48. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017
48. aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands
Hnitbjörgum Raufarhöfn 26. ágúst 2017 kl. 10:00
76 mættir
Fundarsetning
Guðrún Gauksdóttir formaður setti fundinn og bauð fólk velkomið. Hún lýsti ánægju með hversu vel væri mætt til fundar en það sýndi sig að ávallt væri betri mæting á fundina þegar þeir væru út á landi. Það væri stefna stjórnar að hafa þá á landsbyggðinni þriðja hvert ár.
Guðrún gerði að tillögu sinni að Salvar Baldursson yrði fundastjóri og Sólveig Bessa Magnúsdóttir ritari og var það samþykkt.
Salvar tók við stjórn fundarins og fór yfir praktísk atriði varðandi hópverkefni og fl. Gengið til aðalfundardagskrár.
Skýrsla stjórnar: Guðrún Gauksdóttir
Guðrún Gauksdóttir formaður byrjaði á að segja frá hverjir væru í stjórn ÆÍ en nú eru það þau: Erla Friðriksdóttir, Salvar Baldursson, Sólveig Bessa Magnúsdóttir og Sæmundur Sæmundsson í aðalstjórn og þær Margrét Rögnvaldsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir í varastjórn.
Að venju fór formaður yfir veðurfar á landinu á varptíma en í vor varð mikil úrkoma og því vandi vegna bleytu í öllum landshlutum en í mismiklu mæli þó. Mikilvægt er í þannig árferði að geta þurrkað dúninn fljótt. Hreinsunaraðilar tóku fljótt við dúni til að geta þurrkað og hreinsað sem fyrst en eins eru æðarbændur margir hverjir með góða aðstöðu til að þurrka dún. Í tengslum við það væri gaman að taka saman þær fjölbreyttu aðferðir og tæki sem bændur nota við þurrkun dúns.
Af verkefnum stjórnar hefur stærsta málið verið viðbrögð við niðurfellingu búnaðargjalda og hvernig ÆÍ skuli bregðast við því, greinargerð frá stjórn ÆÍ liggur fyrir fundinum og tilgangur hópavinnu er að fá fram hjá félagsmönnum hvert skal stefna. Önnur verkefni eru málefni sjókvíaeldis og breytingar á lögum um fiskveiðistjórn að því er tekur til öflunar sjávargróðurs. Í þriðja lagi eru verkefnin fólgin í aðstoð við félagsmenn á ýmsan hátt og svara fyrirspurnum kaupenda um seljendur á æðardúni eða upplýsa almennt um æðarfuglinn. Verið að vinna að samræmdu friðlýsingarskilti. Guðrún minnti á kynningarefnið, bæklinginn og DVD disk.
Ársreikningar: Sæmundur Sæmundsson
Gjaldkeri fór yfir ársreikninga félagsins. Helstu tölur úr ársreikningi eru að tekjur voru kr. 4.670.802, gjöld kr. 1.721.920, hagnaður kr. 2.948.882, að teknu tilliti til fjármunatekna og fjármagnsgjalda er niðurstaðan kr. 3.297.797. Efnahagsreikningur félagsins sýnir að eignir félagsins eru kr. 15.837.921.
Sæmundur nefndi að félagsgjöld séu að skila sér seint inn. Aðalbreytingar hjá félaginu verða nú að búnaðargjöld koma ekki lengur inn.
Fyrirspurnir um skýrslur og reikninga.
Fyrirspurn um cd diskinn hvort hann væri á youtube rás. Erla svaraði því að myndin væri inn á heimssíðunni þó hún væri ekki í eins góðri upplausn og á diskinum
Ábending kom um að hafa bankanúmer til að leggja inná, það væru ekki allir með heimabanka. Sæmundur og Guðrún svöruðu því til að þetta verði á næsta fundarboði, reikningsnúmer var alltaf í útsendum gögnum en hefur fallið niður síðustu tvö ár, bætt verður úr því.
Spurt var hvað fjármagnsgjöld væru. Sæmundur svaraði því að það væru í þessu tilviki þóknanir til banka fyrir að innheimta félagsgjöld.
