir því að þingmannafrumvarpið verði ekki heldur lagt fram á nýbyrjuðu þingi.

Í greinargerð sem stjórn ÆÍ tók saman vegna frumvarpsins og sendi Ólafi Adolfssyni kemur fram forsaga málsins. Erfitt hefur reynst að fá að flytja út dún til Bandaríkjanna þar sem þar eru gerðar sérstaklega strangar kröfur til lögmætis og upprunavottunar þegar um afurðir af villtum dýrum er að ræða. Þá er Kanada einn helsti samkeppnisaðili Íslands um viðskipti með æðardún en samkvæmt lögum þar í landi þarf að sækja um leyfi til stjórnvalda til að safna æðardúni og stunda viðskipti með hann. Einnig eru gerðar ýmsar kröfur til þeirra sem stunda æðarrækt, um meðferð dúns og sölu, m.a. um umbúðir og merkingu þeirra með leyfisnúmeri. Því er það niðurstaða vinnu stjórnar ÆÍ að aðkoma íslenskra stjórnvalda sé forsendan fyrir alþjóðlegum viðskiptum með íslenskan æðardún. Margrét tók fram að stjórn ÆÍ leggur áherslu á samstarf við stjórnvöld um nánari útfærslu á kerfinu.

Umsókn um styrk hjá Matvælasjóði.

Félagið sótti um styrk til Matvælasjóðs fyrir samstarfsverkefni ÆÍ og Íslandsstofu. Umsóknina unnu þær Herdís Steinsdóttir og Margrét Rögnvaldsdóttir og felur verkefnið í sér kynningu og markaðssetningu á æðardún, æðarbúskap og vörum úr æðardún á skilgreinda markhópa á ákveðnum svæðum í Bandaríkjunum. Markmið þess er að auka vitund fólks um æðarfuglinn, æðarbúskap og æðardún, auka sölu og útflutning á fullunnum íslenskum vörum úr æðardún og stuðla að bættu og stöðugu afurðaverði til æðarbænda. Hluti af verkefninu var að kosta heimsóknir Joe og Eyglóar í æðarvörp á Norður- og Austurlandi.

Umsóknin fékk efnislega meðferð og einkunnina 7,5 af 10 hjá Matvælasjóði. Í svari sjóðsins við umsókninni kom fram að þar sem æðarfugl er friðaður og því ekki nýttur í eiginlegri merkingu eru afleiddar vörur hans ekki styrkhæfar hjá sjóðnum. ÆÍ fékk því synjun á umsókninni.

Linkur á glærur.

 

Reikningar

Magnús Helgi Jónasson, gjaldkeri, fór yfir ársreikninga félagsins fyrir árið 2024 en þeir voru unnir sem fyrr af KPMG og yfirfarnir af skoðunarmönnum reikninga ÆÍ.

Rekstrartekjur hafa aukist aðeins og eru rétt rúmar þrjár milljónir. Gjöldin 2024 voru 1.970.271 kr. en árið 2023 voru þau tæpar 1,7 milljónir. Í innra starf fór 1.727.729 kr. Rekstarafkoma ársins var jákvæð um 1.072.929 kr. og heildarafkoma ársins er jákvæð um 2.105.743 kr. en hún var einnig jákvæð um rúmar 1,4 milljónir 2023.

Eignir eru samtals eru 17.587.546 kr. og hafa aukist um 1,6 milljónir frá árinu 2023. Eigið fé félagsins nam 16.934.312 kr. en var 14.828.569 kr. í árslok 2023. Skammtíma skuldir félagsins nema 653.234 kr. og er það greiðsla sem kom frá Æðarræktarfélagi Austurlands sem ÆÍ er að geyma fyrir félagið þar til hægt er aðendurgreiða þeim aftur.

Handbært fé félagsins hefur aukist á milli ára og var í árslok 4.465.745 kr.

Helstu gjöld félagsins eru kostnaður við heimsóknir í æðarvörp, gerð myndbanda og þýðingar.

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Fyrirspurn kom frá Leif Mýrdal um hversu margir væru skráðir í félagið. Magnús svaraði því til að sendir höfðu verið út 300 greiðsluseðlar. Erfitt hefur reynst að halda utan um félagatalið eins og fram kom í skýrslu stjórnar en Magnús taldi að það væru rétt undir 300 í félaginu.

