39. Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 2008
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands 8. nóvember 2008
- Fundarsetning
Formaður Jónas Helgason, Æðey, setti fundinn kl. 13.30 í Ársal Bænda-hallarinnar. Jónas bauð félagsmenn og gesti velkomna til 39. aðalfundar ÆÍ.
Fundarstjóri var kosinn sr. Guðni Þór Ólafsson og tók hann við fundarstjórn. Pétur Gunnarsson var kosinn aðstoðarfundarstjóri og Guðrún Gauksdóttir fundarritari. Fundurinn var hljóðritaður. Fundarstjóri kynnti dagskrá fundarins. - Skýrslur
a) Skýrsla formanns Jónasar Helgasonar
“Inngangur:
Stjórnin hélt 2 formlega stjórnarfundi á árinu og auk þess voru haldnir nokkrir samráðsfundir í síma um einstök mál svo og í gegnum tölvur.
Á síðasta starfsári sátu í stjórn auk mín Guðni Þór Ólafsson Melstað, Guðrún Gauksdóttir, Kaldaðarnesi og í varastjórn Eiríkur Snæbjörnsson, Stað Reykhólasveit og Ásta Flosadóttir Höfða Grýtubakkahreppi.
Skoðunarmenn reikninga eru Davíð Gíslason, Garðabæ og Pétur Guðmundsson, Ófeigsfirði.
Búnaðarþingsfulltrúi ÆÍ er Jónas Helgason, Æðey og varamaður er Eiríkur Snæbjörnsson Stað, Reykhólasveit.
Ég vil þakka þeim öllum samstarfið og góð störf í þágu félagsins á árinu.Tíðarfar:
Tíðarfar yfir varptímann var mjög gott um nánast allt land, og er eftirtekjan í samræmi við það.Sölumál:
Eftirspurn eftir æðardún var rólegri framan af árinu en í September tók hún smá kipp uppá við. Á fyrstu 9 mánuðum ársins hafa verið flutt út 1667 kg. samanborið við 897 kg. á sama tíma á síðastliðnu ári. Alls voru flutt út 1384 kg á árinu 2007
Nánar verður fjallað um sölumál síðar á fundinum.Ályktanir síðasta aðalfundar:
- Styrkur ÆÍ til deilda
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands, haldinn í Reykjavík 10. nóvember 2007, leggur til að félagið veiti æðarræktardeildunum fjárstyrk með líkum hætti og undanfarin ár. Einnig er stjórninni heimilt að veita styrk til einstakra æðarbænda á þeim svæðum þar sem ekki er starfandi æðarræktardeild.
Stjórn ÆÍ er falið að ganga frá samningum við formenn deildanna um framkvæmd tillögunnar.
Stjórn ÆÍ úthlutaði á stjórnarfundi, 2. maí 2007, styrk til sjö deilda og tveggja bænda á svæðum utan deilda, alls að upphæð kr. 980.000- - Fækkun sílamávs
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands, haldinn í Reykjavík 10. nóvember 2007, fagnar því átaki sem í gangi er á höfuðborgarsvæðinu við að fækka sílamáv. Jafnframt skorar fundurinn á umhverfisráðuneytið að standa fyrir skipulögðum aðgerðum við að þróa og reyna notkun lyfja til fækkunar á vargfugli á sérvöldum svæðum. Fundurinn leggur til að umhverfisráðherra skipi nefnd sem geri tillögur að vinnureglum við notkun lyfja til fækkunar á flugvargi.
Greinargerð:
Sílamávur hefur á síðari áratugum numið land í öllum landshlutum. Hann er styggur og erfiður viðureignar og því hefur reynst örðugt að halda honum í skefjum með hefðbundnum aðferðum. Því er mikilvægt að leita annarra leiða s.s. notkun lyfja. Hann reynist æðarræktinni hinn mesti skaðvaldur, auk þess sem hann tínir upp egg og unga annarra fugla í stórum stíl t.d. hjá mófugli og rjúpu. Hann heldur sig ekki einungis við strendur landsins heldur sækir langt inn í land og upp til heiða. Bændur hafa orðið vitni að því að hann þurrkar upp öll egg rjúpu og mófugls á stórum svæðum.
Með skipulögðum vinnubrögðum og eftir fastmótuðum reglum er notkun lyfja við fækkun flugvargs árangursrík og örugg aðferð. Því er lagt til að skipuð verði nefnd sem gerir drög að vinnureglum við fækkun flugvarg með lyfjum. - Fækkun tófu
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands, haldinn í Reykjavík 10. nóvember 2007 skorar á stjórnvöld að auka verulega stuðning við sveitarfélög til fækkunar á tófu. Jafnframt er því eindregið beint til yfirvalda umhverfismála að leyfðar verði skipulagðar veiðar á tófu í þeim friðlöndum þar sem hún er friðuð.