Fundarstjóri bar upp ársreikninga félagsins og voru þeir samþykkir samhljóða.
Kosningar
Kosið var um formann og skoðunarmann reikninga. Guðrún Gauksdóttir gaf kost á sér áfram og var hún endurkjörin formaður. Pétur Guðmundsson gaf einnig kost á sér áfram og var endurkjörinn sem skoðunarmaður reikninga. Þá var formaður kosinn búnaðarþingsfulltrúi og varaformaður til vara.
Tillögur/ályktanir
Fundarstjóri Salvar Baldursson las upp tillögur þær sem liggja fyrir fundinum. Hér eru þær settar fram eins og þær voru samþykktar.
I. Árgjald
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands árið 2017 ályktar að árgjald fyrir árið 2018 verði kr. 5.000.
II. Styrkir til deilda
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 leggur til að stjórn félagsins hafi heimild til að veita æðarræktardeildum fjárstyrki vegna tilgreindra, rökstuddra verkefna, s.s. vargeyðingar.
Styrkir verða einungis greiddir gegn afriti af reikningum.
III. Minka- og refaveiði
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 hvetur stjórnvöld til að auka fjármagn til refa- og minkaveiða. Æðarræktarfélagið hvetur einnig ríkið og sveitarfélög landsins til að koma á samræmdum reglum um veiðar þessara dýra. Þá beinir aðalfundur því til stjórnar félagsins að hún beiti sér fyrir því að leitað verði nýrra leiða í baráttunni fyrir því að tryggja æðarvarp gegn ágangi minks, refs og flugvargs.
IV. Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni.
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 ályktar að í breytingum á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, sem varða öflun sjávargróðurs og taka gildi 1. janúar 2018, felist ólögmæt skerðing á eignarrétti eigenda jarða sem liggja að sjó og þessi hlunnindi tilheyra, þ. á m. æðarbænda. Stjórn ÆÍ er falið að vinna að lausn málsins ásamt þeim æðarbændum sem málið varðar.
V. Sjókvíaeldi og æðarfugl
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2017 ályktar að brýn nauðsyn sé á því að rannsaka og vakta áhrif sjókvíaeldisstöðva og stækkunar þeirra á lífríki sjávar og þar með beina og óbeina hættu fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls.
Umræður um tillögurnar
- Ályktun um árgjald:
Sæmundur gerði grein fyrir hvers vegna ákveðið er að hækka árgjaldið úr 4.000 í 5.000 en búast má við að félagsgjöld þurfi að hækka næstu ár til að mæta tekjutapi vegna afnáms búnaðargjalds. - Ályktun um styrki til deilda:
Sæmundur gerði grein fyrir þessari tillögu en sú breyting er í þessari tillögu að einungis verður greitt til deilda en ekki til einstaklinga innan deildanna til að hvetja til þess að deildir séu virkar og haldi utan um starfið. - Ályktun um refa- og minkaveiðar:
Nokkur umræða varð um þessa tillögu og almennt um veiðar. Helgi Þorsteinsson nefndi að það þyrfti að flýta grenjaleitum. Helgi Pálsson taldi að það gengi ekki alltaf upp að flýta grenjavinnslu því þá næðist kannski að vinna greni en refurinn næðist e.t.v. ekki því hann forðast að koma að greninu næstu daga. Valgeir Jónasson spyr hvort við þurfum ekki að gera eitthvað í sambandi við flugvarg. Helgi Þorsteinsson nefndi að hægt væri að nota myndavélar við greni, refurinn búinn að vinna mikinn skaða ef farið er á greni í lok júní. Marinó Oddsson nefnir að mikið sé af nýjum grenjum og þess vegna ekki nóg að leita á þekktum stöðum, launin séu svo lág að ekki fáist menn. Atli Árnason, saknar þess að ekki sé tekið á flugvarginum og vill fá það inn í þessa tillögu. Jóhannes Árnason á Höskuldarstöðum nefnir að skelfilegt sé að sjá það í kringum fiskvinnslustöðvar að slori sé sturtaða í sjó. Björgvin Sveinsson vill benda á vetrarveiði því refur sem skotinn er að vetri fer ekki á greni að vori.