Að umræðum loknum voru reikningar bornir upp til samþykktar og voru þeir samþykktir samhljóða.

 

Kosningar

Kjósa átti tvo aðalmenn í stjórn í stað Erlu Friðriksdóttur og Helgu Maríu Jóhannesdóttur. Þær gáfu báðar kost á sér áfram. Var beðið um að þær myndu kynna sig og gerðu þær það. Voru þær kosnar áfram með lófaklappi.

Þá bað Leif Mýrdal um orðið og taldi að það væri orðin of mikil samþjöppun valds inn stjórnarinnar og mikil hagsmunatengsl þar sem aðilar innan stjórnarinnar væru að hreinsa og selja dún fyrir aðra innan stjórnar. Margrét formaður svaraði því til að þetta væru frjáls félagasamtök og gæti hver sem er innan félagsins boðið sig fram í stjórn. Bauð hún honum að bjóða sig fram sem hann vildi ekki.

Einnig átti að kjósa einn í varastjórn. Ragna Óskarsdóttir sagði sig úr stjórn og því fer Herdís Steinsdóttir upp í aðalstjórn. Íris Birgisdóttir hafði gefið kost á sér í varastjórn en gat ekki mætt á fundinn. Margrét kynnti hana en áður en til kosninga kom, kom fram annað framboð í varastjórn frá Helga Þorsteinssyni sem var á fjarfundi. Hann var beðinn um að kynna sig en hann býr á Ytri-Nýpi í Vopnafirði og er æðarbóndi og hreinsar og selur æðardún. Farið var fram á að kosningin yrði leynileg. Atkvæðagreiðslu var frestað þar til síðar á fundinum þar sem atkvæðisseðlar voru ekki tiltækir.

Þá þurfti að kjósa nýjan skoðunarmann reikninga þar sem Ásgeir Gunnar féll frá á árinu. Sólveig Bessa Magnúsdóttir bauð sig fram sem skoðunarmann reikninga og var það samþykkt samhljóða.

Niðurstöður kosninga í varastjórn sem fram fóru síðar á fundinum urðu þær að Helgi fékk 15 atkvæði og Íris 18. Íris var því rétt kjörin. Eitt atkvæði kom eftir að talning hafði farið fram en það beytti ekki niðurstöðum kosningar.

Nýja stjórn skipa því:

Margrét Rögnvaldsdóttir formaður, Erla Friðriksdóttir, Magnús Jónasson, Helga María Jóhannesdóttir og Herdís Steinsdóttir. Mun stjórn skipta með sér verkum.

Í varastjórn eru Hallur Þorsteinsson og Íris Birgisdóttir.

 

Sölu- og markaðsmál

Elías félagi í Félagi atvinnurekenda, fór yfir stöðuna varðandi sölu- og markaðsmál. Sagðist hann hafa mikla reynslu af sölu á æðardúni og byrjaði að fara yfir heildarútflutning á árunum 2019-2015. Árið 2021 var mjög gott ár í sölu og útflutningi og næstu ár á eftir en nánast engin sala hefur verið á þessu ári, 2025.

Útflutningsverðmæti æðardúns hefur stóraukist samhliða mikilli aukningu í sölu á æðardúnsængum og hækkandi verðs. Mikil hækkun hefur orðið á verði æðardúns en meðalverð á kíló af æðardúni hefur hækkað um 50% á árunum 2019 – 2025. Miklar breytingar hafa einnig orðið á mörkuðum, þar sem Bandaríkin eru að taka yfir markaðinn á æðardúnsængum en Bretland er að detta út. Markaðurinn í Japan er hruninn og kominn niður fyrir Þýskaland. Telur hann ástæðuna megi rekja til þróunar á gengi jensins í Japan en það hefur lækkað mikið. Japan sé þannig að taka á sig gengisfellinguna og ræður ekki við þessi verð sem dúnninn er kominn í.

Að mati Elíasar verður að lækka verðið á æðardúninum aftur til að rétta þetta við. Leggur hann til að verðið verði lækkað niður í um 200.000 kr. á kílóið. Þá talaði hann um að auka þyrfti framleiðnina á lausum dún en miðað við þær niðurstöður sem hann fór yfir taldi hann að mesta vitið væri í því að selja meira af æðardúnsængum.

