Fundargerð vinnufundar stjórnar ÆÍ, 4. október 2019

Fundargerð vinnufundar, 4. október 2019

Mættir: Guðrún Gauksdóttir, Erla Friðriksdóttir, Margrét Rögnvaldsdóttir, Páll Þórhallsson og Sigríður Magnúsdóttir.

 1. Skipting starfa á milli stjórnarmanna. Óbreytt nema það að Páll tók við gjaldkerastarfinu af Sæmundi Sæmundssyni sem gekk úr stjórn. Guðrún er áfram formaður, Erla varaformaður, Sigríður ritari og Margrét meðstjórnandi. Í varastjórn eru þeir Magnús Helgi Jónasson og Pálmi Benediktsson sem kom nýr inn. Ákveðið að senda tilkynningu til félagaskrár RSK um breytingu á stjórninni.
 2. Eftirfylgni með tillögum og tilmælum aðalfundar.
  • Öflun sjávargróðurs.
   Mikið er af bæði þangi, mest klóþang sem er í fjörunni og þara sem  vex á steinum eða klöpp neðan fjörunnar frá neðri mörkum fjörunnar allt niður á 30 m dýpi t.d. við Breiðafjörðinn og þar sem fram fer þangsláttur til vinnslu. Núverandi lög og reglur um þangslátt eru ónákvæmar og var ákveðið á fundinum að formaður og varaformaður óskuðu eftir fundi við Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra til að ræða þessi mál.
  • Áhrif fiskeldis.
   Ákveðið að senda fyrirspurnir til Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar og í Umhverfisráðuneytið um það hvernig staðið sé að rannsóknum á búsvæði æðarfugls við sjókvíar á Íslandi.
  • Skjaldamerki.
   Ákveðið að senda fyrirspurn til forsætisráðuneytis um það hvort félagið geti fengið að setja skjaldarmerkið inn á nýju friðlýsinagarskiltin okkar.
  • Fuglakólera.
   Vegna fuglakóleru sem upp kom í æðarfugli á Hrauni á Skaga tvö sl. sumur, var ákveðið að hafa samband við Matvælastofnun um það að koma upp virkum ferlum um viðbrögð við fári eins og þessu (Guðrún og Sigríður). Hugsanlega er hægt að nýta ferla sem til eru nú þegar vegna annarra sjúkdóma eins og t.d. í kjúklingum. Á vef Matvælastofnunar segir m.a. um dýrasjúkdóma:
Með auknum ferðum fólks milli landa, bættum og auknum samgöngum og sífellt vaxandi flutningi dýra og afurða milli landa, geta smitsjúkdómar komið upp nánast hvar sem er þrátt fyrir margvíslegar varúðarráðstafanir. Alvarlegir smitsjúkdómar valda dýrunum oft miklum þjáningum og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir velferð þeirra. Þeir geta jafnframt valdið miklu fjárhagslegu tjóni fyrir eigendur dýranna. Brjótist út faraldur getur það haft gífurleg neikvæð áhrif á efnahag þjóðarinnar. Markviss, skipulögð og skjót viðbrögð við grun um alvarlega smitsjúkdóma geta haft afgerandi áhrif á að mönnum takist að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma og tjón af þeirra völdum. Matvælastofnun hefur gert áætlanir um viðbrögð við alvarlegum smitsjúkdómum og hugsanlega skaðlegu fóðri. Í þeim er að finna skilgreiningu á boðleiðum, gátlista fyrir þá sem stjórna aðgerðum, ýmis eyðublöð, leiðbeiningar og grunnupplýsingar um sjúkdóma. http://www.mast.is/matvaelastofnun/vidbragdsaaetlanir/dyrasjukdomar/

Við munum líka hafa samband við Bændasamtökin um að fá einhvern þar til liðs við okkur í þessu máli. Það virðist eins og æðarfuglinn lendi þarna á milli vita þar sem æðarrækt kallast ekki „hefðbundin búgrein“. Þó æðarfuglinn hafi fyrst og fremst smitast á Hrauni, þá drápust þarna líka veiðibjöllur og máfar sem fóru í hræin. Þannig að fleiri fuglategundir gætu verið í hættu. Haförninn var t.d. nefndur ef svona fuglakólera stingi sér niður við Breiðafjörðinn þar sem mikið æðarvarp er til staðar.