Greinargerð:
Ljóst er að tófu hefur fjölgað mjög á síðari árum og hún hefur numið land á áður óþekktum svæðum. Hún veldur árlega miklu tjóni í varplöndum æðarfugls sem og annarra fugla. Á svæðum þar sem tófan ræður ríkjum er fuglalíf ekki svipur hjá sjón. Auk þess er árvisst að sauðfjárbændur verða fyrir tjóni af hennar völdum. Þá á tófan örugglega sinn þátt í að rjúpu fækkar, en hún sækir mjög í rjúpuna að vetri til.
Víða er ágangur tófu í æðarvörp orðinn svo þungur að jafnvel sólarhringsvöktun og aðrar varnaraðgerðir duga ekki lengur, auk þess sem bændur þurfa sífellt að leggja í meiri kostnað til þess að verjast henni.
Þrátt fyrir skyldur sveitarfélaga við að halda tófu í skefjum þá eru mörg þeirra illa sett fjárhagslega og ráða lítt við að sinna lögboðnum skyldum sínum þess vegna.
Með almenna hagsmuni lífríkisins í huga þá er það réttlætismál að ríkisvaldið komi enn meira að þessum málum með auknum stuðningi við sveitarfélögin.
Þá má minna á að friðland eins og Hornstrandafriðlandið er uppeldissöð fyrir tófu og þaðan leitar hún út á nærliggjandi svæði með auknum þunga. Þá hefur tófan víða lagst á fugl í fuglabjörgum þannig að þar sem hún kemst að þá hefur hún eyðilagt stór svæði sem áður voru þakin bjargfugli.
Árangursríkast leiðin til þess að verjast auknum ágangi tófunnar er því að auka verulega stuðning við sveitarfélögin til þess að sinna lögboðnum skyldum sínum.
Fækkun sílamávs:
Farið var í átak af hálfu sveitastjórna á höfuðborgarsvæðinu til fækkunar sílamávs. Þar var beitt auknum skotveiðum með verulegum árangri, svo og svefnlyfjum í afmörkuðum vörpum. Árangur af svefnlyfjum var ekki eins mikill og vonir stóðu til, væntanlega verður um framhald þessa átaks að ræða.Búnaðarþing:
Ég sat Búnaðarþing dagana 2 – 7. mars 2008 og starfaði í umhverfis og jarðræktarnefnd, alls sátu þingið 49 kjörnir fulltrúar. Um eitt mál var fjallað á þinginu sem segja má að snerti æðarbændur, en það var mál nr. 41 um bótarétt til framkvæmda í almannaþágu.Að lokum:
Um leið og ég þakka góða fundarsókn vil ég færa Árna Snæbjörnssyni hlunnindaráðunaut sérstakar þakkir fyrir hans mikla og fórnfúsa starf í þágu Æðarræktarfélagsins á liðnum árum.”b) Skýrsla ráðunautar Árna Snæbjörnssonar
“Ágætu fundarmenn.
Eins og undanfarin ár þá mun ég flytja aðalfundi ÆÍ skýrslu um þann þátt í starfi mínu á sl. ári sem snýr að æðarræktinni. Skýrsla þessi verður styttri en vant er en myndskreytt.Veðurfar
Veðráttan á liðnu ári hefur verið æðarfugli afar hagstæð. Vorið og sumarið var víðast hvar þurrviðrasamt og án stórviðra. Viðast hvar var tíðarfar æðarvarpi eins hagstætt og hugsast getur, enda mun nýting æðardúns vera með því besta sem gerist.Varpárangur
Í flestum landshlutum var æðarvarp mjög gott og er það mat flestra að hreiðurfjöldi hafi verið í góðu meðallagi.
Í heildina má því segja að varp hafi gengið óvenju vel, þ.e. dúnnýting í hámarki og hreiðurfjöldi í meðallagi eða meiri. Auðvitað eru til einstaka staðir sem ekki falla inn í ofangreinda lýsingu, en þá er um að kenna áföllum vegna vargs eða óhappa.
Því er líklegt að dúntekjan í ár sé með betra móti eða svipað og lengst af hefur verið (2.500 – 3.000 kg af fullhreinsuðum æðardúni).
Þótt segja megi að æðarræktin sem slík hafi gengið vel, þá hefur sala æðardúns gengið hægar en verið hefur undanfarin ár. Slíkri stöðu höfum við kynnst áður og er vonandi að úr rætist sem fyrst. Um þetta munu aðrir fjalla síðar á fundinum.Ferðir
Á liðnu vori hitti ég æðarbændur á nokkrum stöðum á Vesturlandi. Heimsóknir til æðarbænda voru óvenju fáar að þessu sinni af ástæðum sem síðar verður vikið að. Á þessum ferðum er leiðbeint og aðstæður skoðaðar, en auk þess sér maður aðstæður á hverjum stað.Það hefur verið nær árvisst að ég kem að málum þar sem árekstrar verða á milli verklegra framkvæmda og æðarræktar. Á liðnu ári var óvenjulítið um slíkt.