 

Íslandsstofa – Kristinn Björnsson

Kristinn Björnsson hjá Íslandsstofu byrjaði á að kynna sig og hlutverk Íslandsstofu en Íslandsstofa sinnir mörkun og markaðssetningu fyrir Ísland og íslenskar útflutningsgreinar, styður íslensk fyrirtæki í sókn á erlenda markaði og greiðir götu erlendrar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi.

Árið 2019 byrjaði Íslandsstofa að vinna með ÆÍ. Farið var af stað með markaðssetningu á mörkuðum erlendis en einnig hefur hún aðstoðað við að fá útflutningsleyfi á dún til Bandaríkjanna og við gerð umsóknar til Matvælasjóðs.

Kristinn sýndi fundargestum vefinn eiderdownoficeland.com. Þegar hann er opnaður birtist myndband af fólki sinna æðarvarpi sem spilast og hann segir að standi fyrir sínu. Á vefnum er fjallað um náttúruna og sjálfbærni og telur hann að það þurfi að segja þessa sögu. Hvatti hann fólk til að skoða vefsíðuna. Inn á vefsíðunni er líka að finna sögur (stories) undir flipanum ,,about“. Sögurnar eru frá æðarbændum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og lítils háttar frá Austurlandi. Þær segja persónulegar sögur af fólkinu sem sinnir æðarvarpinu á þessum stöðum.

Næsta skref er að vinna að kortalausn þar sem hægt verður að finna og skoða sögurnar á korti.

Krisinn ítrekaði síðan að dúnn væri ekki bara vara heldur líka sagan á bak við hann sem hægt væri að fara með út heim. Framtíðin þurfi að vera jafn sterk og arfleiðin sjálf. Elías Gíslason gerði þá athugasemd að Íslandsstofa reyndi að gæta sem mest hlutleysi gagnvart útflytjendum. Ekki væri hægt að nota „þekkt andlit“ í kynningarefni. Taldi hann að allir þekktu alla á þessum markaði og það væri óviðeigandi að sínum keppinauti væri hamað í opinberum kynningum, sem greiddar væru af opbinberum aðilum. Margrét svarað því að ÆÍ greiddi allt efnið sem væri notað á heimasíðunni eiderdownoficeland.com en Íslandsstofa skaffaði sérfærðþjónustuna og geymdi síðuna fyrir ÆÍ ókeypis. Á sameiginlegum vinnufundum með Íslandsstofu og félögum í ÆÍ, þegar farið var af stað í þetta verkefni, þá var ákveðið að í þessu sameiginlega kynningarefni myndum við segja sögur frá æðarbændum. Þetta verkefni er til að kynna æðarfuglinn, æðardún og æðarrækt. Efnið á síðunni væri ekki sérstaklega gert fyrir útflytendur eða aðra sem væri að selja sængur eða vörur úr æðardún. En allir félagar í ÆÍ gætu nýtt sér þetta efni ef þeim passar. Annars yrðu þeir sjálfir að kosta sitt söluefni.

Margrét þakkaði Kristni fyrir og Íslandsstofu fyrir þann stuðning sem félagið hefur fengið. Sagði hún að Íslandsstofa hafi unni ómetanlegt starf og þýðingarmikið væri fyrir félagið að hafa aðgang að þessari sérfræðiþjónustu.

 

Gagnasöfnun heima í varpi

Jón Einar Jónsson hjá Rannsóknarsetri HÍ á Snæfellsnesi sagði frá starfi Rannsóknarsetursins og þeim rannsóknum sem hafa verið í gangi.

Jón byrjaði á því að segja frá samfélagsstyrki sem fenginn var frá HÍ í febrúar 2025 til þess að heimsækja æðarvörp utan Breiðafjarðar. HÍ hefur lagt áherslu á og hvatt starfsfólk til að taka þátt í samfélaginu í krafti rannsókna þess og sérþekkingar. Styrkir til samfélagsvirkni fela í sér viðurkenningu á því að virkni og samstarf við aðila í samfélaginu sé mikilvægur þáttur í starfsemi Háskólans.

Styrkurinn var ætlaður til gagnsöfnunar í varpi og er markmiðið með verkefninu að taka saman og lýsa þeim aðferðum sem nota má til að safna gögnum um æðarfugl, einkum í tengslum við nýtingu æðarvarps. Þá mun verkefnið einnig safna og miðla upplýsingum um þær aðferðir sem búnar eru til af öðrum en vísindafólkinu, s.s. æðarbændum og fuglaáhugamönnum.