Tillaga kom fram um breytingu á útsendri tillögu þar sem varnir gegn flugvargi er bætt inn í og var það Samþykkt. - Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni:
Greinargerð með þessari tillögu lá fyrir fundinum og var send út í tölvupósti til félagsmanna.
Atli sér ekki annað en að félagið þurfi að vinna að þessu stóra máli í samvinnu við aðra
hagsmunaaðila. - Sjókvíaeldi og æðarfugl
Hallur Þorsteinsson telur tillögurnar tvær IV og V snúast um einkahagsmuni fárra æðarbænda og það sé e.t.v. ekki hlutverk æðarræktarfélagsins að hafa puttana í eignarhaldi á svæðum. Salvar nefndi að stjórn æðarræktarfélagsins hefði einungis þá afstöðu að það þyrfti að fylgjast með sjókvíaeldinu en að öðru leiti ekki sett sig upp á móti því.
Önnur mál
Enginn hvað sér hljóðs
Ávörp gesta: Einar Ófeigur Björnsson stjórnarmaður Bændasamtaka Íslands
Einar Ófeigur kynnti sig og sagðist vera sauðfjárbóndi, skógarbóndi og æðarbóndi á Lóni í Kelduhverfi. Hann flutti kveðju formanns bændasamtakanna sem ekki átti heimangengt. Einar sagði að s.l. ár hafi verið annasamt hjá BÍ en nú séu miklir umbreytingatímar hjá samtökunum. Eitt af stóru viðfangsefnum s.l. árs er vinna í nefnd vegna búvörusamninga. Í hugmyndfræði sem BÍ hefur þar að leiðarljósi rúmast æðarræktin vel, þar sem hún byggist á sjálfbærni og góðri umgengni við náttúruna. Hann nefndi að kannski væru enn ónýtt tækifæri til að vinna úr dúni og skapa þannig aukin verðmæti s.s. minjagripi fyrir ferðamenn, það eru ýmsir sjóðir sem hægt væri að fá úr ef menn luma á góðri hugmynd. Taldi hann að nú þyrftu menn að vera í meiri vörn til að verja byggðir landsins en nokkru sinni fyrr, ekki síst vegna mikilla erfiðleika í sauðfjárræktinni. Breyting á innheimtu félagsgjalda hefur verið stórt verkefni hjá BÍ en þær breytingar urðu um síðustu áramót að búnaðargjald féll niður. Eftir breytingarnar metur hver og einn hvort hann sér hag sinn í að vera í BÍ þ.e. greiðsla félagsgjalda er frjáls en ekki í formi skatta af veltu eins og þegar búnaðargjöld voru. Einar útskýrði nánar hvernig félagsaðild er núna og hvernig greiðslur á félagsgjöldum væru og nefndi einnig að aðildarfélög BÍ þyrftu að ákveða innan sinna samtaka hvernig þau innheimtu sín félagsgjöld og fjármögnuðu sín samtök. Hann nefndi einnig að í samþykktum BÍ væri skilyrði um að þeir sem kosnir væru á búnaðarþing væru í BÍ. Hann sagði að eðlilegt væri að félög líkt og ÆÍ velti því fyrir sér hvað það hefði út úr því að vera í samtökum bænda en eftirfarandi mætti hafa í huga; Bændasamtökin vinna að hagsmunum allra bænda og eru málsvari stéttarinnar, aðild eflir kynni innan stéttarinnar, BÍ vinnur að ýmsum kynningar- og ímyndarmálum landbúnaðarins, félagsmenn njóta ráðgjafar um það sem snertir bændur, BÍ kemur fram fyrir hönd bænda gagnvart ríkisvaldinu og gerir samninga fyrir bændur. Félagsmenn njóta 30% afsláttar af flestum forritum BÍ og fá sérkjör á gistingu á Hótel Sögu, félagsmenn geta leigt orlofsíbúðir á höfuðborgarsvæðinu og orlofshús á Hólum í Hjaltadal, sem félagsmaður er hægt að sækja um í stuðning í starfsmenntasjóð og nýjan velferðarsjóð. En meginatriðið er samtakamáttur heildarinnar og verður meiri eftir því sem fleiri taka þátt, slagkraftur fjöldans skipir öllu máli. Einar hvetur alla til að vera félagsmenn í BÍ en að sjálfsögðu er það val. Lokaorð hans voru „sameinaðir stöndum við sundraðir föllum við“.