Vargur hvers konar, sem herjar á æðarvarp, er æðarbændum ofarlega í huga. Auk annarra staðbundinna vandamála. Vegna minni grásleppuveiða og takmarkana á dögum til veiða, þá ber nú minna á árekstrum á milli grásleppuveiðimanna og æðarbænda. Þó kom ég að málum með Æðarræktardeild Vesturlands og ÆÍ þar sem þess var óskað að grásleppuveiði við innanverðan Faxaflóa hæfist ekki fyrr en eftir 1. maí. Við því var ekki orði að sinni, en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið beindi þess í stað tilmælum til veiðmanna á svæðinu að sækja ekki á grunnmið fyrr en fugl væri sestur upp. Mun það hafa gengið allvel eftir.
Með aukinni útivist og umferð um land þá fjölgar þeim sem leggja leið sína á staði þar sem fuglalíf er fjölskrúðugt, þar á meðal æðarvarp. Það hefur verð árviss viðburður til margra ára að ég kem að málum þar sem fjallað er um sambýli æðarræktar og ferðaþjónustu. Þessi mál eru vandmeðfarin, en við afmarkaðar aðstæður og ef ferðafólk er af kunnáttu leitt um varpland æðarfugls, þá hefur víða tekist vel til. Slíkt kemur þó ekki til greina fyrr en líða fer á varp og þá undir strangri leiðsögn Þótt umferð ókunnugra í nágrenni æðarvarps geti verið varasöm þá skiptir öllu hvernig að málum er staðið. Takist vel til fær æðarræktin jákvæða og góða kynningu með þessu móti.Vargur
Að mati flestra sem til þekkja þá hefur tófu fjölgað mjög á liðnum árum, enda er milt tíðarfar tófunni hagstætt. Vandamál sem þessu fylgja hafa vaxið og kostað bændur aukna vinnu við vöktun og eftirlit. Tófu verður nú í vaxandi mæli vart á nýjum slóðum og hún er víða komin með greni niður á láglendi og í nágrenni æðarvarpa. Á hverju ári berast fréttir af dýrbít og að lömb skila sér ekki af fjalli.
Svipaða sögu er að segja um villiminkinn, þar eiga æðarbændur í sífelldri varnarbaráttu.
Fjölgun tófu og villiminks veldur æðarbændum og mörgum öðrum verulegum áhyggjum, enda hafa dýr þessi sótt með auknum þunga á æðarfugl jafnt sem aðra fugla. Bændur hafa lengi óskað eftir auknum veiðum og bættu veiðiskipulagi. Sveitarfélögin eru afar misjafnlega í stakk búin til þess að sinna lögboðnum skyldum og sum þeirra ráða illa eða ekki við vandann. Afar brýnt er að samhæfa og fylgja betur eftir samræmdum aðgerðum allra sveitarfélaga. Minkur og tófa geta stórskaðað og jafnvel gjöreytt fuglalífi á stórum svæðum eins og kunnugt er.
Ekki leikur vafi á að sk. “minkasía” Reynis Bergsveinssonar er stórgóð nýjung í baráttunni við villiminkinn, en síurnar eru í notkun víða um land og reynast mjög vel.
Árlega berast einhverjar fréttir af tjóni af völdum friðara fugla og hefur hið sk. eftirlitsflug með varpi arna valdið árekstrum og óánægju. Minnt skal á að enn eru í fullu gildi fyrri reglur um lágflug yfir æðarvarp, ef bændur merkja varpsvæðið með hvítum þríhyrning með rauðu “P” í miðjunni.Átaksverkefni gegn villimink
Svæðisbundið átaksverkefni gegn villimink var stundað á árinu samkvæmt áætlun. Það er skoðun þeirra sem til þekkja að vel hafi tekist til í Eyjafirði, en ekki eins vel á Snæfellsnesi. Vonandi verður ráðin bót á því á þessu ári.
Friðlýsing æðarvarps
Friðlýsing æðarvarps er mörgum mjög mikilvæg. Friðlýsing samkvæmt núgildandi lögum tók fyrst gildi árið 1995. Minnt skal á að hver friðlýsing gildir aðeins í 10 ár og því þurfa margir að fara að huga að endurnýjun.Deildarfundir
Ég hef mætti á aðalfund tveim deildum ÆÍ á liðnum vetri og að fenginni reynslu þá tel ég þær afar mikilvægar, sérstaklega til þess að fylgja hagsmunamálum æðarbænda heima í héraði eftir. Ég hvet þær til þess að starfa sem mest og best.Erlendir gestir
Norskir æðarbændur og fulltrúar þeirra sýna íslenskri æðarrækt verulegan áhuga. Einn slíkur kom í heimsón á liðnu vori. Þeir hafa jafnframt óskað eftir samstarfi við Íslendinga um verkefni til eflingar æðarrækt. Nágrannaþjóðir okkar líta til Íslands sem sérstakrar fyrirmyndar á þessu sviði.