Dæmi um athuganir innan varps er talning á fjölda hreiðra og eggja í hreiðrum, afrán eggja, vatnspróf til að meta dagsetningu hreiðurs og talning á ungum. Breytileiki í varptíma er metinn með vatnsprófi og getur verið mikill á milli ára.

Þá nefndi Jón að blóð á eggjum sem margir kannast við að sjá á eggjunum sé af völdum dúnflóa.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að stærðarbreytileikar og útlitsbreytileikar eru á æðarkollum. Elisabeth Knudsen starfsmaður Rannsóknarseturs hóf að rannsaka litabreytileika á fleiri stöðum á landinu en við Breiðaförð og er sérstakt tæki notað til að litgreina. Mælingar voru gerðar á fimm stöðum á landinu og kom í ljós að það eru landshlutabreytingar á lit kolla. Æðarkollur geta verið gráar, brúnar, bleikar, ljósbrúnar (gylltar). Þær skipta ekki um lit þó þær eldast. Hvítur æðardúnn er ekki merki um gamla kollu, heldur að hún sé vanvirk í melamíni.

Rannsóknir á stærðarbreytileika gefa til kynna að æðarkollur eru misstórar eftir landshlutum. Breiðfirskar kollur eru aðeins minni en á Norðurlandi og Vigur en kollur á Skálanesi fylgja breiðfirsku kollunum. Svo virðist vera að æðarkollur frá Færeyjum séu af stærri gerðinni og Heimskautakollur séu minni.

Ýmislegt fleira athyglisvert kom fram í erindi Jóns, m.a. að samstarfsmenn eru víða um land, á Rifi á Snæfellsnesi, á Ásbúðum Skaga, Óshólmum Akureyri, á Skálanesi við Seyðisfjörð, í Vigur í Ísafjarðardjúpi og á Keisbakka sem aðstoða við gagnaöflun og merkingar.

Samkvæmt DNA rannsókn hefur komið í ljós að tveir erfðafræðilegir stofnar æðarfugls eru til við Ísland. Árið 2023 var leitað að færeyskum kollum á Skálanesi en ekki fundust margar. Þá telur Jón að Vigur og Æðey séu mikilvæg svæði sem þurfi að skoða nánar.

Í umræðum að erindi loknu var m.a. spurt um dúnmagn hjá færeyskum æðarkollum sem eru stórar en ekki eru til upplýsingar um það þar sem æðardúnn er ekki nytjaður í Færeyjum. Telur Jón Einar að það megi rekja til hefðar, þ.e. það er ekki hefð fyrir því að tína dún í Færeyjum eins og gert er á Íslandi.

Einnig var spurt hvort litarháttur breyttist eftir aldri kollunnar en einhver dæmi eru um að þær fái gráa bletti. Meðalaldur kolla er 16 ár en dæmi er um að þær geti orðið 25 ára.

Þá var rætt um fuglaflensu og áhrif hennar á æðarfugl. Von er á hollensku teymi til landsins til að skima fyrir fuglaflensu í æðarfugli og fleiri tegundum. Æðarfugl er í minni hættu en aðrar tegundir þar sem hann er ekki farfugl og blandar lítið geði við aðra fugla.

 

Æðarfugl, velferð og heilbrigði

Brigitte Brugger hjá MAST fór yfir þetta málefni og aðkomu stofnunarinnar. Hún gat ekki komið á staðinn og var á fjarfundi.

Brigitte benti á upplýsingasíðu og mælaborð um fuglainflúensu.

MAST er með ,,passive vöktun“ sem þýðir að eingöngu er verið að taka sýni úr þeim fuglum sem finnast. Metið er hvort sýni er tekið hverju sinni. Þetta gefur ekki heildarmynd og er því notast við aðrar athuganir til að fá hugmyndir um útbreiðslu fuglaflensunnar, þ.e. í hvaða tegundum og hvar svo hægt sé að vara alifuglabændur við.

Fuglaflensan hefur fyrst og fremst verið vetrarsjúkdómur því veiran lifir betur í kulda. Skæða afbrigðið hefur fundist aftur í haust í Noregi og Kanada. Óljóst er hvort við höfum fengið veiruna í haust með nýjum fuglum eða hvort hún hafi legið í dvala.