Hópavinna
Fundamönnum var nú skipt í sex hópa hver með sinn hópstjóra, viðfangsefni hópanna voru:
- Hvert er hlutverk Æðarræktarfélags Íslands?
- Hver eru verkefni Æðarræktarfélags Íslands?
- Hver er framtíðarsýn félagsmanna fyrir Æðarræktarfélag Íslands?
Eftir hópavinnu las Salvar fundarstjóri upp nokkra punkta af því sem hópavinnan hafði skilað en afraksturinn fer til stjórnar sem vinnur úr þeim og kynnir félagsmönnum síðar.
Guðrún Gauksdóttir tók til máls og sleit formlegum aðalfundi. Hún þakkaði Margréti Rögnvaldsdóttir og hennar félögum fyrir skipulag og þeirra vinnu við fundinn og dagskrána.
Skoðunarferð
Eftir hádegi var farin skoðunarferð í tveimur rútum um Sléttu og Langanes. Leiðsögumenn voru Jóhannes Árnason frá Höskuldarnesi og Sverrir Möller frá Ytra-Lóni sem sögðu frá því sem fyrir augu bar á akstrinum og lífi fólks fyrr og nú á þessu svæði en mikil byggð var þar áður fyrr sem nú er mikið til lögst af. Fyrst var skoðað Heimskautagerðið sem stendur á hæð ofan við Raufarhöfn. Þar sagði Jónas Friðrik Guðnason frá þessu áhugaverða verkefni sem hefur verið í vinnslu í nokkur ár og er ekki lokið enn. Þá var ekið á Langanes yfir Hófaskarð og um Þórshöfn. Stoppað var við nýlegan fuglaskoðunarpall við Skoruvíkurbjarg sem heitir Járnkarlinn. Pallur þessi er mikið mannvirki og úr honum er gott að skoða fuglinn í bjarginu. Að lokum var stoppað í Skálum og skoðaðar minjar fiskiþorps sem stóð í blóma á fyrri hluta 20 aldar en er nú í eyði. Á Skálum var áð um stund enda boðið upp á glæsilegar veitingar á dúkuðum borðum í boði Æðarræktarfélagsins en í umsjón heimafólks.
Kvöldverður í Hnitbjörgum og kvölddagskrá
Margrét Rögnvaldsdóttir bauð fólk velkomið og þakkaði leiðsögufólki aðstoðina í ferð dagsins.
Yfir borðhaldi og inn á milli dagskrárliða sem hér neðar er gerð grein fyrir fór heimafólk með gamanmál í formi söngs og leiks. Einnig var happdrætti með ýmsum góðum vinningum úr héraði.
Sölumál
Pétur Guðmundsson og Erla Friðriksdóttir fóru í nokkrum orðum yfir sölumál á dún. Erla sagði að það hafi farið mikið af dún út árið 2016 eða 3.382 kg og útflutningsverðið var um 205 þúsund á kg. Í maí á þessu ári fóru 27 kg. og útflutningsverðið var um 190 þúsund en ekkert var flutt út í júní. Hún man ekki eftir að það hafi gerst fyrr að ekki fari æðardúnn í útflutning einn mánuð hvað þá í júní þegar nýi dúnninn er að koma inn, ástæðan er e.t.v. sú hversu mikið fór út á síðasta ári. Hún nefnir að það sé aðeins niðursveifla í íslenskum krónum en ekki mikill munur í erlendri mynt. Pétur talar um að það séu fréttir um að það séu til birgðir hjá kaupendum erlendis og það sé e.t.v. ástæða minni sölu nú en hann áréttar að menn megi passa sig í að slá verðinu ekki niður þó komi sölutregða í nokkra mánuði.