Auk þess er alltaf talsvert af erlendum fyrirspurnum um æðarrækt hér á landi.Fjölbreyttar leiðbeiningar
Auk æðarbænda þá leita fjölmargir aðrir eftir upplýsingum um æðarrækt.
Ég hef kennt æðarrækt og önnur hlunnindi við Leiðsöguskólann, ásamt því að kynna æðarrækt og önnur hlunnindi á fræðslufundum og víðar eftir því sem óskir berast.Æðarvarpið á Rifi
Á Rifi á Snæfellsnesi er allnokkurt varp sem byggt hefur verið upp á sl. áratugum. Þar hafa verið stundaðar umfangsmiklar merkingar, ásamt því að fylgst er með framgangi varpsins. Sagan á bak við varpið er afar merkileg og í raun einstæð. Bæði vegna þess að það er algjörlega tilkomið vegna aðgerða mannsins og ekki síður vegna þess hversu umfangsmiklar merkingar hafa verið stundaðar þar til fjölda ára. Ég hef fylgst með þróun varpsins og á síðasta vori skrifaði ég grein í Bændablaðið um æðarvarpið á Rifi og þróun þess.Að lokum
Ég hef átt þess kost að kynnast staðháttum um land allt, auk persónulegra kynna, en slíkt kemur sér ávallt vel í leiðbeiningastarfi. Sérstaklega þegar fjalla þarf málefni fjærri vettvangi s.s. við heimsóknir á skrifstofu, fundum eða þegar menn nýta sér nútíma fjarskiptatækni sem gert er í vaxandi mæli. Ferðir til æðarbænda voru með allra minnsta móti sl. vor.Ég hef átt ánægjuleg samskipti við stjórnir ÆÍ undanfarin 23 ár og unnið með félaginu að hinum fjölbreytilegustu hagsmunamálum þess. Ég hef setið alla stjórnarfundi ÆÍ þessi ár og ritað þar fundargerðir. Ég leyfi mér að fullyrða að starf ÆÍ hefur allan þennan tíma verið farsælt og gott þar sem hagur greinarinnar og æðarbænda er ávallt í fyrirrúmi.
Að lokum vil ég þakka stjórn ÆÍ fyrir mjög gott samstarf. Sérstaklega vil ég þó færa formanninum – Jónasi Helgasyni – þakkir fyrir ánægjuleg og góð samskipti.
Stjórn ÆÍ og æðarbændum um land allt vil ég þakka góða samvinnu á liðnu starfsári.
Eftirmáli
Ágætu fundarmenn
Sú breyting varð á mínum högum í byrjun ágúst að ég lét af störfum sem hlunninda- og jarðræktarráðunautur hjá BÍ eftir 23ja ára starf. Ég verð þó áfram starfsmaður Bændasamtakanna en með breytta starfslýsingu. Ég er framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga í dálítið hærra starfshlutfalli heldur en áður og eins tek ég við verkefnisstjórn hjá samtökunum “Beint frá býli.” Auk þess mun ég sinna tilfallandi vatnsveitumælingum.
Ég mun því ljúka mínum störfum á þessum vettvangi í lok þessa fundar.
Ég vil sérstaklega taka fram að mér hefur líkað afar vel allt samstarf við ykkur og ykkar félag og að ofangreindar breytingar eru alls ekki tengdar neinni óánægju með það samstarf. Heldur eru þessar breytingar bundnar við aðstæður á vinnustað sem ekki verða tíundaðar nánar.
Á þessari stundu veit ég ekki hvernig fer með starf hlunnindaráðunautar, en BÍ mun væntanlega ráðstafa því með einhverjum hætti?Ágæta æðarræktarfólk.
Bestu þakkir fyrir áralangt og farsælt samstarf.”Jónas Helgason, formaður sagði að á þessum tímamótum væru viss þáttaskil þar sem við sæjum að baki Árna Snæbjörnssyni hlunnindaráðunaut og mikilli hjálparhellu ÆÍ til síðustu 23 ára. Fyrir hönd stjórnar ÆÍ og allra félaga færði formaður Árna bestu þakkir fyrir samstarfið í tæpan aldarfjórðung og óskaði honum og fjölskyldu hans alls hins besta. Formaður afhenti Árna armbandsúr sem þakklætisvott.
- Styrkur ÆÍ til deilda
- Reikningar félagsins
Jónas Helgason, formaður kynnti reikninga félagsins, en þeir fylgdu fundargögnum. Rekstrarreikningur ÆÍ árið 2008, þ.e. frá 3. október 2007 til 1. október 2008 er 1.093.923 kr. Niðurstöðutölur á efnahagsreikningi voru kr. 5.338.853. Endurskoðendur, Pétur Guðmundsson og Davíð Gíslason, höfðu samþykkt reikningana. Stjórnin leggur til óbreytt árgjald 2000.Umræður um skýrslur og reikninga.