Einnig hefur fundist ný veira sem þarf að rannsaka betur. Veiran fannst í andategund en ekki í máfi sem var við hliðina á þeim fugli. Þá hefur veira greinst í tveimur refum á Suðurnesjum og þá var veikur refur á Þingeyri sem óljóst var hvort var með veiruna.

MAST leggur áherslu á að fólk snerti ekki veik dýr.

Brigitte sagði að ekki væru til gögn frá öðrum heimsálfum en Evrópu. Mesta hættan á fuglaflensu er talin vera á Norðvestur- og Vesturlandi. Athygli vekur að mikil sprenging hefur orðið á greiningu fuglaflensu í trönum í Þýskalandi.

Vöktun er mikilvæg en MAST er ekki með vöktun á heilbrigðum fuglum.

Í umræðum kom fram að sendur hafi verið fugl frá Ströndum til MAST til greiningar en ekki hafi borist svar. Brigitte bað um að þessar upplýsingar yrðu sendar á MAST.

 

Refur og minkur

Margrét Rögnvaldsdóttir fjallaði um málefnið tengt ref og mink.

Umhverfisstofnun hefur verið lögð niður. Náttúruverndarstofnun sér nú um að halda utan um málefni tengdum ref og mink.

Margrét sagði frá því að haldinn hafi verið fundur á Teams 23. október með aðilum hjá Náttúruverndarstofnun til að fá fram stefnumótun og framtíðarsýn þeirra á þessu málefni.

Til stendur að gera stjórnunar- og verndaráætlun fyrir ref og mink en fyrst á að taka fyrir hreindýr. Búið er að gera þetta með rjúpu og lunda. Gert er ráð fyrir einhverju samráði við hagaðila og fær stjórn ÆÍ að tilnefna nefndarmann þegar að því kemur.

Hægt er að skoða veiðitölur inni á gamla vef Umhverfisstofnunar á slóðinni https://www.ust.is/veidi/veiditolur/.

Þar kemur m.a. fram að 2024 voru 6.984 refir veiddir en tölur fyrir 2025 munu koma í lok árs. Refastofninn er talinn vera um 9 þúsund dýr í dag samkvæmt Ester Rut hjá Náttúrufræðistofnun. Umhverfisstofnun telur að refastofnin hafi meira en tífaldast á síðustu 30 árum.

Alls veiddust 3.118 minkar árið 2024 samkvæmt innsendum veiðiskýrslum. Náttúrustofnun Vesturlands telur að minkastofninn hafi verið í hámarki kringum 2003 eða um 13 þúsund dýr en lítið er vitað um stofnstærð hans í dag vegna vöntunar á fjármagni til vöktunar.

Til er áætlun um refaveiðar fyrir árin 2023 – 2025 en engin áætlun er til um veiðar á mink en allir eru sammála um að eyða þurfi mink úr íslenskri náttúru. Ef fara á í átak þarf að breyta lögum um minkaveiðar til að hægt sé að borga meira en 50% af kostnaði við þær.

Þá nefndi Margrét að fuglaflensa hafi greinst í nokkrum refum og einum mink. Bæði refur og minkur geta smitast af öðrum veirum eða sníkjudýrum en lítið er vitað um algengi þess eða áhrif á dýrin vegna skorts á vöktun.

Stjórnunar- og verndaráætlun mun byggjast á ástandi stofnanna og upplýsingum um hvaða tjóni þeir valda. Lítið hefur verið um tilkynningar vegna tjóns af völdum refs og minks. Æðarbændur verða að vera duglegri að tilkynna tjón að mati Margrétar og minnti hún á tjónablaðið, eyðublað sem hægt er að finna og fylla út á heimasíðu ÆÍ.

Eftir erindi Margrétar komu nokkrar athugasemdir úr sal.

Helgi Páll Pálmason á Patreksfirði nefndi að ekki væri greitt fyrir mink á hans svæði en þeir sem eru á samningi á grenjavinnslu fá greitt fyrir ref.

Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði talaði um að hann hafi sett upp gildrur fyrir mink en hefur ekki fengið greitt fyrir það. Hann hefur ekki trú á að Náttúruverndarstofnun muni greiða fyrir ref á grenjatíma.

Þá benti Helga Björk Jónsdóttir  á að hún hafi reynt að senda inn tjónaskýrslu en ekki gengið. Greinilegt er að athuga þarf linkinn á heimasíðunni.

Linkur á glærur.