Kynning á verkefni um fullunna vöru – Sæmundur Sæmundsson
Sæmundur sagði í máli og myndum frá áhugaverðu verkefni sem sonur hans, Kristján Pétur Sæmundsson og tengdadóttirin Birta Ísólfsdóttir, eru að vinna að með hönnun og framleiðslu á hágæða útivistarjakka þar sem æðardúnn er notaður í fyllingu. Parið tók þátt í frumkvöðlakeppni sem heitir Gulleggið og lentu þar í öðru sæti. Framleiðslan verður seld undir vörumerkinu S. Stefánsson og co en það vörumerki var í eigu Sæmundar Stefánssonar föður Sæmundar. Sæmundur eldri var frumkvöðull við að byggja upp og nýta æðarvarpið í Hrísey. Hugmyndin er að nýta sögu ættarinnar og þá staðreynd að æðardúnn er einstök hrein náttúrafurð, til að markaðssetja útivistarjakkann.
Fréttir frá deildum
- Strandasýsla -Pétur Guðmundsson
Pétur sagði að vorið hefði verið hroðalegt, mikil rigning og dúntekja verið u.þ.b. þriðjungur af dún í meðalári. Taldi hann að mikið af fuglinum hefði ekki orpið. Í sambandi við varg er lítið um mink, tekist hefur nánast að útrýma honum. - Vestur -Húnavatnssýsla – Helgi Pálsson
Á hans svæði eru 7-8 vörp varpið tókst ágætlega í vor en það dróst fram á sumarið lengur en venjulega. Kannski aðeins minna varp en áður en það hafa verið toppár frá 2011. Hann sagði að íslenski refurinn væri bara staðalbúnaður í íslenskum vörpum. Ekki mikið um mink og síðan 2006 hefur ekki verið drepinn minkur í Heggstaðanesinu. - Vestur- Barðastrandasýsla og Ísafjarðasýslur – Dúnland – Salvar Baldursson
Ekki mikil starfsemi hjá félaginu s.l. ár, fáir fundir. Salvar talaði um að að dúntekja hefði verið misgóð á svæðinu enda svæðið stórt, rigningunni hefði verið misskipt og rigning hefur mis mikil áhrif í vörpum eftir undarlagi. Erfitt að eiga við ref og mink á svæðinu. - Snæfellsnes og Hnappadalssýsla – Ásgeri Gunnar.
Ásgeir segir að á hans svæði hafi verið góð tíð og gott varp. - Skagafjarðardeild – Helga Ingimarsdóttir
Helga segir ekki hafa verið haldinn fundur í nokkur ár hjá þeim. Hún segir að varp hafi gengið misvel, fyrstu kollur hafi komið snemma eða í lok apríl en það virtist samt sem fuglinn skilaði sér ekki í varp. Mikil bleytutíð og fólk hafi þurft að leggja mikla vinnu í þurrkun og dúnn sé allt að því 20-30% minni en venjulega. Mikið áhyggjuefni er aukinn ágangur af flugvargi en eins hjá þeim og annars staðar mikill ágangur af mink og ref. - Æðarræktarfélag Norð- Austurlands – Margrét Rögnvaldsdóttir
Margrét sagði frá því að þau hefðu haldið löglegan aðalfund en félagið hafði verið sofandi lengi, miklar væntingar væru um gott starf. Misjafnar sögur af varpi á svæðinu sumstaðar var mikil bleyta. Mikið verið að berjast við flugvarg. Á sléttu er lítið um ref og mink en meira í Vopnafirði.
Sunnudagur 27. ágúst
Boðið var upp á fjórar ferðir milli 10:00-12:00. Þar sem heimafólk gekk með hópum eða tók á móti á bæjum sínum. Það var gengið á Hraunhafnartanga með Guðrúnu Sigurðardóttur Harðbak, farið í heimsókn í Skinnalón þar sem Hallur Þorsteinsson tók á móti fólki, farið í Núpskötlu og gengið á Rauðanúp þar sem Kristbjörg og Helga Jónsdóttir tóku á móti gestum og/eða farið í Grjótnes þar sem Gunnar Páll Baldursson sýndi sitt ættaróðal. Flestir fundagestir nýttu þetta boð og gaman var að upplifa einstaka gestrisni heimafólks.
Fundarritari
Sólveig Bessa Magnúsdóttir