Óskað var eftir nánari upplýsingum um það hvaða kerfi væri notað við ákvörðun um greiðslu til deilda. Formaður gerði grein fyrir því að það væri í samræmi við tillögu frá aðalfundi árið 2006 og lýsti framkvæmdinni. Fyrri hluta árs var formönnum deilda sent bréf og þeim gefinn kostur á að sækja um styrk. Jafnframt var félagsmönnum á SV – landi, þar sem ekki er starfandi deild á því svæði, sent bréf og þeim gefinn kostur á að sækja um styrk. Jafnræðis var því gætt. Jónas gerði grein fyrir skiptingu á milli deilda, samtals 980.000 kr. Stjórnin muni leggja fram á tillögu síðar á fundinum varðandi ráðstöfun fjár til deilda á næsta ári. Gunnar Grettisson, Ásbúð í Austur-Húnavatnssýslu leitaði skýringa á því að samdráttur hefði verið um 17% í varpinu í Ásbúð. Árni Snæbjörnsson sagði að ekki væri alltaf hægt að skýra samdrátt, gæti t.d. verið vegna vargs eða ætisskorts. Heildardúntekja hefði verið góð. Laufey Oddsdóttir, Hrappsey óskaði eftir upplýsingum um deildir. Árni gerði grein fyrir að Hrappsey tilheyrði Æðarvé og að allar deildir væru skráðar hjá ÆÍ. Páll Ólafsson gerði grein fyrir vandamáli í Hvalfirðinum að því er varðar sanddælingu en engin aðstoð hefði borist. Þetta hefði áhrif á varplönd og æti fuglsins. Árni gerði grein fyrir því að hann vissi af þessu máli og hefði fylgst með því í fjölmiðlum en ekki hefði verið leitað liðsinnis ÆÍ eða Bændasamtakanna. Mál sem þyrfti að athuga. Það stóð til að fara í annarskonar framkvæmdir í Hvalfirði fyrir nokkru og þá hafði Borgarfjarðardeildin og Landssamband veiðifélaga samband og það var beitt sér í því máli. Framkvæmdir voru stöðvaðar. Efnistaka sé vandamál og reyndar sé búið að herða þessar reglur og fer í frekara mat í framtíðinni. Formaður gerði grein fyrir því að Reyni Bergsveinssyni hefði verið veittur styrkur beint frá ÆÍ og óbeint frá deildum.
Fundarstjóri bar upp reikninga og voru þeir samþykktir samhljóða.
- Ávörp gesta
Þórunn Sveinbjarnadóttir, umhverfisráðherra.Ráðherra gerði grein fyrir minkaveiðiátakinu en árangur hefði verið ágætur á svæðunum. Alls veiðst um 400 minkar. Á milli 2007-8 hefði veiðin dregist verulega saman. Í september í ár höfðu veiðst 100. Minki hefði fækkað á þessum svæðum. Rannsóknir sýni að fækkunin sé af náttúrulegum orsökum á Snæfellsnesi. Samkvæmt vísindamönnum þurfi að auka veiðiálag þegar minknum fer að fækka. Eitt ár væri eftir af átakinu og þá verði árangur metinn heildstætt og hvort þessi leið sé góð eða nýtist til að fækka eða útrýma minknum. Minkaveiðiátakið skipti miklu máli fyrir nýtingu æðardúns í framtíðinni. Æðardúnn væri mikilvæg afurð sem hægt er að nýta á sjálfbæran hátt. Umhverfisráðherra sagði að umhverfisráðuneytið líti hrafn – örn – ref öðrum augum en minkinn. Við sjálfbæra nýtingu æðarfugls þurfi að taka tillit til annarra tegunda einkum tegunda sem eru í hættu eins og arnarstofninn en útbreiðsla hans sé takmörkuð. Áríðandi að um samvinnu sé að ræða milli þeirra sem að vinna að friðun og framgangi arnarstofnsins og þeirra sem nýta auðlindirnar eins og æðardúninn. Ekki sé sjálfgefið að örninn lúti þar í lægra haldi. Á grundvelli átaksins verði metið hvernig framhaldið verði. Ráðherra sagðist ætla að athuga sérstaklega stjórnunarkostnaðinn. Ráðherra sagðist láta það liggja á milli hluta hvort hún hafi óbilandi trú á verkefninu. Ráðherra óskaði fundarmönnum heilla í áframhaldandi störfum og þakkaði fyrir boðið.