Hádegishlé

Þá var gert hlé á fundinum á meðan boðið var upp á hádegisverð sem fundarmenn gerðu góð skil.

Kosningar um tillögur og ályktanir

Eftirfarandi ályktanir voru bornar upp á fundinum til samþykktar:

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 1. nóvember 2025 í Landbúnaðarháskóla Íslands skorar á Náttúruverndarstofnun og stjórnvöld að hefja tafarlaust gerð stjórnunaráætlunar fyrir mink og ref“.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

 

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 1. nóvember 2025 í Landbúnaðarháskóla Íslands skorar á stjórnvöld að setja fjármagn í vöktun á ref og mink svo hægt sé að vinna að því að fá yfirsýn yfir stofnstærð, útbreiðslu og tjón. Þá skora félagar í Æðarræktarfélagi Íslands á stjórnvöld að leggja fram áætlun um útrýmingu minks úr íslenskri náttúru í framhaldi af tilraunaverkefni þess efnis sem fram fór á Snæfellsnesi og í Eyjafirði á árunum 2007-2009“.

Mótmæli bárust úr sal um ályktunina og var ákveðið að kjósa um að fella hana niður. Var samþykkt að fella niður ályktunina, einn var á móti.

 

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 1. nóvember 2025 í Landbúnaðarháskóla Íslands skorar á stjórnvöld að breyta 13. grein í lögum númer 64/1994 þar sem segir að ríkissjóður endurgreiði allt að helming kostnaðar við minkaveiðar. Félagar í ÆÍ skora á stjórnvöld að auka fjárframlög til minkaveiða með það að markmiði að eyða mink skipulega. Minkurinn er ágengt dýr og hefur neikvæð áhrif á fuglalíf og varphætti fugla um land allt“.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

 

Ályktun

,,Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands haldinn þann 1. nóvember 2025 í Landbúnaðarháskóla Íslands telur þýðingarmikið að lög nr. 52/2005 um gæðamat á æðardúni haldi gildi sínu. Lögin hafa gegnt veigamiklu hlutverki við sölu á æðardúni í yfir 50 ár eða allt frá 1970 þegar lögin voru fyrst sett. Lög um gæðamat á æðardúni hefur verið hornsteinn þess að kaupendur æðardúns geti treyst að um fyrsta flokks íslenskan æðardún sé að ræða hvort heldur sem um ræðir æðardún eða vörur sem innihalda æðardún. Lögin hafa gegnt lykilhlutverki í að tryggja sérstöðu íslensks æðardúns á heimsvísu“.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

 

Önnur mál

Leif Mýrdal bað um orðið og sagðist hafa sent til stjórnar tillögu að breytingu  á framkvæmd á dúnmati. Margrét las upp tilllöguna sem barst stjórninni rétt fyrir fundinn og sagði að þetta yrði tekið til skoðunar en sagði í raun væri ekki tímabært að tala um framkvæmdina fyrr en ljóst væri hvernig færi með lögin.

Merete Rabolle á Hrauni varpaði upp þeirri spurningu hvort svæðisfélögin væru orðin óþörf. Mörg hver væru þau orðin fámenn og ekkert fjármagn til staðar til að gera eitthvað. Margrét svaraði því til að deildirnar gætu ákveðið að rukka inn félagsgjald og ekki væri svo dýrt að senda út rukkun. Ákveðið var á sínum tíma að allt félagsgjald myndi renna til ÆÍ en ekki færi hluti þess til deilda eins og áður var. Deildir væru misvirkar og það væri mikið kvartað yfir þeim. Leggur hún til að settur verði upp vinnufundur um hlutverk deildanna á næsta aðalfundi.

Gunnþór Kristjánsson frá Núpskötlu mótmælti því að dúnmatið færi undir MAST eins og kom fram í tillögu Leifs. Leif svaraði því til að hann hefði tilgreint MAST en það mætti vera annars staðar. Hann nefndi einnig mikilvægi þess að dúnninn væri innsiglaður, hans viðskiptavinir vildu ávallt fá innsiglaðan dún.

Fleira ekki rætt.

Fundarstjóri þakkaði fundargestum fyrir komuna og var fundi slitið kl. 15:30. Vegna tæknilegra örðugleika allan fundinn urðu miklar tafir á framvindu hans og fundarlok því mun seinna en ráð hafði verið gert fyrir.

Helga María Jóhannesdóttir

ritari