Fundargerð vinnufundar stjórnar ÆÍ, 30. mars 2019

Fundargerð vinnufundar, 30. mars 2019

Mættir: Guðrún, Erla, Sæmundur, Margrét, Páll fh, Magnús eh, og Sigríður sem skrifar fundargerð

Upplýsingar um stöðu mála:

 1. Friðlýsingarskiltin – ákveðið að setja svokallaðan Qr kóða á skiltin. Qr kóðier nokkurs konar strikamerki sem hægt er að geyma gögn á bak við. Með því að nota app úr síma eða öðru snjalltæki er hægt að skanna strikamerkið og skoða efnið sem tengt er kóðanum. Upplýsingar verða á ýmsum tungumálum fyrir utan íslensku (t.d. ensku, þýsku, frönsku og jafnvel japönsku) ásamt meiri upplýsingum um vörpin en eru á skiltunum. Ákveðið að nota upplýsingabæklinginn sem til er við þessa vinnu og flytja efni úr honum (Anna)
  Ath. Að fá þýðingu á bæklingnum á frönsku til að setja á netútgáfu af upplýsingabæklingi ÆÍ
  Kynning á skiltunum á ferðamannastöðum og hjá RML – (Guðrún fer í málið eftir helgi)
 2. Fjármálin – fjárhagsstaðan er fín og lítið hefur verið hreyft við reikningum. Þeir fara fljótlega til endurskoðanda en fyrst ætlar Margrét að senda Sæmundi upplýsingar um kennitölur núverandi og nýrra félagsmanna í deildum ekki síst til þess að finna út hversu háar greiðslur/styrkir verða til deildanna (Margrét, Sæmundur).
 3. Félagaskrá og deildir – Margrét segir að erfitt geti verið að finna allar jarðir sem hafa æðarvörp og bjóða eigendum að ganga í félagið og í deildirnar á viðkomandi svæði. Hún vinnur með formönnum deilda við að fá staðfest vörp á þeirra svæðum og þannig virkja frumkvæði í deildunum sjálfum. Þetta mjakast áfram en er nokkuð tímafrekt. Í þessari vinnu er líka verið að endurvekja deildir og ný deild verður t.d. stofnuð á SV landi apríl nk., hugsanlega í Grindavík (Guðrún, Margrét). Áframhaldandi greiðslur ÆÍ vegna aksturs/starfs við endurlífgun deilda samþykktar.
 4. Sölumál – áfram er tregða á sölu á æðardún frá síðasta ári en um 2 tonn hafa verið seld. Frá síðustu áramótum hefur orðið breyting á tollflokkum fyrir útflutning á æðardún og eru þeir núna: 0505.1012 Æðardúnn hreinsaður en ekki þveginn; 0505.1014 Æðardúnn, hreinsaður og þveginn; og 0505.1015 Annar æðardúnn. https://vefskil.tollur.is/tollalinan/tav/
  Nauðsynlegt er að setja áberandi og aðgengilegan flipa á heimasíðu félagsins um söluaðila innanlands og utan fyrir æðardúninn (Anna).
 5. Vargnefndin – á aðalfundi var stungið upp á því að fá konu í vargnefndina. Það hefur nú tekist og heitir sú Kristjana Bergsdóttir frá Sigurðarstöðum á Sléttu.
  Páll lagði mikla áherslu á það að félagsmenn og aðrir gerðu sér vel grein fyrir því af hverju við erum að vinna á vargi við æðarvörpin. Sumum hefur fundist ástæðulaust að drepa t.d. mink og ref en það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu sem það er gert. Þetta þurfa allir að vera vel meðvitaðir um. (Páll kynnir á næsta félagsfundi?).
 6. Válisti – á síðasta aðalfundi hélt Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi erindi þar sem hann kom m.a. inn á það að æðarfuglinn væri kominn á válista í heiminum. Spurður út í stöðuna hér sagði Jón Einar að kannski mætti segja að heldur hallaði undan fæti hjá æðarfugli á Íslandi á heildina litið, en rannsóknir síðustu 30 ára hér sýndu vægar sveiflur innanlands sem í raun sýndu ekki fækkun að neinu ráði. Ákveðið á fundinum að kanna hvort birta megi glærur um válistann á heimasíðu félagsins (Erla  Kristinn Haukur Skarphéðinsson?).
 7. Verndun afurðaheitis – umsókn um verndað afurðaheiti verður tilbúin í apríl og send inn til Spurning hvort lógó Æðarræktarfélagsins ætti að verða vörumerki og skráð hjá Einkaleyfastofunni https://www.patent.is/ (Margrét).

Aðalfundur 2018

 1. Ályktanir, viðbrögð og umræður. Rannsóknir á fuglakóleru – á vef Náttúrustofu NV lands er umræða um fuglakóleru sem stakk sér niður á Hrauni á Skaga sl. sumar, en um 400 æðarkollur drápust í áhlaupinu. Ótrúleg mynd frá Hrauni á síðunni https://www.nnv.is/is/um-nnv/frettir/kortlagning-fugladauda-og-fuglakoleru-a-skaga Ekki er vitað af hverju þetta gerist.