Ráðherra svaraði spurningum og athugasemdum fundarmanna, m.a. varðandi val á svæðum fyrir minkaátakið, hvort eitthvað væri vitað um mun á árangri eftir því hvort veitt sé með síum eða hundum, lágflug yfir æðarvarpi og stjórnunarkostnað við verkefnið. Ráðherra mótmælti því að kalla örninn varg. Ráðherra sagði m.a. að það væri ekki síst bændum við Breiðafjörð að þakka að erninum hefði fjölgað. Friðun og verndun væri aldrei neitt annað en samvinna þeirra sem nýti og búi á landinu og okkar hinna sem eiga í raun þetta land saman. Vísindamenn segi að um náttúrulega fækkun sé að ræða á Snæfellsnesi og hún treysti því. Ráðherra sagðist ekki geta ekki svarað spurningu varðandi samanburð á veiðum með síum og hundum. Hvort valið á svæðum hefði verið heppilegt sagðist ráðherra ekki geta dæmt um – viti það ekki – verkefnið hefði verið ákveðið af öðrum. Verkefnið hefði kostað mög mikla peninga á mælikvarða umhverfisráðuneytisins. Ráðherra sagðist ekki bera þetta verkefni sérstaklega fyrir brjósti þó það væri ekki nema vegna peninganna sem færu í það – væri hægt að nýta þá í eitthvað annað. Við hefðum sagst ætla að gera þetta – um það var samið – auðvitað ljúki maður því sem aðrir hófu. Mat lagt á það í lokin hvort þetta sé gagnlegt og hvort þetta hafi verið peninganna virði. Ráðherra sagðist ekki hafa sjálf fjárfest pólitískt í þessu átaki. Hún hefði hváð þegar henni var sagt frá því hvaða peningar færu í þetta. Hvað varðar eftirlitið hefði hún reynt að tukta sína menn til á Náttúrufræðistofnun. Eiga að láta vita af sér áður en farið er í lágflug.
Jónas Helgason tók til máls og taldi að minkaveiðiátakið væri vel þess virði. Það hefði líka verið eytt háum tölum í rannsóknir á refum til að vita hvort hægt væri að fjölga þeim með því að veiða þá ekki. Jónas benti á vandamálið á Hornströndum þar sem refurinn flæði yfir. Hann beindi þeirri spurningu til ráðherra hvort hún hafi hugleitt það að taka á því vandamáli sem stafar af þessu uppeldi á vargdýrum. Jónas tók það fram að hann væri ekki að setja tófuna undir sama hatt og minkinn.
Umhverfisráðherra benti á að tófan fengi meira athafnarými við fólksfækkun. Hún skilji að menn hafi áhyggjur af útbreiðslu tófunnar. Það þurfi kannski að fara að grípa til einhverra ráða með það – þurfi að vera að mjög vel íhuguðu máli.
Sigtryggur skoraði á ráðherra að finna leið til að halda verkefninu áfram. Fyrirspurn hefði komið frá dýragarðinum í Peking þar sem óskað var eftir að fá lunda frá Íslandi – 300 unga eða 50 egg. Þessu hefðu verið synjað. Ætlar að sækja um leyfi aftur.Kristinn Hugason f.h. landbúnaðarráðherra
Bar kveðjur frá ráðherra. Að fortíð skal hyggja þegar framtíð skal byggja. Hyggja að reynslunni þegar byggt er upp til framtíðar. Hugtakið sjálfbær nýting (nýtum landið en níðum ei) – hlunnindabúskapur eitt af dæmunum um slíka nýtingu á móður náttúru. Óskaði fundinum góðs gengis og æðarbændum í störfum sínum.Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna
Bar kveðju frá formanni Bændasamtakanna. Eiríkur var að mæta í fyrsta skipti á aðalfund ÆÍ frá því hann tók við framkvæmdastjórastarfinu. Eiríkur gerði stutta grein fyrir því hvað Bændasamtökin væru að fást við, þ.e. matvælafrumvarpið, aðfangaverð sem hafi verið að hækka mikið, athugasemdir frá Samkeppniseftirlitinu varðandi störf Búnaðarþings og efnahagsvandann. Talað hefði verið við landbúnaðarráðherra og nýju bankanna varðandi rekstrarvanda bænda. Jóhanna Lind sem sjái um það hjá Bændasamtökunum. Vægi hlunninda hljóti að aukast á þessum tímum, m.a. vegna gjaldeyristekna. Árni hefði sinnt starfi hlunnindaráðunautar mjög vel. Að því er varðar ráðunaut í stað Árna sagði Eiríkur að verið væri að vinna í málunum. Að lokum óskaði Eirkur fundinum góðs gengis. - Fréttir og tillögur frá félagsdeildum
- Æðarræktarfélag Vesturlands
Enginn - Æðarræktarfélag Snæfellinga
Ásgeir Gunnar Jónsson
Ásgeir gerði grein fyrir deildarfundi í nóvember en þar var Jónas formaður gestur. Dúntekja var góð. Áhyggjur voru af sölutregðu og sérstaklega undirboðum. Þá gerði Ásgeir grein fyrir ráðstöfun styrks til deildarinnar en keyptar voru 6 minkasíur, samtals 150.000 kr. Þær voru lagðar út á austurmörkum svæðisins og á Fellsströnd og Skarðsströnd. Áhyggjur voru af því að ráðnir voru veiðimenn á Snæfellsnesi sem voru í annari vinnu og ekki kunnáttumenn. Þeir sem stjórni verkefninu kunni ekki til verka. Ásgeir sagði að sér hefði verið falið að færa Jónasi og Árna þakkir fyrir störf í þágu félagsins og skarð Árna væri vandfyllt. - Æðarvé