 1. Staða verkefna.
  • Tilraun II – Æðarrækt.
   Verkefnið gengur vel og nú er hafið samstarf við listamenn og æðarbændur í Noregi og Kanada um kynningu á æðardúni á Íslandi og víðar. Verið er að vinna í því að afla styrkja til að halda verkefninu áfram. Nú er verið að skipuleggja vísindaferð til Stykkishólms með listamennina til að kynna þeim vinnslu á æðardúni í tengslum við verkefnið. Einnig er á dagskrá að hafa vinnufund/workshop fyrir listamennina, bæði þá innlendu og þá erlendu, í júní á næsta ári. Íslandsstofa styður við þetta verkefni, en hlutverk Íslandsstofu er að sinna markaðs- og kynningarstarfi útflutningsgreina og styðja þannig við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar https://www.islandsstofa.is/
   Ákveðið að hafa sérstakan reikning hjá ÆÍ tengdan þessu verkefni Tilraun II – Æðarrækt.
  • Kortagrunnurinn
   Vinna við kortagrunninn sem á að sýna allar varpjarðir æðarfugls á landinu er á lokametrunum.
  • Verndað afurðaheiti.
   Þetta verkefni er í vinnslu og fljótlega fer inn erindi til Matvælastofnunar vegna þess. Á heimasíðu Matvælastofnunar má m.a. lesa um vernd afurðaheita:
Í lok desember 2014 samþykkti Alþingi lög um vernd afurðaheita þar sem heimilað er að vísa sérstaklega til uppruna þeirra afurða sem slíkrar verndar njóta, þess svæðið sem þau koma frá eða hefðbundinnar sérstöðu þeirra. Markmið laganna er að veita þeim afurðum sem uppfylla þær kröfur og þau skilyrði sem sett eru um slíkar vörur nauðsynlega lagalega vernd auk þess að stuðla að aukinni neytendavernd og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. http://www.mast.is/matvaeli/almennar-upplysingar/vernd-afurdaheita/
  • Deildastörf.
   Ákveðið að Margrét verði í sambandi við deildir félagsins um allt land til að hvetja formenn til að halda aðalfund hver í sinni deild.
  • Vargnefnd.
   Eins og fram kom í síðustu fundargerð er skipulag vargeyðingar misjafnt eftir svæðum á landinu. Sums staðar mega t.d. eingöngu grenjaskyttur koma að því að vinna varg. Best væri ef það kæmi eitthvert heildarskipulag frá ráðuneyti um það hvernig sveitarfélög skuli standa að þessum málum. Það er verkefni vargnefndar að vinna að þessu þarfa máli.
 1. Sölu- og markaðsmál.
  Það er lítið að gerast í þessum málaflokki þó eitthvað hafi sem betur fer selst af æðardúni þessa árs.  Frá því í janúar þar til í lok ágúst hafa t.d. tæp 900 kg af æðardúni verið flutt út.
 2. Verkefni framundan.
  • Framundan er vinna að gerð verkferla til að halda utan um félagatalið og innheimtu á félagsgjöldum. Skoða þarf hvenær eigi að senda út rukkun fyrir félagsgjöldum og hvenær og hvernig eigi svo að ítreka hafi þau ekki verið greidd.
  • Allir eru hvattir til þess að hafa augun opin fyrir hugsanlegum styrkjum fyrir félagið til að áfram verði hægt að sinna ýmsum verkefnum eins og vinnslu við kortagrunn og fleira.
  • Ákveðið að Guðrún sjái um að svara tölvupóstum sem berast til félagsins í gegnum heimasíðuna.
 1. Önnur mál.
  • Unnið er að undirbúningi að námskeiðahaldi vorið 2020, annars vegar um almenna dúnhirðu og æðarrækt og hins vegar námskeið fyrir þá sem vilja gerast viðurkenndir dúnmatsmenn. Tengiliður er Guðrún Lárusdóttir, endurmenntunarstjóri á LBHÍ.
  • Breyta þarf umfangi vottorðs fyrir dúnmat sem Port hönnun hefur hannað. Það er óþægilega stórt um sig. Erla og Guðrún stefna að því að fara í Landbúnaðarráðuneytið á fund til að fá þessu breytt.
  • Guðrún mun hafa samband við Sigurð Guðjónsson, formann Æðarræktarfélags Skagafjarðar, til að finna dagsetningu fyrir næsta aðalfund ÆÍ en hann verður á Sauðárkróki.
  • Stefnt er að næsta vinnufundi síðast í febrúar 2020. Nánar tilkynnt síðar.

Fundi slitið.

Fundargerð skrifaði Sigríður Magnúsdottir, ritari.