Starfsemi ÆÍ

 1. Aðild og samstarf við BÍ – Það eru margir sem ekki eru vissir um það hvað það þýðir að vera í samstarfi við BÍ. Þetta þarf að útskýra betur fyrir hinum almenna félagsmanni svo auðveldara verði að mynda sér skoðun á því hvort fólk vill eða vill ekki vera bæði í ÆÍ og BÍ. Um er að ræða mismunandi aðildargjald og það þarf að kynna vel (Guðrún á næsta aðalfundi). Fyrir næsta aðalfund sem líka er 50 ára hátiðarfundur ÆÍ verða lög félagsins endurskoðuð og við það fáum við t.d. aðstoð BÍ.
 2. Náttúrustofa NV lands – Bjarni Jónsson, forstöðumaður (með aðsetur á Sauðárkróki), hitti okkur á Skype til að ræða hugsanlegt samstarf okkar og Náttúrustofu. Bjarni sagði að búið væri að ráða nýjan starfsmann, Einar Þorleifsson, fuglafræðing, með aðsetur á Selasetrinu á Hvammstanga. Þeir vilja gjarnan koma í samstarf við okkur í ÆÍ, sérstaklega núna í maí og júní. Bjarni stakk upp á hvers konar hagsmunagæslu og okkur datt þá í hug hagsmunir varðandi þangslátt við land æðarbænda og lagaleg eignaréttindi þeirra. Sömuleiðis áhrif sjókvíaeldis á búsvæði æðarfuglsins. Hugsanlegar rannsóknir geta falist í því að rannsaka áhrif kalkþörungavinnslu á æðarfuglinn og hvort kadmium finnist í kræklingi sem lifir í nágrenni við opnar sjókvíar þar sem æðarfuglinn étur kræklinginn.
 3. Námskeið – stefnt er að því að bjóða félagsmönnum upp á tvö mismunandi námskeið vorið 2020, annars vegar til að gerast dúnmatsmenn og hins vegar fyrir þá sem vilja fræðast almennt um umhirðu á æðardún. Auglýsing með dagsetningu og kynningu á námskeiðunum verður kynnt á næsta aðalfundi þar sem menn geta einnig skráð sig. Tengiliður vegna námskeiðahalds er Guðrún Lárusdóttir, endurmenntunarstjóri á LBHÍ.
 4. Dúnmat – í dag er aðeins leyfi fyrir 12 dúnmatsmenn á hverjum tíma á landinu. Þessu þarf að breyta og ætla þær Guðrún, Erla og Margrét að hittast og gera tillögur að lagabreytingum á dúnmatskerfinu í heild sinni og fara með í Landbúnaðarráðuneytið. Einnig þarf að finna lausn varðandi vottun á smávörum sem fylltar eru með æðardúni (Guðrún, Erla, Margrét).
 5. Ákveðið að senda könnun á félagsmenn m.a. varðandi uppeldi á minkaveiðihundum og hvort einhverjir viti af mönnum sem smíða dúnhreinsunarvélar á landinu.
 6. Ákveðið að senda bréf til félagsmanna í vor (í tölvupósti og sniglapósti þar sem þarf) með gagnlegum upplýsingum og aðalfundargerð (Anna).

Markaðssetning – viðbrögð við samdrætti

 1. Staða verkefnis LHÍ – nú er verið að sækja um styrki til verkefnisins. Nauðsynlegt að reyna að finna sem flesta styrkmöguleika með hönnuðunum og ákveðið að setja einhverja fjárupphæð í verkefnið hugsanlega til að ljúka því (Guðrún).
 2. Kynningarefni – „Landinn“ ætlar að hafa kynningu á árinu og því ber að fagna. Áhugavert væri að hafa samband við Íslandsstofu og koma dúninum á framfæri í gegnum hana en hlutverk Íslandsstofu er að sinna markaðs- og kynningarstarfi útflutningsgreina og styðja þannig við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar https://www.islandsstofa.is/

Aðalfundur 2020 – afmælisfundur í tilefni af 50 ára afmælis ÆÍ

 1. Almenn aðalfundarstörf og erindi – breytingar á lögum félagsins eru í endurskoðun (Guðrún).
  Athuga hvort Jón Einar Jónsson getur boðið upp á einhvern fróðleik. Athuga líka hvort Eyrún Gyða nemandi við LBHÍ á Hvanneyri gæti hugsanlega verið með innlegg en hún er að skrifa BA verkefni sem fjallar um breytileika á varptíma æðarfugla eftir landshlutum (Sigga).
  Gaman væri að prófa að hafa sýningarbás utan við fundarsalinn þar sem fundargestir gætu skoðað framleiðslu á vörum úr æðardúni og fleira.
 1. Hátíðardagskrá – hugmyndin er að byrja hátíðardagskrána föstudaginn 30. ág á Bessastöðum og hafa viðurkenningarafhendingu þar. Síðan yrði aðalfundur að morgni 31. ág, skoðunarferð um Reykjanesið eftir hádegið og dagskránni síðan lokið með hátíðarkvöldverði á Hótel Sögu um kvöldið. Athuga hvort Hanna Sigga og Daníel Smári Jónatansson í Norðukoti og Fuglavík geta aðstoðað við skipulagningu ferðar um Reykjanes (Margrét og Sigga sjá um skipulag á dagskránni og samvinnu við heimamenn).

 

Fundi slitið á nákvæmlega áætluðum tíma…

Fundarritari: Sigríður Magnúsdóttir