Enginn - Dúnland
Enginn - Æðarverndarfélag Strandasýslu
Enginn - Æðarræktarfélag Vestur-Húnavatnssýslu
Helgi Pálsson
Varp byrjaði með fyrra móti miðað við fyrri vor. Kollan var orpin um miðjan maí og lauk varpi í júní. Áður voru síðustu hreiður fundin um Verslunarmannahelgi. Eggjatala var á bilinu 2-3 og er að lagast, 5 egg í hreiðri var algengast áður fyrr. Útungun gekk vel og dúntekja og gæði með besta móti – þurrt veður og sólfar. Erfitt fyrir ungviðið vegna sjógangs. Fuglarnir ekki að ná átunni í sjónum. Minkur er ekki lengur vandamál í héraðinu – dýrategundin er löngu komin á válista og er í mikilli útrýmingarhættu. Sameinuð sveitarfélög hafa fengið fleiri í veiðarnar og ströndin farin á hverju einasta vori og upp með helstu laxveiðiám. Veiðitölurnar lágar. Mikil breyting á 6-8 árum. Refnum er ennþá að fjölga. Ágangur hrafns er vandamál – hrafnauppeldi á urðunarstað sláturúrgangs. Það er fjölgun á svartbak. Þakkaði fyrir styrkinn sem fór í kaup á skotfærum og kom sér vel. Félagar í deildinni eru 13. Í lokin þakkaði hann Árna störf í þágu félagsmanna. - Æðarverndarfélag N-Vesturlands
Anna Kristín Gunnarsdóttir
Skilaði þakklæti fyrir styrkinn – farið var út í Drangey og út á Skaga til að fækka svartbaki. Settar niður 7 minkasíur í Skagafirði. Áhyggjur vegna fjölgun sílamáfs. Þakklæti og góðar kveðjur til Árna. Kom á framfæri ábendingu til stjórnarinnar – varp gengur upp og niður – sumum tilvikum virðist næsta augljóst að það sé rekja minnkun í varpi til fæðuskorts. Einnig með aðrar tegundir. Fyrir 2 árum sem sjófugl hrundi niður af sulti – á sama tíma var varp í innanverðum Skagafirði mjög lélegt. Í varpi Gunnars settist fuglinn ekki upp fyrr en 3 vikum síðar en vanalega og egg í hreiðrum færri en vanalega. Lómurinn skilaði sér ekki í ósinn en það er órækt merki um átu þegar hann fer að sveima yfir. Aðstoða náttúruna með því að búa til kræklingarækt til að fæða fuglinn. Ekki með vísindaleg rök en beinir því til stjórnarinnar að kanna grundvöll fyrir samstarfi æðarbænda og vísindamanna að koma á kræklingarækt í beinum tengslum við æðarrækt og tilraunaverkefni sett upp þar sem það yrði skoðað hvort það hefði áhrif á viðkomu æðarfuglsins. Tilvalið rannsóknarverkefni fyrir meistara- eða doktorsnema. Þetta þurfi ekki að vera dýrt. - Æðarræktarfélag Eyjafjarðar og Skjálfanda
Ásta Flosadóttir
Æðarrækt gengið vel hvað veðurfar snertir – úrkomur spilltu ekki varpi eins og þær hafa gert undanfarin ár. Fjölgaði ekki í vörpunum en það mun taka nokkur ár að ná sömu stærð og var fyrir 2006 þegar öll vörp fóru á kaf í snjó. Mikið talað um 15 – 25 % fækkun frá því sem var á árunum 1995-2004. Hrafnaflokkar héldu áfram að herja á æðarfuglinn og ollu nokkru tjóni þó ekki hafi það verið eins og 2007 þegar illa var hægt að ráða við fjöldann. Óformlegir samningar hafi verið gerðir við skotveiðimenn á Húsavík og hefur haft áhrif til fækkunar. Minkur var í minna lagi og er það að þakka gríðar góðri vinnu veiðimanna sem þó hafa lítil laun. Þetta er þriðja árið í röð sem ekki kemur minkur í Laxamýrarvarpið. Refurinn stórtækur. Vetrarveiði á ref er alltof lítil og segja refaveiðimenn að launin séu of lág og halda því að sér höndum. Meira af ref í Grýtubakkahreppi og 52 felldir það sem af er ári. Búið er að loka sláturgryfjum á Húsavík eftir 15 ára deilur – mikill sigur. Í staðinn hefur Norðlenska tekið upp á því að dreifa gori á haugsugu á mela til uppgræðslu – þangað safnast hrafnar. Margir eiga óseldan dún. Minkaveiðiátakið skilar árangri að því er veiðar varðar. Ekkert samráð og getur því ekki upplýst fundarmenn um stöðu átaksins. Þakkað fyrir styrk til deildarinnar og samstarf. - Æðarræktarfélag N-Austurlands
Enginn - Æðarræktarfélag Austurlands
Enginn - Æðarverndarfélag A-Skaftafellssýslu
Enginn
- Æðarræktarfélag Vesturlands
- Staða og horfur í sölu- og markaðsmálum
Elías Gíslason gerði grein fyrir stöðu og horfum í sölu- og markaðsmálum
Heildarútflutningur alls árið 2007 var hann 1.384, 2006: 1820, 2005: 3.225, 2004: 2.160, 2003: 2.219 og 2002 var hann 2.966.
Sala til Japans hefur snarminnkað.
Þýskaland er komið með 50% af markaðshlutdeildinni en Japan 35%.
Talaði um horfur á mörkuðum.
Niðurstaðan er sú að eftirspurn er fyrir hendi og virðist vera að aukast (Japanir að koma inn). Hljóta að vera birgðir í landinu. - Kosningar
Kjörtími Jónasar Helgasonar formanns var liðinn, gaf hann kost á sér til endurkjörs og var hann sjálfkjörinn. Þá var Óðinn Sigþórsson, Einarsnesi í Borgarfirði, kosinn í varastjórn í stað Eiríks Snæbjörnssonar sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Davíð Gíslason var sjálfkjörinn sem skoðunarmaður reikninga. - Tillögur
- Styrkur ÆÍ til deilda
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands, haldinn í Reykjavík 8. nóvember 2008, leggur til að félagið veiti æðarræktardeildunum fjárstyrk með líkum hætti og undanfarin ár. Einng er stjórninni heimilt að veita styrk til einstakra æðarbænda á þeim svæðum þar sem ekki er starfandi æðarræktardeild.
Stjórn ÆÍ er falið að ganga frá samningum við formenn deildanna um framkvæmd tillögunnar.
Tillagan var samþykkt samhljóða. - Fræðsluefni um veiðar á tófu og villimink.
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands, haldinn í Reykjavík 8. nóvember 2008, leggur til að ÆÍ beiti sér fyrir gerð fræðsluefnis um veiðar á tófu og villimink. Fræðsluefnið verði gert í samvinnu við Bjarmaland, Félag atvinnumanna við refa- og minkaveiðar og aðra sem leggja vilja verkefninu lið. Lagt er til að ÆÍ verji allt að 1 milljón króna í verkefnið ef minnst sama fralag kemur frá öðrum.
Greinargerð:
Ljóst er að tófu hefur fjölgað mjög á síðari árum og hún hefur numið land á áður óþekktum svæðum. Hún veldur árlega miklu tjóni í varplöndum æðarfugls sem og annarra fugla, auk þess sem árlega finnast merki þess að hún leggist á sauðfé.
Villiminkur er aðfluttur vágestur í íslenskri náttúru sem veldur gríðarlegu tjóni í lífríkinu, bæði á öllu fuglalífi og einnig á fiski í ám og vötnum. Hónum berm að útrýma úr íslenskri náttúru.
Mikil reynsla og þekking er til staðar hjá fjölda manna sem unnið hafa við að halda vargdýrum þessum í skefjum. Því er mikilvægt að koma þeirri þekkingu í það form að hún nýtist sem flestum og eins þarf að bjarga reynslu og kunnáttu eldri kynslóðar veiðimanna til þeirra sem við kunna að taka.
Bjarmaland, Félag atvinnumanna við refa- og minkaveiðar, hefur unnið gott starf á sviði fræðslumála. Því er lagt til að ÆÍ og Bjarmaland sameinist um ofangreint verkefni.
Tillagan var samþykkt samhljóða. - Hlunnindaráðunautur
Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands, haldinn í Bændahöllinni þann 8. nóvember 2008, beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands að nú þegar verði auglýst starf hlunnindaráðunautar, sem ómannað hefur verið frá byrjun ágúst 2008.
Það er eindregin skoðun aðalfundar ÆÍ að ráðgjöf í hlunnindum sé best fyrirkomið á einni hendi.
Tillagan var samþykkt samhljóða.Tillaga kom frá Gunnari Þ. Grettissyni sem hljóðaði svo:
„Fundur Æðarræktarfélags Íslands ákveður að veita Reyni Bergsveinssyni 800.000 kr. Í styrk vegna minkasíuverkefnisins.“
Umræður voru um tillöguna. Jónas Helgason lagði fram dagskrártillögu um að tillögunni yrði vísað til stjórnar til frekari athugunar.
Tillaga Önnu Kristínar Gunnarsdóttur var samþykkt samhljóða en hún hljóðar svo:„Stjórn Æ.Í. kanni grundvöll fyrir samstarfi rannsóknastofnunar, t.d. náttúrufræðasviðs HÍ, um gildi kræklingaræktar fyrir æðarrækt.“Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund og formaður sleit fundi.
Guðrún Gauksdóttir, fundarritari
- Styrkur ÆÍ til deilda